Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Grænklædd

Karl og kerling bjuggu í garðshorni og áttu þrjár dætur, Signýju, Oddnýju og Helgu. Helga var olbogabarn foreldra sinna. Þær karlsdætur höfðu þann sið að þær sátu á kletti og voru að spinna. Eitt sinn datt snælda hjá Helgu. Signý reiddist við systur sína og fleygði henni ofan fyrir klettana. Helga kom niður á mjúkan sand og kenndi einskis meins og er hún stóð upp fann hún konu á grænum fötum. Hún spyr hana að heiti, hún kvaðst heita Grænklædd. Helga bað hana vetrarvistar; hún játti því með því skilyrði að hún væri í fjósinu og væri góð við það sem kæmi í fjósið til hennar. Fékk Grænklædd henni ull er hún skyldi vinna um veturinn. Fyrsta kvöldið sem Helga mjólkaði kýrnar komu til hennar tíu mýs og tíu kettir; hún gaf þeim að drekka svo mikla mjólk sem þær vildu og færði svo Grænklædd afganginn, en á hverjum degi komu til Helgu tíu karlmenn og tíu kvenmenn og settust við vinnu með henni.

Þetta gekk allan veturinn þangað til á sumardaginn fyrsta, þá skilaði Helga vinnu sinni. Grænklædd gaf henni kistil logagylltan nema brenndan í horninu og sagði henni hún skyldi hverfa upp á klett til systra sinna, en er þær sáu kistilinn steypti Signý sér ofan fyrir klettinn og hitti Grænklædd, bað hana vetrarvistar; og játti hún því með sama skilyrði og við Helgu. En á hverju kvöldi komu til hennar sem til Helgu tíu mýs og tíu kettir og barði hún þær alltaf burtu og á hverjum degi komu til hennar tíu karlmenn og tíu konur og helltu grút ofan í ull hennar svo hún gat ekkert unnið. Á sumardaginn fyrsta segir Signý við Grænklædd að hún hafi ekkert getað unnið því ullinni hafi verið spillt fyrir sér. Grænklædd segir að henni hafi verið nær að vera góð við það sem kæmi í fjósið. Grænklædd gaf henni logagylltan kistil og segir henni að hverfa aftur til systra sinna og það gjörði hún. Síðan fór Oddný, og gekk á sömu leið fyrir henni og Signýju.

Nú leið þangað til tveir prestssynir og einn kóngssonur komu þar við land og beiddu þeirra systra; kóngssonur fékk Helgu. En þegar Helga lauk upp kistli sínum var í honum kóngs- og drottningarskrúði, en þegar systur hennar luku upp sínum kistlum var ekkert í þeim nema eiturpöddur so þær brunnu allar upp, en kóngssonur og Helga sigldu úr landi og unnust vel og lengi.