Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Kresent vitringur

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og kall og kelling í koti sínu. Kóngurinn átti sér eina dóttur sem hét Ingibjörg. Hún var fríð og vel að sér og unni kóngur og drottning henni mikið og lét kóngur byggja henni skemmu og sat hún þar með þjónustumeyjum sínum. Kall og kelling sem áður er getið bjuggu í koti einu langt frá konungshöll næstum út við landamæri og vóru fátæk mjög. Ekki er getið um nöfn þeirra. Þau áttu sér einn son barna er Kresent hét. Ólst hann upp hjá foreldrum sínum þar til hann var frumvaxta og kölluðu þau hann oft í daglegu máli einungis Kres.

Það var eitt sinn að hann gekk fyrir karl og kerling og sagði að hann mundi yfirgefa þau og fara til konungshallar að leita sér fjár og frama og kvað sig so hafa dreymt að hann mundi nokkuð gott þar af hljóta. En þau urðu hrygg við og sögðust ekki mega missa hann; en þar hann sókti fast eftir létu þau um síðir til leiðast að gefa hönum fararleyfi og bjuggu þau hann so vel þau gátu og skildist hann við þau með miklum söknuði. Segir svo ei af ferð hans fyr en hann kemur í konungsborg. Var hann þar öllum ókenndur og kom hann sér þar fyrir í einhvurjum stað til húsa. Skömmu eftir að hann var kominn í borgina bar það við að hann sá margar meyjar skrautbúnar ganga frá konungshöllinni til skemmu einnar. Kresent starði á þetta, því hann hafði aldrei áður séð þvílíkt skart og skrautbúnað. So leizt hönum mjög vel á meyju þá er fyrir gekk, en það var Ingibjörg kóngsdóttir. Horfði hann á eftir þeim þar til þær voru inn gengnar og stóð hissa á eftir eins og utan við sig. Fékk hann mikla ást á kóngsdóttir, því hann varð gagntekinn af fegurð hennar og skrautklæði, en sá það með öllu ómögulegt að hann gæti fengið hennar, varð af þessu nokkuð utan við sig og fór að fara einförum. En maður sá er hann hafði fengið húsnæði hjá fór að taka eftir þessu og gaf sig því í tal við hann og spyr hann hvað að honum gangi. Hann dylur hins sanna og segir það ekkert vera, því lítið sé að marka þó hann fari einförum, því hann sé þá að hugsa um þá hluti sem almenningur þekki ekki og með því móti komist hann að sumu því sem ekki sé öllum ljóst og úr mörgu hafi hann getað leyst sem sumir hafi ekki getað og hafi hann verið kallaður spekingur á sínu landi. Maðurinn segir konungi það að til sín sé kominn maður nokkur útlendur sem þykist vera spekingur að viti. Kóngi þykir vænt um að slíkur maður væri kominn í borg hans og lætur þegar senda eftir honum og tekur hann í hirð sína. Gengur hann fyrir kóng og kveður hann vel. Kóngur tekur vel kveðju hans og segist því hafa sent eftir hönum að hann hafi mikið heyrt talað um vizku hans og skuli hann vera velkominn í hirð sinni, en seinna segist hann muni reyna vizku hans, og vísar honum til sætis hjá hirðmönnum sínum og er Kresent þar nokkra stund og er fáskiptinn og heldur hljóður.

