Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Lipurtá karlsdóttir

Það var einu sinni karl og kerling sem bjuggu í koti sínu. Þau áttu sér þrjár dætur; hét ein Ásný, önnur Sigríður, og Lipurtá. Þar stóð geymsluhús skammt frá kotinu sem var sóktur í vikuforði á hverri helgi og var það vani að þær systur sóktu til skiptis með föður sínum vikuforðann í húsið. Það lá lækur á milli kotsins og hússins, sem yfir þurfti að fara.

Nú var það einu sinni sem oftar að Lipurtá átti að fara með föður sínum í forðabúrið, en á heimleiðinni þegar að læknum kom sagði hún við föður sinn hvort hann vildi eigi fara á undan sér. Þegar þau komu út á miðja brúna á læknum þá hratt hún föður sínum ofan í lækinn. Síðan kastaði hún byrðinni af sér og néri augun á sér í lauk til þess að það skyldi sýnast að hún gréti. Þegar hún kom heim kemur hún varla upp orði fyrir harmi og segir að faðir sinn hafi dottið í lækinn og biður þær fljótt um hjálp til að ná honum upp. So fara þær systur og draga hann úr læknum og sjá þær að hann er örendur og er hann harmaður mikið, en þó mest af Lipurtá.

Líður nú nokkur tími þar til einu sinni að þær eru á ferð yfir sama lækinn Lipurtá og móðir hennar; þá fer á sömu leið og fyrri að hún hrindir móður sinni ofan í lækinn. Hleypur hún so æpandi heim til systra sinna og segir þeim hvernin farið hafi. Fara þær nú og atla að hjálpa móður sinni. Sjá þær þá að hún er dáin; verður þá sorg þeirra tvöföld við hina fyrri.

Nú eru þær nokkurn tíma einsamlar í kotinu. Einu sinni eru þær systur Ásný og Lipurtá að þvo í þeim sama læk. Hrindir þá Lipurtá systur sinni ofan í lækinn, hleypur so heim til Sigríðar og segir henni hvernin komið er. Nú fer Sigríði að gruna hvurnin á öllu muni standa og hugsar hún sér að komast sem fyrst frá þessari óhappasystir. Nú eru þær lítinn tíma saman í kotinu þar til Sigríður eitt kveld fær tækifæri til að komast í burtu. Hleypur hún þá sem fætur toga og er ei sagt frá ferðum hennar fyr en hún er búin að halda áfram í þrjá mánuði. Kemur hún þá að stórum búgarði; þar réði fyrir ein ekkjufrú. Sigríður gerir boð fyrir hana og býður henni þjónustu sína og tekur hún vel á móti henni og lætur hana verða sína herbergisjómfrú. Er nú Sigríður þarna um tíma og unir sér vel, en er þó jafnan fálát. Einu sinni þá þær voru saman, frúin og Sigríður, þá spyr frúin hana hvað til þess komi að hún sé so jafnan fálát; sér sýnist hún búa yfir einhverjum þungum harmi og segir hún skuli segja sér það og engu leyna því hún vili hjálpa henni það sem hún geti. Segir Sigríður henni af öllum raunum sínum og biður hana um ásjá; hún segist vera hrædd um að Lipurtá muni vilja leita sig uppi, en hún segist ei vilja að hún viti hvar hún sé niður komin. Frúin segir að hún skuli sjá so til að þó Lipurtá komi þar þá skuli hún eigi um hana vita. Nú segir frúin að Sigríður skuli koma með sér í bókaherbergi sitt. Hún leiðir hana þar að einni hillu og segir henni að á henni séu eigi nema lækningabækur og atli hún henni að lesa þær allar og læra þar til hún verði so góð að hún geti þjónað sér sem húslæknir; – „og hefi ég það álit á þér,“ segir frúin, „að þú munir fljótt taka framförum á hverju helzt sem þú byrjar.“ Sigríður þakkar frúnni fyrir sinn góðvilja.

Nú víkur sögunni til Lipurtá þar sem hún er í kotinu og saknar systur sinnar. Grunar hana nú að Sigríður muni hafa komizt eftir athæfi sínu og muni eigi aftur koma. Þykir henni nú illt að vera þar ein. Býr hún því ferð sína að heiman og er ei sagt af ferðum hennar fyr en hún kemur í kóngsríki það sama sem systir hennar var komin til. Fer hún nú til hallarinnar og kemst í kynning við þjónustustúlkur drottningar og er so mjúkmælt við þær. Þær fara nú til drottningar og segja henni frá Lipurtá og er það eigi að orðlengja að hún er tekin í flokk þjónustustúlkna drottningar og innan lítils tíma er hún orðin hin ypparsta þeirra allra og fylgir hún nú drottningu hvert sem hún fór. Einhverju sinni eru þær staddar drottning og Lipurtá upp í háum loftsal og þegar þær fara ofan aftur fer drottning á undan. Og þegar þær eru komnar nokkuð á leið ofan stigann þá hrindir Lipurtá drottningu ofan úr stiganum, en í því drottning kom niður gaf hún af sér hljóð so fólk kom að sjá hvað um væri að vera. Lá þá drottning örend á götunni og Lipurtá lá yfir henni óhuggandi af gráti. Er nú kallað á kóng og verður hann mjög hryggur af þessari sjón. Lætur hann nú taka lík drottningar og búa til greftrunar og er eigi möguligt að fá Lipurtá frá því. Og eftir greftrunina situr Lipurtá á leiði drottningar á hverjum degi og ber sig mjög aumliga. Verður nú kóngur var við þetta og finnst mikið um, og vekur þetta góðan þokka hjá honum til Lipurtáar. Og þar að kemur að hann tekur hana sér fyrir drottningu og fellur allt vel á með þeim.

