Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Kollu saga

Það var eitt sinn í fyrndinni að kall og kelling bjuggu á bæ. Þau áttu þrjár dætur sem hétu Ása, Signý og Helga. Helga var höfð út undan og lá í öskustónni, en hinar lifðu í mesta eftirlæti. Eitt kvöld gjörði mikið illviðri; þá segir kall við Ásu: „Gakktu út, Ása mín, og sæktu vettlingana mína á ugluna hjá bæjardyrunum.“ Ása gekk út. Þá stóð maður fyrir dyrum, tók í hönd henni og leiddi með sér þangað til þau komu að litlu húsi. Þar gekk hann inn og bað Ásu að hjálpa konu sinni, því hún lá á gólfi og gat ekki fætt. Ása afsagði það. Þá hryggðist maðurinn og sagði: „Ætlarðu þá að segja frá þessu sem fyrir þig hefir komið?“ „Já,“ sagði Ása. „Þá skaltu ei geta talað.“ En þetta var reyndar huldumaður. Nú fór Ása heim aftur. Þá bað faðir hennar Signýju að ganga út og sækja sokka sína á snaga út. Hún gjörði það. En þá stóð sami gesturinn úti og leiddi hana til konu sinnar. En Signý vildi ekki hjálpa henni heldur og lagði þá bóndi á hana að hún skyldi ei geta sagt frá þessu. Seinast kallaði faðir þeirra systra á Helgu og sagði: „Snáfaðu út og sæktu hempu mína í hrísköstinn!“ Hún gekk út. Þá var þar sami maðurinn og fyrr og leiddi hana til konu sinnar og bað hana að hjálpa henni. Hún gjörði það strax og leystist konan vel. Bóndi þakkaði henni og spurði hvort hún myndi segja frá þessu. „Nei,“ sagði Helga. „Komdu þá með mér,“ sagði hann, „og kjóstu þér ljósmóður-launin.“ Þau gengu í mörg hús sem full voru af fögrum klæðum, gulli og gersemum, en Helga vildi ekkert af þessu. Seinast komu þau í einn klefa og var þar allt dýrmætast. Þar stóð lítið borð á gólfinu. Þá heyrði Helga að sagt var undir borðinu: „Kjóstu mig og hringinn rauða! kjóstu mig og hringinn rauða!“ Hún leit undir borðið og sá þar undarliga skepnu litla og ljóta eins og þar stæði lítil kolla og hafði hvorki rétta mannsmynd né annarar skepnu. Þó kaus Helga hana og hringinn rauða sem hékk þar í klefanum. Það var hálsmen af gulli. Bóndi sagði: „Þessa muni vil ég sízt láta, en þó skal ég ekki neita þér um þá;“ og fekk þá Helgu. Konan gaf henni kistil og sagði hún skyldi ekki ljúka upp fyrr en henni lægi mikið á. Svo fór Helga heim, lagðist í öskustóna, en gróf kistilinn og hringinn rauða í eldhússhorninu. Ófreskjan sem hún kaus sér hét Kolla og var hún ýmist hjá henni eða úti við og gaf enginn henni gaum eða sáu hana ekki.