Það var einn dag að konungur lætur kalla Kresent fyrir sig og segist ætla að reyna vizku hans með einni spurningu og það sé sú að segja sér hvort drottning sín sem sé ólétt gangi með pilt eða stúlku. Kresent segist ekki geta það að sinni og biður um þriggja daga frest og veitir kóngur hönum það. Kresent gengur þá aftur til sætis síns og var hljóður mjög, því hvorki var hann neinn spekingur að viti og þar til hafði hann alizt upp í afdal einum fjærri öðrum mönnum og vanizt ekki mannfundum og sízt að vera nærri tignum mönnum. Að þremur dögum liðnum lætur kóngur kalla hann aftur fyrir sig og biður hann nú að leysa úr spurningu sinni. Kresent er nú yfrið hræddur, því hann veit nú ekki hér um hið minnsta, en segir þó að lyktum í einhvurju fáti að ekki geti hann sagt það glögglega, því þessa þrjá daga sem hann hafi séð hana ganga um höllina hafi sér sýnzt hún ganga með sveinbarn þegar hún gekk innar eftir höllinni, en stúlkubarn þegar hún gekk út, og geti því vel verið að hún gangi með tvíbura. Fer hann nú aftur til sætis síns og er hljóður mjög, því hann er hræddur að þetta hafi verið tóm vitleysa. Líður so að þeim tíma að drottning leggst á gólf. Vill þá svo til að hún elur son og dóttir. Þykir þá Kresent vænkast sitt ráð, því kóngur verður mjög glaður og þykir hönum Kresent vera spekingur mikill og lætur taka hann úr sæti því er hann hefir í setið og lætur seta hann í öndvegi gegnt sér og lætur klæða hann tignarskrúða; og leið so nokkur tími að ekki bar til tíðinda.

Eitt sinn var það að konungur hélt mikla veizlu og bauð til sín öllu stórmenni ríkis síns og hafði kóngur skömmu áður fengið matgjörðamann einn úr öðru ríki sem var fremur að sér [en] aðrir menn að búa til dýra og margbreytta rétti. Biður þá kóngur matgjörðamann sinn að sýna nú kunst sína og hafa so mikið við tilbúning og margbreytni réttanna sem honum sé unnt. Matgjörðamaður lofar því; og þegar veizlan stóð sem hæst er borinn réttur einn á konungsborð sem enginn þekkti og fara menn að spurja hvur annan í hljóði hvað réttur þessi muni heita, en enginn er öðrum fremri. Kóngur kemst að þessu og segir þá að þeim manni skuli hann gefa skikkju dýra og gullhring góðan sem segi sér hvað réttur þessi heiti, því kóngur vissi það einn, því matgjörðamaður hafði sagt hönum það áður. Nú þögðu allir í höllinni og að lyktum segir Kresent sem ekki vissi þetta heldur en aðrir: „Nú veit ekki Kres hvurju hann á að svara.“ Þá segir kóngur: „Mér hugkvæmdist það ekki að taka spekinginn minn undan, því við mátti búast að hann vissi það af vizku sinni.“ En so hittist á að réttur þessi hét kres og eru því þessi orð Kresents höfð að máltæki síðan þegar einhvur kemst í bobba að svara því sem hann er um spurður að nú viti ekki Kres hvurju hann eigi að svara. Konungur fékk þá Kresent skikkjuna og hringinn að launum eins og hann hafði lofað og óx virðing Kresents við þetta, því bæði kóngur og höfðingjar luku lofsorði á vizku Kresents að hann væri þar í öllum fremri. Liðu so nokkrir tímar að Kresent var með kóngi í hávegum.

