Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Helga forvitna
Helga forvitna
Einu sinni voru kall og kelling sem áttu eina dóttur; hún hét Helga og ólst upp heima hjá foreldrum sínum sem voru vel efnuð. Það bar til eitt sinn að hjónin fóru til kirkju, en Helga var ein heima. Móðir hennar léði henni alla lykla sína og sagði hún mætti ljúka upp öllum hirzlum sínum og skoða í þær sér til skemmtunar, en hún skyldi varast að ljúka upp brunnhúsinu litla. Helga lofaði því. En þegar hún var ein langaði hana mest til að koma í brunnhúsið og sinnti lítið um að skoða annað. Hún fór því þangað og lauk upp, en sá þar ekkert nema lítinn brunn. Þótti henni kátlegt að móðir sín skyldi banna sér að skoða þetta hús sem ekkert væri í, en hugsaði þó að eitthvað hlyti að vera hér merkilegt, horfði því vandlega í krók og kring og seinast einblíndi hún lengi ofan í brunninn. Þá sýndist henni ljósgeisla leggja upp í vatnið og kom nú í hug að eitthvað væri þar niðrí undarlegt. Hún réði því af að steypa sér á höfuðið niðrí brunninn. Þarna leið hún lengi ofan eftir þar til hún kom á grænar grundir og yfrið fagrar og var blíða sólskin. Þá sér hún standa skammt frá sér lítið hús og gengur þangað og ber að dyrum. Kona kemur út bláklædd. Helga spyr hana að heiti; hún segist heita Blákápa: „En þú ert Helga kallsdóttir, óhlýðna stelpan sem gegndir ekki henni móður þinni.“ Helga bað hana lofa sér að vera og gjörði konan það með illu og lét hana sofa hjá sér.
Daginn eftir sagðist Blákápa þurfa að fara að heiman, fékk Helgu alla lykla sína, en bannaði henni að ljúka upp fjósinu sínu. Þegar Blákápa var farin sinnti Helga engu nema að koma í fjósið, gekk þangað og lauk upp. Þá sér hún þar inni mikinn mykjuhaug nálega upp í mæni, en innan við stóð kýr og streymdi mjólk úr spenum hennar niðrí mykjuna. Helgu ofbauð þetta, sótti skjólu og mjólkaði óvenju af mjólk úr kúnni; það var eins og kúnni þætti vænt um þetta. Síðan mokaði Helga út allri mykjunni og hreinsaði fjósið. Um kvöldið þegar Blákápa kom heim var hún miklu betri við Helgu. Daginn eftir sagði hún við hana: „Í dag muntu koma til Grænkápu systur minnar og mun hún verða miklu verri við þig en ég.“
Síðan fór Helga af stað og að öðru húsi. Þar stóð kona úti í grænni kápu. Helga heilsaði henni, spurði að nafni og bað gistingar. Konan sagðist heita Grænkápa og ávítaði Helgu fyrir óhlýðni við móður hennar og systur sína Blákápu. Þó varð Helga þar um nóttina og kelling hin versta við hana og lét þó hvílast hjá sér. Daginn eftir fór Grænkápa að heiman, fekk Helgu lykla sína og sagði hún mætti ganga um allt sitt, nema eitt hús mætti hún ekki opna, og sýndi henni það. Þegar konan var farin þoldi Helga ekki við fyrir forvitni að skoða í húsið sem bannað var, gekk þangað og lauk upp. Þar var þá allt inni óhreint og fullt af hégóma. Vefstóll stóð á gólfinu og silkivefur uppi. Hann var allur slitinn og rykugur. Helga sópaði nú allt húsið og vefinn, bætti alla þræði og fór að vefa, en það gekk furðu fljótt því vefstóllinn óf að mestu leyti sjálfur. Um kvöldið kom Grænkápa heim og var miklu betri við Helgu. Daginn eftir segir hún við Helgu: „Í dag muntu koma til Rauðkápu systur minnar og verður hún verst við þig.“
Nú fer Helga af stað og finnur um kvöldið Rauðkápu hjá húsi hennar. Hún tók Helgu allra verst og níddi hana fyrir óhlýðni og forvitni. Þó lofaði hún henni að liggja um nóttina í hundabóli á gólfinu. Það heyrði Helga að konan emjaði sárlega um nóttina, en þó leið svo til dags að ekki varð annað tíðinda. Um morguninn fór Rauðkápa að heiman, en sagði áður við Helgu: „Varastu að leggjast í rúmið mitt í dag, annað banna ég þér ekki.“ Þegar konan var farin hugsaði Helga ekki um annað en hvað úr því gæti orðið þó hún legðist í rúmið, og þoldi sér ekki við, gekk því að rúminu og lagði sig út af. Þegar hún hafði legið litla stund skriðu tveir ormar hræðilegir undan rúminu, stukku upp í það og rifu til á brjósti Helgu þangað til þeir náðu geirvörtunum. Þær sugu þeir af öllu afli og hafði Helga enga viðþolun, en gat þó ekki reist sig upp. Það vildi svo til að hún hafði hníf hjá sér; honum náði hún og gat drepið báða ormana. Síðan komst hún á fætur, brenndi ormana, hristi upp allt í rúminu og bjó um, en öll rúmklæðin voru af silki. Þegar Rauðkápa kom heim um kvöldið var hún hin bezta við Helgu og segir: „Þú hefir gjört okkur systrum mikinn velgjörning. Við erum konungs dætur, en hann hataði okkur og lagði á okkur ill forlög. Blákápu gaf hann kú í heimanmund, en það fylgdi með að hún skyldi aldrei geta mjólkað hana og aldrei mokað undan henni. Grænkápu gaf hann silkivefstól sem vóf sjálfur með lítilli hjálp, en aldrei skyldi Grænkápa geta haft gagn af honum. Mér gaf hann silkisæng, en það fylgdi með að tveir eiturormar skyldi kvelja mig í henni hverja nótt og þó skyldi ég hvergi geta hvílzt annarstaðar. Þessi álög skyldi á liggja þangað [til] sú kona kæmi úr mannheimum sem hjálpaði okkur þótt við bönnuðum henni harðlega það sem létt gæti nauðum okkar, en það skyldum við verða að gjöra. Nú er okkur öllum bjargað af þér og skulum við launa þér það og verða þér í sinni.“ Síðan gáfu þær systur Helgu þrennan hátíðarklæðnað og marga dýrgripi. Síðan hjálpuðu þær henni upp um brunninn. Foreldrar Helgu urðu henni fegnir og spurðu hana tíðinda, en hún sagði eins og var, Hélt hún sig síðan ríkmannlega og fór mikið orð af skarti hennar og auðlegð. Þá kom þar konungsson og bað hennar og varð hún drottning hans.
Hér leiddi þó einu [sinni] gott af forvitninni.