Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Loðinbarði Strútsson
Loðinbarði Strútsson
Eitt sinn var kall og kelling sem áttu sér þrjár dætur; hétu ein Ása, önnur Signý, þriðja Helga og voru allar jafnkærar foreldrum sínum. Kall lifði á því að hann hjó daglega við og bar heim í konungsríki, fékk borgun fyrir starfa sinn og keypti mat fyrir. Það var eitt sinn að kall var setztur undir byrði sína í skóginum, þá fann hann að þungi lagðist á baggann. „Hvað leggst á byrði mína?“ segir kall. „Það er Loðinbarði Strútsson,“ er sagt á baki hans. En þetta var risi ferlega mikill þríhöfðaður. „Farðu af byrðinni!“ segir kall. „Það gjöri ég ekki,“ segir hann, „heldur mun ég drepa þig nema þú látir mig fá Ásu dóttur þína.“ Kall þorði ekki annað en lofa þessu, en spurði hvornig hún ætti að komast til hans. „Þegar þú kemur heim í kvöld,“ segir Loðinbarði, „mun koma skúr á skjá þinn. Þá skaltu biðja Ásu að sækja út vettlinga þína og mun ég þá taka hana.“ Kall lofar þessu. Þegar hann kemur heim segir hann kellingu sinni þessi vandræði og segir líf sitt liggi við ef hann bregði út af. „Það mun bezt að við dyljum dætur okkar þessa,“ segir kelling. Um kvöldið kom steypiskúr á skjá kalls. Þá segir kall við Ásu: „Gakktu út, Ása mín, og sæktu vettlinga mína á bæjarvegginn.“ Ása gengur út og sér að er bezta veður og ætlar þegar inn aftur, en í því kemur risinn og tekur hana. Hann spyr hana hvort hún vilji heldur að hann beri hana eða dragi. „Ég vil heldur þú dragir mig,“ segir hún. Þá tekur hann í hár henni og dregur hana langan veg upp til fjalla. Þar átti hann helli og dregur hann Ásu þar inn, en hún bar sig aumlega.
Nokkru eftir þetta er kall í skógi og vill fara undir byrði sína. Þá er þar kominn Loðinbarði og leggst á byrðina. „Hvað leggst þungt á byrði mína?“ segir hann. „Það er Loðinbarði Strútsson,“ er sagt á baki hans. „Farðu af byrðinni!“ segir kall. „Það gjöri ég ekki,“ segir hann; „heldur drep ég þig nema þú gefir mér Signýju dóttur þína,“ segir Loðinbarði. „Æ!“ segir kall; „ætlarðu nú að taka hana Signýju frá mér og hefir áður tekið Ásu?“ „Hér hjálpar engi undanfærsla,“ segir risinn, „og skaltu senda hana út til mín í kvöld þegar skúr kemur á skjá þinn.“ Kall þorir ekki annað en lofa þessu. Nú kemst hann á fætur og fer heim. Hann segir kellingu sinni raunasögu sína, en hún þorði ei heldur annað en hlýða risanum. Um kvöldið kom skúr á skjá kalls. Þá segir hann við Signýju: „Sæktu út á bæjarvegginn sokkaræfla mína, Signý mín!“ Hún hleypur fram og sér að veður er hið bezta og ætlar að snúa inn; þó snýr hún við aftur og út. Þar er þá risinn og þrífur hana og býður henni hvort hún vilji heldur láta bera sig en draga. Hún kaus heldur að dragast. Þá dró hann hana á hárinu til hellis síns og bar hún sig aumlega.
