Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Jóhann og María

það var einu sinni kaupmaður og átti konu og tvö börn og hét pilturinn Jóhann, en stúlkan María, og hafði hann grætt mjög á verzlun sinni við Indverja.

Eitt sinn tók hann sig upp og ætlaði að flytja sig til Indíalands og er hann var kominn nokkuð áleiðis þá brast á stórviðri. So sá hann að skipið mundi brotna við eyjar nokkurjar er hann hrakti að; so hann greip konuna og börnin og batt þau við eina fjöl og lét á sjóinn. Tók hann síðan aðra fjöl og ætlaði að binda sig á hana, en þá klofnaði skipið eftir endilöngu og sökk allt er í því var. Konuna og börnin rak að landi so hún leysti sig og börnin af fjölinni og gengu þau upp á eyjuna og lofaði hún guð fyrir lífgjöf sína og barna sinna, en angraðist mjög yfir að hafa misst mann sinn. Gengur hún síðan með börnum sínum upp um eyuna. Finnur hún tré mörg með aldinum og tekur hún þau og etur og börn hennar. Finnur hún um síðir eik eina stóra mjög og er hún öll hol innan og tekur hún sér þar bólfestu. Tvær bækur hafði hún haft á sér í hulstri einu og höfðu þær því eigi vöknað og var önnur Nýjatestamenti; so hún fór að kenna börnunum í því svo þau kunnu það orðið á endanum, og hún sagði þeim að guð væri faðir þeirra þó þau sæju hann ekki, sem ætíð hjálpaði þeim. Liðu so fram stundir þar til henni varð illt. Segir hún þá við Jóhann að hann skuli ætíð hafa Guð fyrir augum og biður hún hann að láta sér vera annt um Maríu systur sína og ætlar hún þá að fara að tala til Maríu, en þá dó hún. Hugsa þau hún sofi og liggja þarna yfir henni og hafa sem hægast við sig; en þegar þeim lengir að hún vaknar ekki fara þau að kalla til hennar og taka í handleggina á henni, en þegar það dugar ekki fara þau að gráta og hugsa hún sé reið við sig. Þau sjá að það dugar ekki og liggja so yfir henni í eikinni þar til María sér að pöddur eru að skríða á henni. Fer hún þá að biðja Jóhann að tína pöddurnar af henni, en þær verða æ því meiri og soddan ólykt að þau þola ekki við og verða að fara í burtu. Finna þau þá aðra holueik og fara í hana. Fóru þau eigi víða um eyjuna eins og móðir þeirra hafði bannað þeim.

En einu sinni þá þau voru við sjó [sáu þau] að skip eitt kom að landi og voru á því svartir menn, og var Jóhann þá tólf ára, en María yngri. Þau skildu þá ekkert hvað þeir töluðu. Þeir svörtu bentu þeim að koma upp í skipið, en María var mjög hrædd; en Jóhann sagðist muna að faðir þeirra hefði verið á landi og haldið margt fólk og hefði einn verið svartur í þjónustu hans. So hann segir að þeim muni vera óhætt að fara upp í skipið þar hann muni eftir því líka að faðir sinn hefði látið þau í hús sem hljóp á sjónum og brotnaði það seinast, – „en faðir okkar batt okkur og móður okkar á fjöl og komustum við þá til lands, en faðir okkar drukknaði.“ Lætur María þá til leiðast og fara þau þá bæði upp í skipið, en skipið fer til einnrar af eyjum þeim er þar voru í grennd. Fyrir eyju þessari réði kóngur einn og færðu skipverjar hönum börnin og voru þau þar hjá kóngi. Átti kóngur þessi í stríði við nágrannaeyjarnar, en fangarnir sem hvorir hertóku voru drepnir [og] étnir. Í þessari eyju trúði konungur á apakött er var mjög stór og ógurlegur. Vildi konungur koma börnunum til að lúta hönum, en Jóhann sagði við systur sína að hann vildi drepa hann. En María sagði að það skyldu þau eigi gera, því þá yrðu þau drepin. Hún segir að annað ráð þyki sér betra: að þau skuli falla fram og biðja Guð að afstýra því að þau þurfi ei að trúa á hann. So hún leggst á bæn; þá heyrðist hljóð í skógnum og var farið að gá hvað um væri að vera. Hafði apakötturinn verið að klifrast upp í eina eik og dottið ofan og lærbrotnað. Var kóngi sagt þetta og kenndi kóngur börnunum það og varð so reiður að hann lét kynda bál og binda börnin á staur og ætlaði að brenna. En þá kom að her frá eyjunum hinum og stríddi á kóng. Varð hann þá að yfirgefa fyrirtækið, en berjast við hina, og hallaði bardaganum á kóng og voru börnin handtekin með öðrum fleirum og flutt til eyjarinnar. Þar var og konungur er tók Jóhann fyrir þræl, en Maríu fyrir ambátt.

Liðu so fram tímar að Jóhann sagði við Maríu að [hann] vildi reyna að flýja, en hún sagði að þau skyldu gera allt sem þeim væri skipað, trúlega. Einu sinni bar so við að þjónar kóngs koma með fanga og var einn þeirra hvítur; so hann þókti magur til dráps og átti því að ala hann í fangahúsi og færði María hönum alltaf mat. En þegar hún sér að það er hvítur maður biður hún fyrir sér so hann segir að hvur hafi kennt henni að biðja fyrir sér. Hún segir [móðir] sín hafi kennt sér það í holu eikinni og hafi hún gefið sér bók sem segi þeim að biðja Guð fyrir sér; so hann biður hana að lofa sér að sjá bókina. Hún sækir hana og sýnir hönum. Þá segir hann: „Það veit guð að þú ert barn mitt, en áttu engvan bróður?“ Hún segir það vera og segir hann þá að þau séu börn sín og skuli þau því koma og kyssa á hönd sér. Sækir hún þá Jóhann og kyssa þau á hönd föður síns, en [hann] verður aumur yfir því að kona hans er dauð. María gengur síðan fyrir [kóng] og biður hann að veita sér bón sína og það sé sú að drepa sig í staðinn fyrir hvíta fangann í varðhaldinu, því hann sé faðir sinn og sé gamall og magur til átu, – „en ég er þar til betur kjörin“. En kóngur segir og viknar við bæn hennar er hún sagði hönum raunasögu þeirra so hann segist skuli gefa þeim frelsi þegar hingað komi skip hvítra manna. Kom skipið á tilteknum tíma og fengu þau þá lausn og sigldu með því; sigldu síðan til lands þess er það átti heima. Komust þau í þjónustu hjá kóngi; so hann hugsar með sér að eiga Maríu, því hún kunni að vera eins væn og margar fríðari; so hann fékk hennar með samþykki föður hennar. Giftist Jóhann þar einhvurri furstadóttir og gerði kóngur hann að æðsta ráðgjafa sínum, en faðir þeirra var hjá þeim. Og kóngur og María unntust bæði vel og lengi og endar so þessi saga.