Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Hlynur kóngsson og Helga karlsdóttir
Hlynur kóngsson og Helga karlsdóttir
Eitt sinn [var] kóngur og drottning í ríki sínu; þau áttu son er Hlynur hét. Þar var karl og kerling í garðshorni; þau áttu dóttir er Helga hét. Þau lögðu saman lag Hlynur og hún. Einn góðan veðurdag voru þau að leika sér [og] héldu of lengi til. Þegar þau ætluðu heim sló yfir þau þoku; komst Helga heim, en hann villtist frá henni. Varð karl þá hræddur og hélt að kóngur mundi vilja myrða dóttir sína. Svo er farið að leita, en hann fannst ekki. Fer nú karlsdóttir á stað foreldrum á laun. Gekk hún lengi þar til hún kemur að einum hellir. Sér hún þar Hlyn sofandi [í] rúmi. Fyrir rúminu hangir sparlak með einhvurju letri. Fór hún [að] reyna að vekja hann, en gat ekki hvurnin sem hún reyndi það. En þegar húmar sér hún kemur skessa mjög ófrýn, tekur sverð, slær því við rúmstokkinn og segir: „Syngi, syngi svanur minn svo hann Hlynur vakni!“ Hann vaknar. Hún spyr hann hvurt hann vili eiga sig. Hann segir nei. Hún bauð honum mat, en hann vill ekki. Þá sló hún sverðinu við aftur. Þá sofnar hann sem fyr. Um morguninn vekur hún hann með sama móti og spyr hann sem fyr; en hann neitar. Síðan svæfir hún hann og fer á skóg. Þegar kerling er farin fer Helga undan rúminu, tekur sverðið, slær því við rúmstokkinn eins og hún sá kerlingu gjöra. Þá vaknar hann. Varð þá fagnaðarfundur með þeim. Hún segir honum þegar kerling komi heim og spurji hvurt hann vili eiga sig skuli hann segja já með því móti hún kenni sér letrið sem er hjá rúminu. Um kvöldið kemur kerling heim og vekur hann og spyr hann sem fyr, en hann svarar eins og Helga lagði honum ráð til. Hún var treg til þess, en segist verða að gjöra það; – „verði það lesið yfir mér þá dey ég [og] öll mín ætt“. Fer nú kerling á stað að bjóða skyldfólki sínu í veizluna, en Helga fer til Hlyns og segir honum: „Þegar boðsfólkið kemur í hellirsdyrnar skaltu lesa yfir því letrið,“ og gjörir hann [það]; þegar það kom inn þá les hann letrið. Detta þá tröllin dauð til jarðar. – Taka þau nú allt fémætt [í] hellirnum, fara heim til kóngs og fagnar hann þeim mjög og þókti mikið varið í karlsdóttur, gaf henni son sinn og varð [Hlynur] kóngur eftir föður sinn. Taka þau karl og kerling til sín og ríktu vel og lengi.