Konungur átti gullhring einn mikinn alsettan eðalsteinum og þókti hönum hann mest gersemi dýrgripa sinna, því hann hafði tekið hann að erfðum eftir forfeður sína. Eitt sinn bar það við að hringur þessi var hvorfinn úr fjárhirzlu konungs og vissi [enginn] hvurnin hann hafði farið og álitu menn að hönum mundi hafa verið stolið. Þegar kóngur varð þess [var] varð hann bæði hryggur og reiður og sór að hvur sá sem hringnum hefði stolið skyldi fá hinn háðulegasta dauða, en hvur sá sem gæti sagt sér hvur hönum stolið hefði eða fært sér hringinn aftur skyldi fá dóttur sína og hálft ríkið við sig; en þetta kunni enginn að gjöra. Þá lætur hann kalla Kresent fyrir sig og biður hann segja sér það og skuli hann með því reyna speki hans og segir hönum hvurju hann hafi þar um heitið. Kresent segist það ekki geta og þeir einir munu hafa stolið hönum sem ekki væri gott við að eiga; en þar Kresent hefur mikla ást á kóngsdóttur þá vill hann ekki með öllu undan skorast og biður hann kóng að gefa sér frest til umþenkingar. Kóngur segir hann skuli einasta fá þriggja daga frest og skuli hann á þeim tíma vera einn í húsi nokkru og skuli hann öngvan láta til hans koma á þeim tíma. En ef hann geti ei sagt sér það að þremur dögum liðnum skuli hann drepinn verða, því hann álíti þá vizku hans að öngvu nýta. Kresent er nú látinn í hús eitt og þar hann áleit að þessir dagar yrðu sínir síðustu þá hugði hann sér að lifa þá vel og beiddist eftir að sér væri fært þangað hinir dýrustu réttir og bezta vín og var það gjört og var so húsinu lokað. Þegar Kresent er þangað kominn fer hann fyrst og fremst að gjöra sér gott af matnum og tekur sér so vel í staupinu og verður hann nokkvuð ölvaður og þegar hann er búinn að þessu fer hann að hugsa um sinn hag og veit ekkert hvað hann á til bragðs að taka og telur sér dauðann vísan að þriggja daga fresti. Þegar kvöld er komið leggur hann sig til svefns og getur ekki sofnað. Fer hann þá aftur á fætur og sýpur nú enn á víni og sezt so á legubekk einn nálægt dyrum hússins og fer að raula fyrir munni sér tölu þeirra daga er hann áleit sig eiga ólifaða: „Þrír eru þeir, en ekki fleiri;“ og þar hann var nokkuð ölvaður þá át hann þessi orð upp aftur og aftur og kvað stundum við raust og lét hann þetta ganga lengi fram eftir nóttinni þar til hann að lyktum sofnaði.

En so stóð á að þrír hirðmenn kóngs höfðu stolið hring þessum og þegar þeir heyrðu hvur ummæli að konungur hafði haft og svo að Kresent var boðin kóngsdóttir til að grennslast eftir hvurjir stolið hefði og búið væri að loka hann í hús eitt – urðu þeir þá hræddir mjög, því þeir álitu Kresent speking mikinn. Um nóttina fóru þeir að húsi Kresents að vita hvort þeir heyrðu ekkert til hans. Þegar þeir komu þar hittist so á að Kresent var að syngja þau áðurtöldu orð. Þegar þeir heyrðu þetta urðu þeir enn hræddari, því nú þóktust þeir vita að Kresent vissi hvað margir hefði hringnum stolið. Fóru þeir þá með flýtir í burtu og voru í ráðaleysi hvað þeir skyldu til bragðs taka og kom þeim ásamt að bíða og vita hvað þeir heyrðu til hans næstu nótt.

Kresent vaknaði um morguninn. Fer hann þá eins að og daginn fyrir að hann gerir sér gott af réttunum og drekkur nokkuð af víni. Fer þá eins og fyrra kvöldið að hann getur ekki sofnað. Sezt hann þá í legubekkinn og er orðinn nokkuð ölvaður. Fer hann þá að telja dagana eins og fyrri og segir: „Af er minn sá fyrsti og ekki eru nema tveir eftir.“ Hefur hann þetta upp aftur og aftur og kveður stundum við raust. Mitt í þessu koma þjófarnir að húsinu og heyra þeir þá hvað Kresent er að syngja. Telja þeir þá víst að hann sé búinn að vita hvur einn þeirra sé. Fara þeir nú þegar í burtu og eru hálfu hræddari en áður, en koma sér þó saman um að lyktum að koma enn næstu nótt að vita hvað þeir heyri til Kresents.

