Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Helga kóngsdóttir og risinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Helga kóngsdóttir og risinn

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér þrjár dætur. Einn fagran dag fer kóngur og öll hirðin á leikvöll að skemmta sér; so það gerir á það þoku og myrkur so það villtist hvað frá öðru, komst samt allt heim nema kóngurinn; hann er að villast þar til hann er búinn að ríða hestinn uppgefinn; so hann er á gangi og þá gerir byl um nóttina þar til hann skríður undir eina eik. Þar sér hann risa mjög stóran og ógurlegan. Hann biður risann að hjálpa sér heim; hann segist ekki gera það nema hann láti sig fá yngstu dóttur sína er hét Helga að hálfum mánuði hér frá og kóngur og drottning færi sér hana bæði út á skóg að þessari eik; en hann neitar því. Risinn segist þá ekki heldur hjálpa hönum heim; so kóngur hvílir sig þá stundarkorn undir eikinni, fer so á stað aftur og gengur hann í sundur skóföt sín og rifna af hönum klæðin á skógnum, þar til hann er orðinn uppgefinn. Skríður hann þá undir stóra eik; sér hann þá risa mjög stóran og ljótan undir eikinni. Kóngur biður hann að hjálpa sér heim. Risinn hefur sömu svör og áður. Kóngur neitar því. Þegar hann er búinn að hvíla sig fer hann aftur á stað og er þá so vanmegna að hann verður stundum að skríða og er að skríða þar til hann hrökklast undir eikina aftur af óveðri og er þá orðinn nær dauða en lífi. Þá er risinn þar fyrir. Kóngur biður hann enn að hjálpa sér heim. Risinn hefur sömu svör og áður so kóngur neyðist til að lofa því. Þá tekur risinn hann og ber hann til borgarinnar og setur hann í hallardyrnar. Risinn fer burtu, en kóngur skríður inn og taka drottning og dætur hans vel á móti hönum og þóttust hafa heimt hann úr helju og hjúkra hönum eftir megni so kóngur hressist.

Að viku liðinni verður kóngur hryggur mjög so dætur hans og drottning fara að spurja hann hvað valdi sorg hans. Hann er tregur að segja frá þar til yngsta dóttir hans leggur so fast að hönum að hann segist hafa unnið það til lífs sér að lofa henni risa þeim er hafi borið sig heim [í] höllina. Hún segir hann megi til að enda það. Þegar hálfur mánuður er liðinn fara kóngur og drottning með hana mjög hrygg. Risinn er undir eikinni þegar þau koma þar, so að hann tekur á móti henni. Þau ganga heim aftur. Risinn spyr hvort hún vilji heldur hann leiði hana eða beri hana. Hún vill heldur að hann beri sig; so hann ber hana heim í hellir sinn; er hún þar hjá hönum lengi. Þegar fram líða stundir varð hún ólétt, en þegar komið er að því að hún taki léttasóttina segist hann verða að fara í burtu, en segir að það komi aftur skessa og fylgi henni mórauð tík og hún muni kasta barninu í kjaft henni. Hann tekur henni sterkan vara fyrir að hún megi hvorki tala, hljóða né gráta. So fer hann í burtu; og þegar hann er farinn kemur inn skessa og ber stóran poka með grjóti og skeljum og eltir hana morauð tík. Hún kastar pokanum á gólfið, tekur hana úr rúminu og setur á pokann; so hún elur þar sveinbarn. Hún tekur barnið og kastar því í kjaftinn á tíkinni og segir: „Það er oft að þú færð bita.“ Henni sýnist tíkin gleypa það og fer hún út, en skessan tekur Helgu af pokanum og setur í rúmið. Hjúkrar hún vel að henni á allar síður og er hjá henni sængurvikuna; en hann kemur aftur þá skessan er farin og segir að vel hafi hún afstaðið þessa þraut. Líða svo fram stundir; so hún verður ólétt enn; og þegar komið er að því hún verði léttari segist risinn enn verða að skilja við hana og tekur henni sterkan vara fyrir því sama og áður; og fer allt við fæðingu þessa fram eins og hina fyrri og ól hún þá enn sveinbarn. En þegar hún stígur af sæng og skessan fer burtu kemur risinn aftur og segir að vel hafi hún afstaðið þessa þraut. Nú líða fram stundir að hún verður ólétt í þriðja sinn; en þegar komið er að hennar fæðingartíma segist hann verða að fara í burtu og segir að nú muni hún komast harðast niður, en tekur henni sterkan vara fyrir því sama sem hann hafi beðið hana áður. So allt fer á sömu leið og áður hvað viðvíkur fæðingunni utan það að hún ól stúlku og var fæðingin mjög hörð; en um leið og barnið fæddist þá hrökk tár af öðru auganu á henni. So kemur hann aftur þegar hún stígur af sæng og segir að vel hafi hún afstaðið þessa þraut þó tárið hrykki af öðru auganu á henni. Dvelur hann hjá henni lítinn tíma.

