Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Bræðurnir Ívar og Theódór

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Bræðurnir Ívar og Theódór

Einu sinni voru tveir bræður; hét annar Theódór, en hinn Ívar. Báðir voru þeir beykirar. Theódór var bæði ríkur og metorðagjarn, en Ívar fátækur fjölskyldumaður. Eitt sinn fóru þeir báðir í kaupstaðinn með vörur sínar og bar Theódór á níu hestum, en Ívar á einum. Þeir vóru samferða og beiddi því Ívar bróður sinn að lofa sér að hnýta sínum eina hesti aftan í hans níu og bauðst hann so til að reka á eftir, en Theódór gaf honum kost á því með svofelldu móti að hann segðist þá eiga alla hestana því sig hefði langað að bera á tíu, og Ívar yrði þá að samsinna það. Þegar þeir fóru nú í gegnum kaupstaðinn mættu þeir mörgum og spurðu flestir að hvurt Theódór ætti alla hestana, en hann kvað svo vera, en það vóru sumir sem rengdu hann því þeir sögðu að Ívar ætti þó víst aftasta hestinn. Þetta fór Theódór að líka illa svo að lokunum tekur hann upp hnífinn sinn og drepur hestinn hans bróður síns og sagði að hann skyldi ekki verða orsök til þess að hann yrði sagður lygari, og nú skyldi hann þó víst eiga þá alla sem eftir væru. Með þetta skildu bræðurnir, Theódór fór leiðar sinnar, en Ívar fór að flá bjórinn af klárnum sínum með mestu rólegheitum. Síðan rakar hann hána og herðir eins og lög gjöra ráð fyrir, gengur so um kvöldið í veitingahús að fá sér hressingu, sezt þar á bekkinn og lætur hána sem hann hafði í strigapoka undir bekkinn sem hann sat á. Situr hann svo og bíður þess að veitingamaðurinn komi, því hann var ekki heima. Þegar hann er búinn að sita þarna nokkra stund kemur inn ungur maður prúðbúinn, en veitingamannskonan kom strax í móti honum með mestu blíðu svo Ívar rak í stanz, en þó að það kynni að vera sonur hennar. Hún fór með hann inn í annað herbergi og var það næst við það sem Ívar sat í, svo ekki skildi nema þil og var þar á gluggi. En sökum þess að Ívar var forvitinn, en enginn í stofu þeirri sem hann var í, þá gengur hann að glugganum. Sér hann þar inni konuna og unga manninn með mesta glensi og blíðulátum. Þar var inni uppbúin sæng, legubekkur, borð og kakalónn. Þegar þau eru búin að frílysta sig þarna nokkra stund gengur hún í burtu og kemur aftur að vörmu spori með mat handa hönum. Sá Ívar meðal annars að á diskunum var búffsteik og lax, en í því þau ætluðu að taka til matar þá var barið að dyrum og það ómjúkt, en þeim varð fremur bilt við, og var það til ráða fyrir þeim að hann fór undir sængurnar í rúminu, en hún setur matinn í kakalóninn. Síðan lýkur hún upp húsinu, og fór þá sem hana grunaði að húsbóndinn var sem barði og gengur hann inn og sezt á tal við Ívarr og spyr hann hvað hann vilji, en hann kvaðst vilja fá búffsteik, en veitingamaðurinn sagði hún væri ekki til og gæti hann ekki látið búa hana til í kvöld. En á meðan á þessu stóð var Ívar að smásetja hælinn í pokann sem hrosshána hafði að geyma so það var að skrjáfa í henni, og segir síðan að búffsteikin sé víst til. Veitingamaðurinn spyr hvað hann hafi til merkis um það, en Ívar segist hafa spámann sem segir að hún sé geymd í óninum, svo veitingamaðurinn fór og kom aftur með steikina, og furðar hann sig mikið á því, fyrst að hún skyldi vera til þar sem hann átti þess öngva von og svo yfir vísdómi spámannsins. Svo fer Ívar að láta skrjáfa í henni aftur smátt og smátt, en þykist þó vera að rengja spámanninn og er að segja hönum að vera ekki að þessu slúðri: – „því skal ég aldrei trúa; aldrei hefurðu þó logið að mér“ og svo framvegis. Við þetta verður veitingamaðurinn ákaflega forvitinn og fer að biðja Ívar umfram allt að segja sér hvað spámaðurinn sé nú að segja, en Ívar færist undan sem hann getur og segir að hann muni vera að skrökva, enn hafi hann þó aldrei reynt af honum ósannindi. En veitingamaðurinn er so ákafur að fá að vita hvað spámaðurinn er að segja þar til að Ívar loksins segir hann sé að segja frá að það hafi komið ungur maður áðan og hann hafi átt að fá steikina, „en þegar þú barðir að dyrum þá brá hönum svo við að hann fór undir sængurnar í rúminu, en steikin var látin í kakalóninn. Líka segir hann að konan hafi þennan unga mann miklu kærari en þig og hafi þau ætlað að sænga saman um nóttina, hefðir þú ekki komið heim.“ Við þetta brá veitingamanninum svo að hann nærri gekk frá vitinu af reiði, en segir þó að þetta muni alltaf vera ósannindi og Ívar skuli fá makleg laun fyrir ef það reynist lygi, og æðir síðan inn í stofuna og finnur þar manninn eins og spámaðurinn hafði til vísað, svo hann fær sín makleg gjöld, en veitingamaðurinn fer að fala spámanninn af Ívari. En hann færist lengi vel undan, en þó lætur hann leiðast til að [hann] segir hann falan fyrir skeffu af peningum. En sökum þess að veitingamaður var búinn að reyna hvurt ágætisþing að spámaðurinn var þá þykir hönum það bezta verð og sendir til Theódórs að fá skeffumál, og sendimaðurinn segir það eigi að mæla peninga handa einhvurjum Ívari beykir, so Theódór fer að gruna hvort þetta muni ekki vera bróður sinn, en trúir því þó laust að hann eigi að fá peningaskeffu. En til þess að vita upp á víst hvað eigi að mæla, þá slettir hann lími í laggirnar á málinu, en þegar að hann fékk málið aftur þá tolldu fáeinir smáskildingar í löggunum, svo hann þykist vita að þetta muni satt vera, lætur því kalla Ívar fyrir sig og fer að spyrja hann um þetta. En hann segir hönum að einn kaupmaðurinn sem hann tilnefnir gefi peningaskeffu fyrir hvurja hrosshá sem hann geti fengið, og til sannindamerkis sýnir hann honum peningana sem hann fékk fyrir hána af hestinum sem hann hafi drepið fyrir sér. En Theódór var trúgjarn og vissi ekki heldur að Ívar hefði getað fengið svoddan peningasummu fyrir aðra muni, svo fátækur maður; svo hann tekur það til bragðs að hann drepur öll sín hross og fer með hárnar af þeim og fer að leita að kaupmanninum sem hafði verið að fala þess háttar vöru, en finnur hann ekki sem við var að búast, og varð so fyrir háði og spotti af hvurjum manni og er hann so úr sögunni.

