Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Kerlingin og smjörtunnan
Kerlingin og smjörtunnan
Það var einu sinni kall og kelling [sem] bjuggu í garðshorni. Kall átti fulla smjörtunnu hverri hann læsti og batt lykilinn um hálsinn á sér so kelling skyldi ekki eyða úr henni frá sér því hann tímdi ekki heldur sjálfur að éta úr henni. Það var eitt kvöld þá karl svaf að kelling nær lyklinum af hálsinum á kalli, lýkur upp smjörkistunni og skefur úr henni hálfri, bindur so lyklinum aftur um háls á kalli. Læzt hún nú koma inn og dustar nú svuntu sína so kallinn vaknar við og spyr hvað gangi á. Kelling segist hafa verið sókt til kóngsdótturinnar og hafi fengið fullt smjörtrog er hún sýnir honum. Kall spyr hvað barnið heiti. „Miðja heitir mær sú,“ segir kelling. Karl vildi að hún skammtaði smjörið; en það varð eigi, heldur hafði hún það undir sjálfri sér. Í öðru sinni náði hún lyklinum og skóf allt úr tunnunni og lét so aftur mýs í tunnuna, en lykilinn um háls á kalli, kom inn og dustaði svuntuna sína. Kall spyr hvað gangi á. Hún kvaðst hafa verið sókt til drottningarinnar. Hann spyr hvað barnið heiti. Hún svarar: „Botn heitir burðugur sveinn.“ Kall segir: „Fáheyrð eru nöfn þessi, eða hvað fékkstu í staðinn?“ „Fullt trog af smjöri.“ Þegar kall fekk nú ekki ögn af smjöri hjá kellingu fór hann mikið hróðugur að ljúka upp tunnunni sinni. Hlupu þá mýsnar upp á móti honum og voru búnar að skíta í tunnuna.