Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Ganti á hólnum

Einu sinni var kóngur og drottning í riki sínu og áttu þau son sem hét Haraldur og eina dóttur sem hét Helga. Stallbróðir Haraldar hét Sigurður; kom þeim vel saman og voru þeir góðir vinir. Í öðru kóngsríki bjó líka kóngur og drottning; þau áttu eina dóttur sem hét Ingibjörg. Þegar biðlar komu að biðja hennar var hún vön að láta þá bera upp fyrir sér gátu sem hún átti að ráða; ef hún réði hana ekki þá átti hún að eiga biðilinn, en ef hún réði hana lét hún drepa hann. Var hún búin að láta drepa marga því að enginn gat komið með þá gátu sem hún gat ekki ráðið. Haraldur heyrði nú einnig sagt frá þessari kóngsdóttur og vildi hann fara og biðja hennar. Faðir hans vildi það ekki, en þó varð það samt úr að hann fór af stað og Sigurður með honum. Voru þeir tveir einir og báðir ríðandi. Riðu þeir nú lengi lengi þangað til þeir komu að einum hól; þar settust þeir niður að snæða. Varð þeim þá litið upp á hólinn og sáu að strákur einn stóð upp á honum sem ólmaðist og lét öllum illum látum. Haraldur kallaði á hann og spurði hann að nafni; hann sagðist heita „Ganti á hólnum“. Haraldur bað hann svo að passa hestana á meðan þeir Sigurður mötuðust, og gjörði Ganti það. Þegar þeir ætluðu að stíga á bak aftur bauð Ganti þeim að fylgjast með þeim og vera hestasveinn þeirra og þáðu þeir það. Þegar þeir höfðu riðið lengi lengi spurði Ganti hvort þeir vissu hvar þeir kæmu í kvöld. Þeir neituðu því. Hann sagði þeim svo að þeir myndu koma að koti einu; þar byggi þrjár stúlkur sem reyndar væru galdranornir. Sagði hann að þær myndu bjóða þeim þar að vera um nóttina; síðan mundu þær vilja láta þá sofa hjá sér, en það skyldu þeir eigi gjöra nema þær dreyptu á glasi sem hann fékk þeim, áður en þær færu að hátta. Sagði hann þá að þá myndi ekkert saka. Svo sagði hann að áður en þeir færu um morguninn mundu þær vilja gefa þeim epli að eta, en það mættu þeir ekki gjöra því að eplið væri eitrað; samt skyldi þeir taka það með sér og skera það í ellefu parta. Hann sagði þeim ennfremur að þeir þyrftu ekkert að hugsa um hestana; hann sagðist ætla að sjá um þá. Héldu þeir nú áfram þangað til þeir komu að kotinu; stóðu þá stúlkurnar úti og buðu þeim inn og þar að vera um nóttina. Þeir þáðu það. Svo fór allt allt að einu og Ganti hafði sagt: Þær vildu láta þá sofa sjá sér og þeir sögðust skyldi gjöra það ef þær vildu dreypa á glasinu fyrst, og vildu þær vinna það til; en óðara og þær voru háttaðar ultu þær út af steinsofandi og vöknuðu ekki fyr en um morguninn. Þeir Haraldur og Sigurður sváfu vel um nóttina og um morguninn þegar þeir ætluðu að fara að fara komu þær með epli og buðu þeim. Haraldur tók við því, en át það ekki, heldur stakk því í vasa sinn. Þær vildu svo endilega fá þá til að borða það, en þeir vildu það ekki og fóru út. Var þá Ganti þar kominn með hestana. Stigu þeir nú á bak og riðu nú lengi lengi. Þá sáu þeir koma á eftir sér ellefu úlfa. Ætluðu þeir að ráðast á þá, en Ganti sagði þeim að kasta sínum bitanum í hvern úlf. Gjörðu þeir það og drápust úlfarnir þá strax. Síðan skáru þeir sinn bitann úr hverjum úlfi og höfðu með sér. Riðu þeir nú lengi lengi; þá sáu þeir koma á eftir sér ellefu dreka. Sóttu þeir að þeim Haraldi, en Ganti sagði þeim að kasta sínum kjötbitanum sem þeir höfðu tekið af úlfunum, í hvern drekann; þeir gjörðu það og duttu þeir þá dauðir niður. Ganti sagði þeim svo að taka þrjá bita úr einum þeirra og hafa þá með sér. Þeir gjörðu það og stigu svo aftur á bak hestum sínum. Riðu þeir nú enn lengi lengi. Þá spurði Ganti hvort þeir vissu hvar þeir kæmu í