Nú segist hann verða að skilja við hana og verði hún að vera eitt ár hér einsömul og megi hún aldrei ljúka upp hellrinum og forvitnast ekkert í hönum; þegar árið sé á enda muni hellirinn ljúkast upp og þá muni brúnn hestur standa úti við hellirdyrnar með söðli og þá skuli hún fara undir rúmið þeirra og muni hún sjá þar brunn og skuli hún þvo sér úr hönum þangað til hún sé orðin eins falleg og hún hafi verið þá er hún kom til sín og þar muni hún finna spegil einn sem hún geti skoðað sig í; hann segir hún muni finna þar kistil einn og skuli hún ljúka hönum upp og klæða sig í það sem í hönum sé; so skuli hún ganga út og leggja aftur hellirinn og fara á bak hestinum og skuli hún svo láta hann ráða ferðinni. Síðan kveður hann hana og fór í burt og læsir hellrinum rammlega.

En þegar hún er búin að vera þar nærri því árið þá fara að koma að henni mjög mikil leiðindi so hún fer að ganga um hellirinn og skoða sig um hann. Hún lýkur upp einu afgerðu húsi í hellirnum; þar sér hún tuttugu króka og hangir einn kvenmaður á hvurjum krók, en einn er auður. So nú verður hún hálfu verri en áður; en þegar hún er í þessari óþreyju koma tveir fuglar í hellirinn og syngja mjög fagurt. So nú ber ekki á henni þar til hellirinn lýkst upp. Þá sér hún brúnan hest standa úti með söðli; so þá fer hún undir rúmið og finnur brunninn og spegilinn; so hún þvær sér þar til hún sér í speglinum að hún muni vera orðin eins falleg og hún hafi verið þá hún kom þangað. So finnur hún kistil og lýkur hönum upp; so hún tekur þar úr fallegasta drottningarskrúða og klæðist í hann. Síðan gengur hún út og leggur aftur hellirinn og þá leggst hesturinn á hnén, en hún stígur á bak og sezt í söðulinn. Rennur hesturinn svo sína leið þar til hún sér eina borg; þá er gengið á móti henni; þá kemur fríður maður móti henni og heilsar henni innilega, en segir að mikið hafi sér fallið illa þegar hún hafi verið að forvitnast í hellirinn, en þakkar henni þó fyrir hvað vel hún hafi afstaðið þetta; en hún þakkar hönum fyrir að hann sendi henni fuglana til skemmtunar. Hann segist heita Sigurður og eiga þetta ríki og þakkar henni fyrir að hún hafi frelsað sig og sína úr ánauðum sem skessa ein hafði á þau lagt og hefði það verið móðir sín skessa sú er yfir henni sat, en systir sín sú mórauða tík er henni fylgdi. Þá sér hún að tveir kvenmenn koma og leiða þrjú börn og fagna henni mjög vel, og segir Sigurður að þetta séu móðir sín og systir, og börnin er þær leiða séu þeirra börn, og eru það tveir piltar og ein stúlka og var hún blind á öðru auganu fyrir þá sök að tárið hrökk af auga hennar þá er stúlkan fæddist. Leiða þau hana síðan inn í borgina. Sendir hann síðan til foreldra hennar og systra. Varð so mikill fagnaðarfundur, höfðu þau aldrei séð glaðan dag frá því þau skildu við hana. Var síðan sett upp mikil veizla, so þau giftust og varð hann þar kóngur til ellidaga og unntust þau mjög vel. Endar so þessi saga.