Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Galdrastrákurinn í Reykjavík

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Galdrastrákurinn í Reykjavík

Það var einu sinni dálítill drengur; hann var sonur fátæks manns nokkurs, en hann var þegar búinn að nema galdralistina og var leikinn í henni.

Einu sinni kom hann til Reykjavíkur sem er eða á að heita höfuðstaður landsins og þar eru ágætir stjörnuspekingar, en ekki þekkja þeir vel steina né fugla, því þó að það sé sagt að þeir séu vel að sér í því þá verður ekkert úr því þegar á á að herða. Þannig var líka núna. Þegar hann var nærri kominn í Reykjavík þá hafði hann að gamni sínu gjört sig að hænu, en var með þeim eiginlegleika að hann gat flogið eins og hver annar fugl. En smyrillinn er lengi skæður og var hann nærri búinn að ná hænunni, en hún flaug án þess að vita hvort og lenti einmitt í strompinum á húsi því sem maður sá bjó í sem þekkti fugla. Hún kom niður um strompinn og ofan í eldhús og eldakonan náði henni og fór með hana inn til húsbónda síns sem sagði að það væri annaðhvort grænlenzk eða indversk arnartegund eftir litnum af því hún var orðin svört af sóti þegar hún fór ofan um strompinn, en eftir limalagi væri hún lík gripfugli. Í því kom þar að sonur mannsins sem var á áttunda árinu og spurði föður sinn hvað hann væri að gjöra við litlu hænuna þarna. Þá fór faðirinn að gæta betur að og stóð nú hundsneyptur af því að sonur hans hefði þekkt þann fugl sem hann hefði ekki þekkt sjálfur. En hænunni var sleppt, því strákur þorði ekki að gjöra það uppskátt að hann væri göldróttur. Síðan var hann í höfuðstaðnum nokkra hríð.

Einu sinni ætlaði hann að gjöra að gamni sínu og gjörði sig að steini sem lá á götunni og allir sem gengu um götuna ætluðu að fara að ná svona fögrum steini, en enginn sá hann þegar hann fór að beygja sig til að ná honum, en þá hvarf hann einlægt. En það voru tveir drengir sem komu sinn að hvorri hlið við hann; en hann gætti einungis að þeim fremri, en hinn kom aftan að honum og náði honum. Nú var strákur illa farinn af því að úr því það var einu sinni búið að ná honum þá gat hann ekki tekið aftur sína réttu mynd fyr en hann var orðinn laus aftur. Drengurinn fór undireins til steinafræðings með hann til að spyrja hvaða steinn það væri. Steinafræðingurinn hló mjög að þessu og sagði að það væri lakk svo að drengurinn hirti ekki um hann og skildi hann þar eftir. Steinafræðingurinn kærði sig ekkert um þenna lakkmola fyr en um sunnudaginn eftir þar eð hann komst ekki í búð, en honum lá á að lakka. Þá tók hann lakkstúfinn; en sem hann fór með það í ljósið þá skrækti strákurinn svo að steinafræðingurinn varð hræddur og fleygði honum út um gluggann. Þetta var um lágnætti. Ekki er nema einn vaktari í bænum – af því að yfirvöldin eru svo góð að þau vilja unna þessum eina manni alls ábatans – og var vaktarinn þá í hinum hluta bæjarins; en þegar strákur kemst út frá steinafræðingnum þá gjörir hann það með göldrum sínum að vaktaranum sýnist að eldur sé kominn upp hinumegin í bænum. Hann hættir nú að hrópa þar sem hann var og hleypur sem fætur toga þangað sem honum sýndist þetta vera; en þegar hann kom þangað þá var það ekkert svo hann snuggaði og snéri við aftur. Um morguninn eftir var vaktaranum gjörð boð og átti hann að standa fyrir rétti fyrir það að hann hefði hætt að hrópa um nóttina; en þegar hann kom þangað þá klappaði hann yfirvöldunum og beiddi um að fyrirgefa sér, og yfirvöldin gjörðu það, því þau eru svo blíð og meinlaus, garmarnir þeir arna.

