Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Ganti
Einu sinni var kóngur og drottning í ríki og áttu sér dóttur er hét Ingibjörg, og karl og kerling í koti. Karlinn og kerlingin áttu einn son er hét Ganti. Hann var oft að flækjast heima í kóngsríkinu á daginn. Kóngi líkaði það illa og vandaði oft um við strák, en það dugði ekki. Einu sinni dó karlinn og jukust þá ferðir Ganta svo heim í kóngsríkið að hann var þar öllum stundum. Hótaði þá kóngur að láta drepa móður hans ef hann hætti ekki þessu rápi þangað heim. Ganti lét sem hann heyrði það ekki, en hélt uppteknum hætti. Lét þá kóngur drepa móður hans. Þegar svo kóngsmenn voru búnir að því tók Ganti hana og málaði hana alla í framan. Síðan fór hann með hana niður að sjávarströnd þar sem mörg kaupskip lágu fram undan. Þar setur hann hana á bekk svoleiðis að andlitið horfir fram á skipin; en svo var um búið að ekki þurfti nema að koma við bekkinn til þess að hún dytti fram í sjó. Ganti fer nú fram á skipin og spjallar við kaupmenn um hitt og þetta. Við og við segir hann um leið og hann lítur í land: „Ég kem bráðum!“ Kaupmenn furðuðu sig á þessu og spurðu hann á hverju hann væri einlægt að stagast. Hann segir að systir sín siti upp í fjöru og sé hún að kalla á sig; síðan spurðu þeir hann hvort hún væri falleg, og játaði hann því. Báðu þeir hann þá að selja sér hana. Ganti var lengi tregur til, en lét þó til leiðast um síðir; hann selur þeim hana nú fyrir ærna peninga. Fóru nú kaupmenn í land með Ganta og ætluðu að fara að sækja meyjuna, en rétt þegar þeir ætluðu að taka hana kom Ganti við bekkinn; fór hann þá um koll, en kerlingin steyptist fram í sjó. Ganti varð nú óður og uppvægur yfir því að þeir skuli hafa drepið systur sína; síðan segist hann skyldi klaga þá fyrir kónginum fyrir það. Þeir lofa honum öllu góðu og sögðust skyldi gefa honum svo mikla peninga sem hann gæti borið. Lét þá Ganti sefast. Síðan fóru þeir fram aftur og sóktu fullan poka af peningum og fengu Ganta. Ganti heldur nú heim með peningana og þykist vel hafa veitt; og næsta dag fór hann að breiða þá úti um allt kotið. Kóngur kemur þangað og spyr hvar Ganti hafi fengið alla þessa peninga. Hann segist hafa selt kaupmönnum skrokkinn af henni móður sinni. Þegar kóngur heyrði þetta fór hann heim og lét drepa allar kerlingar sem til voru í kóngsríkinu og þar á meðal móður [sína]. Fór hann síðan fram á skip til kaupmanna og spyr þá hvað þeir gefi mikið fyrir dauðar kerlingar. Þeir fara þá að hlæja. og skopast að kóngi svo hann fór heim ver en sneyptur; síðan lætur hann drepa kú Ganta til að hefna sín á honum. Ganti flær svo kúna og tekur af henni belg; síðan fyllir hann belginn með hálfblauta mykju og bindur fyrir ofan. Síðan fer hann fram á skip og býður kaupmönnum ull til sölu; ójá, þeir vilja hana. Fær þá Ganti þeim belginn, en biður þá láta sig hafa borgunina strax því að hann þurfi að flýta sér. Þeir gjöra það og borga honum mikið af peningum fyrir kýrbelginn. Fór nú Ganti heim með peningana, og næsta dag kemur kóngur þar til hans og spyr hvar hann hafi fengið alla þessa peninga. Ganti segir að hann hafi selt kaupmönnunum kúna sem hann hafi látið drepa fyrir sér; segir hann að þeir gefi svo gróflega vel fyrir dauðar kýr. Óðar en konungur heyrði það lét hann drepa tíu kýrnar sínar. Fór hann síðan með þær fram á skip til kaupmanna og spurði þá hvað þeir gæfu mikið fyrir dauðar kýr. Þeir spurðu hvort hann væri vitlaus, hvort hann héldi að þeir keyptu dauðar kýr; og mátti nú kóngur snauta heim ennþá sneyptari og reiðari en áður. Vissi hann nú ekkert hvað hann átti að gjöra Ganta til ills. Loks tekur hann hann þó, lætur hann ofan í kistu og lætur síðan fleygja honum fram á sjó. Er nú Ganti nokkurn tíma þarna í kistunni unz hún rekst að landi; fór hann þá að kveða ef vera kynni að einhver heyrði til hans. Þetta varð líka; fjárhirðir kóngsins var þar með kóngshjörðina á beit rétt á sjávarströndinni og heyrði hann sönginn og sá kistuna. Gekk hann síðan að henni og spurði hvort nokkur væri niðri í henni. Ganti segist vera engill af himnum sendur að gjöra hann farsælan. Þegar fjárhirðirinn heyrði þetta varð hann glaður við og lauk opinni kistunni; var þá ekki Ganti lengi á sér, heldur stökk upp úr henni og kastaði fjárhirðinum niður í hana, skellti henni í lás og hratt henni síðan fram á sjó. Fer hann svo heim í kot með alla sauðahjörðina. En þegar kóngur sá að Ganti kom lifandi með mikla sauðahjörð varð hann alveg hissa og fór til hans og spurði hann hvar hann hefði fengið allt þetta fé. Ganti sagði honum þá að hann hefði farið úr kistunni fram á sjónum og hefði síðan sokkið til botns; hefði þar verið þau lifandi skelfing af fé að hann sagðist aldrei hafa séð annað eins. Sagðist hann mundu hafa tekið miklu meira hefði hann komizt með það. Kóngur bað hann nú blessaðan að segja sér hvar það væri sem hann hefði fundið féð. Var Ganti lengi tregur til, en þó lét hann til leiðast um síðir. Réri hann þá með kóng og alla hirðmenn hans langt fram á sjó og sagði þeim að þarna væri það undir. Stökk þá einn kóngsmanna strax út. Þegar hann var sokkinn sagði Ganti: „Heyrið þið til, hann er farinn að hóa! Hann vill að þið komið sér til hjálpar.“ Stökk þá hver af öðrum út þar til enginn var eftir nema kóngur. Tók Ganti hann þá höndum og sagðist skyldi drepa hann ef hann gifti sér ekki dóttur sína; varð hann að lofa því. Héldu þeir síðan heim og giftist Ganti Ingibjörgu kóngsdóttur og erfði allt ríkið eftir dag tengdaföður síns, en stjórnaði því hálfu á meðan hann lifði.