Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Karlssonur og kötturinn hans

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Karlssonur og kötturinn hans

Einu sinni var karl og kerling í koti sínu og kóngur og drottning í ríki sínu – Sögunni víkur fyrst til karls og kerlingar. Karlinn var svo ágjarn að hann græddi feikna mikla peninga. Er svo sagt að hann hafi ætíð fengið tvo peninga fyrir einn. Loks kemur þar að að karl tekur sótt og leggst í rekkju. Varð sú sótt honum að bana.

Karl og kerling áttu sér einn son barna. Fyrstu nóttina eftir lát karls dreymdi son hans að honum þótti maður ókenndur koma til sín og segja við sig: „Þar liggur þú! Karl faðir þinn er stiginn fram og nú er allur hans auður orðinn þinn því móðir þín deyr líka innan skamms. Nú er þessi hinn mikli auður hálfur rangfenginn; þess vegna skaltu gefa helminginn fátækum, en hinum helmingnum skaltu kasta í sjóinn, en fljóti nokkuð lítilræði ofan á sjónum þegar hitt er sokkið, t. d. blað eða bréf, þá skaltu taka það og hirða sem bezt.“ Síðan hverfur maðurinn, en drengur vaknar. Hann verður nú áhyggjufullur af draum þessum og er að velta fyrir sér hvað hann skuli afráða og þykir ísjárvert að glata auðnum. Þó verður það úr að hann gefur helminginn fátækum, en hinum helmingnum fleygir hann í sjóinn. Þá fer sem draummaður sagði, að hann sér eitthvað fljóta á sjónum. Hann fer til og nær því og finnur það er blað; hann flettir í sundur og finnur innan í því sex skildinga. Hann hugsar með sér: „Hvað skulu mér þessir sex skildingar þar ég er búinn að glata öllu hinu?“ Samt stingur hann þeim niður hjá sér.

Hann gjörist nú harmsfullur og hugsandi út af auðsmissi þessum, leggst fyrst í rekkju með þungum þönkum, síðan fer hann á fætur, ráfar burt í ráðleysu eftir það hann hafði staðið yfir jarðarför kerlingar móður sinnar. Hann gengur nú út á eyðimerkur og skóga þar til fyrir honum verður kotbær. Hann ber þar að dyrum, þar kemur út kona öldruð. Hann beiðist gistingar og segir um leið að hann ekki hafi neitt til að borga með næturgreiðann. Hún segir honum verði ekki úthýst fyrir það. Síðan lætur hún hann fara inn og er honum strax matur borinn. Fátt sér hann þar manna utan tvær konur og þrjá karlmenn. Eigi er mikið haft til viðræðu og þykir honum þar þurrlegt. Meðal annars sér hann þar kvikindi nokkurt grátt að lit, ekki stórt. Slíkt kvikindi hefur hann eigi séð fyrri; hann spyr hvað slíkt dýr kallist. Honum er sagt það heiti köttur. Hann spyr hvurt falt sé og er honum svarað að það fáist fyrir sex skildinga. Síðan kaupir hann kisu fyrir þá áðursögðu sex skildinga. Hann sefur af um nóttina. Að morgni kveður hann, stingur kisu undir hempulaf sitt og gengur burt.

Hann gengur nú allan daginn yfir skóga og eyðimerkur unz hann um kveldið kemur að kotbæ einum. Hann ber að dyrum. Þar kemur út gamall maður er þar segist eiga húsum að ráða. Drengur biður hann gistingar, en kveðst ekkert hafa að borga með. „Það verður þá að gefa þér næturgreiðann,“ segir karl, „og komdu inn.“ Síðan leiðir karl hann til baðstofu. Hann sér þar tvær konur og tvo karlmenn; var önnur kona karls, en hin dóttir. Hann lætur köttinn spretta undan kápulafi sínu og bregður öllum í brún því þeir höfðu eigi slíkt dýr séð. Hann sefur af um nóttina. Að morgni segir bæjarfólk honum að hann skuli ganga til hallar konungs sem hér sé skammt frá, konungur sá sé góður maður og muni einhvurja velgjörð á honum sýna. Síðan fer hann af stað og gengur unz hann kemur til hallar konungs. Hann gjörir boð fyrir konung að hann vilji finna hann, en konungur lætur segja honum að honum sé leyfilegt að ganga inn í höllina á fund sinn. Drengur gjörir svo. Þegar hann kemur í höllina sitja menn yfir matarborðum, kóngur með hirð sinni. Hann heilsar konungi og hirðmönnum hans, en eitt þykir honum gegna mestri furðu og það er það að hann sér heilmikinn grúa af smákvikindum í höllinni og eru þau svo nærgöngul kóngi og hirð hans að þau hlaupa um borð og diska konungs og eta með honum krásirnar, já, jafnvel bíta í hendur hans, og hefur hann og hirð hans engan frið á sér fyrir þeim því helmingur krásanna verður bráð þeirra illu hrækvikinda og konungur hefur blóðrisa hendur eftir tennur þeirra; þó er hann að reyna að hrinda þeim frá sér og verja mat sinn, en tekst ógreiðlega. Drengur spyr hvurju gegni þessi ófagnaður og hvað kvikinda þetta sé. Kóngur segir þau heiti rottur og hafi í mörg ár veitt sér illar árásir og búsifjar og hann viti ekkert ráð á móti þessu. Í því hleypur kisa fram undan hempulafi drengs og veður að rottunum. Gjörir hún strax mikinn usla því hún strádrepur hvurja af annari og fælir sumar burt úr höllinni. Konung og alla undrar þetta og spyr hvað dýr þetta heiti. Drengur segir það heiti köttur og segist hann hafa keypt hann fyrir sex skildinga. Konungur segir: „Fyrir þessa þína hingaðkomu og heill þá sem mér hefur af staðið skaltu mega kjósa af mér það þú vilt helzt, hvurt þú vilt heldur verða æðsti ráðgjafi minn eður eignast dóttur mína og fá ríkið eftir mig.“ Drengur kveðst mundu kjósa dóttur hans og ríkið þar hann mætti um velja.

Síðan er drukkið brúðkaupið og að því enduðu sendir drengur eftir bændum þeim sem höfðu hýst hann fyrri og gjörir þá að ráðgjöfum, og að konungi látnum tekur hann ríkið. – Búin sagan.