Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Grámann
Grámann
Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í koti sínu. Kóngur var auðugur mjög að gangandi fé, en ekki átti hann nema eina dóttur barna og bjó hún sér í veglegri skemmu með meyjum sínum. Karlinn var fátækur; hann átti ekkert barn, en hafði viðurværi sitt og kerlu sinnar af einni kú sem þau áttu.
Einu sinni sem oftar fór karlinn til kirkju og lagði presturinn út af gjafmildinni og fyrirheiti hennar. Þegar karlinn kom heim frá kirkjunni spurði kerling hvað hann segði sér gott úr messunni. Karlinn lét ríflega yfir því og var hinn glaðasti, sagði að í dag hefði verið gott að heyra til prestsins; því hann hefði sagt að sá sem gæfi, honum mundi gefast þúsundfalt aftur. Kerlingu þótti þetta æði djúpt tekið í árinni og hélt að karl sinn hefði ekki tekið rétt eftir orðum prests. En karl var fastur á því og körpuðu þau um það stundarkorn, en hvort hélt þó sinni ætlan um þetta. Daginn eftir tekur karlinn sig til, fær sér fjölda manna og byggir sér fjós fyrir eina þúsund kúa. Kerling amaðist mjög við heimsku þessari sem hún kallaði svo, en fékk engu tauti við ráðið. Að fjósbyggingunni endaðri fer nú karlinn að hugsa um hverjum hann eigi að gefa kúna sína. Vissi hann nú engan nógu ríkan til þess að gefa sér fyrir hana þúsund kýr nema ef það væri kóngurinn sjálfur, en hann kom sér ekki að því að fara til hans. Hann réð þá loksins af að fara til prestsins því hann vissi af honum vel efnuðum og hélt að hann mundi og sízt láta orð sín til skammar verða. Fer nú karlinn og teymir kúna sína til prestsins hvernig sem kerlingin setti sig á móti því. Finnur hann prest og gefur honum kúna. Prestur undrast það og spyr hverju þetta sæti. Karl segir honum allan aðdraganda og orsök gjafarinnar. Prestur brást þurrlega við og sneypir karlinn fyrir ranga eftirtekt og hártogun orða sinna og rekur hann heimleiðis aftur með kúna. Fer karl þá og teymir eftir sér kúna og þykir ferðin orðin ill. En á leiðinni gjörir á hann niðmyrkan norðanbyl með frost svo hann villist og sér nú ekki annað en hann muni sjálfsagt missa kúna og líklegast verða úti sjálfur. En í því hann er að hugsa um þessi bágindi sín kemur að honum gangandi maður með stóran sekk á bakinu. Maðurinn spyr karlinn hvernig á því standi að hann sé þar í slíku veðri með kú á ferð. Karl segir honum þá allt hvernig á standi. Hinn segir að hann megi vera viss um að missa kúna og óvíst að hann komist lífs af sjálfur. „Er þér miklu betra, karl minn,“ segir hann, „að láta mig fá kúna fyrir sekkinn sem ég ber; því þú getur vel komizt áfram leiðar þinnar með hann, en í honum er kjöt og bein.“ Og hvort sem þeir töluðu um þetta lengur eða skemur þá höfðu þeir kaupin. Tók maðurinn kúna og fór burt með hana, en karl vasaði á stað með sekkinn og þótti hann firna þungur. Komst nú karl heim og sagði kerlingu sinni hvernig farið hefði um kúna, en lét drýgilega yfir sekknum. Byrstist þá kerling, en karl bað hana hið skjótasta að setja upp pott með vatni. Setti hún upp stærsta pottinn í kotinu og fyllti hann með vatni. Þegar vatnið sauð fór karlinn að leysa frá sekknum og var nú heldur en ekki hreifingur í honum. En þegar hann var búinn að leysa frá sekknum hljóp upp úr honum lifandi maður fulltíða í gráum fötum frá hvirfli til ilja og sagði að þau mundu verða að sjóða eitthvað annað en sig. Varð nú karlinn hissa, en kerlingin bálvond og sagði að þarna væri hann kominn með flónskuna. „Fyrst hefur þú skilið okkur,“ segir hún, „við þann eina bjargargrip sem við áttum, svo nú erum við bjargarlaus með öllu, og þar á ofan bætt á okkur heilum manni til að fæða.“ Jöguðust þau karl og kerling nú góðan tíma út úr þessu þangað til Grámann segir að ekki tjái þetta, hann skuli fara á stúfana og vita hvort hann geti ekki útvegað þeim og sér eitthvað að éta því skamma stund muni þau þrífast á nöldrinu. Stökk þá Grámann burt út í myrkrið og kom bráðum aftur með gamlan og feitan sauð og bað þau skera hann og matreiða. Voru þau fyrst treg til þess því þau þóttust vita að sauðurinn væri stolinn, en þó gjörðu þau það á endanum. Lifðu þau nú glatt í kotinu á meðan sauðurinn entist og undireins og hann var búinn sótti Grámann annan og svo hinn þriðja, fjórða og fimmta. Þótti nú karli og kerlingu mjög vænt um Grámann fyrir aðdrætti hans og lifðu í allsnægtum á tómu sauðakjöti.
