Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Búkolla

Fátæk hjón bjuggu við skóg einn og áttu þau ekki neina björg utan eina kú er alltaf var þeirra næringarvegur. Nú var hún að burði komin og gætti dóttir hjónanna að henni kvölds og morguns. Og nú kom að því hún bar og var kálfurinn látinn lifa og stóð nú Búkolla við töðustálið og kálfur hennar. Var þetta nú eina lífsnæring karls og kellingar.

En þremur dögum seinna kom dóttir þeirra út eins og vani var, að mjólka. Var [þá] Búkolla hvorfin og kálfur hennar. Segir stelpugreyið þau ótíðindi og eru henni fengnir þrennir skór og þrjár smértöflur og þrjár kökur. Nú étur hún fyrsta kvöldið eina kökuna og töfluna og gekk í sundur skóna sína, og fór eins annan dag. Þriðja dag um kvöld kemur hún í hellir einn og gengur þar inn og þar finnur hún Búkollu og kálfinn hennar. Þykir nú henni gott um og segir Búkolla að tröllkerling eigi hellirinn og hafi stolið sér. „En hverra ráða á ég nú að hafa so ég geti komið þér til foreldra minna?“ Þá sagði Búkolla að hún skyldi sig bera á baki, en kálf[inn] í fyrir. Um morguninn fóru þær nú á stað. Og er tröllkonan ætlaði að fara að mjólka kú sína var hún horfin og fer hún nú á stað. Og er stutt var á milli sagði stelpan við Búkollu hvað hún nú ætti til bragðs að taka. Búkolla sagði að hún nú skyldi eitt hár úr hala sínum taka og segja því að verða að so stóru vatni að kelling ekki gæti náð þeim. Þá hló kerling mikið og sagði að hún skyldi sækja hunda sína heim og lepja allt vatnið. Var hún þá ekki lengi og brátt komu hundar og löptu allt vatnið; og gekk nú kella fljótt og nærri búin að ná Búkollu. Þá sagði stelpan: „Hjálpaðu fljótt! Skessan nær okkur!“ „Taktu hár úr hala mínum og segðu því að verða að so stóru báli að hún ekki sjái út yfir það.“ Þá sagði kelling: „Ekki skal þér verða að því; ég sæki hunda mína og læt þá öllu vatninu spúa yfir bálið;“ og gerði hún þetta. Þá var orðið stutt á milli og sagði stelpan: „Hvað er nú til ráða?“ „Taktu eitt hár og segðu því að verða að so stóru bjargi að hún ekki sjái út yfir það.“ Þá sagði kelling: „Þér skal ekki verða að því; ég skal sækja stóra nafarinn minn og bora gat í gegnum þetta bjarg.“ Fer hún heim og sækir nafar sinn og fer að bora. Og er hún sér á ettir þeim þá treður hún hausnum á sér og það so fast í gegnum bjargið að ekki getur hún náð sér þaðan attur og molast nú hann á henni þar í sundur.

Fer nú stelpan með Búkollu heim til foreldra sinna og gleðjast þau við heimkomu beggja þeirra. Sóttu nú kall og kelling alla gersemi úr hellir skessunnar og höfðu nóg alla sína ævi.