Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Kisa og Dagbjört kóngsdætur
Kisa og Dagbjört kóngsdætur
Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og kall og kelling í garðshorni. Kóngur og drottning áttu ekkert barn og fékk það mjög á drottningu; hún grét oft af því og bað að hún fengi þá gleði – Einu sinni sem oftar var hún grátandi í rekkju og sofnaði hún þá frá þessari hugsun. Dreymir hana þá að kemur til hennar maður og segir: „Ég hefi heyrt bæn þína og vil veita þér hana. Það er gömul kona“ í koti nálægt ríki hennar og skuli hún fá ráð hjá henni. Nú vaknar drottning og fer hún nú að hugsa eftir draumi sínum og vill nú reyna hvað verði. Fer hún til kotsins og hittir kelling. Segir hún henni frá öllu og biður hana ráða sér nokkuð ef hún geti. Kelling segir: „Sagt er ég hafi vitað fram fyrir nefið á mér fyr og skal ég reyna hvað ég get. Þér skuluð fara að læk sem er hér skammt frá. Þar eru tveir silungar; annar er svartur, en hinn er bjartur. Þú skalt gleypa þann bjarta og skilja hinn eftir.“ Nú fer drottning og þakkar henni góð ráð og ætlar að drekka, en báðir silungarnir fóru í kerið og gleypti hún báða.
Nú líða fram stundir og verður drottning vör við að hún er ekki ein. Verður hún þá mikið glöð og segir konungi frá. Hann lætur sækja ljósmæður, og segir ekki frá fyr en drottning elur barn og var það stúlkubarn, og annað, það var köttur, og hverfur hann strax. En þegar kóngur fær þá fregn að hann hafi fengið dóttir verður hann mjög glaður og lætur vatni ausa hana og kalla Dagbjört, því hún var svo fögur að engin var fegri. Nú ólst hún upp hjá foreldrum sínum og unntu þau henni mikið og létu byggja henni skemmu, og margar hirðmeyjar, og líður svo fram þar til hún var sextán ára gömul. Þá bar svo við að eitt kveld var hún með hirðmeyjum sínum úti í fögru veðri. Sjá þær þá hvar kemur þríhöfðaður þussi og hefur burt með sér konungsdóttir. Þær hljóðuðu og báðu hann að sleppa henni, en það kom fyrir eitt; hún hvarf þeim og fara þær heim og segja [konungi] frá óförum hennar. Býður hann nú öllum að hver sem getur fundið hana skuli fá hana og ríki eftir sig, og fór þessi fregn víða og er nú allir sem fara og leita að kóngsdóttir, en það kom fyrir eitt, hún fannst hvergi.
En það er að segja af kóngsdóttir að tröllkallinn bar hana undir skorpnum skinnstakk og linnti ekki fyr en hann kom að stórum hellir, setti hana niður og spurði hana hvert hún ekki vildi kyssa sig; hún segir nei. Tekur hann þá kóngsdóttir og fer með hana inn í hellir og bindur hana upp á hárin[u]. Hún var þar einn dag. En þegar dimma tók kemur Kisa og kallar inn: „Viltu vera systir mín, Dagbjört kóngsdóttir?“ [Hún kvað] nei [við] og fór hún þá á burt mjög sorgbitin. Nú líður önnur nótt og fer allt á sömu leið. Kemur þá Kisa í sama mund og segir sem fyr; þá segir hún: „Ég vil vera systir þín.“ Fór þá Kisa burt og kemur í kóngsríki; þar var verið að slátra nauti. Segir hún þá við konung hvert hún megi ekki eiga það sem hún geti borið. Kóngur segir jú. Tekur hún þá allt nautið og ber það allt á stýrinu. Þótti mönnum þetta undarlegt, og fer hún með það til hellirs, og er ekki að orðlengja það, fóstri Kisu drepur risann og fara þau til Dagbjartar og er hún þá náföl. Svo fer Kisa og býður henni málsverð og frískast hún þá bráðum. Nú fara þær og kanna hellirinn og finna þar ógrynni fjár. Fara þær þá heim og varð kóngur mikið feginn þegar hann sér dóttir sína og lætur hana fara til móður sinnar og Kisu með henni.
Nú líður og bíður og segir ekki frá neinu fyrri en að ár er liðið. Þá sést koma stór skipfloti og eru það tveir bræður sem annar beiddi kóngsdóttur. Segir hún að ef hinn Vilji eiga systir sína þá geti það lagazt. Nú eru haldin brúðkaupin og eldri bróðurinn fær Dagbjört, en hinn Kisu. Nú þegar líður á daginn fara hverutveggju brúðhjónin til hvílu og biður Dagbjört þernu að vaka um nóttina, og þegar komið er undir dag sér hún þar liggur hamur á gólfinu. Hún tekur hann og brennir. En þegar hann vaknar sér hann fríða kóngsdóttir hjá sér. Tekur hann þá vín og dreypir á hana. Raknar hún þá bráðum við. Var þá drukkið fagnaðarminni. Tók hann að stjórna ríki eftir föður hennar og unntust þau til elli.
Og lýkur hér sögu af Kisu kótigsdóttir. – Smérið rann, roðið brann, sagan upp á hvern mann sem hlýða kann. Brennist strá í kolli þeim sem ekki geldur mér sögulaun, annaðhvert á morgun eða annan dag í sama mund.