Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Hlýr kóngsson

Einu sinni var konungur og drottning í ríki sinu. Þau áttu þrjá sonu; hét einn Ásmundur, annar Sigurður, þriðji Hlýr. Skammt frá kóngsríki bjuggu kall og kelling í garðshorni. Þau áttu eina dóttur sem hét Ingibjörg; hún var fríð stúlka og vel að sér og var jafnan heima í kóngsríki. Þeim Hlý kóngssyni og Ingibjörgu kom ætíð vel saman og var ást milli þeirra. Einn blíðan veðurdag gekk konungur með hirð sinni allri og sonum sínum út á skóg að skemmta sér. Þar var og með þeim Ingibjörg kallsdóttir. Þegar allra heitast var fóru allir að verða máttlausir. Þau réðu af að leggja sig út af og sofna í forsælu hjá fögrum brunni í skóginum. Þegar vaknað var aftur var Hlýr kóngsson horfinn og vissi enginn hvað af var orðið. Konungi þótti þetta mikið mein og var víða leitað og fannst ekki kóngsson. Þá sagði Ingibjörg: „Fari allir heim, en ég mun ein verða eftir.“ Konungur áhlýddist þetta. En þá Ingibjörg var ein orðin tók hún úr vasa sínum skæni, breiddi yfir höfuð sér og steypti sér í brunninn. Þá leið hún lengi niður eftir unz hún kom á víða völlu græna. Þar gekk hún fram um hríð og kom að miklum helli. Þar gekk hún inn og kom í eldahús og sér hún þar sex potta hvolfa á gólfi og var hverr öðrum stærri, en mikið gat var í botni hins stærsta. Það varð Ingibjörgu að ráði að hún fól sig undir þeim pottinum því hún ætlaði ekki mundi í honum eldað. Þegar hún hafði legið þar nokkra stund heyrði hún dynja undir og gengu þá í eldaskálann sex skessur undarlega skapaðar. Hin fyrsta hafði sex fætur og þrjú höfuð og hét Sexfætla; önnur hafði fimm fætur og tvö höfuð og hét Fimmfætla; þriðja hafði fjóra fætur og eitt höfuð og hét Fjórfætla; fjórða hafði þrjá fætur og eitt höfuð og hét Þrífætla; fimmta hafði tvo fætur og eitt höfuð og hét Tvífætla, en sjötta einn fót og eitt höfuð og hét Einfætla; og var hún ætíð seinust á fæti eins og von var. Þær Fætlur allar voru systur og komu nú af veiðum; bar hver silungakippu á baki, en fugla í fyrir. Þær köstuðu niður veiðinni og tóku til elda, brytjuðu veiðina og settu upp pottana. Þá segir Sexfætla: „Nú er ég illa farin; pottur minn er brotinn.“ „Ég skal ljá þér minn pott þá ég hefi soðið,“ sagði Fimmfætla og það gjörði hún. Þegar þær höfðu soðið valdi Sexfætla allt hið bezta af krásunum og bar inn. Þær gengu allar inn með henni og læddist Ingibjörg kallsdóttir á eftir. Þegar inn kom segir Sexfætla: „Syngi, syngi haukar mínir svo Hlýr kóngsson vakni!“ Þá sungu haukarnir, en hún lauk upp stórri kistu. Þar var Hlýr kóngsson og vaknaði. Hún færði honum krásirnar, en hann át. Þá segir hún: „Viltu nú eiga mig?“ „Nei!“ segir hann. „Syngi, syngi haukar mínir svo Hlýr kóngsson sofni!“ Þá sungu haukarnir og sofnaði kóngsson. Sexfætla lokaði kistunni og gengu þær systur að sofa. Daginn eftir fóru þær á veiðar og gengu á geysihátt fjall skammt frá hellinum. Þá fór Ingibjörg undan pottinum, gekk inn og sagði: „Syngi, syngi haukar mínir svo Hlýr kóngsson vakni!“ Þá gekk hún að kistunni og lauk upp, því lykillinn var í skránni. Þar varð fagnaðarfundur með þeim Hlý. Ingibjörg segir þá við hann: „Nú skaltu í kvöld játa því að eiga Sexfætlu, þá mun hún gleðjast og bjóða þér hvort þú viljir heldur vera heima og búa veizlu eða sækja boðsfólkið. Þú skalt kjósa að vera heima. Þá skaltu líka setja á við hana að hún verði að sýna þér allt sem hún á; og mundu mig um að láta hana ekkert draga undan og spurðu um til hvers hvað eina sé haft.“ Hann lofar þessu. Því næst segir hún: „Syngi, syngi haukar mínir svo Hlýr kóngsson sofni!“ Þá syngja haukarnir svo kóngsson sofnar. Læsir þá Ingibjörg kistunni og fer í fylgsni sitt. Um [kvöldið] koma þær systur heim og fara að öllu eins og fyrra kvöldið. En þá kóngsson lofar að eiga Sexfællu verður hún harla glöð og segir: „Þá skaltu kjósa um hvort þú vilt heldur sækja boðsfólkið eða búa veizluna heima.