Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Hildur góða fóstra

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu sér dóttir sem hét Ingibjörg. Einu sinni tók drottningin sótt og lagðist í rekkju. Þá lét hún kalla dóttir sína fyrir sig og sagðist verða að leggja fyrir hana þraut sem lögð hefði verið fyrir sig og sagði henni sér hefði verið leyft ef hún eignaðist dóttir að leggja þessa þraut á hana því svo hefði verið fyrir mælt að hún skyldi ekki geta skilizt við nema hún ynni þrautina sjálf eða kæmi henni af sér með þessu móti. En þrautin sem hún átti að vinna eða leggja fyrir dóttir sína var að drepa mann og eiga barn í lausaleik og brenna upp konungshöll. Að þessu sögðu dó drottningin, en dóttir hennar gekk í skemmu sína; en kóngurinn lét gjöra virðuglega útför drottningar sinnar og harmaði hana mjög. Nú liðu fram stundir.

Það var eitt kvöld þá kóngurinn var á skógi með hirð sinni að hann sá hvar bláklædd kona var á ferð um skóginn og hún gengur í veg fyrir hann. Þegar þau finnast heilsar hún kóngi blíðlega, en hann tekur því vel og spyr hana að heiti. Hún segist heita Hildur. Kónginum leizt vel á hana og bauð henni heim með sér. Hún þáði það og tók sér til þakka. Þegar kóngur var heim kominn sló hann upp dýrðlegri veizlu og að þeirri veizlu bað hann Hildar sér til drottningar, en hún neitaði því og kvaðst ei hafa ætlað að giftast svo fljótlega. Þá lét kóngurinn hana í skemmu Ingibjargar dóttir sinnar til að dvelja þar hjá henni. Fljótt tók Hildur eftir því að það lá illa á konungsdóttir og leitaðist við að vita hvað að henni amaði og sagði henni að hún skyldi bæta úr því ef sér væri það mögulegt og bað hana leyna sig því ekki sem að henni gengi, en lofaði henni að hún skyldi öngvum segja frá því ef hún segði sér það. Þá lét konungsdóttir það til leiðast og sagði henni hvað móðir sín hefði lagt fyrir sig og því væri hún aldrei með glöðu bragði. Hildur sagði henni sér þækti þetta ekki mikið. Hún ætti einn þræl sem öllum væri hvimleiður; nú skyldu þær báðar fara út á skóg og hafa þrælinn með sér. Nú gjöra þær þetta og ganga nú um skóginn unz þær koma að einum björgum. Þá gekk Hildur fram á björgin og sagði Ingibjörgu hér væri eitthvað fallegt undir björgunum. Ingibjörg sagði það satt vera og bað þrælinn horfa ofan fyrir björgin svo hann gæti séð það sama og þær. Þrællinn varaðist það ekki og tildraðí sér fram á björgin. Þá hvíslaði Hildur að Ingibjörgu að hún skyldi hrinda honum fram af hömrunum, en hún gjörði það. Síðan gengu þær heim og létu á öngvu bera.

Eftir þetta fór kóngur á skóg góðan veðurdag að skemmta sér með allri hirð sinni svo enginn var eftir við höllina. Þá sagði Hildur við Ingibjörgu að nú skyldi hún leggja eld í höllina, en áður skyldu þær bera allt fémætt út úr höllinni. Nú gjörðu þær þetta. Síðan kveikti Ingibjörg í höllinni svo hún stóð í björtu báli. Þá sá kóngur af skóginum logann heima í staðnum og snéri skjótt heimleiðis, en Hildur og Ingibjörg gengu móti kónginum og sögðu honum að eldur hefði kviknað í höllinni, en þær hefðu getað bjargað öllu því fémætasta út úr höllinni áður hún brynni. Kóngurinn sagði það ekki svo mikinn skaða því höllin hefði verið orðin gömul og skyldi hann byggja aðra nýja.

Einu sinni sagði Hildur við Ingibjörgu nú væri eftir það sem verst væri fyrir hana: að eiga barn í lausaleik, og skyldi hún nú fara út á skóg; þar mundi hún koma að einu húsi og skyldi hún ganga inn í það. Þar mundi hún sjá rúm og borð hjá með vistum og víni á; hún skyldi neyta af þeim vistum sem á borðinu væri og ganga svo til rekkju – „og þá mun koma maður inn í húsið, gamall að sjá og heldur ófríður, og hátta hjá þér og skaltu vera honum eins og hann er við þig. En þú skalt gá að því að vera ekki lengur í burtu en þrjár nætur.“ Svo fór Ingibjörg konungsdóttir út á skóg og gjörði eftir öllu sem Hildur sagði henni fyrir; og fór það allt eftir því sem hún gat til að Ingibjörg sængaði hjá þessum karlmanni í þrjár nætur. Ekki er þess getið að hann talaði annað við hana en það væri farið að tíðkast að konungsdæturnar gengju á skóg þegar þær vildu fá karlmann. Skildu þau síðan og fór Ingibjörg heim í skemmu sína.

