Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Hálfdan heimski
Hálfdan heimski
Einu sinni var kerling í koti sínu. Hún átti son sem Hálfdán hét og ólst upp með henni. Henni þókti hann seinn til allrar menningar.
Einhverju sinni kemur hún að máli við hann og segir honum að hann skuli fara heim í kóngsríki og taka eftir því sem hann sjái þar svo að hann læri góða siðu og mannist. Drengur gjörir svo. Líður til þess seinna um daginn að hann kemur heim aftur. Spyr móðir hans hann þá að hvað fyrir hann hafi borið. Drengur kvaðst hafa mætt kóngsdótturinni. „Hvað varð þér þá að orði?“ sagði kerling. Hann sagði: „Ekki neitt nema ég sagði: ,Hvort ætlar þú, horngrýtis pútan?'“ „Æ, hvaða ósköp voru á þér, drengur, þú áttir að segja: ,Heiðarleg jómfrú, dóttir kóngsins.'“ „Ég skal gera svo á morgun, mín góða móðir,“ segir drengur. Daginn eftir fór hann og heim í kóngsríki. Þegar hann kom heim aftur til kerlingar spyr hún hann að hvað fyrir hann hafi nú borið. Hann segist hafa séð að menn hafi verið að hengja tík. „Hvað sagðir þú þá?“ segir kerling. „Ég sagði,“ segir drengur, „það sem þú sagðir mér í gær: ,Heiðarleg jómfrú, dóttir kóngsins.'“ „Ósköp voru á þér, barn; þú áttir að segja: ,Svo skal hunda til gálga hafa,'“ segir kerling. „Ég skal gera svo á morgun, mín góða móðir,“ segir drengur. Drengur fer enn heim í kóngsríki daginn eftir, mætir líkfylgd mikilli og var þar drottning kóngsins höfð út til grafar. Strákur gengur heim síðan, og spyr móðir hans hann að hvað hann hafi séð og sagt. Hann segir henni það og að hann hafi sagt það sem hún hafi kennt sér í gærdag: „Svo skal hunda til gálga hafa.“ „Ósköp voru á þér, barn,“ segir kerling; „þú áttir að segja: ,Léttist meir og meir.'“ „Ég skal gera svo á morgun, mín góða móðir.“ Síðan fer drengur heim í kóngsríki daginn eftir og sér að verið er að vega gull. Hoppar hann þar í kring og segir: „Léttist meir og meir.“ En mennirnir sem voru að vega gullið reiddust honum fjarskalega því gullið vóst svo illa og kenndu þeir það ummælum hans og ráku hann síðan burt. Kemur hann svo heim til móður sinnar og segir henni hvað hann hafi nú heyrt og séð og sagt. „Ósköp voru á þér, barn,“ segir hún; „þú áttir að segja: ,Þyngist meir og meir.'“ „Ég skal gjöra svo á morgun, mín góða móðir,“ segir drengur. Daginn eftir fer hann heim [í kóngsríki] og mætir líkfylgd í borginni. Hann verður þess áskynja að þar er kóngur sjálfur borinn til grafar. Segir þá drengur það sem móðir hans kenndi honum daginn áður: „Þyngist meir og meir.“ Varð kistan þá svo þung að hún ætlaði að sliga þá sem hana báru. Ráku burðarmenn strák þá burtu og fer hann svo heim og segir allt af sínum ferðum og hvað hann hafi sagt: „Ósköp voru á þér barn,“ segir kerling. „Þá áttir að segja: ,Sælar eru sálir framliðinna sem í drottni dánar eru.'“ „Ég skal gera svo á morgun, mín góða móðir,“ segir drengur. Daginn eftir fer drengur enn heim í kóngsríki og sér hann þar að verið er að kæfa hvolpa. Hann segir þá: „Sælar eru sálir framliðinna sem í drottni dánar eru.“ Fór hann svo heim og sagði móður sinni allt af ferðum sínum. Hún lét illa yfir og bað hann ekki venja komur sínar í kóngsríki framar.