En nú er að segja frá þessum unga manni sem var að glepja konuna veitingamannsins, að hann hugsar sér að komast í kunningsskap við konuna hans Ívars því hann þykist eiga hönum fyrir grátt að gjalda sökum þess að hann varð að líða og láta úti af því Ívar kom því upp um hann; svo hann fer að venja þangað komur sínar þegar Ívar er ekki heima, en hún fer að bera sig upp við Ívar um þetta efni, en hann segir hún skuli taka hönum vel og gjörir síðan ráðagjörð hvurnin þau geti veitt [hann] og fer hann svo að heiman, en hinn passar upp á það og fer að heimsækja konuna, en hún tekur hönum með betra móti svo það talast svo til að hún muni taka hann til bónda um nóttina. En so hagaði til að smíðastofan var upp á lofti í öðrum endanum á húsinu; þar hafði Ívar verið að smíða fjarskalega stóra ámu og voru óreknar á hana gjarðirnar, en botninn lá á löggunum. Nú líður að kvöldinu svo þau fara að hátta og þjónar hún hönum til sængur, fer síðan sjálf að hátta, en þegar hún ætlar upp í sængina þá er barið á dyrnar og er þá Ívar kominn og kallar að hún skuli upp þoka hurðinni, svo hinn varð hræddur sem háttaður var og spyr nú hvað nú skuli til ráða taka, en hún vísar hönum upp á loft og skuli hann hleypa sér ofan í ámuna og leggja síðan botninn yfir og lofar svo að koma hönum út þegar Ívar sé háttaður. En hún fer að ljúka upp og er Ívar þá orðinn bráðvondur yfir því hvað hún var lengi og fer að vandræðast hvað ekkert gangi vinnan og það henti ekki fyrir þá sem eigi fyrir fjölskyldu að sjá að ganga svona snemma til hvílu, og stekkur hann með þetta upp í smíðahúsið og rekur gjarðirnar á stóru ámuna og drífur hana síðan ofan stigagatið og út fyrir dyr og setur hana þar og lætur sponsgatið snúa að götunni sem var þar hjá húsinu og fer síðan að sofa, En hinn verður að hírast í ámunni þangað til um daginn eftir að einhver gekk um sem tók eftir að það mundi vera maður í ámunni og var að bora þremur fingrum út úr sponsgatinu á henni, og var hann að því til að láta sjá sig, því ekki þorði hann að kalla; svo hann fer að tala við hann, en sá sem í ámunni var biður hinn að kaupa tunnuna hvað dýr sem hún sé, svo hann fer til Ívars og falar hana, en Ívar segist ekki skuli láta so væna tunnu fyrir minna en hundrað dali, en hinn fer heim eftir peningum. En á meðan tekur Ívar þessa í burtu, en lætur aðra í sama stað. Síðan kemur maðurinn og kaupir tunnuna sem nú var úti og fer með hana heim til sín og slær hana upp, og er hún þá tóm og þykir hönum það fremur kynlegt svo hann fer til Ívars aftur, en hefur með sér peningasjóð mikinn. Þá er Ívar búinn að setja hina tunnuna út og var þar maðurinn í því; hann fór að bora fingrunum í gatið þegar að hann varð var við manninn, svo hann biður hinn að kaupa þessa tunnu líka þó hún verði máske dýrari en hin og fara ekki frá henni svo ekki verði skipt um aftur. Fer so aðkomumaðurinn að finna Ívar og falar þessa tunnu, en hún á ekki að vera minna en tvö hundruð ríksdali, og kaupa þeir að því; svo hann fer með hana og hleypir manninum úr henni. Var hann þá aðframkominn af hungri og kulda og varð svo að borga hinum þrjú hundruð ríksdali ofan í kaupið fyrir það hann keypti báðar tunnurnar.

En þess er ekki getið að hann leitaði á konuna hans Ívars eftir þetta. Endar svo þessi saga.