Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Konungsdóttirin og ráðgjafinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Konungsdóttirin og ráðgjafinn

Þjóðkonungur einn ríkur og mektugur, svo að honum þjónuðu tuttugu konungar, átti eina dóttur barna, fríða mey og fagra, vitra og kurteisa.

Meðal annara tiginborinna manna er konungi þjónuðu var ráðgjafi konungs, ungur maður, fríður og hinn siðugasti í allri hegðan.

Þess er að geta að konungsdóttir verður eitt sinn síðla dags gengið úr skemmu sinni svo utan við sig eins og hún væri í leiðslu. Kemst hún út á skóg og kemur loks að skíðgarði einum. Þar var opið hlið á garðinum og tveir varðhundar hvorumegin dyra bundnir með viðjum, Hún gengur inn um skíðgarðshliðið. Þar stóð skáli einn opinn upp á gátt. Þar gengur hún inn og er það fagurt hús allt uppljómað. Sæng var þar ein með fögrum reflum og borð hjá sænginni. Upp í húsinu sér hún hanga átján kvenmanna klæðnað og hár af eins mörgum bundið í vöndla. Henni verður ekki um sel við sjón þessa. Samt tekur hún lepp úr hverju hári og geymir hjá sér. Því næst fer hún að leita sér að fylgsni, því henni leizt ekki á blikuna. Skreið hún undir rúm skálabúa, en lítt vildi batna við það, því þar var gryfja full af mannabúkum. Þar nemur hún samt staðar um sinn þótt ógurlegt væri. En er komið var fram á nótt heyrir hún að gengið er um skálann. Þekkir hún að þar kemur áðurnefndur ráðgjafi föður hennar og leiðir við hönd sér unga mey og fríða, setur hana við borðið, ber á borð fyrir hana á diski mannshöfuð og hönd og biður hana neyta. „Öðru lofaðir þú mér þegar þú tókst mig úr föðurgarði,“ segir hún, og neitar hún að neyta matarins. Hann tekur hönd hennar þá og heggur af, býður henni enn til máltíðar, en hún neitar. Kvistar hann svo limu hennar og býður henni jafnan til matar, en hún neitar ávallt. Loks heggur hann af henni höfuðið og snarar henni undir rúm.

Þegar hann var til sængur genginn og sofnaður skríður hún undan rúminu, nær lokki úr hári mærinnar og fer í burtu í skyndi, hleypur sem af tekur áleiðis heim til borgar. En er hún er komin langleiðina heyrir hún til hundanna á eftir sér, herðir nú á hlaupunum af öllum kröftum. Einmitt í sama bili og hundarnir komu féll hún í gryfju eina svo hundarnir náðu aðeins í klæðafald hennar og héldu því er þeir náðu. Lá hún þar lengi í óviti. En er hún raknaði við klifrast hún upp úr gryfjunni og kemst í skemmu sína. Af þessu öllu saman leggst hún í rekkju. En er hún kemst til heilsu gengur hún fyrir föður sinn og biður hann afla til mikillar veizlu í þakklætisminning fyrir fengna heilsu og bjóða til þessarar sömu veizlu öllum hans skattkonungum, jöllum og hertogum með öllu stórmenni ríkisins.

Konungur tilbýr nú veizlu og býður mönnum. Rís þar upp hin sköruglegasta veizla með rausn og stórmennsku allri sem slíkum konungi mundi sæma. Var þar drukkið ákaflega og margt til gleði og skemmtunar fundið af spökum mönnum og spilmönnum með hljóðfæraslætti og gleði hvers konar. En er mestur glaumur var í höllinni biður konungsdóttur sér hljóðs og að fengnu leyfi hefir hún upp mál sitt og spyr hvort menn vilji ekki auka gleðina með sögum fróðra manna og ævintýrum – „og mun ég fyrst byrja með því að segja drauma mína.“ Menn tóku því með fagnaði. Hóf hún þá mál sitt á þessa leið:

„Mig dreymdi það fyrir skemmstu að ég gengi úr skemmu minni. Komst ég að skíðgarði einum á skógi úti. Þar gekk ég inn og sá þar klæði af átján kvenmönnum uppi hangandi og eins mörg hár. Þar undir rúmið þóktumst eg skríða, því ég varð hrædd. Þóktumst eg finna þar mannabúka og fól ég mig þar á millum. Maður þókti mér ganga í skálann og leiða við hönd sér unga konu. Bauð hann henni að eta mannshöfuð, ristur og hendur, en hún neitaði. Eftir það hjó hann af henni höfuðið, þókti mér, [og] kastaði líkama hinnar dauðu til mín undir rúm.“

Þegar hér var komið draumnum beiddist ráðgjafinn útgönguleyfis að erindum sínum. Hún neitaði og sagði draumur sinn væri enn ekki búinn; allir skyldu sitja og hlýða þar til lokið væri. Hóf hún þá aftur draum sinn. En er þar kom hún féll í gröfina beiddist hann enn útgöngu; hafði hún allt hin sömu svör og sagði draum sínum þegar lokið. Að endingu segir hún:

„En þetta er nú enginn draumur.“ Lagði hún þá hárlokkana á borðið og höndina með gullhringnum af mey þeirri er drepin var þar í húsinu. Þekktu þar margir konungar hár dætra sinna og einn þeirra hár og hönd dóttur sinnar. Kviknaði harmur og reiði í brjóstum margra er hún bætti þessum orðum við:

„Þessi ráðgjafi föður míns er nú hinn sami maður, og fari menn nú til skála hans og leitið, svo saga mín sannist.“

Fundu menn þar líkami konungsdætra og var þeim veitt konungleg greftrun.

Illmennið var gripið og neytt til sagna. Viðurkenndi hann morðin og sagðist hafa ætlað konungsdóttur hið sama; hefði hann ætlað því fram að halda þar til hann fyndi einhverja er æti það er á disknum væri.

Síðan var hann tekinn og píndur, klipinn átján klípur með glóandi töngum og síðan afhöfðaður og brenndur.