Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Málabelgurinn

Konungur einn var á fyrri tíð, en ekki er getið um í hvaða landi hann var eða hvað hann hét. Hann átti eina dóttur barna. Hún var fríð sýnum og yfirhöfuð var hún vel að sér um alla hluti.

Konungur tók eitt sinn ljón og drap það. Síðan fló hann af því belg og hét að gefa öngvum dóttur sína nema þeim sem gæti talað fullan belginn; var það því kallaður málabelgur. En þó mönnum þætti þetta fremur óskiljanlegt í fyrstu þá fóru þó úr öllum áttum og flykktust bæði kóngssynir og allra handa bæði af háum og lágum stigum til konungs til að reyna að tala fullan málabelginn; og liðu nú nokkur ár að enginn kom sem gat talað fullan belginn því aldrei sagði konungur hann fullan.

Nú er að segja frá því að skammt frá konungshöll bjó kall og kerling á bæ einum. Kerling var af kóngaætt enda þó hún kæmist í sona lága stöðu að eignast bóndamann. Þar fyrir átti hún þrjá gripi, nefnilega gullkórónu, annað var in dýrmætasta skikkja og það þriðja var gullkambur.

Þau áttu einn son karl og kerling. Eitt sinn segir kerling við son sinn að hann skuli fara heim að borginni og fær honum gullkambinn og segir að skuli ganga fyrir glugg á kastala kóngsdóttir og þá skuli hann taka upp gullkambinn og fara að greiða sér með honum; þá muni kóngsdóttir mikið sækjast eftir að fá hann, – „en gáðu að því,“ segir hún, „að gerðu hann ekki falan fyrir nokkurn hlut nema þú fáir að taka á beru hnénu á henni.“ Eftir það gengur hann að kastala kóngsdóttur og gerði eins og kerling sagði honum; en þegar kóngsdóttir sá hann með gullkamb varð hún aldeilis hissa. Kallar hún þá til hans og spur hann að hvurnin standi á því að hann einn kallsson eigi soddan dýrgrip; en hann sagði að það væri arfur móður sinnar. Gengur hann þá um gólf fyrir utan gluggann og er að greiða sér. Kallar þá kóngsdóttir til hans og segir að honum hæfi ekki að brúka gullkamb þennan og biður hann að gefa sér hann og segist skuli gefa honum að sleikja í sig einu sinni fylli sína, en hann kvað nei við. Býður hún honum þá ýmsa hluti fyrir kambinn, en það kom fram ekkert, – „því kamburinn er ekki falur fyrir neitt nema bara einn hlut,“ segir kallsson. „Ja, hvað er það?“ segir kóngsdóttur. „Það er það,“ segir hann, „að ég fái að taka á beru hnénu á þér; en hvað sem þú býður fyrir hann þá er hann ekki falur fyrir nokkurn hlut annnn.“ Varð hún þá nokkuð snússug við þetta og atyrðir hann fyrir dirfsku sína; en af því henni lék so mikill hugur á kambinum þá hugsar hún að það geri ekki neitt þó strákurinn leggi löppina á hnéð á sér þar eð enginn viti það fleiri. Síðan lýkur hún upp glugganum og segir hann skuli taka á hnénu á sér; og um leið að hann tók á hnénu á henni fékk hann henni kambinn. Síðan gengur hann leið sína; og er hann kemur heim segir hann við móður sína að farinn sé kamburinn og hafi hann farið fyrir lítið.

