Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Af Hvekk og Bragðakarli

Kall og kelling bjuggu í garðshorni og áttu þrjá sonu, Sigurð, Sigmund, en hinn yngsti hét Hvekkur; þókti minnst til hans koma; hann lagðist í eldaskála og var kolbítur.

Eitt sinn bar það við að fé kalls hvarf svo enginn vissi hvörju sætti. Kall bað Sigurð leita fjárins og bjó hann út með nesti og nýja skó. Hann fór af stað og gekk þann dag allan; en þá á leið daginn dimmaði veðrið af snædrífu svo hann villtist og vissi ekki hvað hann gekk unz fór að halla undan fæti; þá birti nokkuð veðrið. Sá hann þá að hann var kominn í dal einn. Eftir honum gekk hann þar til hann kom að húsabæ. Barði hann þar á dyr; kom þar til dyra gamall kall og illilegur. Spurði hvor annan að heiti. Sigurður sagði til sín, en hinn kvaðst heita Bragðakall. Sigurður bað hann lofa sér að vera. Hinn kvað það heimilt og fylgdi honum inn. Þegar inn kom sá hann þar tvo kvenmenn sem hann hélt vera mundi kona hans og dóttir. Þær tóku af honum vosbúð og báru mat fyrir hann. Hund sá hann þar stóran sem sauð. Hann var svo þarna um nóttina. En um morguninn var sama veður svo Sigurður treysti sér hvergi burtu; og með því komið var að veturnóttum beiddi hann kall veturvistar. Kall gjörði honum kost á því, gengi hann að skilmálum þeim öllum sem hann setti honum. Sigurður kvaðst það vilja gjöra eins og hann gæti bezt. „Fyrst set ég það á við þig,“ sagði kall, „að geyma fé mitt allt og læt ég hund minn sem þú séð hefir fylgja þér að fjárgeymslunni og mun hann ei miður duga en þótt maður væri; en hann verður þú að hafa á mat þínum. Annar skilmáli er þetta: Hana minn sem gelur á kvöldum skaltu vakta, leita hans þá þörf gjörist og passa í búri hans. Og það skaltu vita að þyki þér við mig þá drep ég þig, og þyki mér við þig þá gjörðu mér slíka þénustu.“

Nú tók Sigurður við fjárgeymslunni og þekkti þar fé föður síns. Þegar hann kemur heim um kveldið var honum borin skál með skyri og mjólk. Tók hann til að matast úr skálinni, en rakkinn við annan barminn fór að lepja; en meðan hann var að borða gól haninn. Sigurður brá við skjótt, hætti að matast og fór að leita hans, en fann hvergi; ætlaði að taka leifar sínar, en þá var rakkinn búinn að ljúka við skyrið. Bragðakall kom að máli við Sigurð og spurði hvört hann hefði fundið hanann. Sigurður kvað nei við. „Þókti þér,“ sagði kall, „að hundurinn lapti úr skálinni?“ „Já,“ sagði Sigurður, „því ég var svangur sjálfur og þurfti matarins við.“ En það skipti ekki orðum, kall réði á hann með ákafa og afli miklu og drap hann.

Nú víkur sögunni heim í garðshorn. Þá lengja þókti heimkomu Sigurðar var Sigmundur sendur af stað að leita hans, en það þarf ekki að orðlengja: afdrif hans urðu að öllu sem Sigurðar.