Skömmu eftir þetta lagðist risinn einn dag á byrði kalls í skógi og heimtaði af honum Helgu. Kall bar sig aumlega og sagðist ei geta lifað ef hann missti hana. „Þá skal ég nú drepa þig þegar í stað ef þú vilt það heldur.“ „Æ, vægðu mér!“ segir kall; „og vil ég heldur missa Helgu en lífið. En hvernig á ég að koma henni til þín?“ „Þú skalt róa með hana á sjó á morgun; þá mun ég sækja hana.“ Þessu lofaði kall og fekk þá að komast á fætur. Þegar kall kemur heim segir hann kellingu sinni vandræði sín. Hún þorði ei annað en risanum væri hlýtt og voru þau nú mjög hrygg. Daginn eftir biður kall Helgu að róa með sér því hann leitaði stundum fiska sér til bjargræðis. Helga gjörði það. Þegar [þau] höfðu setið skamma stund kemur stórvaxin hönd loðin upp á borðstokkinn og er þar kominn Loðinbarði. Hann hótar nú að hvolfa bátnum nema kall fái sér Helgu. Hann þorir ekki annað og tekur risinn við Helgu og veður með í land. Þá býður hann henni hvort hún vilji heldur láta bera sig en draga. „Ég vil heldur láta bera mig,“ segir hún. Þá bar Barði hana í helli sinn. Nú segir hann henni að hirða um allt í hellinum og matreiða og segist hún skuli gjöra það. Hvern dag fór risinn út á skóga að veiða dýr og fugla, en Helga hafði búsýslu heima. Hinn fyrsta dag sér Helga járnhurð á einum stað í hellinum; hún lýkur henni upp og sér þar systur sínar. Þær sátu þar á stólum og voru hendur þeirra bundnar á bak aftur, en hárið strengt upp og fengu þær ei annað en vatn og brauð til matar því þær höfðu ekki viljað þjóna kalli eins og Helga gjörði. Þær fögnuðu nú systur sinni og báðu hana leysa sig, en hún sagðist ekki þora það og skyldu þær vera þolinmóðar; en mat lét hún þær fá svo góðan sem til var. Helga sópaði hellirinn daglega og bjó sem bezt til matar. Líkaði risanum allt ágætlega við hana og trúði henni fyrir að sjá um systur hennar.
Einhverju sinni segir kall við Helgu: „Viltu ekki eiga mig, Helga mín?“ „Það vil ég,“ segir hún. Þá varð risinn ákaflega glaður og sagðist vilja búa til veizlunnar sem fyrst. Helga bað hann fresta því nokkra daga. Hann lofar því. Þá segir hún: „Bágt eiga nú foreldrar mínir heima og vildi ég mega senda þeim matarleifar og annað hrasl sem þeim gæti orðið til bjargar.“ „Það máttu vel gjöra, Helga mín!“ segir hann; „og skal ég bera það til þeirra.“ Hún tekur þá sekk mikinn og lætur í hann Ásu systur sína neðst. Síðan lætur hún ýms matvæli, en efst lætur hún beinarusl og fuglahami. Síðan segir hún við risann: „Hér er nú sekkur sem ég vil þú berir til foreldra minna, en ekki máttu skoða í hann; ég sé til þín ef þú gjörir það, því ég á augu sem ég sé með um allan heim.“ Kall lofaði henni góðu um þetta. En áður hafði hún sagt við Ásu systur sína: „Ef risinn fer að skoða í pokann á leiðinni skaltu segja: ,Ég sé til þín og skal ekki eiga þig ef þú skoðar.'“ Risinn tekur nú pokann og leggur á hrygginn og stikar af stað. Á miðri leið kastar hann niður sekknum og segir: „Gaman er að skoða í hann!“ Þá er sagt: „Ég sé til þín og skal ég ekki eiga þig ef þú skoðar.“ Þá varð risanum bilt við og kastar aftur sekknum á bakið og ber heim að koti kalls og segir þeim hjónum að Helga dóttir þeirra sendi þeim þetta. Þau glöddust við og drógu pokann inn í kofann, en Loðinbarði stekkur heimleiðis. Þegar þau kall og kelling fóru að taka upp úr pokanum þótti þeim sendingin ofan á órífleg, en því betri sem neðar kom og mest glöddust þau þegar Ása var á botninum.