Nú liðu fram stundir. Þá bar það til eitt sinn að skip sigldi að landi og gengu menn af því heim að bænum. Einn þeirra var konungsson úr öðru landi, fríður og vel búinn. Hjónin tóku honum vel. Hann spyr bónda hvað margar dætur hann eigi. „Tvær,“ segir bóndi. Konungsson bað hann sýna sér þær. Þá gekk kallinn og bað dætur sínar að búa sig sem bezt, Ásu og Signýju, og sagði konungsson vildi sjá þær. Þær þvoðu sér vandlega og klæddu síðan. Eftir það gengu þær út. Þegar konungsson sá þær sagði hann: „Þú átt fleiri dætur kall og dugir þér ekki að dylja mig.“ „Ekki get ég talið öskufífl eitt,“ sagði kall, „sem nefnd er dóttir mín.“ „Láttu mig þó sjá hana,“ sagði konungsson. Þá þorði kall ekki annað og skipaði Helgu að koma út sem fljótast og sýna sig konungssyni. Hún stóð upp, þvoði sér og lauk nú upp kistlinum álfkonunaut. Þar var í þrennur klæðnaður: blár, rauður og grænn. Hún tók þann bláa og klæddi sig; gekk síðan út. Þegar konungsson sá hana leizt honum bezt á þessa stúlkuna og sagðist mundi biðja hennar – „en þó mun ég reyna fyrst hver þeirra saumar bezt.“ Síðan fekk hann þeim systrum dúka í klæðnað sinn hverri og sagði: „Að ári liðnu mun ég koma aftur; þá skuluð þið hafa saumað mér sína skikkju hver svo vel að mér sæmi; mun ég þá fá þá yðar sem bezt hefir saumað.“ Síðan fór hann af stað. Þær Ása og Signý voru óánægðar að konungsson hrósaði mest Helgu; fóru nú að sníða skikkjuna, en móðir þeirra settist framan á pall og spann togþráð. Síðan saumuðu þær systur og vönduðu sig sem bezt, en varð þó handaskömm. Kolla kom nú til Helgu og bauð henni að sauma skikkjuna. Helga þáði það. Þegar skikkjan var búin var það mesta snilldarverk og gulldregið með hverjum saum.

Þegar árið var liðið kom konungsson og komu þær systur Ása og Signý með sínar skikkjur; en konungssyni líkaði illa handbragðið. Seinast kom Helga og hafði nú búizt klæðunum grænu svo konungssyni varð starsýnt á hana. En þegar hann sá skikkjuna sem hún átti að sauma sagði hann: „Þessi skikkja er konungleg og svo vel saumuð að hvergi fær betri og mun ég kjósa þig, Helga, að þú verðir kona mín.“ Þetta gramdist kalli og meðan Helga var að búa sig tók hann öxi sína og brýndi ákaft. Þegar konungsson sá það spurði hann hvað hann vildi með þetta vopn. Kall sagði hann það engu varða. Þá sneri konungsson af honum öxina. Síðan fór hann af stað með Helgu, en hún tók með sér kistilinn og hringinn rauða.

Þegar konungsson kom heim í ríki sitt stofnaði hann til brúðkaups og gekk að eiga Helgu. Þá bjóst hún klæðnaðinum rauða. Eftir brúðkaupið bað Helga mann sinn – en hann hafði þá tekið við konungdóm – að taka aldrei veturvistarmann nema hann léti sig vita af. Hann lofaði því. Einn dag var konungur á dýraveiðum. Þá kom til hans maður tígulega búinn og heilsaði honum kurteislega. Hann kvaðst heita Rauður; – „og er ég kominn til þess á yðar fund að biðja yður veturvistar.“ „Það má ég ekki veita,“ sagði konungur, „fyrr en ég tala við drottningu mína.“ „Ekki er það konunglegt,“ sagði Rauður, „að þora ekki að veita einum manni mat vetrarlangt nema kona yðar leyfi.“ Konungi brá við þetta og lét til leiðast að lofa veturvistinni. Þegar þeir komu heim sagði hann drottningu hvornig komið var; að hann hefði neyðzt til að brjóta loforð sitt við hana og taka veturvistarmann. Hún hryggðist við og sagði illt mundi hljótast af þessu. Þó var nú allt kyrrt um sinn. Rauður var vitur í ráðum og vinsæll hjá hirðinni. Hann var svo fylgisamur konungi að hann kom sér strax í mikla kærleika við hann. Gjörði konungur hann ráðgjafa sinn og þótti það allt bezt sem hann lagði til.

