Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Einhæfs saga
Einhæfs saga
Það var einu sinni karl og kerla sem bjuggu í garðshorni. Þeim var einskis vant til að vera fullánægð nema þau áttu ekkert barn. Einu sinni áður en karl fer á skóg, því það var siður hans að höggva brenni í eldinn, segist hann skuli drepa kerlingu sína ef hún verði ekki búin að eiga barn þegar hann komi aftur. Kerling anzar því lítið, en karl fer. Þegar hann er farinn þá fer kerling út fyrir bæjarvegg og fer að gráta. Þá kemur til hennar maður og spyr því hún gráti. Hún segir honum það. Hann segist geta hjálpað henni, en hann segir að hún verði að greiða ofurlítið fyrir sér í staðinn. Hún segist ekki vita hvurt hún geti gert það sem hann vilji. Hann segir að hún geti það. Hún segist þá gera það hvað sem það helzt væri. Hann segir að hún þurfi ekki annað en að fara ofan að læk sem renni hér; þar séu tveir silungar, annar hvítur en hinn svartur. Hann segir að hún skuli taka þann hvíta og ef sá svarti vilji fara með þá megi hann það og hún skuli sjóða þá, en varast að éta beinin eða drekka soðið, – „því vei þeirri kellingu sem étur beinin eða drekkur soðið,“ – en það sem hann ætli að biðja hana sé að gefa sér barnið þegar það sé sex vetra, og hverfur hann svo. Kelling stendur upp og gerir sem fyrir hana er lagt. En þegar hún er búin að éta silungana þá langar hana til að éta beinin og drekka soðið; svo gerir hún það. Svo þegar fer að kvölda þá elur hún barnið og er það sveinbarn. Þegar karl kemur heim þá spyr hann kellingu hvurt hún sé búin að eiga barn. „Já,“ segir kerling. Hann spyr hvurnin standi á því. Hún segir honum upp alla söguna og það með að hann hafi beðið um drenginn þegar hann væri sex vetra. Karli þótti mikið vænt um þetta, en þótti þó verra að missa hann svo gamlan.
Svo ber ekkert til tíðinda fyrr en drengur er sex vetra. Þá segir hann við foreldra sína að þau skuli fara út á skóg í dag því hann segist muni verða sóttur í dag. Þau vilja ekki fara. Hann segir þeim sé ekki til neins að vera því þau geti ekki hjálpað sér. Svo fara þau. En að litlum tíma liðnum kemur karlinn og segir: „Komdu nú með mér.“ Einhæfur segir – svo hét drengurinn –: „Taktu mig þá!“ „Eru foreldrar þínir heima?“ spyr karl. „Nei,“ segir Einhæfur. „Hvar eru þau þá?“ spyr karl. „Út á skóg,“ segir Einhæfur. „Hvað eru þau að gera þar?“ spyr karl. „Faðir minn er að leita að kindum og drepur það sem hann finnur, en kemur heim með það sem hann finnur ekki,“ svarar Einhæfur. „Æ, hvurnin fer hann að því?“ spyr karl. „Það segi ég þér ekki,“ segir Einhæfur. „Æi-jú,“ segir karl, „segðu mér það.“ „Ég skal gera það,“ segir Einhæfur, „ef að þú lofar mér að vera sex ár ennþá.“ Hann hugsar sig um nokkra stund, en segir samt að hann kaupi því; – „en vei þeirri kellingu sem drakk soðið og át beinin! Þá hefðirðu ekki verið svona vitur. En hvurnin fór hann að því?“ „Hann fór með rekkjuvoðirnar sínar út á skóg og var að leita í þeim. Og það sem hann fann kom hann ekki með; það sem hann fann ekki það kom hann heim með.“ Og svo fer karl. En um kvöldið þegar foreldrar Einhæfs koma verða þau forviða af fögnuði og feginleik þegar þau sjá hann heilan á hófi, og ber nú ekkert til tíðinda heldur en fyrr þangað til þessi sex ár eru liðin. Þá segir hann (Einhæfur) einu sinni við foreldra sína að þau skuli nú aftur fara út á skóg, og svo gjöra þau það. Að nokkrum tíma liðnum kemur karlinn og segir: „Hvar eru foreldrar þínir?“' „Út á skóg,“ segir Einhæfur. „Hvað gjörir hann þar?“ spyr karl. „Hann fór með hálfa elleftu geit út á skóg í morgun og bar þó engva og ætlar að beita þeim þar í dag.“ „Æ, hvurnin fór hann að því?“ spyr karl. „Það segi ég þér ekki,“ segir Einhæfur. „Æ, jú, segðu mér það,“ segir karl. „Ég skal gera það,“ segir Einhæfur, „ef þú lofar mér að vera sex ár enn.“ Karl vill ekki gera [það]. Einhæfur segir að hann verði þá af kaupunum. Karl heldur þá að hann verði þá að gera það. Einhæfur segir að ein geitin hafi drepizt og faðir sinn hafi klofið hana sundur og bundið helminginn af henni við aðra geit. „Vei þeirri kellingu sem át beinin og drakk soðið! Þá hefðirðu ekki verið svona vitur.“ Og svo fer hann. Um kvöldið koma foreldrar hans heim og verða mikið fegin þegar þau sjá hann heilan á hófi. Þau spurja hvurt hann ætli nú að vera lengi. Hann segist ætla að vera sex ár enn.
Nú líður og bíður þangað til sex ár eru liðin; þá segist hann muni verða sóttur í dag og segir að þeim sé ekki til neins nema vera heima því hann segist verða að fara. Að lítilli stundu liðinni kemur karl og segir: „Kondu nú með mér, drengur minn.“ Einhæfur segir skuli koma og fer inn og kveður foreldra sína og fer svo. Þeir ganga æði lengi þangað til þeir koma að einni kolagröf. Þá stekkur Einhæfur ofan í gröfina og fer að þula og þular í ósköpum. Karl spyr við hvurn hann sé að tala. Hann segist vera að tala við mann sem standi hálfur niðrí jörðinni, en hálfur upp úr. „Æ, hvurnin fer hann að því?“ spyr kall. „Það segi ég þér ekki,“ svarar Einhæfur. „Lofaðu mér þá að sjá það,“ segir karl. „Það geri ég ekki heldur,“ svarar Einhæfur. „Æ-jú, segðu mér það,“ segir karl. „Ég skal gera það ef þú lofar mér að vera alla mína ævi.“ „Nei, það geri ég ekki,“ segir karl. „Jæja, sittu þá með forvitni þína,“ segir Einhæfur. „Æ, segðu mér það,“ segir karl. „Ef þú gerir hitt,“ svarar Einhæfur. „Ég held þér sé þá bezt að skammast kjur!“ segir kall. „Já, ég er hjarna niðrí kolagröfinni og stend hálfur upp úr, en er hálfur niðrí og er að tala við sjálfan mig.“ „Vei þeirri kellingu sem drakk soðið og át beinin! Þá hefðirðu ekki verið svona vitur,“ segir kall; og svo fer hann. En Einhæfur fer heim til foreldra sinna og þau urðu honum mikið fegin.
Og endar svo saga þessi.