Nú víkur sögunni heim í kóngsgarð. Sauðamaður konungs fór að taka eftir því að honum voru smátt og smátt að hverfa sauðir úr hjörðinni. Hann kunni ekki lag á því og segir nú kóngi frá að sig vanti fimm sauði sem hafi verið að smáhverfa og hann skilji ekkert í hvernig farizt hafi; þar hljóti að vera þjófar í nágrenninu. Fór þá kóngur að rannsaka hvort nokkur maður væri nýfluttur inn í sveitina og komst að því á endanum að maður væri nýkominn til karls og kerlingar í garðshorni sem enginn vissi nein deili á. Gjörði hann þá boð eftir manninum að finna sig upp í kóngsgarðinum. Grámann brá við og fór, en karl og kerling urðu dauðhrædd um að nú mundu þau missa þenna bjargvætt sinn, því hann mundi nú verða hengdur fyrir þjófnað. Þegar Grámann kemur í kóngsgarð spyr kóngur hann hvort hann hafi stolið frá sér fimm sauðum gömlum sem sér hafi horfið. Grámann segir: „Já, herra, það hef ég gjört.“ Kóngur spurði þá hvers vegna hann hefði gjört það. Þá segir Grámann: „Ég gjörði það af því að karl og kerling í garðshorni eru vita bjargarlaus og hafa ekkert til að éta og eiga ekki neitt til af neinu, en þú, konungur, hefur allsnægtir og átt miklu meira til en þú þarft á að halda og kemur ekki mat þínum í lóg. Nú þótti mér þetta miklu jafnara að karl og kerling hefðu nokkuð af því sem þú þurftir ekki á að halda en að þau brysti, en þú hefðir ofnóg.“ Kóngur varð hálfhissa við orð Grámanns og spyr hvort það sé hans eina eða hans bezta list að stela. Grámann lætur lítið yfir því. Þá segir kóngur að hann skuli gefa honum upp sökina ef hann geti á morgun stolið uxa sínum fimm vetra sem hann ætli að senda menn sína með út á skóginn. En geti hann það ekki, þá skuli hann verða hengdur. Grámann segir að þetta sé ómögulegt því hann muni láta passa uxann. Kóngur segir að fyrir því verði hann sjálfur að sjá. Fer nú Grámann heim og fagna þau honum vel karlinn og kerlingin. Grámann segir karlinum að taka til handa sér reiptagl því hann þurfi að halda á því í bítið á morgun. Karl gjörir það. Sofa þau nú öll um nóttina.
Snemma um morguninn fer Grámann á fætur, tekur reiptaglið og gengur í burtu. Gengur hann út á skóg þar sem hann vissi að leið kóngsmanna með uxann lá um. Snýr hann þar að eik einni stórri skammt frá veginum, bregður reipinu um háls sér og hengir sig upp í eikina. Skömmu síðar koma kóngsmenn með uxann. Þeim verður litið við og sjá hvar Grámann hangir í eikinni. Þá segja þeir að við einhverja hafi Grámann gletzt fleiri en kónginn; því þarna hafi þeir nú einhverjir hengt hann og muni þeir ekki þurfa að óttast piltinn að hann taki af þeim uxann héðan af. Veittu þeir svo þessu ekki meiri gaum og héldu áfram sína leið. Þegar kóngsmenn voru komnir í hvarf fer Grámann niður úr eikinni og hleypur eftir leynistíg um skóginn fram fyrir kóngsmenn og hengir sig þar aftur upp í eik eina spottakorn frá veginum. Þegar kóngsmenn koma þar verður þeim litið á hvar Grámann hangir í eikinni. Kynjar þá nú á þessu og skilja ekki í, hverjum brögðum þeir séu beittir. „Ætli þeir séu þá tveir til, óræstis Grámennirnir þeir arna?“ segja þeir. „Það væri gaman að forvitnast um það og skulum við snöggvast skreppa til baka og sjá hvað hinum Grámanninum líður og vita svo hvort þetta er sá sami,“ segja þeir. Binda þeir nú uxann við eik og snúa aftur. En er leiti bar á milli þaut Grámann niður úr eikinni, leysti uxann og leiddi hann hið skjótasta heim til sín í garðshorn. Skipaði hann karli og kerlingu að slátra uxanum í snatri, lét flá belg af honum og steypa tóm kerti úr tólginni. Var nú heldur en ekki glatt á hjalla í kotinu.
