Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Brjáms saga
Brjáms saga
Það var einu sinni að kóngur og drottning réðu fyrir ríki sínu; þau voru rík og mektug og vissu varla aura sinna tal. Þau áttu eina dóttur; hún ólst upp sem flest önnur sögubörn. Þar bar hverki til titla né tíðinda, frétta né frásagna í þann tíð nema logið væri. Karl og kerling bjuggu í garðshorni. Þau áttu sjö syni og eina kú til bjargar; hún var so væn að hana þurfti að mjólka þrisvar á dag og gekk hún sjálf heim úr haganum um miðdegið.
Það var einu sinni að kóngur reið á jagt með sveina sína; þeir riðu hjá nautaflokki kóngs; þar var kýr karls saman við. Kóngur talaði til og sagði: „Væna kú á ég þarna.“ „Ekki er það yðar kýr, herra,“ sögðu sveinarnir, „það er kýr karls í kotinu.“ Kóngur sagði: „Hún skal verða mín.“ Síðan reið kóngurinn heim. En þegar hann var setztur til drykkju talaði hann til um kúna og vildi senda menn til karls að fala hana fyrir aðra. Drottningin bað hann að gjöra það ekki því þau hefði ekki neitt annað til bjargar; hann hlýddi því ekki og sendi þrjá menn að fala kú karls. Karl var úti og börn hans öll; þeir skiluðu fyrir kónginn að hann vildi kaupa kú hans fyrir aðra. Karl sagði: „Mér er ekki mætari kýr kóngs en mín.“ Þeir leituðu fast á, en hann lét ekki af þangað til þeir drápu hann. Þá tóku öll börnin til að gráta nema sá elzti sonurinn sem hét Brjám. Þeir spurðu börnin hvar þau hefði tekið sárast; þau klöppuðu öll á brjóstið nema Brjám, hann klappaði á rassinn á sér og glotti. Þeir drápu öll börnin sem á brjóstið klöppuðu, en sögðu það gilti einu þó hitt greyið lifði því hann væri vitlaus.
Kóngsmenn gengu heim og leiddu með sér kúna, en Brjám gekk inn til móður sinnar og sagði henni tíðindin; hún bar sig illa. Hann bað hana að gráta ekki, þau tæki ekki mikið upp á því; hann skyldi bera sig að gjöra so sem hann gæti. Það var so einu sinni að kóngur var að láta smíða skemmu dóttur sinni og hafði hann fengið smiðunum gull að gylla hana bæði utan og innan. Brjám kom þar með fánahátt sinn. Þá sögðu kóngsmenn: „Hvað leggur þú hér gott til, Brjám?“ Hann sagði: „Minnki um mælir mikinn, piltar mínir,“ og so gekk hann í burt. En gullið sem þeim var fengið til að gylla með minnkaði so það dugði ekki meir en til helminga. Þeir sögðu kóngi til; hann hélt þeir hefði stolið því og lét hengja þá. Þá fór Brjám heim og sagði móður sinni. „Ekki áttirðu so að segja, sonur minn,“ sagði hún. „Hvað átti ég þá að segja, móðir mín?“ „Vaxi um þrjá þriðjungana! áttirðu að segja.“ „Ég skal segja það á morgun, móðir mín.“ Hann fór so heim um morguninn eftir, mætti þeim sem báru lík til grafar. Þeir sögðu: „Hvað leggur þú hér gott til, Brjám?“ „Vaxi um þrjá þriðjungana, piltar mínir!“ sagði hann. Líkið óx so þangað til þeir felldu það niður, Brjám fór heim og sagði henni frá. „Ekki áttirðu so að segja, sonur minn,“ sagði hún. „Hvað átti ég þá að segja, móðir mín?“ sagði hann. „Guð friði sál þína hinn dauði! áttirðu að segja,“ sagði hún. „Ég skal segja það á morgun móðir mín,“ sagði hann. Hann fór so heim um morguninn að kóngsríki og sá hvar einn rakkari var að hengja hund; hann gekk til hans. „Hvað leggur þú hér til gott, Brjám?