Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Döggvi og Helga

Í koti einu voru karlsdætur þrjár. Einu sinni óskuðu þær sér allar eiginmanna og er ekki getið um nöfn þeirra sem tvær systurnar óskuðu sér, en yngsta systirin sem Helga hét óskaði að eignast þann mann er Döggvi héti. Hinar systurnar kváðu hana heimsklega mæla, því himindögg einni bæri það nafn, en engum karlmanni. Þetta var um kvöld; gjörði vonum bráðara regn mikið. Systur Helgu sögðu henni að fara út og fagna himindögginni. Hún fór til dyra og sá úti standa ungan mann forkunnar fagran; sá hafði brúnan hest. Hún spurði hann að nafni, en hann kvaðst Döggvi heita, – „og skalt þú,“ segir hann, „með mér fara“. Hún var þess eigi ófús. Segir ekki frá ferðum þeirra fyr en þau komu þangað sem Döggvi átti heima. Sváfu þau saman hina fyrstu nótt, en um morguninn seldi Döggvi Helgu í hendur knýtilskauta eitt og bað hana varðveita og varast að leysa það upp, ella kvað hann samvist þeirra mundi lokið. Fór hann síðan burt og kom ekki heim þann dag allan. En þó Helgu sárlangaði til að leysa upp böggulinn gat hún þó stillt sig um það fyrsta og annan daginn sem Döggvi var burtu; en þriðja daginn sigraði forvitnin hana svo þegar Döggvi var burt farinn leysti hún upp böggulinn og var þar í einungis hárlokkur af karlmanni. Og um kvöldið er Döggvi kom heim átaldi hann Helgu fyrir forvitnina enda kvaðst hann nú ei lengur mega búa saman við hana. Um nóttina sváfu þau saman og grét þá Helga mjög yfir því að hljóta að skilja við hann. Mælti hún svo um og lagði það á að tár sín skyldu verða að blóðblettum í skyrtu hans sem enginn skyldi geta þvegið úr nema hún ein, og varð það að áhrínsorðum.

Um morguninn bjóst Döggvi þegar brott, en Helga fór í hámóti á eftir honum þannig að langa hríð voru þau sitt á hvoru leiti, en að lokum hvarf Döggvi henni með öllu. Engu að síður hélt Helga áfram göngu sinni og segir ekki af henni fyrr en hún kom að kotbæ einum. Þar stóð úti kona. Helga spurði hana að heiti; hún kvaðst heita Bláklædd, – „en sá er munur vits okkar,“ segir hún, „að ég þarf ekki að spyrja þig nafns, skömmin Helga karlsdóttir, þú sem réðir Döggva bróður mínum banaráð; en snautaðu samt inn og vertu hér í nótt.“ Helga þáði það og var þar náttlangt. En um morguninn seldi konan henni í hendur hring einn og bað hana fá hann systur sinni er hún hitti hana og mundi það mýkja skap hennar. Síðan skildu þær. Kom þá Helga þessu næst að öðrum kotbæ. Var þar enn kona fyrir og seldi hún henni hringinn. Var hún hjá henni um nóttina. Heimiliskona fékk henni um morguninn tvíbrotinn hring er hún sagði Helga skyldi fá systur sinni [hinni] þriðju er hún mundi næst finna, því hún væri skaphörð og hefnigjörn, en mundi skipast við gjöfina. Eftir skilnað þeirra kom Helga til þriðja kotsins. Sá hún þar illúðlega kerlingu með öxi reidda í hendi; en Helga fékk henni hringinn tvíbrotna og sefaði það skap hennar.

Eftir það hún fór þaðan segir ekki frá henni fyrr en hún kom þar að sem mær ein var að þvo blóð úr skyrtu. Helga spurði hvað hún héti. „Ég heiti Ingibjörg,“ sagði mærin. „og nam tröllskessa sú er hér á híbýlum að ráða, mig frá mennsku fólki og vill hún að ég gangi að eiga son sinn sem er tröllaukinn eins og hún. En sjálf vill hún eiga mann þann er Döggvi heitir og þar er hjá henni; en hann vill áður sé þvegið blóð úr skyrtu sinni, og hótar tröllkonan mér dauða ef ég geti ekki þvegið flekkina af skyrtunni.“ Helga bauð henni að þvo blettina af fyrir hana. Hún tók því með þökkum. Skipti þá svo um að er Helga fór höndum um skyrtuna og þvoði hana varð hún gjörsamlega hrein sem aldrei hefði blóðug verið. Helga biður nú Ingibjörgu að fara til fundar við Döggva og biðja hann að sjá sér fyrir stað er hún gæti falið sig í. Síðan fundust þau og gat hann svo um stillt að tröll urðu ei vör við þarveru hennar. Tröllkonan lagði nú fast að Döggva að hann ætti sig; hann kvaðst mundi gjöra það ef hún sýndi sér áður allar eigur sínar. Hún lézt mundi til þess vinna. Sýndi hún honum allt það er hún átti í helli sínum, en einum afhellisdyrum vildi hún ekki upp ljúka. En svo lagði hann fast að henni að hún gjörði það á endanum. Þar var kistill er hann bað hana að ljúka upp; hún var mjög ófús þess, en veitti honum þó þá bæn. Var þar í egg í umbúðum og hamar. Döggvi spyr hvað henni skyldi það. Hún sagði: „Sé egg þetta brotið með hamrinum þá er það bani minn og sonar míns.“ Hann bað hana geyma þessa vandlega; en er þau mæðgin voru á skógi braut Döggvi eggið með hamrinum.

Síðan tóku þau öll þrjú sig upp þaðan eftir dauða tröllanna og fóru í eitt kóngsríki. Þá var Helga orðin þunguð af völdum Döggva. Kenndi hún vanheilinda og bað Döggva að útvega sér að drekka því hana sókti þorsti mikill. Hann gekk til konungshallar og bað að gefa sér drykk nokkurn. Honum var fengið horn og drakk hann af því og var Helga honum þá jafnskjótt úr minni liðin því ölið hafði óminnisafl. Gekk Döggvi konungi til handa og fastnaði sér dóttur hans. Ingibjörg stundaði Helgu í veikindum hennar unz hún varð léttari. Fréttu þær stallsystur að Döggvi ætlaði að eiga kóngsdóttir og að stofnað væri brúðkaup þeirra. Fóru þær þá til kóngshallar og stóð Helga þar í einu horni. Var nú öl byrlað fyrir brúðguma. Helga bað að hún fengi að bragða á því og var henni veitt það. Síðan var það borið fyrir Döggva. Hann bergði á og skipti litum við. Spurðu menn hví það sætti. Hann kvað þar vera í höllinni kvenmann einn er hann hefði ætlað að eiga, en hefði gleymt við drykk einn er sér hefði gefinn verið. Döggvi drakk brúðkaup til Helgu, en útvegaði kóngsdóttur tiginborinn eiginmann og fekk konungsorlof til þessarar ráðabreytni. Unnust hvor tveggju þessi hjón síðan vel og lengi.