Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Af Þorsteini lúsastrák

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Af Þorsteini lúsastrák

Kóngur og drottning réðu fyrir ríki og áttu eina dóttir sem Ingibjörg hét. Henni var byggð skemma og fengnar meyjar til þjónustu. Kall og kelling bjuggu í garðshorni og áttu einn son sem Þorsteinn hét. Veiðivatn stórt var hjá kofum kalls og stór steinn hjá vatninu. Þegar Þorsteinn var vaxinn tók hann fyrir að veiða silung í vatninu og gjörði að gamni sér eitt kveld áður hann heim fór að hann lagði einn silung á steininn, en hann var horfinn um morguninn. Þessu hélt hann allan veturinn.

Á sumardagsmorguninn fyrsta fór hann að venju að vatninu til veiða; og þá hann kom að steininum laukst hann upp og kom út dvergur sem heilsar honum blíðlega og þakkar honum fyrir það sem hann hafi gjört sér gott í vetur og bauð honum inn til sín; hann vildi þóknast honum fyrir þetta. Þorsteinn fór inn með honum. Tók þá dvergurinn þrjá gripi og gaf honum og sagði hann skyldi reyna að fá Ingibjörgu kóngsdóttir og mundu gripirnir hjálpa honum til þess. Gripirnir voru gullskikkja, gullbelti og gullkambur. En kóngur hafði þann eið svarið að gefa engum þeim dóttir sína sem ekki gæti sagt sér hvaða teikn hún bæri á sínum líkama fram yfir aðrar meyjar. Þorsteinn þakkar dvergi gjafirnar og skilja við það.

Kall og kelling áttu eina kú og létu Þorstein reka hana til kóngskúnna á daginn. Einn dag sem oftar fór hann með kúna og hafði gullkamb sinn með sér; fer upp á kastalagluggann og kembir sér, en skemmumeyjar kóngsdóttir sögðu komið væri regn, svo hrundi lúsin þétt niður fyrir gluggana. Kóngsdóttir sagði að taka inn léreft sín. Þær fóru út, komu inn aftur og sögðu heiðríkt veður og sólskin, en strákurinn hann Þorsteinn í garðshorni sæti upp á gluggunum og kembdi sér með svo fögrum gullkambi, en lúsin væri það sem þær hefðu ætlað regn vera. „Er það fallegri kambur en minn kambur?“ segir kóngsdóttir. „Yðar er skarn hjá hans kambi.“ „Látið hann koma inn,“ segir kóngsdóttir. Þær gjörðu það. Þegar hún sér Þorstein biður hún hann lofa sér að sjá kambinn sinn. Hann gjörir það. „Hafðu skipti við mig,“ segir hún, „á mínum kambi og þínum.“ „Ég skal gefa yður hann,“ segir Þorsteinn, „ef þér lofi mér að sjá upp á litlu tána á yður.“ Hún varð reið við, skipaði að taka hann og færa föður sínum svo hann væri drepinn. Drengur fór út um dyr og kvaðst ekki hafa komið hér í sína þágu. En kóngsdóttir skipaði að kalla aftur á hann, því ekki bæri hann neitt burtu með augunum. Þær sögðu að það gjörði hann ekki. Hann kom inn og gengu saman kaup með þeim. Fer svo Þorsteinn heim.

En daginn eftir fer hann með kúna sem fyrr og krækir beltinu um sig. Skemmumeyjarnar sjá Þorstein út um gluggana með glóandi belti um mittið og sögðu kóngsdóttur að Þorsteinn væri enn kominn með svo fagurt gullbelti um sig að þær hefðu ekki séð þvílíkt. „Kalli þið á hann,“ segir hún. Þær gjöra það. Þegar hún sér hann biður hún hann um skipti á beltunum. Hann segir: „Ef þér lofi mér að sjá upp á hnéð á yður þá skal ég gefa yður beltið.“ Hún reiddist við og skipaði að taka hann og færa föður sínum til dráps. Hann fór út; en hún lét kalla hann aftur, sagði hann bæri ekkert burtu með augunum, sýndi honum upp á hnéð á sér, en hann gaf henni beltið.

Þriðja daginn rak hann kúna og klæddist í skikkjuna. Skemmumeyjar kóngsdóttur sáu hvar Þorsteinn fór klæddur í svo fagra skikkju að slíka höfðu þær aldrei séð og sögðu kóngsdóttur með hlátri miklum frá þessu. Hún spyr þær hvört skikkjan muni fallegri en sín. „Yðar er skarn hjá hans.“ Hún skipar að kalla hann fyrir sig. Hann kemur. Hún biður hann skipta við sig skikkjum. Hann segist skuli gefa henni skikkjuna, lofi hún sér að sjá upp á lífið á sér. Hún varð reið við og rak hann út, en lét kalla á hann aftur, sagði að með augunum bæri hann ekkert burtu. Gengu svo saman kaup þeirra. Í þessum skiptum þeirra sá hann auðkenni það sem hún bar á sér, sem vóru þrjú gullleg hár hjá nafla hennar.

Kóngssynir og jalla báðu Ingibjargar, en öllum var frá vísað, því enginn gat vitað um auðkenni það sem hún bar á sér.

Seinast kom kóngsson ágætur að biðja hennar og vildi kóngur umfram allt gefa honum dóttir sína. Fóstru átti kóngsdóttir sem kóngsson tók á tal og bað hana segja sér hvört auðkenni hún hefði á sér. Hún sagði að tvö gullhár hefði hún hjá nafla sínum. Með þetta fór hann til kóngs og segir honum auðkenni á dóttir hans. Þorsteinn var þar viðstaddur, gall upp og sagði: „Þessu lýgur þú, þrjú eru hárin. Nú á ég dóttir þína,“ segir hann. „Það skal aldrei verða,“ segir kóngur, „og skal gjöra betri tilraun.“ Lét hann því búa til stórt rúm í veglegu herbergi; þar skyldu þau öll hvíla, og að hvorum hún snéri í rúminu – þann skyldi hún eiga. Gengu þau svo öll til hvílu um kveldið, en kóngur læsti sjálfur dyrunum. Þegar þau hafa litla stund legið gengur Þorsteinn af sæng. Kóngsson spyr hvert hann hafi farið. „Ég fór þarfinda minna,“ segir hann. „Hvað gaztu gjört við það?“ spyr hann. „Eg át það,“ segir Þorsteinn. Að litlum tíma liðnum kom að því sama fyrir kóngssyni; svo kom hann aftur, lagðist niður og sofnaði vært.

Um morguninn lauk kóngur upp og sá að allt svaf og dóttir sín með hendur um háls Þorsteini. Um nóttina smurði Þorsteinn sig í ilmgóðum smyrslum og tók sér vínstaup, en kóngsson fór að eins og Þorsteinn sagðist hafa gjört; því snéri hún sér að Þorsteini, en frá hinum. Var svo kóngssyni frá vísað, en Þorsteinn fékk Ingibjörgu og hálft ríkið með og allt eftir hans dag.

Svo er þessi lærdómsríka saga búin.