Nú er að segja frá Hvekk; hann lá í eldaskála sem áður er sagt. Eftir hvarf þeirra bræðra bar það eitt sinn við að Hvekkur stóð upp úr bæli sínu, hristi af sér öskuna, gekk út með eldskíði og kveikti með því í koti kalls og kellingar svo það brann upp til kaldra kola með kalli og kellingu, því honum þókti vistin ill, sultur og seyra, og launaði svona illt atlæti. Hélt hann svo af stað sömu leið og bræður hans og kom að kveldi dags að sama húsabæ og bræður hans. Barði hann þar á dyr. Kall kom út. Hvekkur kveður hann og spyr að heiti. Hann nefndist Bragðakall. „Þá muntu brögðóttur,“ segir Hvekkur. „En hvað heitir þú?“ segir kall. „Hvekkur,“ segir hann. „Þá muntu hvekkjóttur,“ segir hann. „Næturgisting vil ég fá hjá þér,“ segir Hvekkur. „Það skaltu fá,“ segir kall. Hann fylgdi honum svo inn. Var hann þar svo um nóttina; en morguninn eftir beiddi hann kall veturvistar. Kall gjörði honum kost á vistinni með sömu skilmálum og áður eru greindir og bræður hans undirgengust. Hvekkur játti að uppfylla þá eins og hann gæti. Tók Hvekkur strax við fjárgeymslu með hundi kalls. Og fyrsta kveld var honum borin skyrskálin sem áður er nefnd. Mataðist hann úr henni og rakkinn með honum; en þá hann var nýsetztur að mat gól haninn, en Hvekkur lét sem hann heyrði ekki og fór hvergi unz hann var búinn úr skálinni. Þá fór hann að leita að hananum, en fann hvergi; kom svo inn aftur. Kall spurði hvört hann hefði fundið hanann sinn. Hann kvað nei við og sagðist ekki mundi oftar að honum leita. „Þókti þér þetta?“ segir Hvekkur. Kall neitaði því.

Illt þókti Hvekk hvað rakkinn át mikið frá sér. Tók hann því það ráð að hann dró ristarþveng úr skó sínum og batt svikalaust um háls rakkanum. Við þetta brá seppa svo að hann megraðist svo mjög að hann á endanum gat ekki fylgt Hvekk eftir. Eitt sinn gáði kall að þessu, tók hundinn og skoðaði, fann þvenginn og spyr Hvekk til hvors hann hefði gjört þetta. „Mér þókti hann éta of mikið frá mér,“ segir hann, „eða þókti þér þetta?“ segir Hvekkur. „Nei,“ segir kall; „en vita skaltu það,“ segir kall, „að einn máttu geyma fé mitt.“ „Það skal ég gjöra,“ segir Hvekkur, „en sama mat vil ég hafa og báðir höfðum, rakkinn og ég.“ „Það skaltu hafa,“ segir kall. Nú leið og beið svo ekkert bar til nýlundu.

Það var eitt kveld að Hvekkur kemur heim og lagðist fyrir sem aðrir. En að stund liðinni fór hann á ferð og tók að leita að hana kalls og finnur ekki. Sér hann í leitinni á húsdyr sem hann hafði ekki áður séð. Læst var hurð fyrir húsi þessu. Hann hleypur á hurðina og brýtur upp, fer svo inn. Hann sér að loft er í húsi þessu og stigi til uppgöngu. Hann fer upp stigann og sér þar rúm, í hvörju voru tveir menn hvítir af hærum, kall og kona. Hann spyr hvör þau væru. Þau sögðust vera foreldrar Bragðakalls sem hér réði fyrir búi. „Til hvors eru þið hérna?“ segir Hvekkur. „Við erum höfð fyrir hana af syni okkar,“ segja þau; „okkur er skipað að gala á kveldum og fyrir það hafa margir misst lífið sem skipað hefur verið að leita hanans; og vildum við fegin dauð vera.“ „Það skal ykkur veitt,“ segir Hvekkur, sækir inn brytexi kalls og höggur af þeim höfuðin; leggst svo fyrir og fer að sofa. Um morguninn fer hann með fénu og kemur að vana heim um kveldið mikið glaður og léttur í máli. Nýlunda þókti það að ekkert heyrðist til hanans um kveldið. Kall kemur að máli við Hvekk og spyr hvört hann sé orsök í dauða foreldra sinna. Hvekkur segir það sé. „Þeim þókti ekki betri vistin hjá þér en svo að þau báðu mig að stytta eymdir sínar. Þókti þér þetta?“ segir Hvekkur. „Ekki þókti mér það,“ segir kall, „en frekar þókti mér það níðslegt.“

