Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Búkolla og stelpan
Búkolla og stelpan
Einu sinni var karl og kerling í garðshorni; þau áttu þrjár dætur; þær hétu Sigríður, Signý og Helga. Karli og kerlingu þótti vænt um Sigríði og Signýju, en ekkert þótti þeim vænt um Helgu og lá hún ávallt í öskustó. Það er mælt að karl og kerling ættu engan grip í eigu sinni nema kú eina sem Búkolla hét. Hún var sá dánumannsgripur að þó hún væri mjólkuð þrisvar á dag þá mjólkaði hún ekki minna en fjörutíu merkur í hvert sinn. Karl reri til fiskjar á degi hverjum og reri alltaf á keraldi og á hverjum degi flutti Sigríður dóttir hans honum mat á fiskimið og flutti hann einnig á keraldi.
Það bar einu sinni til í garðshorni að kýrin Búkolla hvarf svo enginn vissi hvað af henni varð. Ræða þau nú um það karl og kerling hvað úr skuli ráða, og verður það að Sigríður er send á stað að leita og látin hafa nesti og nýja skó. Hún gengur lengi þar til hún kemur á einn hól; þar borðar hún og mælti: „Baulaðu kýrin Búkolla ef ég á að finna þig.“[1] En ekki baular kýrin. Nú gengur hún á annan hól, borðar þar og mælti: „Baulaðu kýrin Búkolla ef ég á að finna þig.“ En ekki baular hún að heldur. Hún gengur á þriðja hólinn, borðar þar og mælti síðan: „Baulaðu kýrin Búkolla ef ég á að finna þig.“ Þá baular kýrin langt frá uppi í fjalli. Sigríður gengur upp í fjallið þar til hún kemur að hellisdyrum. Hún gengur í hellinn. Þar sér hún að eldur logar á skíðum, kjötpottur er yfir eldi og kökur á glóðum. Þar er og Búkolla og stendur við töðustall og er bundin með járnhlekkjum. Sigríður tekur köku af eldi og kjötbita úr pottinum og snæðir. Hún ætlar að leysa Búkollu, en getur ekki, og sezt hún þá undir kverk hennar og klórar henni. Að litlum tíma liðnum fer hellirinn að skjálfa og kemur tröllskessa mikil í hellinn. Hún mælti: „Þú ert þá komin hér, Sigríður karlsdóttir, þú skalt ekki lifa lengi, þú hefur stolið frá mér.“ Skessan tekur hana þá, snýr úr hálsliðnum og hendir búknum í gjótu í hellinum.
Víkur nú sögunni heim í garðshorn. Karl og kerlingu fer að lengja eftir Sigríði og ætla hún muni nú dauð. Þau ráða þá af að senda Signýju að leita að Búkollu og fer hún af stað. Verða nú forlög hennar eins og Sigríðar að öllu leyti og seinast drepur skessan hana í hellinum.
Nú biður Helga karl og kerlingu að lofa sér að leita að Búkollu. En þau halda það verði til lítils þegar hinar góðu gulldætur sínar hafi ekki getað fundið hana og séu nú líklegast dauðar. Það verður þó að Helga fær að fara. Hún fær skrápskinnsskó á fæturna og í nestið fær hún bræðing, roð, ugga og skófir. Hún gengur nú lengi þangað til hún kemur á hól nokkurn. Þá mælti hún: „Hér hafa systur mínar borðað, hér skal ég borða líka.“ Fer hún nú að naga úr nesti sínu. Síðan mælti hún: „Baulaðu kýrin Búkolla ef ég á að finna þig.“ En ekki baular kýrin. Nú gengur hún á annan hól og fór eins að og á fyrra hólnum. Hún gengur á þriðja hólinn. Þá mælti hún: „Hér hafa systur mínar borðað, hér skal ég borða líka.“ Þegar hún hefur borðað mælti hún: „Baulaðu kýrin Búkolla ef ég á að finna þig.“ Þá heyrir hún að Búkolla baular uppi í fjalli. Hún gengur upp í fjallið á hljóðið. Loksins kemur hún að hellisdyrum. Hún gengur í hellinn. Þar stendur kjötpottur yfir eldi og kökur eru á glóðum. Hún hagræðir kökunum, snerpir á undir pottinum, en tekur ekkert, og sezt síðan hjá Búkollu sem þar stendur við töðustall.
