Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Bangsimon og tröllkonan

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Kóngur unni konu sinni mjög. – Nú er þar frá að segja að drottning leggst veik og kallar kóng til sín og segir honum að hún muni bráðum deyja, en þess biður hún hann að kvongast ekki aftur, því það kvonfang muni ekki verða honum happasælt. Síðan deyr drottning og harmar kóngur hans svo mjög að hann gat ekki sinnt ríkisstörfum. Þau áttu einn son er Sigurður hét; hann var í fóstri hjá gömlum manni einum sem hét Bangsimon. Það [var] vitur maður og unni kóngur honum mjög og trúði engum af sínum mönnum fyrir syni sínum nema honum.

Þegar tímar liðu fram og kóngur jafnan harmaði drottningu sína sáu ráðgjafar hans að ekki mátti svo búið standa; þeir fara því einhverju sinni á kóngs fund og biðja hann sefa harm sinn eða reyna hvort hann ekki geti fest yndi við neinn annan kvenmann. Hann var tregur til og kvaðst ekki vilja kvongast aftur, en [þó] sefaðist harmur hans smátt og smátt.

Einu sinni fór hann út á skóg með hirðmönnum sínum til að skemmta sér. Heyra þeir þá hörpuslátt svo fagran að kóngur man ekki til að hann hafi heyrt þvílíkan. Þeir ganga á hljóðið. Sjá þeir þá bráðum hvar mær ein situr og leikur á gullhörpu; hún var mjög fríð sýnum og hafði hár svo mikið að hún því nær gat hulið sig í því. Kóngur gaf sig á tal við hana og finnur þegar að hann hefir ást á henni; spyr hann hana því hún, svo fögur mær, sé hér einmana úti á skógi, en hún segir honum að hún hafi ráfað hingað af harmi; segist hún vera kóngsdrottning úr ríki einu þar nálægt, en víkingar hafi tekið ríkið, drepið mann sinn, en hún hafi getað flúið. Kóngur segir að líkt standi þá á fyrir þeim því hann sé nú búinn að missa drottningu sína og hafi hann farið út á skóg með mönnum sínum sér til afþreyingar. Býður hann henni nú að fara með sér heim í borgina og er hún fús til þess. Þar er hún um hríð og hefir kóngur miklar mætur á henni. Líður ekki á löngu áður kóngur gengur að eiga hana og hefir hann mikla ást á henni.

Einhverju sinni skömmu eftir brúðkaup þeirra spyr drottning mann sinn hvort honum hafi ekki orðið barna auðið með konu sinni, en hann sagði að hann ætti einn son er Sigurður héti og væri hann til fósturs hjá einum af sínum mönnum sem héti Bangsimon, vitrum manni og fjölfróðum. Drottning segir að það sé undarlegt að hann láti hann aldrei koma í höllina og ekki segist hún heldur hafa séð hann í brúðkaupi þeirra, og biður hún nú kóng að gera boð eftir Sigurði syni sínum og lofa sér að sjá hann. Kóngur gerir eins og drottning hans biður, gerir boð fyrir son sinn, en Bangsimon segir að hann skuli hvergi fara. Kóngur gerir enn boð eftir Sigurði og fer það á sömu leið.

Loksins tekur drottning sótt þá er hana leiddi til bana, en áður en hún lézt kallar hún kóng inn til sín og segir honum að hún muni nú bráðum yfirgefa hann, en þess segist hún biðja hann að láta smíða um sig silfurkistu látna og setja hana í herbergi eitt er hún tiltekur og sjá svo um að enginn vaki yfir sér nema Sigurður sonur hans; kóngur lofar þessu. Síðan deyr drottningin og harmar kóngur hana ákaflega. Síðan er hún lögð í silfurkistuna og kistan látin í það herbergi sem hún hafði tiltekið og Sigurði gerð boð að koma til kóngsins föður hans og vaka yfir stjúpu sinni látinni. Þegar Bangsimon heyrir þetta segir hann við Sigurð fóstra sinn að hann skuli vaka fyrir hann í nótt og þurfi hann ekki að fara að sinni.

Þegar kvöld er komið fer Bangsimon inn í herbergi það sem líkið lá inn í, en þegar hann lýkur upp heyrir hann að sagt er í kistunni: „Ertu kominn Sigurður kóngsson?“ Bangsimon segir til sín. Þá rís upp úr kistunni kona ærið stór – var það tröllskass hið mesta – og kveðst vilja glíma við Bangsimon. Bangsimon var fús til þess, og glíma þau lengi og allt fram undir dag, en þegar tröllkonan komst að því að skammt mundi vera til dags segir hún við Bangsimon að nú verði hann umfram allt að muna eftir því að láta Sigurð koma næstu nótt, og lofar hann því. Síðan leggst tröllkonan í kistuna.

Næstu nótt kemur Bangsimon og fer allt á sömu leið, þau glíma og á Bangsimon enn bágara með að ráða við hana. Þegar komið var undir dag fer tröllið í kistuna og leggur nú ríkt á við Bangsimon um að láta fóstra sinn koma, því nú sé ekki nema ein nóttin eftir, og fer nú Bangsimon.

