Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Kiðuvaldi

Einu sinni var karl og kerling sem áttu sér þrjár dætur; hét ein Signý, önnur Oddný og Helga hin þriðja. Voru þær Signý og Oddný eftirlætisgoð foreldra sinna, en Helga var olbogabarn, lá í öskustónni og var ekkert um hana hirt.

Einu sinni bar svo við í karlskoti að eldurinn slokknaði og bað karl Signýju dóttur sína að fara og sækja eld. Hún spyr hvert hún eigi að sækja hann. Hann segir: „Þú skalt ganga yfir fjöll og firnindi, hálsa og hæðir og svo langt sem þínir vegir liggja og það veit enginn.“ Síðan fer Signý á stað og gengur lengi lengi þangað til hún fer fram hjá einstöku fjalli, þá heyrir hún sagt í fjallinu með dimmri rödd: „Kiðuvaldi býr í fjallinu.“ Hún svarar: „Svei þér, búandi í fjallinu,“ og heldur enn áfram þangað til hún kemur í helli. Þar sá hún að eldur logaði á skíðum og var pottur yfir fullur af keti og skammt þar frá voru kökur óbakaðar í trogi. Hún tekur kökurnar, bakar þær og étur síðan; svo stelur hún keti úr pottinum og eldi undan honum; en áður en hún gekk út gerði hún öll sín stykki í eitt eldhúshornið. Þegar hún var komin á móts við fjall Kiðuvalda kom til hennar hundur svo grimmur og illur að hann beit af henni hægri hendina, tók frá henni ketstykkið sem hún hafði stolið og drap fyrir henni eldinn. Kom hún svo heim allslaus og verri en allslaus.

Daginn eftir sendi karl Oddnýju eftir eldi og fór það allt á sömu leið sem fyrir Signýju; hún hafði sömu svör við Kiðuvalda og hegðaði sér eins í hellinum og Signý, en það eitt skakkaði að hundurinn beit af henni nefið, en ekki hendina. Kom hún svo heim slypp og verri en slypp þar sem hún hafði misst af sér nefið.

Þriðja daginn skipar karl Helgu að fara og hefur öll sömu ummæli við hana sem hinar nema hvað hann bætti því við að sig gilti einu þó hann sæi hana aldrei aftur. Helga fór og þegar hún kemur á móts við fjallið einstaka heyrir hún að sagt er með dimmri rödd: „Kiðuvaldi býr í fjallinu.“ Hún svarar: „Búðu heill í fjalli, heillakarlinn.“ Svo heldur hún áfram og kemur í hellinn. Er þar eins ástatt og áður, eldur logar á skíðum og pottur uppi yfir með keti og óbakaðar kökur í trogi. Helga hagræðir þá undir pottinum, bakar kökurnar, leggur þær svo á trogið og færir upp ketið þegar það var fullsoðið. Síðan hreinsar hún og sópar út allt eldhúsið. Þegar hún er búin að þessu öllu saman tekur hún með sér eldinn og fer á stað með hann. Þegar hún fer fram hjá fjalli Kiðuvalda kemur til hennar hundur ósköp vinalegur og færir henni kistil og segir að hún eigi kistilinn og það sem í honum sé, en hún skuli ekki ljúka honum upp nema henni liggi mikið á. Svo fer Helga heim með eldinn og geymir vandlega kistilinn og lýkur honum aldrei upp.

Nú líður heilt ár þangað til kóngsson kemur þar við land og í karlskot, finnur karl og spyr hann hvort hann eigi ekki dætur. Karl segist eiga tvær. Kóngsson biður annarar þeirra. Karl tók því vel og skipar Signýju að koma út og fagna biðli sínum. Hún gerir svo, kemur út og hefur vettling á hægri hendi. Kóngsson ætlar að taka í hendina á henni; en þá verður ekkert fyrir honum nema vettlingurinn. Kóngsson segir að hann geti ekki átt handarlausa konu og segist vilja sjá hina dóttur karls. Karl kallar þá á Oddnýju að koma út og fagna biðli sínum. Hún gjörir svo, en hefur strút upp undir augu. Kóngsson ætlar að lúta að henni og kyssa hana svo hún verður að ýta neðar strútnum. Sér kóngsson þá að hún er neflaus og segir að svo illt sem það sé að eiga handarlausa konu sé það þó enn verra að eiga hana neflausa. Spyr hann þá karl hvort hann ætti ekki fleiri dætur. Karl segist ekki geta talið það, hér sé reyndar ófétisstelpa sem alltaf hafi legið í öskustónni, en hún sé engum manni boðleg. Kóngsson biður hann að lofa sér að sjá hana. Karl gerir svo og skipar Helgu að snauta út, hún muni eiga erindið. Helga rís þá upp úr öskustónni, hreinsar af sér öskuna og kolahrímið, lýkur upp kistlinum og finnur í honum fallegasta drottningarskrúða. Í hann fer hún og kemur svo út til kóngssonar. Hann heilsar henni kurteislega og hefur hana í burt með sér, siglir heim í land sitt, gengur að eiga hana og verður kóngur eftir föður sinn, en Helga drottning. Svo kann ég ekki þessa sögu lengri.