kvöld. Þeir kváðu nei við. Hann sagði þeim þá að þeir mundu koma til hellis eins; þar byggju þrír risar. Hann sagði að risarnir mundu bjóða þeim inn. Sagði hann að þeir skyldu þiggja það. Síðan sagði hann þeim hvernig þeir skyldu að fara. Ekkert sagði hann að þeir skyldi hugsa um hestana; hann sagðist skyldi sjá um þá. Riðu þeir nú þangað til um kvöldið; þá komu þeir að hellinum. Stóðu risarnir úti og buðu þeim að vera þar um nóttina. Þeir þáðu það og fóru inn. Þegar þeir höfðu setið inni dálitla stund spurðu risarnir hvert þeir ætluðu. Haraldur varð fyrir svörum og sagði að þeir ætluðu í kóngsríkið þar sem faðir Ingibjargar byggi. Spurðu þá risarnir hvort þeir ætluðu að biðja kóngsdóttur. Játaði Haraldur því. Þá litu risarnir hver upp á annan og spurðu ennfremur hvort hann hefði nokkra gátu handa henni eða hvernig hann ætlaði að ná henni. Sagði þá Haraldur að hann hefði þrjá kjötbita sem hefði þá náttúru að hver sem æti þá, hann fengi kóngsdóttur. Síðan tók hann upp bitana og sýndi þeim, en óðar en þeir sáu þá flugu þeir á Harald, rifu af honum bitana og átu þá. Duttu þeir þá strax dauðir niður. Voru þeir þar svo um nóttina, en um morguninn þegar þeir komu út var Ganti þar kominn með hestana. Stigu þeir nú á hesta sína og riðu allan daginn. Þegar var komið undir kvöld spurði Ganti þá Harald hvort þeir vissu hvar þeir kæmu í kvöld. Hann neitaði því. Ganti sagði að þeir kæmu í kóngsríkið til föður Ingibjargar. Síðan sagði hann honum að hann skyldi biðja um hesthús innan borgar, en ekki utan. Svo spurði hann Harald hvaða gátu hann ætlaði að bera upp fyrir kóngsdóttur. Haraldur sagði honum það. Ekki sagði Ganti að það væri til neins að bera þá gátu upp fyrir henni því að hún myndi strax geta ráðið hana. Spurði þá Haraldur Ganta hvort hann kynni nokkra gátu sem hún myndi ekki geta ráðið. „Vera má,“ sagði Ganti, „og skaltu bera þessa gátu upp fyrir henni: Ávöxtur jarðar drap ellefu sporhunda; sporhundarnir dauðir drápu ellefu varga og einn vargur dauður drap þrjá risa.“ Haraldur þakkaði Ganta fyrir gátuna. Segir nú ekki af ferðum þeirra fyr en þeir komu í kóngsríkið. Var þar tekið vel á móti þeim. Haraldur fékk sér hesthús í borginni og varð Ganti í hesthúsinu að passa hestana. Kom nú Ingibjörg til móts við Harald og spurði hann hvort hann hefði nokkra gátu að bera upp fyrir sér. Sagði þá Haraldur: „Ávöxtur jarðar drap ellefu sporhunda; sporhundarnir dauðir drápu ellefu varga og einn vargur dauður drap þrjá risa.“ Þegar hún heyrði þessa gátu bað hún hann um frest til næsta morguns og gaf hann henni þann frest. Um kvöldið sendi hún þernuna sem var næst hinni beztu til hestastráksins og bað hana að komast eftir því hvað gátan þýddi. Fór hún nú af stað í línklæðum einum með fullan krásadisk sem hún átti að tæla hann á. Þegar hún kom til hesthússins bað hún Ganta að ljúka upp og lofa sér að koma inn; sagðist hún vera komin í erindagjörðum fyrir kóngsdóttur. Lauk þá Ganti upp húsinu og hleypti henni inn. Sagði hún þá að kóngsdóttir hefði sent sig til að spyrja hann að hvað gátan sem Haraldur hefði borið upp þýddi; sagði hún að ef hann segði sér það þá mætti hann eta allar krásirnar af diskinum, en ef hann vildi það ekki þá skyldi hann verða drepinn. Ganti hélt að hann myndi ekki geta ráðið þær gátur sem kóngsdóttirin gæti ekki leyst úr. Hún bað hann því betur, en hann varð því verri; samt sagði hann að hann skyldi eta af diskinum og vita hvort sér dytti ekkert snjallræði í hug á meðan hann væri að eta. Fékk hún honum nú diskinn og hann át af honum. Þegar hann var búinn að borða af diskinum bað þernan hann að draga sig nú ekki