Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Litli-Trítill

Það voru einu sinni karl og kelling á einum bæ. Þau áttu einn son sem hét Litli-Trítill. Einu sinni fóru þau kall og kelling að heiman og biðja nú Litla-Trítil að passa bæinn og gefa kúnni þeirra í tækan tíma um kvöldið. Já, já, Litli-Trítill lofast nú til að vera þeim trúr. Nú líður dagurinn og fram þangað til að komið er úr tíma að gefa kúnni. Þá loksins mundi Litli-Trítill eftir því. Nú þegar hann kemur inn í básinn til hennar með kláfinn þá verður svo mikið um kúna að hún gleypir kláfinn með heyinu í og Litla-Trítil líka. Nú þegar kallinn og kellingin koma heim fara þau að kalla á Litla-Trítil og spurja hvar hann sé. Hann tekur undir við þau og segir: „Ég er hérna í kúnni að kroppa mér mör.“ Nú höfðu þau engin önnur ráð en að rista kúna á kviðinn til að ná Litla-Trítli. Svo kom hann með fullan barminn af mör úr kúnni. Svo saumuðu þau saman aftur kviðinn á kúnni og hún var jafngóð eftir sem áður.