Litlu síðar heyrir hún hark úti og hellirinn fer að skjálfa. Síðan kemur tröllskessa í hellinn, mikil vexti og ærið fasmikil. Hún mælti til Helgu: „Þú ert þá komin hér, Helga karlsdóttir; þú skalt nú lifa því þú hefur engu stolið frá mér.“ Líður nú nóttin og gefur skessan Helgu mat. Nú ætlar skessa út á skóg til að veiða um daginn; þá mælti hún til Helgu: „Þú skalt nú vinna nokkuð í dag, þú skalt sækja brjóstnál sem ég átti þegar ég var heimasæta hjá Daladrottningu systur minni.“ Helga spurði hvar hún væri. „Það máttu segja þér sjálf,“ mælti skessan, „og ef þú verður ekki komin með hana í kvöld þá drep ég þig.“ Fer nú skessan, en Helga er ráðalaus og sezt nú fram í hellisdyr og grætur. Þá kemur til hennar maður æði ófrýnilegur á að líta. Hann var í skorpnum skinnstakki sem náði á ristar að framan, en á herðarblöð að aftan. Horinn náði úr nefinu og niður á tær. Hann spyr af hverju hún gráti. Hún kvað það vera til lítils að segja honum það, hann mundi lítið geta úr því bætt. „Ég veit hvað að þér gengur,“ segir hann, „og ef þú vilt kyssa mig í kvöld þá skal ég hjálpa þér að ná nálinni.“ Hún kveðst skuli gera það. Helga spyr hann að nafni, en hann kvaðst heita Dordingull. Þau ganga nú bæði frá hellinum þangað til þau koma að litlu húsi. Við dyrnar á húsinu er páll og reka. Þá segir Dordingull: „Páll, sting þú; reka, moka þú.“ Þá taka þau páll og reka til starfa þangað til þau koma niður að nálinni. Tekur þá Dordingull hana upp og segir að hér sé nú nálin og spyr Helgu hvort hún vilji nú ekki kyssa sig; en það segist hún ekki geta. Fer nú Helga heim í hellinn og leggur brjóstnálina í rúm skessu. Um kvöldið kemur skessa heim og spyr hvar nálin sé. „Hún er í rúmi þínu,“ segir Helga. „Vel er unnið,“ mælti skessa, „en varla muntu hafa verið ein í ráðum.“
Næsta morgun segir skessa: „Verk hef ég ætlað þér í dag, Helga, þú skalt sækja tafl sem ég á hjá Daladrottningu systur minni; hef ég lengi viljað fá það, en ekki fengið.“ Helga spyr hvar Daladrottning sé. „Það máttu segja þér sjálf,“ mælti skessa, „og ef þú kemur ekki með taflið skal ég drepa þig.“ Fer nú skessa burt, en Helga situr eftir ráðalaus og sezt í hellisdyrnar og grætur. Þá kemur þar Dordingull og kveðst muni hjálpa henni ef hún kyssi sig í kvöld. Helga kveðst fegin vilja ganga að þeim kostum og þó meira væri. Síðan ganga þau frá hellinum og ganga nú lengi þangað til þau sjá höll mikla nokkuð langt frá. „Í þessari höll,“ segir Dordingull, „býr nú Daladrottning. Skaltu nú fara þangað og mun hún taka þér vel og fá þér taflið. Hún mun bera fyrir þig mat, en þú skalt engan bita borða, en þrjá bita skaltu taka og stinga í vasa þinn, og vel skaltu signa borðbúnaðinn þegar þú ert setzt undir borð. Þegar þú ert komin á stað mun hún senda á eftir þér þrjá varga og skaltu þá fleygja sínum bitanum í hvern.