Nú er að segja frá því að kóngur átti einn aldingarð skammt frá borginni hvar í stóð eitt lítið en þó fagurt hús. Þangað gekk kóngur einsaman á hverjum degi og langaði drottningu mikið til að vita hvað í húsinu væri, en þorði aldrei að spyrja kóng að því. Það var oft að kóngur fór á dýraveiðar og var hann þá allan dag í burtu. Einu sinni þá hann hafði farið á þess konar útreið segir Lipurtá drottning við þjónustumeyjar sínar að þær skuli taka gullstólinn sinn og setja hann út í aldingarðinn nálægt húsinu fagra; hún atli að skemmta sér þar í dag, en vili þó vera ein. Nú er þessari fyrirsögn hennar hlýtt so drottning er þar að skemmta sér. Einu sinni þegar hún situr á gullstól sínum segir hún við sjálfa sig: „Mikill lukkukrakki er ég Lipurtá! fyrst drap ég föður minn, so drap ég móður mína og síðan drap ég systur mína og seinast drap ég drottningu mína. Og nú sit ég á gullstól drottningar minnar og kembi mér með gullkambi drottningar minnar; mikill lukkukrakki er ég Lipurtá!“ Heyrir hún þá að sagt er: „Þetta skal ég segja syni mínum þegar hann kemur heim í kveld,“ og heyrist henni að þessi rödd koma úr húsinu. Gengur hún að dyrunum og vill komast inn, en þær eru harðlæstar. Verður hún ei við það ráðafá, heldur fer að einum glugganum á framhúsinu og mölvar hann; og fer hún so inn. Gengur hún so í gegnum tvennar dyr og finnur engan mann, en henni þykir húsið mikið prýðiligt. Nú gengur hún í gegnum þriðju dyrnar. Þar sér hún sæng standa á miðju gólfi með silkitjaldi um kring. Gengur hún þá að hvílunni og sér að í henni liggur maður. Hún heilsar honum hæverskliga og biður hann að segja sér hvernin á því standi að hann sé hér einn. Hann segist vera faðir kóngsins hér; – „og er ég so veikur að ég fer aldrei úr hvílunni.“ Lipurtá segir að hún fegin vildi geta hjálpað honum. Hún óskar eftir að fá að sjá í honum tunguna so eftir beiðni hennar réttir hann hana fram. En hún tekur upp hjá sér skæri og klippir framan af tungunni og segir: „Segðu nú syni þínum í kvöld þegar hann kemur heim!“ Gengur hún so út úr húsinu frá karli skiljandi hann eftir með blóðrásinni. Gengur hún so heim til hallar og leggur lífgrös við tungublaðið.

Þá er þess að geta þegar kóngur kemur heim, gengur hann í húsið eins og hann er vanur. Verður honum hverft við þegar hann sér opnar hurðir. Gengur hann inn að hvíluherbergi föður síns og sér þá blóðtjörnina fyrir framan rúmið og föður sinn mállausan. Nú verður kóngi það fyrst fyrir að kalla til sín líflækni sinn til að stilla blóðrásina. Þegar hann var búinn að því vildi hann reyna að græða fyrir sárið, en honum tókst það eigi. Þegar kóngur sér að þetta hefir engan árangur að faðir hans verði læknaður verður hann mikið reiður og spyr ráðgjafa sína hvað hann eigi nú til ráðs að taka. Þeir segja honum að hann skuli láta stefna þing og láta hvern mann ganga fyrir föður sinn og að hann skuli gera bendingar þegar hann sjái þann mann sem hafi unnið þetta verk. Nú fer kóngur að ráðum þeirra að hann stefnir fjölmennt þing og var hver og einn látinn ganga fyrir karlinn. En karlinn lá einlægt róligur í sæng sinni þó allur þingheimur væri búinn að ganga fyrir hann. Á þessu þingi voru þær Sigríður og frúin og um þessar mundir hafði drottningin lagzt mikið þungt so enginn var nú eftir að ganga fyrir karlinn nema hún. Þá segir Sigríður að bezt sé að bera drottningu í voðum fyrir karlinn, en kóngur er því mótfallinn. En samt verður það úr að hún er borin þangað. Verður hann þá ólmur í rúminu. Þykjast menn þá sjá að hún muni vera völd að þessu verki og er hún so krafin til sagna og verður það seinast úr að hún meðgengur allt saman og fær hún þá kóngi tungublaðið. Þá segir frúin að Sigríður sé bezti læknir. Hún fer so til karlsins og græðir hún so tunguna við aftur. Eftir þetta er farið með drottningu út á skóg og tvö trippi látin rífa hana lifandi í sundur og með þeim harmkvælum endaði hún sína illu ævidaga. Eftir þetta bað kóngur Sigríðar og fekk hann hana með ráði frúarinnar. En þegar Sigríður var komin í drottningarsætið tók hún frúna til sín sem hún var hjá og sá um hana sem beztu móðir til dauðadags. En kóngur og drottning lifðu hvert öðru til yndis og ánægju til ellidaga.

Og endast so þessi saga.