“ „Ég vil búa veizluna,“ segir Hlýr, „því ég veit ekki hverjum þú vilt bjóða eða hvar þeir eru.“ „Það skal þá svo vera,“ segir hún. „En ef ég á að eiga þig,“ segir kóngsson, „þá verðurðu að sýna mér allt sem þú átt.“ „Það er nú annaðhvort!“ segir hún; „og komdu strax með mér!“ Hún gengur þá upp háan stiga í lofthelli; en stiginn var svo veikur að brast í honum við hvert fet svo Hlýr þorði valla að ganga á eftir. „Því er stiginn svo veikur?“ segir hann. „Það gjöri ég viljandi,“ segir hún, „til þess að braki í honum ef nokkur gengur upp, en það heyri ég hvar í heimi sem ég er.“ Nú komu þau í lofthellinn og stóðu þar átján kistur hver ofan á annari og lyklar í öllum skrám. Kelling tók hverja kistu ofan eftir aðra, lauk upp og sýndi kóngssyni, en þær voru allar fullar af gulli og gersemum. Neðstu kistunni lauk Sexfætla ekki upp og sagði ekki væri í nema rusl eitt engu nýtt. „Þá á ég þig ekki,“ segir hann, „nema þú sýnir mér það einnig.“ „Þá skal það vera,“ segir hún og lýkur upp. Þar í var rautt klæði og innan í klæðinu gullketill, en í katlinum fimm steinar: tveir gulir, tveir grænir og einn rauður. „Til hvers eru þessir gripir hafðir?“ segir Hlýr. „Ef gulu steinunum er barið saman,“ segir hún, „þá kemur snjór og fárviðri svo mikið að engin skepna lifir sem úti er. En sé grænu steinunum núið saman kemur sólskin og sunnanvindur.“ „Hvað táknar hinn rauði steinn?“ segir Hlýr. „Það er nú fjöregg Blákápu systur minnar,“ segir Sexfætla. „Hvað táknar ketillinn?“ segir hann. „Sé ketillinn brotinn,“ segir hún, „þá brotna ég öll í eins marga mola.“ Síðan lætur hún allt niður aftur og kisturnar í sína röð. Því næst segir hún kóngssyni fyrir um veizluna, en þær systur fara allar að sækja boðsfólkið og ganga á fjall upp. Þá finnur Ingibjörg kóngsson og fara þau í lofthellinn. Þá brakar í stiganum og jafnsnart heyra þau öskur mikið úti, en þau hrinda niður kistunum og opna hina neðstu, því lyklar stóðu í öllum skrám. Tekur hann gulu steinana og ber saman, en hún fer að brjóta gullpottinn. Brast þegar á foraðsveður, en ógurleg öskur var að heyra úti fyrir hellinum. Þetta gekk nokkra stund þangað til allt þagnaði; þá var ketillinn allur brotinn. Nú gnýr kóngsson saman grænu steinunum og kemur þegar sólskinsblíða, en Ingibjörg stingur rauða egginu í vasa sinn. Nú taka þau öll gersemi er þau fengu komizt með og bera að uppgöngunni, bregða skæni yfir höfuð sér og flytjast upp með allt; ganga svo heim til garðshorns. Þaðan fer Hlýr til föður síns og fagnar konungur honum hjartanlega. Það hafði Ingibjörg sagt kóngssyni ef grá tík kæmi móti honum þegar hann gengi til kastala síns og flaðraði ákaft upp á hann skyldi hann mest varast að klappa henni. Hann lofaði því. En þegar hann gekk til kastalans kom grá tík móti honum mjög snotur og linnti ekki látum að flaðra upp á hann. Honum varð það um síðir að hann klappaði henni, en á sama vetvangi gleymdi hann Ingibjörgu. Þá varð honum litið í kastalagluggann og sér hann þar situr kona ákaflega fríð. Kóngssyni rann þegar hugur til hennar; og er hann kom inn heilsar hann henni og spyr hver hún sé; en hún kvaðst vera konungsdóttir og hafa komið þangað fyrir skömmu. Svo brá Hlý við er hann sá hana glöggt að hann heyrði valla hvað hún sagði, svo ákafa ást felldi hann til hennar og vakti þegar bónorð. Hún tók því ekki fjarri, en kvaðst verða að setja það á að þrjár nætur liði til brúðkaupsins og skyldi sína nótt vaka yfir kastalanum hverr þeirra bræðra og minnast þess að líta aldrei inn eða leyfa nokkrum inn að líta. Þessu lofar Hlýr. Konungi líkaði allvel ráðahagurinn því öllum leizt konan hin fríðasta.

