Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Forvitnin er fæstum góð
Forvitnin er fæstum góð
Það var einu sinni að kóngur og drottning réðu fyrir ríki og kall og kelling bjuggu í garðshorni. Þau voru svo fátæk að þau áttu ekki nema eina kú gelda og lifðu á því að hann veiddi fugla og fleira, en hún á því sem hún fékk sér í kóngsríki.
Einu sinni fer hann á skóg sem oftar og kemur að steini sem er opinn og hurð í hálfa gátt. Hann sezt í dyrnar og situr þar til kvelds. Þá kemur dvergur að og biður hann lofa sér inn. Kall segist ekki gjöra það nema hann gefi sér eitthvað. Dvergurinn segist ekkert hafa til. Kall segir hann fái þá ekki inn að komast. Dvergurinn segir þá: „Legg ég á og mæli ég um að aldrei bresti mjólk í kúnni þinni.“ Kall gjörir sig ánægðan með þetta og fer heim. Kelling spyr hann hvar veiðin sé. Hann segist ekkert hafa veitt. Hún spyr á hvörju þá eigi að lifa. Hann segir hún skuli fara og mjólka kúna þeirra og gefa sér að drekka. Hún segir það muni til lítils eins og hann viti. Hann segir hún skuli reyna það. Hún fer og mjólkar kúna og fær öll hylki full.
Nú líður nokkur tími þar til eitt sinn að kall fer á skóg og kemur að sama steini og fyrrum. Hann er opinn; en kall sezt í dyrnar og situr þar til þess dvergurinn kemur og biður kall lofa sér inn. „Það gjöri ég ekki,“ segir hann, „nema þú gefir mér eitthvað.“ „Ég hef ekkert til,“ segir dvergurinn; „dugir þér ekki mjólkin úr kúnni?“ „Ég lofa þér ekki inn,“ segir kall, „nema þú gefir mér eitthvað.“ „Legg ég á og mæli um,“ segir dvergurinn, „að aldrei þrjóti silung í læknum þínum.“ Kall er ánægður með þetta og fer heim, veiðir silung og hafa nú nóg.
Einu sinni fer drottning að tala um það heim í kóngsríki að kellingin úr garðshorni komi nú aldrei heim, en ætíð rjúki hjá henni og segir við kóng að gaman sé að vita hvornig á því standi og segist vilja fara; en kóngur afræður hana því, segir hún kunni að hafa illt af því. En það dugir ekki; hún fer hvað sem hann segir. Þegar hún kemur í garðshorn er kelling að þvo silung við lækinn. Drottning heilsar henni og spyr hvornig þessum silungi sé varið. Kelling segist ekki segja henni það. Drottning segist þá skuli drepa hana í læknum. „Ég segi þér það ekki að heldur,“ segir kelling. Drottning tekur hana þá og afklæðir og setur hana þar í lækinn sem ófært er upp, fer svo í föt hennar og heim til kallsins og segir að nú sé sér kalt og gjörir sig sem líkasta kellingunni í máli. Kall var í rúmi sínu og spyr hvað hún hafi verið að gjöra. Hún segist hafa verið að þvo síutetrið sitt og silunginn. „Komdu þá hingað í rúmið til mín,“ segir kall; „ég skal verma þig.“ Hún leggst þá út af hjá honum og segir: „Undarlegt er það, ég er hreint búin að gleyma því sem þú sagðir mér hvörnig varið er mjólkinni í kúnni okkar og silungsveiðinni í læknum.“ „Þú lætur þó fallega núna,“ segir kall; „manstu ekki eftir því að dvergurinn úti á skógnum lagði það á að aldrei skyldi þrjóta mjólk í kúnni okkar né silung í læknum?“ „Á, nú man ég það,“ segir hún. Rís hún þá upp og segir: „Tarna ætlaði ég mér! Ég er nú búin að drepa kellinguna þína í læknum,“ segir hún. Sér þá kallinn að þetta er ekki kelling sín og reiðist ákaflega og segir: „Legg ég á og mæli um að þegar þú ætlar að segja frá hvörnin ég er kominn að mjólkinni og silungnum að þú getir þá aldrei annað sagt en þetta: ,Kallinn í garðshorni lá hjá mér.'“ Fer svo kallinn á fætur að hugsa um kellingu sína og getur bjargað henni svo hún hressist aftur. Lifðu þau við þetta; höfðu nóg af mjólk og silungi.
Drottning fór heim í ríki sitt og ætlar strax að segja frá þessu, finnst hún geta það, en verður þá ætíð þetta: „Karlinn í garðshorni lá hjá mér.“ Hún var sífellt að klifa á þessu svo kóngi leiddist og lét menn sína fara með hana út á skóg og drepa hana.
Lýkur svo þessari merkilegu sögu.