Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Horngarður
Horngarður
Það var einhverju sinni konungur og drottning sem réðu ríki. Þau áttu tólf sonu. Karl og kerling buggu þá í garðshorni og áttu son þann sem Horngarður hét. Það er sagt að kóngur og karl hafi dáið um sama leyti báðir. Horngarður hélt við bú með móður sinni, en kóngssynir stýrðu ríki með móður sinni. Horngarður var þjóðhagasmiður.
Eitt sinn komu kóngssynir í smiðju til Horngarðar og spurðu hvað hann væri að smíða; sagðist hann þá vera að smíða járntennur í móður sína. Bræður snúa nú heim aftur og hugsa með sér að þetta ráð skuli þeir brúka við móður sína því hún var tannlaus. Síðan smíða þeir stáltennur í móður sína og fara svo að banka þær í kellingu, en þá fór nú ekki betur en vel því járntennurnar vildu ekki tolla í drottningu. Yfir þessu grömdust þeir svo að þeir fóru heim í kallskot einu sinni þegar Horngarður var ekki heima og drápu kellingu móður hans. Þegar Horngarður kom heim þá lét hann sér ekki bilt við verða, heldur söðlar hann tvo hesta, annan handa sér og á annan setur hann kellinguna dauða. Hann bindur blóðblöðru undir hökuna á kellingunni og ríður svo með hana út á skóg. Þegar hann er kominn nokkuð á leið þá sér hann hvar herramaður einn kemur álengdar. Hann ríður þá úr vegi, en skilur móður sína eftir í götunni. Þegar herramaðurinn kemur þar að sem kelling er biður hann hana að hafa sig úr götu, en kellingarfáráðurinn situr kyrr eins og náttúrlegt var. Herramaður reiðist þá þrálæti kellingar svo hann slær hana svipuhögg svo hún hrekkur úr söðlinum. Horngarður kemur þá þeysandi að og sér að blóðið lagar um kellinguna því blaðran hafði sprungið. Varð þá Horngarður flugreiður og sagði herramaðurinn hefði drepið móður sína og kúgar Horngarður fé mikið út af herramanninum ef hann ætti að þegja yfir drápinu.
Horngarður fer svo heim með móður sína og jarðar hana á laun; en með féð fer hann heim í kóngsríki, sýnir kóngssonum það og segist hafa fengið þetta fyrir móður sína. Verða bræður nú öfundssjúkir mjög yfir fénu svo þeir taka það ráð upp að drepa móður sína og bjóða hana svo dauða til sals á torginu. Þeir verða nú eins og nærri má geta fyrir mesta háði fyrir þetta og gremst þeim nú mjög við Horngarð. Af því bræður vissu að Horngarður átti mikið af leirtaui þá fara þeir eitt sinn þegar hann er ekki heima og mölva allt leirtau sem þeir finna. Hann lætur sér ekki bregða enn sem fyrr, en tekur allt leirtauið og pakkar niður hjá sér, tekur svo hesta sína og ríður á stað. Hann biður sér gistingar hjá vellríkri ekkju sem ekki vissi aura sinna tal. Hann biður líka að börnin séu ekki látin koma við faranginn því hann sé mjög brothættur, og lofar ekkjan því; en þegar hann fer að skoða um morguninn þá er allt brotið í pokanum. Horngarður segir börnin hafi brotið það fyrir sér og neyðir hann ekkjuna til að borga sér það eins og það hefði verið óskemmt.
Horngarður fer nú heim með féð og sýnir kóngssonum, en þeir verða öfundssjúkir enn sem fyrr og taka það til bragðs að þeir brjóta allt sitt leirtau og bjóða svo til sölu. En nú fá þeir litlu betri útreiðina en í fyrra sinn og bera ekki annað úr býtum en háð og spé.
Nú taka þeir það ráð að þeir fara til Horngarðs einn morgun áður en hann er kominn á flakk og taka hann í rúminu og drífa hann niður í poka og ætla að kasta honum í sjóinn. En á leiðinni mætir þeim herramaður svo þeir hlupu úr vegi, en skildu pokann eftir. Þegar herramaður er nýfarinn þar hjá kemur þar að svínahirðir sem pokinn lá. Hann fer að skoða pokann og sér að það er maður í honum. Hann spyr Horngarð hvert hann ætli. Horngarður segist ætla til himna. Svínahirðir öfundar hann og biður hann að lofa sér til himna; en Horngarður vill ekki. Þá býður svínahirðirinn honum að láta hann fá öll svínin. Horngarður lét þá til leiðast og voru þeir búnir að hafa skipti og Horngarður kominn burt með svínin þegar kóngssynir komu að. Þá grunaði ekkert um umskiptin og tóku þeir pokann og fleygðu honum með svínahirðinum í sjóinn. Þegar þeir eru skömmu heim komnir kemur Horngarður þangað með öll svínin. Þeim brá að sönnu fyrst í brún. En Horngarður sagði þeim að þegar hann hefði verið kominn í sjóinn þá hafi hann séð ógrynni svína og hafi hann tekið þetta með sér, en það sé minnst af öllu sem þar sé. Bræðrum þótti Horngarður segja mikið af og báðu hann að lofa sér að koma þangað; enda fór Horngarður með þá út á sjó og drekkti þeim öllum. Settist Horngarður svo að ríkinu eftir þeirra dag. Horngarður ríkti bæði vel og lengi.
En ég kann ekki þessa sögu lengri.