Þegar fram liðu stundir sýndist Hildi Ingibjörg vera orðin ólétt. Kóngurinn átti einn ráðgjafa sem hét Rauður. Hann sagði kónginum að Ingibjörg dóttir hans væri orðin ólétt. Kóngurinn varð við þá sögu reiður mjög; en ráðgjafinn ráðlagði konungi að ganga í skemmu dóttir sinnar og láta hana leita honum lúsa í höfðinu og taka eftir því hvört hann fyndi nokkra hræring undir svuntu hennar. Hildur fékk nú einhvörn grun af þessari ráðagjörð og sagði Ingibjörgu að hún skyldi taka ósýndan hvolp og láta undir svuntu sína. Nú fer kóngur í skemmu dóttur sinnar og biður hana leita sér lúsa í höfðinu, en hún gjörir það. Þegar hún hefur litla stund leitað honum lúsa í höfðinu brást kóngur við reiður mjög og spyr hana hvað það væri sem kvikaði undir svuntu hennar. Þá tekur hún hvolpinn undan svuntu sinni og sýnir honum og segist hafa falið hann þar, því hún hafi ekki viljað láta hann sjá hann. Kóngur kvað það lítilfjörlegt fyrir hana að leika sér að hvolpum og gæti hún haft annað til að leika sér að. Svo gekk kóngur burt úr skemmunni og kallaði á ráðgjafann fyrir sig og [sagði] honum að þetta hefði reynzt ósannindi sem hann hefði sagt sér um Ingibjörgu dóttir sína; en ráðgjafinn sagði hann mætti láta drepa sig ef öðruvísi reyndist en hann hefði sagt honum.

Kóngurinn átti eitt sverð sem fylgdi sú náttúra að ef hrein mey skar sig á því þá var blóðið kyrrt á sverðinu, en ef það var ekki mey þá sást ekki blóð á sverðinu. Nú sendir kóngur eftir dóttir sinni. Þegar hún kemur segir kóngur henni hún skyldi skera sig sjálfa skurð í fingurinn með sverðinu. Þá tók Ingibjörg við sverðinu, en Hildur sem komið hafði með henni til hallarinnar gat snert sverðið í höndum Ingibjargar svo skarst á henni fingurinn, en enginn gat þó komið auga á það. Þá sáu allir blóð á sverðinu og héldu Ingibjörg hefði skorið sig á því. Nú sagði kóngurinn það vera augljóst að þetta væri meyjarblóð. Svo gengu þær burt aftur til skemmunnar. Nú unir ráðgjafinn illa og segir kónginum sér þyki ekki enn fullreynt hvurt saga sín sé sönn eða ekki – og skuli nú kóngurinn láta dóttir sína hlaupa þrisvar í kringum höllina hvíldarlaust; en geti hún það skuli kóngur láta drepa sig fyrir ósannindi; en sig gruni það muni ekki til þess koma því dóttir hans muni það aldrei geta. Nú fréttir Hildur þessa ráðagjörð og segir Ingibjörgu að hún skuli bera sig að hlaupa tvisvar kringum höllina, en byrja það í þriðja sinni; þá skuli hún koma í flasið á henni svo hún hlaupi ekki lengur. Svo hleypur konungsdóttir tvisvar kringum höllina, en í þriðja sinni kom Hildur og hljóp í fangið á konungsdóttir og sagði hún hætta skyldi og ekki sæi það á að hún væri konungsdóttir að svo illa væri með hana farið. Ingibjörg sagðist ekki uppgefin og vel gæti hún hlaupið í þriðja sinni. Hildur sagðist víst vita hún gæti það, en sér þækti það ekki sæma að hún væri að þreyta þetta hlaup lengur. Og kóngurinn áleit svo að hún hefði hreinsað sig af ráðgjafans áburði. Gengu þær síðan til skemmunnar. Eftir þetta lét kóngurinn taka ráðgjafann og færa hann til heljar.

Nú kom að þeim tíma að Ingibjörg skyldi barn fæða. Þá sagði Hildur henni að fara út á skóg og í það sama hús sem hún hefði farið fyrri og þar mundi koma til hennar kona og vera hjá henni á meðan hún lægi á sæng og taka til sín barnið; en það fyrsta hún fyndi styrk upp á sig skyldi hún koma heim aftur því sér mundi verða kennt um hvarf hennar. Nú gjörir Ingibjörg eftir því sem Hildur ráðleggur henni og fór út á skóg í þetta tilvísaða [hús] og leggst þar á sæng, og þar kemur til hennar yfirsetukonan og er hjá henni þangað til hún er búin að eiga barnið. Ingibjörg er alls í húsinu í viku og fer síðan heim, en yfirsetukonan tók barnið til sín. Þegar Ingibjörg kom nálægt borginni sá hún loga mikinn og það einnin að Hildur var borin að bálinu af þrælum sem áttu að brenna hana eftir skipun kóngsins. Þá gekk Ingibjörg að bálinu og þreif Hildi burt úr loganum og sagði hana ekki hafa til þess unnið og þeir vildu brenna hana saklausa; lét síðan Hildi með sér fara í skemmu sína.

Einn dag þegar þær vóru úti að skemmta sér sagði Hildur við Ingibjörgu hvurt það væri sem sér sýndist að það væri skipafloti við hafið að sjá. Síðan nálægðist þetta og komst á hafnir. Þá varð kóngur hræddur og hélt þar mundi ófriður kominn. Hildur fór til sjávar og heilsaði þeim sem fyrir var og nefndi bróður sinn. Þá bauð kóngur honum heim til veizlu. Hann þá það. Hildur gengur til Ingibjargar og segist nú láta konuna sem yfir henni sat fyr koma með barnið og þá skuli hún ganga fyrir þennan nýkomna mann með það og segja: „Þú ert sannur faðir að barni þessu sem ég er móðir.“ Ingibjörg gerði þetta og hann gekkst við því. En Hildur sagði kóngi upp alla sögu, en kóngur gaf þessum dóttur sína. En sjálfur gekk hann að eiga Hildi, gaf síðan tengdasyni sínum hálft ríkið, en allt eftir sinn dag.

So er búin saga þessi.