Nú var strákur orðinn hvekktur á að láta ná sér, því illa hafði honum liðið meðan á þessu stóð. Hann hafði heyrt að það væri í bænum góður stjörnuspekingur og ætlaði hann nú að reyna það hvort það væri ekki satt. Hann vildi því gjöra honum líka sjónhverfingar og galdraði að stjörnuspekingnum sýndist að ógurlega stór stjarna væri á himninum. En hann var orðinn hrumur af elli og vissi ekki hvort hann hélt á kíkir eða ekki svo hann fór að góna upp í stjörnuna í gegnum fingurnar á sér, en sá ekkert svo hann sagði: „Það er óhreinn kíkirinn minn.“ Þá tók hann höndurnar burtu og sá þá fyrst að hann hafði engan kíkir. Hann fór þá að horfa á stjörnuna með berum augum og sagði þá að það væru stjörnur sem hefðu dregið sig saman til þess að berjast á móti hinum stjörnunum og væri bænum nú mikil hætta búin, því þær sem ynnu mundi fleygja hinum sem yrðu undir niður á jörð og mundi hún þá eyðileggja allan bæinn og allt landið þegar hún dytti. Af þessu urðu allir í bænum hræddir og ekkert mannsbarn sofnaði dúr á þeirri nóttu fyrir ótta.

Nú var stráknum dillað þegar hann sá hversu góðir embættismennirnir voru, og ætlaði hann nú að reyna lögregluþjónana sem eru tveir. Þeir voru í vesturhluta bæjarins, en strákur lét þeim sýnast að stór hópur af drengjum væru að ólátast [í] hinum hluta bæjarins; en göturnar eru svo breiðar og beinar, því yfirvöldin eru eins góð í því að prýða bæinn eins og þeir voru við vaktarann. Nú ætluðu lögregluþjónarnir að fara að siða þennan flokk; en þegar þeir voru komnir rétt að þeim þá segir annar: „Lofaðu drengjunum að vera að leika sér, því þetta eru börn.“ Svona var hann viðkvæmur við blessuð börnin; en hinn vildi það ekki. Svo þegar þeir voru nærri komnir að þeim þá hvarf allt þeim sem vildi hafa reglu á; honum var stefnt, en hinum var þakkað fyrir það að hann gegndi ekki embætti sínu; og þannig fara yfirvöldin öfugt stundum og það í höfuðstaðnum sjálfum.