á svarinu lengur, heldur segja sér hvað gátan þýddi. Ganti varð hinn versti og sagði að hann segði henni það ekkert nema hún færi úr línklæðunum. Varð hún þá að gjöra það nauðug viljug; en þegar það var búið tók Ganti hana og rassskellti hana og sagði henni að fara nú með þetta til kóngsdóttur. Fór hún nú heim og sagði sínar farir eigi sléttar. Næsta morgun sagði Ganti Haraldi allt hvernig farið hafði og þakkaði hann honum vel fyrir og bað hann fyrir alla muni að segja það ekki og lofaði hann því. Sama dag kom kóngsdóttir til Haralds og sagðist ekki vera búin að ráða gátuna, en bað hann um frest til næsta dags og lofaði Haraldur því. Þetta kvöld sendi Ingibjörg beztu þernuna sína til hestavarðarins að fá ráðningu gátunnar, en fór ekki betri för en hin fyrri, því að það fór að öllu leyti eins fyrir henni. Næsta dag sagði kóngsdóttirin að ennþá væri hún ekki búin að ráða gátuna, en bað hann um frest til næsta dags; ef hún væri þá ekki búin að ráða hana skyldi hann eiga sig. Haraldur féllst á það. Nú kom Ganti til Haralds og sagði honum að ekki væri allt búið enn, því að nú mundi kóngsdóttir sjálf koma í hesthúsið í kvöld og mundi ekki verða gott að komast undan henni. Sagði hann að Haraldi væri bezt að vera sjálfum í hesthúsinu í nótt og taka á móti henni; bað hann hann umfram alla muni að eta af diskinum svo hana grunaði ekki neitt; einnig bað hann að hlífa henni ekki þegar hann færi að hýða hana. Haraldur lofaði því; því næst klæddi hann sig í tötra Ganta og fór síðan í hesthúsið. Þetta kvöld fór kóngsdóttirin sjálf og ætlaði að veiða ráðninguna upp úr hestastráknum, en það fór að öllu eins fyrir henni og þernum sínum nema að Haraldur kaghýddi hana svoleiðis að hún komst með naumindum heim í skemmu sína. Snemma um morguninn kom Ganti og hafði klæðaskipti við Harald. Þennan dag sendi kóngsdóttirin Haraldi boð og sagðist ekki geta ráðið gátuna svo hann mætti nú eiga sig. Sigurður bað þá æðstu þernunnar sér til konu, en hún vildi ekki eiga hann nema hann gæti borið upp fyrir sér þá gátu sem hún gæti ekki ráðið. Fór þá Sigurður til Ganta og bað hann að leggja sér nú einhver ráð. Sagði Ganti honum þá að hann skyldi bera upp fyrir henni þessa gátu: „Þrjár gæsir flugu fiðraðar heiman, en komu heim aftur plokkaðar.“ Sigurður fór nú með þetta til þernunnar. Reyndar vissi hún vel hvað þessi gáta átti að þýða, en hún vildi ekki láta vita það að hún hefði verið í hesthúsinu hjá hestastráknum, og lofaðist hún því Sigurði. Var nú haldið brúðkaup þeirra með miklum veg og sóma. Fyrstu nóttina sem Haraldur ætlaði að sofa hjá konu sinni sagði Ganti við hann að ef honum þætti nokkuð varið í það sem hann hefði gjört fyrir hann þá ætti hann að lofa sér að sofa til fóta hans um nóttina. Haraldur sagði að það væri ekki of mikið fyrir allt sem hann hefði hjálpað sér. Um morguninn þegar Haraldur vaknaði sá hann undurfallegan kóngsson liggja í rúminu, en strákshamurinn á gólfinu. Tók Haraldur þá strákshaminn og brenndi hann, en dreypti á kóngssoninn. Sagði hann þá Haraldi að hann hefði verið í álögum; hefðu risarnir stolið sér frá föður sínum og lagt það á sig að hann skyldi vera eins og nokkurs konar fífl þangað til einhver kóngsson lofaði honum að sofa hjá sér fyrstu nóttina sem hann svæfi hjá konunni sinni. Sagðist hann heita Hringur. Þeir Haraldur og Hringur héldu nú heim, en Sigurður varð þar eftir og erfði ríkið eftir föður Ingibjargar. Haraldur settist svo að í ríki föður síns. Hringur kóngsson giftist svo Helgu systur Haraldar og hélt svo heim í ríki sitt. Áttu þessir konungar svo allir börn og burur og grófu rætur og murur o. s. frv.