“ Fer nú Helga til hallarinnar. Daladrottning tekur henni vel og ber fyrir hana mat á borð. Kveðst hún vita í hvaða erindum hún sé. En þegar allt er á borð borið segir Daladrottning: „Skerðu hana, gaffall; sting þú hana, hnífur, og gleyptu hana, dúkur.“ Þá svaraði hnífurinn, gaffallinn og dúkurinn: „Við getum það ekki, hún Helga signdi okkur svo vel.“ Nú fór Daladrottning frá Helgu um stund; tekur hún þá þrjá bita og stingur í vasa sinn, en ekkert borðaði hún sjálf. Daladrottning fær nú Helgu taflið og fer hún síðan af stað. Þegar hún er komin nokkuð frá höllinni koma þrír vargar á eftir henni og telur hún víst að þeir muni eiga að ráða sér bana. Helga tekur bitana og kastar fyrir þá, en vargarnir éta sinn hver og detta þegar dauðir niður. Helga fer nú leiðar sinnar og í hellinn og leggur taflið í rúm skessunnar. Um kvöldið kemur skessan heim og spyr Helgu hvar taflið sé. Hún segir það sé í rúminu. „Vel er unnið,“ mælti skessan, „en það grunar mig að þú sért ekki ein í ráðum.“
Næsta morgun kveðst skessan hafa ætlað Helgu starf í dag. „Þú skalt,“ segir hún, „elda fyrir mig, búa um rúmið mitt og hella úr koppnum mínum og vera búin í kvöld, ella mun ég drepa þig.“ Helga kvað þetta hægt verk vera. En þegar skessan er farin ætlar Helga að fara að búa um rúmið, en þá eru fötin föst, og þegar hún ætlar að taka pottinn þá er hann fastur og koppurinn er líka fastur. Nú sezt hún í skáladyrnar og grætur. Þá kemur Dordingull og bauð henni hjálp ef hún kyssti sig í kvöld. Hún lofar því. Fer Dordingull að búa um og elda og er allt laust fyrir honum. Hann lætur sjóðandi bikketil undir rúm hennar og segir Helgu að í ketilinn muni hún detta þegar hún setjist á rúmið því í kvöld muni hún verða þreytt og éta mikið, en undir kodda hennar sé fjöregg sem hún skuli brjóta á ásjónu hennar í því hún falli í ketilinn, og þá skuli hún nefna sig ef hún vilji. Dordingull fer nú burt. Þegar skessan kemur heim um kvöldið segir hún að vel sé unnið, en undarlegt sé ef hún sé ein í ráðum. Hún sezt á rúmið og fellur í ketilinn. Helga sprengir þá eggið á ásjónu hennar og nefnir Dordingul. Hann kemur þegar. Skessan lætur þar líf sitt og brenna þau hana upp. Verða þá dynkir miklir svo Helga verður hrædd og kyssir Dordingul þrjá kossa; segir hann að Daladrottning sé nú að drepast líka því þær hafi átt sama fjöreggið báðar.
Dordingull og Helga sváfu nú saman um nóttina, en um morguninn varð Helga þess vör að fríður kóngsson var fyrir ofan hana í rúminu, en hamurinn þar hjá. Hún dreypir á kóngsson, en brennir haminn; hafði Dordingull verið kóngsson í álögum. Hann átti nú Helgu fyrir konu. Þau tóku það sem fémætt var í hellinum og þar á meðal Búkollu; svo tóku þau líka allt fé úr höll Daladrottningar sem var býsna mikið. Þau fóru síðan utan Dordingull og Helga og settust að í ríki föður hans, en að honum önduðum erfðu þau ríkið. Þau lifðu lengi eftir þetta og var sambúð þeirra hin bezta, og lýkur svo þessari sögu.
- ↑ Fyrir norðan eru þessi orð höfð þannig: „Baulaðu nú Búkolla mín ef að þú ert hérna.“