Um þessar mundir var drottning með barni og lagðist nú á gólf. Hún leið miklar þjáningar og gat enginn hjálpað henni. Konungur leitar ráða hjá Rauði, en hann kvaðst mundi geta hjálpað drottningu ef enginn væri annar hjá henni. Nú var öllum vísað úr salnum og var Rauður einn eftir. Þá fæddi drottning meybarn, en Rauður tók það og skar það út fyrir hallargluggann og kastaði þar niður. Í stað barnsins lét hann hjá drottningu kettling, en lagði málleysisgull í munn henni svo hún gat ekki sagt frá neinu. Þá segir hann konungi að drottning sé leyst, en það séu mikil undur hvað hún hafi fætt af sér og biður konung koma til og sjá. Þegar hann kom og sá kettlinginn brá honum mjög við og vildi tala við drottningu, en hún var harmþrungin og talaði ekki. Rauður sagði að drottning mundi vera einhver ókind og sæmdi konungi ekki að hafa hana lengur hjá sér. Konungur sagðist hafa mikla ást á henni; mætti hún ekki gjöra að þessu og skyldi reyna hvernig annað sinn færi. Að ári liðnu fæddi drottning meybarn. Rauður var einn hjá henni eins og áður – skar barnið út um hallargluggann og kastaði þar niður, en lét hvolp í stað þess hjá drottningu og varnaði henni máls. Þegar konungur kom til varð hann hryggur, en vildi þó ekki enn láta refsa drottningu eða reka hana frá sér hvernig sem Rauður taldi um fyrir honum. Þriðja árið fæddi drottning fagurt sveinbarn. Rauður var einn viðstaddur, því annars gat drottning ekki fætt. Hann tók nú sveininn og skar út um gluggann, en lét trékubba hjá drottningu. Nú varð konungur afar reiður þegar hann sá þessi býsn og fekk aldrei orð af drottningu; sagði nú að allir mætti sjá að Rauður segði satt og mundi drottning vera mesta flagð. Lét hann þá reka hana burtu frá hirðinni allslausa, og ráfaði drottning ein út á skóg. Þegar hún kom þangað kom Kolla til hennar, en hafði aldrei áður komið þessi þrjú ár. Helga fagnaði henni og sagði raunir sínar, en hún hughreysti drottningu. Síðan byggðu þær sér laufskála, höfðust þar við um stund og lifðu á skógaraldinum. Höll konungs stóð nærri sjó, en skammt frá landi lá eyja ein; þar gengu sauðir konungs. Einn dag segir Kolla við drottningu: „Nú skulum við fá bát og komast út í eyna og slátra sauðum konungs. Þar getum við lengi lifað.“ Þær gjörðu svo, fundu lítinn bát og reru út í eyna. Ekki höfðu þær annað með sér en pál og reku sem Kolla átti. Þegar þær komu upp á eyjuna völdu þær sér hússtæði. Þá sagði Kolla við pálinn og rekuna: „Stikktu páll, en mokaðu reka!“ Þau gerðu það og byggðu þannig með þeim vænt hús. Hér bjuggu þær um stund og slátruðu óspart sauðum konungs. Ekki leið á löngu áður konungi þóttu sauðir sínir fækka og sagði þjófar væri komnir í eyjuna; væri því ráðlegast að fara til og refsa þeim. Þeir Rauður fóru með fjölda manna á skip. En þegar þeir voru skammt komnir á leið fór Kolla upp á kofann og hristi svuntu sína. Kom þá veður svo mikið að skipin rak að landi og varð að hætta eyjarferðinni. Annað sinn lögðu þeir konungur til og fór á sömu leið. En í þriðja sinn komust þeir út undir eyna; þá hvessti svo að skipinu hvolfdi, en þeir Rauður komust á sundi upp í eyjuna. Þeir gengu upp að húsinu. Helga stóð úti og bauð þeim inn. Þar stóð borð á miðju gólfi og gullstóll