En nú átti strákur eftir að reyna kaupmennina og gjörði hann sig að gömlum förukarli og kom inn til eins af þeim og spurði hvort þar væri til korn. Kaupmaðurinn varð hlessa og spurði hvort hann héldi að það væri til korn. „Já,“ sagði förukarlinn, „því þetta er höfuðstaðurinn.“ Kaupmaðurinn gekk þegjandi burt. Förukarlinn fór líka burtu og tók nú aftur sína réttu mynd. Daginn eftir gjörði hann sig að hrörlegum karli og fór til annars kaupmanns og spurði eftir matvælum, en kaupmaðurinn sagðist engin hafa. Þá sagði karlinn: „Mikið blessuð yfirvöld eru í höfuðstaðnum; ekki skal mig furða þó hann sé kallaður höfuðstaður; það má segja þau eru ljúfmenni.“ Þá segir kaupmaðurinn og varð reiður: „Þorir þú að hæða yfirvöldin?“ „Nei,“ sagði karlinn, „það kom mér ekki í hug.“ „Jú,“ segir kaupmaðurinn, „og fyrir það stefni ég þér nú.“ Þegar karlinn stóð nú hjá yfirvöldunum þá ætlaði hann að fara að eins og vaktarinn, en það vildi ekki takast svo hann lofaði þeim að gefa þeim rúsínur fyrir fjóra skildinga og í staupinu fyrir aðra fjóra skildinga og ættu þeir að skipta þessu bróðurlega svo að allir fengju jafnt ef þeir á annað borð væru svo afskiptasamir að sjá til að það væri til í búðunum. En þau þoldu þessi atyrði vel þar eð þeir áttu von á rúsínum og brennuvíni og svo gengu þeir á eftir honum ofan í búð eins og þegar hundarnir elta herra sinn þegar þeir halda að hann ætli að gefa sér bita; og þegar þeir komu ofan í búðina þá sagði karlinn við kaupmanninn: „Gefðu þessum mönnum í staupinu og gefðu þeim sykurmola með; ég skal borga þér það.“ Kaupmaðurinn gjörði það og þegar þeir voru búnir að drekka þá kaupir kallinn fyrir fjóra skildinga rúsínur og biður þá um að setjast niður og snæða, en þeir settust á rommtunnur sem stóðu utar í búðinni; en strákur gekk þá út og galdraði það að botninn í rommtunnunum sem þeir sátu á brotnaði undir þeim svo að þeir duttu allir hálfir ofan í rommtunnurnar. Kaupmaðurinn heyrir að eitthvað er að bresta og fer að gæta að því og sér þá að yfirvöldin voru að brjótast um í rommtunnunum og höfðu misst allar rúsínurnar niður í þær og það var það sem þeim þótti verst, því það gjörði ekkert þó að fötin skemmdust. En kaupmaðurinn rak þá út með köðlum og lét þau þar að auki borga allan skaðann sem þeir höfðu honum gjört. Yfirvöldin sneru heim og höfðu fataskipti.

Nú var eftir að reyna prentarana og gjörði hann sig að einum af skólakennurunum og beiddi prentarann um að prenta fyrir sig með alþingisletri Passíusálmana, því hann heyrði sagt að yfirvöldin hefðu veitt þeim ný og óslitin letur og væri þetta fallegast þeirra. Þeir lofuðu því og var það bráðum búið. Það átti að kosta eitt hundrað og tíu dali; en þegar hann ætlar að fara að lesa, þá er þetta svo sterkt í augun, því þetta var svo fallegt og óslitið letur að hann gafst upp undireins og hann fór að lesa. Yfirvöldin eru í flestu góð og ekki sízt í því að fá gott letur, því þeir eru svo starfsamir og vilja láta aðra vera eins með því þeir hafa það svona óslitið til þess að menn geti ekki lengi verið að tefja sig frá verki sínu með lestri. Og þetta allt er að þakka þessum ljúfu yfirvöldum sem eru svo afskiptasamir.

Nú veit strákur að það væri einn læknir í bænum og datt honum í hug að reyna hann. Hann gjörir sig því að manni einum sem hafði kólerusóttina, fer til hans, segist hafa kóleru og biður um lækningu. Læknirinn sagði: „Hvað er það fyrir sótt, þessi kórela, er það sótt eða hvað er það?“ Þá sagði maðurinn: „Ég sagði ekki kórela; ég sagði kólera; það er ósköp vond sótt.“ „Ég þekki [ekki] þessa sótt,“ sagði læknirinn, „ég hef ekki heyrt hennar getið. Ég ætla að skrifa hana hjá mér svo ég gleymi henni ekki.“ Svo fór strákur og hló í huga sínum.

Á leiðinni frétti hann að það væri prófessor einn í bænum sem hafði fengið þenna titil fyrir það hvað hann gat etið mikið af sætum kökum. En nú var illa farið fyrir honum; hann missti allt í einu galdralistina og varð nú að leggjast í kóleru svo hann gat ekki fundið þenna prófessor, en varð nú að deyja úr sóttinni. Engum varð hann harmdauði og sízt yfirvöldunum, því hann hafði ekki verið dyggur þegn.

Og lýkur svo þessari sögu.