Nú skal Ásmundur vaka fyrstu nótt. En er skammt var liðið nætur kemur til hans stelpa tötralega klædd og biður hann leyfa sér að líta inn um kastalagluggann. Hann neitar því þverlega. Þá býður hún að vaka hjá honum og það þá hann, því hann kvaðst vera myrkhræddur. Litlu síðar sækir hún fast á að fá að líta inn og lét hann það eftir að síðustu. Þá sér hún að inni í kastalanum liggur ferlegt skrímsli líkt konu að ofan, en hákalli að neðan. Hún sýnir Ásmundi og verður hann ókvæða við af hræðslu; þó vöktu þau til dags. Næsta morgun þykir Hlý konuefnið enn fegra en fyrr. Kemur nú önnur nótt og vakir Sigurður kóngsson. Þá kemur aftur stelpan sem hina fyrri nótt og vill líta inn, en kóngsson varnar. Þá vill hún vaka hjá honum og þiggur hann það. Nú sækir hún ákaft á að líta inn og varð það um síðir. Sér hún þá enn sama skrímsli og hið fyrra sinn og biður kóngsson að líta á. Hann gjörir svo og varð allur að undri er hann sá slíka ófreskju í kastalanum. Næsta morgun finnur Hlýr heitmey sína og er hún nú að sjá engilfögur, en döpur í bragði og segir: „Svikið hafa bræður þínir mig og ekki vakað trúlega. Ríður mér nú á að þú reynist betur en þeir.“ „Það skal og verða,“ segir hann. Og um kvöldið býst hann til að vaka. Að stundu nætur liðinni kemur hin sama stelpa og til bræðra hans og biður hann leyfa sér að líta inn, en hann tekur því fjarri. Hún sækir á enn fastara og hjálpar það ekki. Þá býður hún að vaka honum til skemmtunar og mælir hann ekki móti því. Eftir nokkra stund sækir hún enn á að fá að líta inn og neitaði konungsson því enn. Þó fór svo að lokum að hann leyfði henni. Þá biður hún hann að horfa inn með sér og bregður honum þá harla mjög því hann sér óttalegt skrímsli í kastalanum, svo ferlegt að nálega fyllti upp húsið. Var það líkast hafgúfu að ofan, en höggormi að neðan. Þá segir Ingibjörg – því þetta var Ingibjörg kallsdóttir, stelpan tötralega: „Hér sérðu nú, Hlýr konungsson, unnustu þína. Er hér komin Blákápa Sexfætlusystir; var hún og tíkin gráa sem ég varaði þig við, en þú klappaðir svo þú gleymdir mér. Ætlaði hún nú að véla þig og drepa hina fyrstu nótt er þú kæmir í sæng hjá henni. Hér er nú fjöreggið. Skaltu þegar á morgun ganga inn til hennar og kasta því milli augna henni; og láttu ei hugann bila.“ Þessu lofar hann. Og þá bjart var orðið gengur hann til unnustu sinnar. Er hún nú sem allra fríðust og þó mjög döpur og segir: „Illa sveikstu mig nú, Hlýr kóngsson!“ Í sama bili kastar hann fjöregginu milli augna henni svo það sprakk, en hún breyttist í hið versta flagð og vildi þá leggja nokkuð á hann í því hún dæi. Þá rak Ingibjörg kallsdóttir ginkefli í hvoft henni og dó þá skessan. Ingibjörg hafði alltaf gengið á eftir kóngssyni og barið á herðar honum þá hann skyldi kasta egginu því hún óttaðist honum mundi renna hugur. Kóngsson þakkar nú Ingibjörgu hjálp hennar alla og sér nú ei annað vænna ráð að afmá skessuna en hann brennir upp kastalann með henni allan því enginn kostur var að koma líkinu út.

Eftir þetta gengur Hlýr að hitta föður sinn og segir honum allt af létta hvörnig farið hafi um konuefnið og hvörnig kallsdóttir hafi hjálpað sér; segist nú muni eiga hana og enga konu aðra. Konungur segir það sé meira en maklegt. Auðsótt var bónorðið við Ingibjörgu og er nú haldið brúðkaup þeirra með miklum veg, simphón sungin og hörpur slegnar. Gefur konungur Hlý hálft ríkið meðan hann lifir, en allt eftir sinn dag. Þau Ingibjörg unntust vel til elli – og kunnum vér svo ei þessa sögu lengri.