Þegar hann er lengi búinn að hafa þessar raunatölur sofnar hann í legubekknum og vaknar ekki fyr en komið er fram á næsta dag, hefur sama sið og fyrri daginn; og þegar kvöld er komið getur hann ekki sofnað. Drekkur hann þá nokkuð af víninu og þegar hann er orðinn ölvaður sezt hann á legubekkinn eins og fyrri og fer að telja tölur sínar og hugsa um hvað líður á tímann og fer að segja: „Af er minn hinn annar, ekki er nema einn eftir“ – og kveður hann þetta stundum við raust. Þegar hann er að þessu koma þjófarnir og standa á hleri og þegar þeir heyra þetta til Kresents þá telja þeir víst að hann viti hvurjir þeir séu og sé búinn að þekkja tvo af þeim með vizku sinni, en einn muni vera eftir. Verða þeir þá hálfu hræddari en áður og hverfa þegar heim aftur. Hafa þeir nú ráðagjörðir miklar með sér hvað þeir skuli til bragðs taka og segja þeir það muni fyrir ekkert koma þó þeir forlóri eða fleygi hringnum, því Kresent muni þegar sjá það [af] vizku sinni og ekki dugi þeim að strjúka úr borginni vegna varðmanna sem mundu verða þess varir og taka þá og yrðu þeir þá drepnir, og verður það seinasta úrræði þeirra að bíða til næstu nætur.

Nú er að segja frá Kresent að hann vaknar um morguninn. Er hann þá mjög órólegur, því hann álítur að þetta sé sinn síðasti dagur og er það lengi dags að hann hefur öngva matarlyst; en þó verður það þegar á líður daginn að hann sezt til borðs og ætlar að fara að snæða, en verður þó lítið úr því, því hann hefur litla matarlyst. Fer hann þá að drekka vín og þegar kvöld er komið er hann orðinn ölvaður. Reynir hann nú eigi að sofna, heldur gengur um gólf í þungum þönkum og sezt þegar í legubekkinn, því farið var að húma, og fer að syngja: „Af er minn sá þriðji og síðasti“ – og er að því lengi. En á meðan koma þjófarnir og heyra hvað Kresent er að syngja. Verða þeir þá hálfu hræddari en áður og hugsa þeir því að hann sé búinn að uppgötva hvurjir þeir séu og segi hann til þeirra að morgni og verði þeir þá allir teknir fastir og drepnir. Eru þeir þá í stakasta ráðaleysi hvað þeir skuli til bragðs taka og standa þeir þar nokkra stund höggdofa, en að lyktum koma þeir sér saman um að flýja á náðir Kresents og reyna að biðja hann miskunnar. Klappa þeir þá á hurðina, en þegar Kresent heyrir það kippist hann við af hræðslu og hættir að syngja, því hann heldur að kóngsmenn séu komnir eftir sér og þegir hann nú sem steinn og lýkur ekki upp. En þegar hinir sjá að Kresent lýkur ekki upp þá hugsa þeir að það sé af reiði hans við sig. Kalla þeir þá upp: „Herra Kresent, æ, herra Kresent, miskunna þú okkur; við erum komnir hér með hringinn til að færa þér hann og flýja á þínar náðir.“ Þegar Kresent heyrir þetta þá ræður hann það af að ljúka upp húsinu og er þá mjög hræddur og sezt aftur þegjandi í legubekkinn. Ganga þá þjófarnir inn og fleygja sér þegar flötum fyrir fætur hans og rétta hönum hringinn og segjast hafa stolið hönum eins og hann muni vita og biðja hann miskunnar að þetta verði ei uppvíst, því þá verði þeir dauðasekir. Kresent þegir nokkra stund og veit ei hvaðan á sig stendur veðrið eða hvort þetta sé draumur. Að lyktum fer hann að átta sig og segir þeim að standa upp og ávítar þá fyrir þjófnaðinn og drottinssvikin. Þeir biðja hann auðmjúklega miskunnar, en hann segir það sé enginn hægðarleikur þegar hann eigi að fara að skýra kóngi frá öllum málavöxtum og þó skuli hann reyna til að hjálpa þeim. Segir hann þeim þá að fara út á strætin og sækja uxa kóngs hinn góða ef þeir geti náð hönum og koma með hann til sín. Þeir gjöra það, en þegar þeir koma með uxann þá er Kresent búinn að maka utan um hringinn því sem vant var að gefa uxanum og sem hönum þótti lostætast. Lætur hann þá uxann gleypa hringinn og so fara þeir með hann aftur í sama stað og fara so heim.