“ sagði hann. „Guð friði sál þína hinn dauði!“ sagði Brjám. Rakkarinn hló að, en Brjám hljóp heim til móður sinnar og sagði henni. „Ekki áttirðu so að segja sonur minn,“ sagði hún. „Hvað átti ég þá að segja?“ sagði hann. „Hvört er þetta þjófsgreyið kóngsins að þú fer núna með? áttirðu að segja.“ „Ég skal segja það á morgun móðir mín.“ Hann fór so heim um morguninn; þá var verið að aka drottningunni í kringum borgina. Brjám gekk til þeirra. „Hvað leggur þú hér til gott?“ sögðu þeir. „Er þetta nokkuð þjófsgreyið kóngsins, sem þið farið núna með piltar mínir?“ Þeir skömmuðu hann út, drottningin bannaði þeim og sagði þeir skyldi ekki leggja neitt til drengsins. Hann hljóp heim til móður sinnar og sagði henni frá. „Ekki áttirðu so að segja, sonur minn,“ sagði hún. „Hvörnin átti ég þá að segja móðir mín?“ sagði hann. „Er þetta nokkuð heiðurslífið kóngsins þið farið núna með? áttirðu að segja.“ „Ég skal segja það á morgun, móðir mín,“ sagði hann. So fór hann heim um morguninn og sá tvo menn sem voru að birkja kapal. Hann gekk til þeirra. „Hvað leggur þú hér gott til Brjám?“ sögðu þeir. „Er þetta nokkuð heiðurslífið kóngsins þið farið núna með piltar mínir?“ sagði hann. Þeir sveiuðu honum; hann hljóp heim til móður sinnar og sagði henni frá. „Farðu ekki þangað lengur,“ sagði hún, „því ég veit aldrei nær en þeir drepa þig.“ „Ekki drepa þeir mig móðir mín,“ sagði hann.
Það bar til einu sinni að kóngur skipaði mönnum sínum að róa til fiski; þeir ætluðu so að róa á tveimur skipum. Brjám kom til þeirra og bað þá að flytja sig; þeir sveiuðu honum í burt og hæddu hann; þó spurðu þeir hann að hvörnin hann ætlaði veður myndi verða í dag. Hann horfði ýmist upp í loftið eða ofan í jörðina og sagði: „Vind og ei vindi! vind og ei vindi! vind og ei vindi.“ Þeir hlógu að hönum og reru so fram á mið og hlóðu bæði skipin full, en þegar þeir fóru heimleiðis gjörði storm. Drukknuðu bæði skipin.
Þá bar ekkert til tíðinda fyrri en kóngur hélt veizlu öllum sínum vinum og vildarmönnum. Brjám bað móður sína að lofa sér heim að vita hvað fram færi í veizlunni. Þegar allir voru setztir gekk Brjám út í smiðju og fór að smíða spýtur. Þeir sem komu spurðu hvað hann ætlaði að gjöra með þær. Hann sagði: „Hefna pápa, ekki hefna pápa.“ Þeir sögðu: „Þú ert ekki óþesslegur.“ So fóru þeir í burt. Hann stálsetti spýtur sínar allar í oddinn og læddist so inn í höllina og negldi niður fötin allra þeirra sem við borðin sátu og fór so í burt; en þegar þeir ötluðu að standa upp um kvöldið, þá voru allir fastir og kenndi hvör um öðrum, þangað til hvör drap annan so ekki varð móður manns barn eftir.
Þegar drottningin heyrði það harmaði hún og lét grafa þá dauðu. Brjám kom heim um morguninn og bauð sig til að verða þénari drottningar; hún varð því fegin því hún átti ekki mörgum á að skipa. Hönum fór það dáindis vel og varð það so af að hann átti kóngsdóttur og varð so kóngur og settist þar að ríki og lagði af allan gapahátt; og ekki kann ég þessa sögu lengri.