Nú víkur sögunni til Loðinbarða og Helgu. Hann tekur nú að afla til veizlunnar. En einn dag fær Helga honum poka og biður hann að bera til foreldra sinna og hefir hinn sama formála og hið fyrra sinni. Hann lofar góðu um að skoða ekki sendinguna. En í pokanum var Signý á botninum, þá hinir beztu réttir næst og síðast hinar verstu leifar eins og hið fyrra sinni. Kall ber nú pokann áleiðis, en fýsir að skoða í hann, kastar niður og tekur að horfa ofan í; sér hann þar ei annað en roð og hami. Þá heyrir hann að sagt er: „Ég sé til þín!“ Verður hann þá lafhræddur og heldur áfram með pokann og færir foreldrum Helgu. Þau verða glöð við og þökkuðu honum. Nú snýr hann heim, en þau tíndu upp úr sekknum og fundu þar Signýju.
Nú segir Helga við Loðinbarða: „Er nú ekki bezt að við förum að eigast?“ „Feginn vil ég það,“ segir hann. „En hvort viltu heldur sækja boðsfólkið eða búa veizluna?“ „Ég vil búa veizluna því ekki veit ég hverjum þú vilt bjóða,“ segir hún. „Það er og bezt að ég bjóði,“ segir hann og heldur þegar af stað. Helga býr veizluna í ákafa og sparar ekki að bera nóg vín á borð. Síðan fer hún að finna dverg sem bjó skammt þaðan í steini og biður hann hjálpa sér. Hann býr þá til leirmynd eftir Helgu og búa þau hana sem bezt og setja á brúðarbekkinn. Segist hann skuli standa nærri, en nú skuli hún hraða sér heim. Helga makar sig þá alla í koli og hleypur út og á leið heim til sín. Þar mætir hún fyrst flokki trölla og voru einhöfðuð. Þeir segja: „Hvert ætlar þú?“ „Heim, heim!“ segir hún; „en hvert ætlið þið?“ „Í Dimmadal að drekka vín. Eða komstu nokkuð þar?“ „Kom ég þar,“ segir hún; „brúður var á bekk setzt, borð alskipuð, full voru ölker svo flóði út af.“ „Ríðum og ríðum!“ segja þeir; „látum ekki brúðrina bíða!“ Nú heldur Helga áfram og finnur annan flokk; það voru þussar tvíhöfðaðir. Þeir spyrja hana sem hinir fyrri: „Hvert ætlar þú?“ „Heim, heim!“ segir hún. „En hvert ætlið þið?“ „Við ætlum í Dimmadal að drekka vín. Eða komstu nokkuð þar?“ „Kom ég þar,“ segir hún; „brúður var á [bekk] setzt, borð alskipuð, full voru ölker svo flóði út af.“ „Ríðum og ríðum! Látum ekki brúðrina bíða!“ segja þeir og þeysa sína leið; en Helga hleypur lengra. Þá mætir hún flokki þríhöfðaðra þursa. Þeir spyrja: „Hvert ætlar þú?“ „Heim, heim!“ segir hún; „en hvert ætlið þið?“ „Í Dimmadal að drekka vín. Eða komstu nokkuð þar?“ segja þeir. „Kom ég þar,“ segir hún; „brúður var á bekk setzt, borð alskipuð, full voru ölker svo flóði út af.“ „Ríðum og ríðum! Látum ekki brúðrina bíða!“ segja þeir og þeysa til hellisins. En Helga hljóp heim til sín. Þegar tröllin komu til veizlunnar var brúðguminn næsta glaður því brúðurin sat prúðbúin. Var nú tekið til snæðings, en brúðurin át ekki. „Hví etur ei Helga mín?“ segir Loðinbarði. „Borðaði ég meðan ég beið gesta,“ segir brúðurin; en það var raunar dvergurinn á baki hennar. Nú tóku tröllin að drekka og þá allir voru orðnir ölvaðir biður Loðinbarði að leiða Helgu sína til sængur. Þá flanar einn risinn til og tekur í höndina; féll þá líkneskjan og brotnaði. Við þetta varð brúðguminn óður og sagði þeir hefði drepið Helgu sína. Hinir þrættu fyrir og varð af þessu mesta upphlaup. Flugust á öll tröllin og hættu ei fyrr en allir höfðu drepizt og urðu það lok veizlunnar. – Kunnu vér ekki þessa sögu lengri.