Nú er að segja frá kóngsmönnum. Þegar þeir koma að eikinni sem hinn fyrri Grámann hékk í var þar enginn Grámann; hlupu þeir þá að hinni eikinni, en gripu þar eins í tómt því þar var enginn Grámann og uxinn var horfinn frá eikinni sem hann átti að vera við. Nú sáu kóngsmenn fyrst hverjum brögðum þeir voru beittir og fóru heim og sögðu kónginum frá hvar komið var. Lætur þá kóngur undireins boða Grámann á sinn fund og verða þau karl og kerling dauðhrædd því nú töldu þau víst að Grámann sinn yrði miskunnarlaust hengdur. En Grámann kærði sig hvergi og fór þegar á kóngsfund. Þá segir kóngur: „Stalstu uxanum mínum, Grámann?“ „Já, herra,“ segir hann, „ég mátti til til að bjarga lífinu.“ Þá segir kóngur: „Ég skal enn gefa þér þessa sök upp ef þú stelur í nótt rekkjóðunum úr rúminu undan okkur, mér og drottningunni minni!“ „Það getur enginn,“ segir Grámann, „eða hvernig á ég að komast inn í kóngsgarðinn og fara að því?“ „Það máttu segja þér sjálfur,“ segir kóngur, „en líf þitt liggur við.“ Skilja þeir nú og fer Grámann heim í garðshorn; þykjast þau karl og kerling hafa heimt hann úr helju og fagna honum vel. Hann tekur þá nokkrar merkur af mjöli og biður kerlingu sjóða graut og hafa hann í þykkara lagi. Hún gjörir það og þegar grauturinn var búinn lætur Grámann hann í dálitla skjólu og hefur lok yfir skjólunni svo grauturinn kólni ekki mikið. Síðan labbar hann með skjóluna heim í kóngsgarðinn og getur laumazt inn í hann um kvöldið svo enginn varð var við og felur sig síðan inni í einhverju skúmaskoti. Síðan var kóngsgarðinum rammlega lokað því nú átti ekki að láta Grámann komast inn í hann. En þegar Grámann vissi að allir voru sofnaðir inni í kóngsgarðinum og kóngur og drottning í fasta svefni, þá gengur hann inn að rúminu þeirra mjög hljóðlega og lyftir ofan af þeim fötunum ofan að miðju. Síðan lætur hann grautinn drjúpa með hægð úr skjólunni niður í rúmið milli kóngs og drottningar og hverfur svo frá rúminu út í horn á herberginu. Drottning vaknar við þegar grauturinn draup á hana. Henni verður bilt við, vekur kóng og segir: „Hvað er þetta? Þú hefur gjört í rúmið, elskan mín.“ Kóngur vildi ekki kannast við það og kenndi drottningu um og kýttu þau um það dálítið. Á endanum réðu þau það af að þau tóku rekkjuvoðirnar úr rúminu og fleygðu þeim með öllu saman fram á gólf. Síðan sofnuðu þau aftur. Tekur þá Grámann rekkjuvoðirnar, vefur þær saman, stingur undir handkrika sér og labbar með þær heim í kot til karls og kerlingar. Fær hann þeim rekkjuvoðirnar, segir þeim að hreinsa úr þeim grautarvelluna og reyna svo að nota þær í bólið sitt.