Leið svo af veturinn að ekkert bar til frétta og vorið þar til kom að því að byggja átti stekk. Var stekkurinn hafður utan við túngarð svo tala mátti af hlaði og á stekkinn. Kall sendir eitt sinn Hvekk heim eftir reku. En þá hann kom á hlaðið voru mæðgur úti, kona kalls og dóttir. „Kallinn sendi mig heim,“ segir Hvekkur, „til að hvíla hjá ykkur báðum.“ „Því lýgur þú,“ segja þær. „Ég skal spyrja hann að því,“ segir Hvekkur, „og hlusti þið til.“ „Á ég að hafa þær báðar?“ segir Hvekkur. „Já, báðar, báðar,“ segir kall. Fór hann svo með þær inn í eldhúshorn og hvíldi hjá báðum. Að því búnu fer hann með rekurnar. Kall spyr til hvörs hann hafi verið svona lengi. „Mér lá ekkert á,“ segir Hvekkur, „eða þókti þér það?“ „Nei,“ sagði kall, „ekki þókti mér það.“ Svo luku þeir við stekkinn og stíuðu um kveldið, fóru síðan heim. Mæðgur voru illar í skapi við kall þá hann fann þær og snéru út úr hverju orði sem [hann] talaði til þeirra. Hann spyr því þær láti svona. „Þyki þér það ekki von,“ segja þær, „þar þú leyfðir þrjótnum sem þú tókst til þín í haust að smána okkur báðar?“ „Er þetta satt, Hvekkur?“ segir kall. „Satt er það, segir Hvekkur, „því þú leyfðir mér það.“ „Ég átti ekki við það,“ segir Bragðakall; „ég átti við rekurnar.“ „Þókti þér það?“ segir Hvekkur. „Nei, ekki þókti mér það,“ segir kall, „en vita skaltu það að dóttur mína máttu taka að þér.“ „Ekki að síðra,“ segir Hvekkur, „að gjörast mágur þinn.“ Var svo Hvekkur þarna allt sumarið hinn röskvasti til allra verka og fór allt vel með þeim.

Að heyönnum liðnum kom kall að máli við Hvekk og sagðist vilja þau færi að giftast dóttir sín og hann; skyldi hann vera heima og búa til brúðarhúsið – „og skaltu hafa það vel hyrnt, en [ég] mun fara að bjóða til veizlunnar; og skaltu taka vel móti gestunum og kasta til þeirra kvikum augum.“ Svo skildu þeir; kall fór að bjóða, en Hvekkur tók til starfa að byggja innan brúðarhúsið. Þegar þetta var búið fer hann og tekur annað horn af hverri sauðkind og setur hornin í raðir í bekkina þar fólkið á að sitja.

Nú kemur kall heim á undan gestunum og þeir svo á eftir. Hann finnur Hvekk og heilsar honum; fer svo að skoða húsið, sér hornin og spyr til hvors hann hafi gjört þetta. „Þú sagðir mér að hafa það vel hyrnt,“ segir Hvekkur. „Ég átti ekki við það,“ segir kall, „heldur hitt að þú hefðir það fallega ferhyrnt og snoturlega um búið að öllu.“ „Þókti þér þetta?“ segir Hvekkur. „Ekki þókti mér það,“ segir kall, „en rífðu þetta upp aftur; taktu svo alla hestana þá boðsfólkið kemur og flyttu þá.“ „Það get ég gjört,“ sagði Hvekkur. Flutti hann svo hestana og stakk annað augað úr hverjum hesti og stakk í vettling sinn; fór svo heim og beið í brúðarhúsinu þar til fólkið fór að þyrpast inn; en jafnótt og maður kom inn úr dyrunum fleygði hann sínu auga framan í hvorn. Seinast var eitt eftir augað; því sendi hann framan í Bragðakall sem seinastur kom inn á eftir boðsfólkinu. „Til hvors gjörðir þú þetta?“ segir kall. „Þú sagðir mér,“ segir Hvekkur, „að kasta kvikum augum upp á fólkið.“ „Ekki átti ég við það,“ segir kall, „heldur að þú værir blíður í viðmóti við fólkið og litir hýrlega til þess.“ „Þókti þér þetta?“ segir Hvekkur. „Því ætli mér þyki ekki bæði þetta og mörg önnur strákapör sem þú hefir sýnt mér?“ „Ég drep þig þá,“ segir Hvekkur. Ræður hann þá á hann, hneppir hann undir sig, grípur fyrir kverkar honum og hengir hann. Boðsfólkið ætlaði að hjálpa kalli, en Hvekkur tók sér raftstaur í hönd og sveiflaði kringum sig og sagðist skyldi rota hvern af öðrum nema þeir settist niður og drykki með sér brúðkaup sitt. Þeir settust niður og sátu veizluna. Settist svo Hvekkur að öllum eigum Bragðakalls og bjó til elli í dalnum.

Og lýkur þar sögunni.