öðrumegin, en tréstóll hins vegar. Hún sagði Rauð að setjast á gullstólinn, en konungi á hinn. Rauður varð yfrið glaður af þessari miklu virðingu. Nú var borið á borð bezta vist og vín og hresstu þeir sig konungur og Rauður og urðu glaðir. Helga hafði hringinn rauða á hálsi eftir ráðum Kollu. Þegar Rauður sá hringinn þótti honum hann fagur og bað Helgu að sýna sér. Hún gjörði það og lét hann hringinn á háls sér og var hinn glaðasti. Þá sagði hún að nú væri bezt að skemmta með því að allir segði ævisögur sínar; þeir tóku því vel. Þá segir hún að Rauður ráðgjafi skyldi byrja, og vildi konungur það. Rauður var ekki fús til, en þorði þó ekki annað og byrjaði þannig: „Faðir minn var ríkur bóndi og átti nokkur börn; ég var elztur og í mestu eftirlæti. Af því varð ég ódæll og erfiður og þó faðir minn vildi aga mig þoldi ég það ekki og hljóp í burtu.“ „Nei,“ sagði Helga, „hlauptu ekki yfir! Hertu að, hringurinn rauði, svo hann segi satt.“ Þá herti hringurinn að hálsinum, en Rauður æpti upp og sagði: „Ég skal segja! ég skal segja!“ Sagði hann þá frá því að hann hefði drepið föður sinn og móður og dregið undir sig allt féð; síðan hefði hann kvongazt og átt þrjár dætur sem hétu Ása, Signý og Helga. Kom þá upp að þetta var faðir Helgu. Þegar kom að því þegar hann brýndi öxina ætlaði hann að hlaupa yfir það. Þá sagði Helga: „Hertu nú að, hringurinn rauði!“ En þegar Rauður fann að hann ætlaði að kyrkjast sagði hann sem fyrr: „Ég skal segja! ég skal segja!“ Hélt hann þá áfram og sagði rétt frá, að hann hefði ætlað að höggva Helgu dóttur sína því hann hefði ekki getað þolað hún yrði drottning, öskufíflið, en hinar dætur sínar smáðar. Þá sagði hann enn rétt frá þegar hann kom til konungs og kom sér í mjúkinn hjá honum og allt þangað til hann skar fyrsta barnið; yfir það ætlaði hann að hlaupa. Þá sagði Helga hringnum að herða að svo kall hélt áfram, en vildi þó í hvert sinn hlaupa yfir er hann skar börnin, gjörði drottningu mállausa og rægði hana. En þegar hringurinn herti að hálsinum eftir skipun Helgu sagði hann rétt frá öllu. Seinast sagði hann frá að hann hefði ætlað sér að drepa konung nema hann ætti aðra dóttur sína sem eftir var. Þá sagði Helga: „Hertu nú að, hringurinn rauði, svo höfuðið fari af!“ Og það gjörði hringurinn. Konungur hafði setið sem agndofa. En nú spratt hann upp, þekkti konu sína og faðmaði hana að sér, bað hana fyrirgefa sér hvernig hann hefði breytt við hana og þau grétu bæði. Þá kom Kolla inn í húsið og leiddi þrjú börn, tvær stúlkur og einn svein. „Hér eru nú börn ykkar, konungur!“ sagði hún; „þegar Rauður ætlaði að skera hvert þeirra brá ég lærinu á mér fyrir, en gjörði honum sjónhverfingar; sjáið örin þrjú!“ Það voru mikil ör hvert hjá öðru á læri ófreskjunnar. „En ég var sjálf,“ sagði hún, „úti fyrir glugganum þegar hann kastaði börnunum, og tók móti þeim. Hefi ég fóstrað þau upp og fæ ykkur þau nú í hendur heil og hraust.“ Þau konungur og drottning urðu yfrið glöð af þessu, þökkuðu kellingu velgjörð hennar og sneru síðan með mikilli gleði heim í ríki sitt. Borgarlýðurinn fagnaði þeim mikillega. Settist konungur aftur að ríki sínu og lifði með drottningu sinni í sæld og gleði til elli. Og lýkur svo þessari sögu.