Morguninn eftir þegar kóngur og drottning vakna sjá þau að rekkjuvoðirnar eru horfnar. Skilur þá kóngur hvernig á öllu muni standa, að Grámann muni hafa stolið þeim. Gjörir hann nú boð fyrir Grámann og nú telja þau karl og kerling víst að hann muni verða hengdur og kveðja hann vandlega. Grámann gengur tafarlaust upp í garðinn og kóngur spyr: „Stalstu rekkjóðunum úr rúminu í nótt undan okkur drottningu minni?“ „Já, herra,“ sagði Grámann, „það gjörði ég; því ég mátti til að leysa líf mitt.“ Þá segir kóngur: „Ég skal gefa þér upp allar þínar sakir við mig ef þú stelur nú í nótt okkur báðum, mér og drottningunni minni, úr rúminu okkar. En ef þér mistekst það skaltu vægðarlaust verða hengdur,“ segir hann. „Það getur enginn maður,“ segir Grámann. „Sjá þú fyrir því,“ segir kóngur. Skilja þeir nú og fer Grámann heim í garðshorn. Fagna þau honum alúðlega, karl og kerling, og þykjast nú hafa heimt hann úr helju, hann Grámann sinn. Um kvöldið þegar myrkt var orðið tekur Grámann feikilega kollháan hatt og barðamikinn sem karlinn átti, stingur á kollinn á honum gat við gat og raðar þar í nautstólgarkertunum og svo um börðin öll allt í kring. Síðan festir hann ótal kerti utan um sig allan kroppinn hátt og lágt. Í þessum búningi, með hattinn á höfðinu og uxabelginn í hendinni, labbar hann nú heim í kóngsgarðinn og inn í kirkju; þar leggur hann belginn af sér í kórnum. Síðan kveikir hann á öllum kertunum á sér og gengur svo til klukknanna og hringir. Vakna þau við klukknahljóðið, kóngur og drottning og líta út um gluggann til að sjá hvað um væri að vera. Þau sjá þá ljómandi mannsmynd standa við kirkjudyrnar og geislaði út af henni á alla vegu. Kóngur og drottning urðu hissa við sjón þessa og þóttust vita að hér væri kominn engill af himnum til að boða einhver stórtíðindi á jörðu. Kom þeim ásamt að fagna slíkum gesti vel, biðja hann miskunnar og veita honum sæmilega lotningu. Klæðast þau nú skjótt í kónglegan skrúða og ganga út til engilsins. Ávarpa þau hann knékrjúpandi og biðja sér miskunnar og fyrirgefningar á syndum sínum. En hann sagðist ekki veita þeim bæn þeirra annarstaðar en fyrir altarinu í kirkjunni. Fylgja þau nú englinum þangað og þegar þar var komið segist hann skuli fyrirgefa þeim allar þeirra syndir, en þó með vissu skilyrði. Þau spyrja hvert það skilyrði sé. Hann segir það sé það að þau fari bæði ofan í belginn sem liggi þarna hjá þeim á kórgólfinu. Þeim þótti kosturinn góður og skriðu undireins bæði ofan í belginn. En óðar en þau voru komin það greip engillinn fyrir opið á belgnum og batt rammlega fyrir. Kóngur spurði hvernig á þessu stæði. Engillinn segir þá og hristir um leið af sér öll ljósin: „Ég er enginn engill, kóngur minn,“ og um leið dregur hann belginn óþyrmilega fram eftir kirkjugólfinu, „heldur er ég kunningi þinn, Grámann í garðshorni. Er ég nú búinn að stela þér og drottningu þinni eins og þú skipaðir mér í gærkvöldi og ætla nú að fyrirgefa þér syndirnar með því að drepa ykkur bæði nema þú veitir mér undireins eina bón sem ég ætla að biðja þig um og vinnir mér eið að því áður en ég hleypi þér upp úr belgnum.“ Kóngur sá sér nú ekki annað fært en gjöra allt sem Grámann vildi, og sór þegar að hann skyldi veita honum hverja bæn sem hann beiddi sig um. Leysti þá Grámann frá belgnum og hleypti þeim út kóngi og drottningu. Segir þá Grámann kónginum að hann ætli að biðja hann að gefa sér dóttur sína og hálft kóngsríkið með og leyfa sér að hafa karlinn og kerlinguna í garðshorni hjá sér. Kóngur játti þessu og bundu þeir það fastmælum. Síðan fer Grámann niður í garðshorn og hittir karl og kerlingu. Er hann nú drjúgur yfir sér við þau og biður þau að dubba sig dálítið upp því þau eigi nú að flytja búferlum. Það datt ofan yfir karl og kerlingu að heyra þetta og þó gekk enn meira yfir þau þegar Grámann sagði þeim allt sem til stóð. Um daginn fór Grámann með karl og kerlingu upp í kóngsgarðinn og var honum þar vel tekið. Gekk hann þá að eiga kóngsdóttur og tók við hálfu ríkinu. En til skemmtunar í brúðarveizlu sinni sagði Grámann frá því að hann væri sonur nágrannakóngsins. Hefði hann orðið áskynja um ráðabrugg karlsins í garðshorni og tekið sig saman við prestinn kóngsins að láta orð hans sem karlinn byggði allt á rætast, og segist hann nú vona að karlinn sé búinn að fá kúna sína þúsundfalt borgaða.
Lifði Grámann síðan lengi og vel með drottningu sinni og tók við ríkinu öllu eftir kóngsins daga og stýrði því með snilld og prýði til elli. En karl og kerling voru hjá honum til dauðadags í góðu yfirlæti. Og lýkur hér sögu Grámanns.