Þriðju nóttina kemur Bangsimon enn og þegar hann kemur inn er sagt í kistunni: „Ertu nú kominn Sigurður kóngsson?“ Bangsimon segir til sín. Tröllkonan rís nú upp úr kistunni og er reiðuleg mjög og spyr Bangsimon því hann hafi ekki látið Sigurð koma, en hann kveðst ekki hafa getað það, því hann hafi ekki verið heilbrigður. Lætur hún það þá svo vera og tekur að glíma við Bangsimon, og gekk lengi þannig að Bangsimon hugði að hún mundi drepa sig, en þó lauk svo að tröllkonan féll. Nú segir hún honum að hún hafi ætlað að drepa kóngsson og síðan kóng, en það sé honum að kenna að hún hafi ekki getað það. Segist hún nú verða að fara úr kistunni því hún verði lögð í greftrunarstaðinn á morgun og verði hún því að vera komin úr henni áður, og segist hún nú muni fara í kóngsríki eitt þar í grennd og vita hverju hún geti komið þar til leiðar. Skilja þau nú og fer Bangsimon heim til sín. – Nokkru seinna býst hún heiman að og segir fóstra sínum og öllu heimafólki að menn skuli alls ekki undrast um hann þó hann komi ekki heim nú í þrjú ár og skuli menn sleppa allri hugsun um sig. Síðan fer hann og út í skóg og hverfur hann þar sjónum sinna manna.

Nú er frá tröllskessunni að segja að hún fer úr kistunni áður en menn voru komnir á fætur og heldur út á skóg. Tekur hún nú á sig ungbarns líki og fer að gráta aumkvunarlega.

Nú er að segja frá ríki einu litlu er var þar í grennd. Þar réð kóngur og drottning fyrir ríkjum; þau áttu ekkert barn og féll þeim það þungt því bæði voru hnigin á efra aldur. Þenna sama dag sem tröllskessan fór úr kistunni og út í skóg reið kóngur með hirðmönnum sínum út í þenna sama skóg; heyra þeir þá barnsgrát og ríða þangað; þá sjá þeir ungbarn í reifum, en engan mann þar nálægt. Kóngur komst við af raunum barnsins og tók það heim með sér og færði drottningu sinni og bað hana fara eins vel með það eins og þó hún ætti það sjálf. Það var meybarn frítt. Drottningin lét vel að barninu og fór mæta vel með það. Síðan kom þeim saman um að segja að það væri þeirra dóttir; var barnið þá fært í konunglegan skrúða og kallað dóttir kóngs og drottningar.

Um þetta leyti kom stafkarl einn og barði á hallardyr; kom þá út einn af kóngsmönnum og spyr hvað hann vilji; karl kveðst vilja biðja kóng um vetrarvist. Maðurinn fer inn og ber fram erindi karls. Kóngur lætur leiða karlinn í höllina og spyr hann hvort hann geti nokkuð gert. Karl kveðst skuli vera bryti hans ef á þurfi að halda. Kóngur lætur það svo vera og tekur karlinn í tölu sinna manna.

Nú er það frá kóngsdóttur að segja að hún dafnar vel og því nær fremur en menn gætu búizt við svo miklum þroska hjá svo ungu barni. Þegar hún var ársgömul biður hún móður sína að lofa sér einni út í dag og segist ekki skuli koma of seint heim. Drottning lætur það eftir henni, því henni þókti svo vænt um meyjuna að hún gat varla synjað henni um nokkra bón. – Nú fer kóngsdóttir út og þegar hún er komin þangað sem hún veit að enginn muni sjá sig tekur hún sinn rétta ham og verður að stórvaxinni tröllkonu. Síðan gengur hún – eða þó fremur æðir – allt í kring unz hún kemur að húsi einu; þar er karl inni að brytja kjöt; bregður þá skessunni ákaflega þegar hún sér manninn, og segir: „Ertu þá kominn hingað líka, Bangsimon? Mikið hef ég tekið út af sulti þetta árið; snaraðu nú í mig einni kjöttunnu því minna nægir mér ekki.“ Bangsimon gerði það; síðan biður hún hann að skera sig í litlutána og gerir hann það einnig. Hljóðar hún þá upp yfir sig og hleypur inn til drottningar og segir að hinn vondi karl, bryti kóngs, hafi skorið sig svona. Drottning verður mjög reið við karlinn og vill láta hegna honum, en þó verður ekki af því. – Þegar kóngsdóttir var tveggja ára fer á sömu leið; hún fær að fara ein út, finnur Bangsimon, fær hjá honum tvær kjöttunnur, hann sker hana í tána og hún hleypur inn og klagar fyrir drottningunni og er Bangsimon atyrtur harðlega og hótað að reka hann burt.

Þegar kóngsdóttir er þriggja ára er hún orðin þegar efnileg frumvaxta mær. Fer nú allt á sömu leið sem árið fyrir, hún fer út, kemur til Bangsimons og étur hjá honum úr þremur kjöttunnum og hann sker af henni litlutána; hún fer æpandi inn og allt er í uppnámi út af slysi því er kóngsdóttir hafi orðið fyrir, og eru læknar fengnir að lækna sárið og á nú að reka Bangsimon burtu. Fer kóngur litlu síðar út á skóg með mönnum sínum og Bangsimon með þeim. Einu sinni um daginn vindur Bangsimon sér að konungi og segir við hann: „Lítið nú heim til borgarinnar, herra, og sjáið hve stórvaxin sú er orðin er þér kallið dóttur yðar.“ Kóngur lítur við og sér að afar stór tröllskessa situr á hækjum sér fyrir utan höllina og er að bera eld að henni. Bangsimon segir að hún ætli sér nú að brenna drottningu hans og allt sem í höllinni sé og hann sjálfan á eftir, og skuli því kóngur flýta sér og drepa hana áður en hún komi ásetning sínum fram. – Nú ríður kóngur og hans menn heim til borgar og koma kerlingu á óvart og draga belg yfir höfuð henni og brenna hana á björtu báli, en kóngur gerir Bangsimon að ráðgjafa sínum til launa honum fyrir lífgjöf sína.