Nú er að segja frá kóngi að strax sem dagur er sendir hann menn til Kresents og boðar hann á sinn fund. Kresent fer með þeim og gengur þegar fyrir kóng. Kóngur spyr þá Kresent hvurs hann sé orðinn vísari um hringinn. Kresent svarar að hann hafi örðugt með að vita það hvar hringurinn væri niður kominn, en það sé hönum að segja að sá sem hringnum hafi stolið sé nú flúinn úr landi og hafi hann orðið hræddur þegar hann hafði heyrt að hann væri kominn í eitt hús til að grennslast eftir hönum, þá hafi hann fleygt hringnum fyrir uxa hans hinn góða og muni hann hafa gleypt hann. En um dag þennan áður en Kresent gekk fyrir kóng hafði hann fundið einn af þrælum kóngs og fengið hönum fésjóð nokkurn og sagði hann skyldi eiga hann og flýja hið fljótasta út úr borginni og svo úr landi og skyldi hann hafa fé þetta til farareyris sér og uppeldis, því Kresent sagðist vera orðinn [þess] vís að nokkrir af þrælum eða hirðmönnum konungs hefði stolið hringnum góða og þegar kóngur vissi þetta gæti so farið að hann léti taka alla þræla sína fasta og drepa. Þrællinn varð glaður við og þakkaði Kresent fyrir féð og bjó sig hið skjótasta til burtferðar og komst þannig út úr borginni að engvir veittu því eftirtekt. Hélt hann so burt úr ríki konungs og er hann úr sögunni. Konungi þókti að sönnu ótrúleg þessi saga Kresents, en samt til að reyna vizku hans lét hann taka uxann og slátra hönum. Fannst þá hringurinn í maga uxans eins og Kresent hafði sagt. Þá varð kóngur hissa og sagði að Kresent væri einn hinn mesti spekingur í heimi og voru höfðingjar hans því samdóma.

Sagði þá konungur dóttur sinni að Kresent væri búinn að vita allt um hringinn góða og hann væri nú fundinn; og so sagði hann henni að hann hefði lofað hana Kresenti til konu og biður hana samþykkja það, því henni [væri] fullkosta þar sem Kresent væri, því hann [væri] nú sá mesti spekingur í heimi og jafnvel eins vitur og Salómon hinn mikli Júðakóngur sem nafnfrægur væri fyrir vizku sína um allan heim. Kóngsdóttur hafði litizt vel á Kresent þegar hún sá hann áður í höllu föður síns og gaf hún þar strax til samþykki sitt. Lét þá kóngur búast við brúðkaupi miklu og bauð til þess öllu stórmenni ríkis síns og var veizla hin bezta og var það haft til skemmtunar að menn vóru að hrósa vizku Kresents. Þá spyr kóngur Kresent aftur hvur muni hafa hringinn tekið. Kresent segist hafa sagt hönum það áður, en það hafi verið einn af þrælum hans og sé hann nú kominn burt úr landi. Lét þá kóngur kanna þrælalið sitt og vantaði einn og vissi enginn hvað af hönum var orðið. Álitu þá allir það satt að sá hefði stolið hringnum sem Kresent sagði.

Að endaðri veizlunni vóru allir boðsmenn út leystir með góðum gjöfum. Fékk kóngur þá Kresent hálft ríkið til forráða og gerði hann að kóngi og fékk Kresent síðan allt eftir hans dag. Kresent var ástsæll kóngur þegnum sínum, því hann var stjórnsamur og spaklyndur og stóð mönnum ótti af að gjöra nokkur ódáðaverk í ríki hans vegna vizku hans. Með þeim Kresent og Ingibjörgu tókust brátt góðar ástir og ríktu til ellidaga og þótti Kresent kóngur gæfumaður, því í öngvu var hann vitrari en aðrir menn.

Áttu börn og burur,
grófu rætur og murur.

Og endar svo þessi saga.