Einu sinni fór kóngur í hernað og sigldi úr landi. En þegar hann var fyrir nokkrum tíma úr landinu gengur sú fyrumtalaða kerling fyrir son sinn og mælti: „Nú skaltu fara heim að höll konungs og fara í skikkju þá er ég á og sjá so til þegar drottning er á gangi úti að þá skaltu vera að leika þér fyrir utan borgarhliðin. Á ég þá von á að drottning fái mikla ágirnd til skikkjunnar. En gáðu að því að láta sem hún sé ófáanleg og mun hún þá því meira sækjast eftir henni. Þá skaltu segja henni að það sé ekki að nefna nema fyrir einn hlut og það sé það að fá að sofa hjá henni eina nótt.“ Gengur síðan kallsson heim að borginni og gerði allt eins og kerling sagði honum. En þegar drottning sér hann á skikkjunni kallar hún til hans og segir: „Hvar hefur þú fengið þessa skikkju, strákurinn þinn?“ „Það er arfur móður minnar,“ segir hann. Þá mælti drottning: „Láttu mig fá þessa skikkju; þér hæfir ekki að vera í henni, því það er líka kvenmannsklæðnaður, en ekki karla, og skal ég borga þér hana vel.“ „Slíkt þarf ekki að nefna,“ segir kallsson, „því hún fer ekki úr minni eigu hvað mikið sem þú býður nema bara einn hlut.“ „Það vil ég til vinna,“ segir drottning, „hvur hlutur sem það er, til að fá soddan skikkju því aldrei hef ég slíka séð; en segðu strax hvað þú vilt fá fyrir hana.“ „Það er það,“ segir hann, „að ég fái að sofa hjá þér eina nótt.“ „Ertu aldeilis vitlaus að halda að ég láti soddan strák sem þú ert fara í sæng til mín.“ En fyrir það hún hafði óþolandi ágirnd á skikkjunni þá segir hún við hann: „Ekki er það þar fyrir að jafngott er þó þú liggir til fóta minna.“ Síðan fær hann henni þá skikkjuna og fer inn á eftir henni. Gekk þá drottning í svefnherbergi sitt og kallsson með henni; en öngvan mann lét drottning vita af þessu nema sínar trúustu þjónustumeyjar. Síðan gengur drottning til hvílu. Háttar þá kallsson hjá henni og er ekki getið um annað en þeim hafi fallið nokkurn veginn um nóttina. Morguninn eftir gengur kallsson heim til sín. Segir hann þá við móður sína að farið hafi skikkjan fyrir lítið. „Hvurnin þótti þér að sofa hjá kóngsdrottningu?“ segir kerling. „Og sona,“ segir hann; „betra mundi mér hafa þótt að sofa hjá kóngsdóttur.“ Og nú er strákur kjur heima hjá foreldrum sínum um hríð.

Nú er að segja frá því að konungur kemur heim. Sezt hann nú að í ríki sínu og veit ekkert hvað gerzt hafði fyrir drottningu og kallssyni. Það var siður konungs að ganga út á skóg með einum ráðgjafa sínum einn dag í viku til að skemmta sér. Nú segir kerling við son sinn einn morgun er hún vissi að kóngur mundi ganga á skóg: „Nú skaltu láta á þig gullkórónu þá er ég á. Síðan skaltu ganga út á skóg og vera á vegi fyrir konungi og grunar mig að hann muni ekki hafa minni ágirnd á kórónunni en drottning á skikkjunni. En það máttu búast við að viljir þú ekki láta hana strax lausa þá munu þeir atla að taka hana með valdi; en þá skaltu herða upp hugann, hlaupa að ráðgjafanum og reka hann í gegn (fékk hún honum þá einn lítinn korða). Mun þá kóngi fallast nokkuð hugur er hann sér þig so hugaðan og mun hann þá biðja þig með góðu um kórónuna. En þú skalt neita því í alla staði nema því aðeins að hann kyssi á rassinn á þér þegar þú sért nýbúinn að hægja þér.“ Að so mæltu skilja þau. Gengur nú kallsson leið sína út á skóg þar til hann sér konung með einum ráðgjafa. Bíður hann þá þar til þeir nálgast hann og brúkar gullkórónuna á höfði sér. En er konungur sá hann undraðist hann að sjá kallsson þennan með so dýrmæta kórónu er hann þóttist aldrei hafa slíka séð. Gengur þá konungur til hans og spur hann að hvaðan hann hafi þessa kórónu, en hann segir það sé arfur móður sinnar. Konungur spur hann hvurt hann vilji ekki láta sig fá kórónuna, en hann var fljótur til svars og kvað nei við. Þá mælti ráðgjafi: „Við skulum taka hana hvað sem hann segir.“ En í því dregur kallsson korða úr slíðrum og bregður honum so fljótt að áður en þeir litu við var hann búinn að reka ráðgjafann í gegn. Kom þá stanz á konung og þorði ekki annað en fara vel að kallssyni því hann hélt hann væri vitlaus orðinn. Líka varð strákur svo huggóður þegar hann var búinn að drepa ráðgjafann að hann lét á sér merkja að honum þætti ekki meira fyrir að drepa konung ef hann fari að hefna ráðgjafa síns. En konungur minntist ekkert á það, heldur fór hann með blíðum orðum að kallssyni og spur hann hvurt það sé enginn kostur að kórónan sé fáanleg. Kallsson segir að það sé enginn kostur að hún fari úr sinni eigu fyrir nokkurn hlut; en þó geti hann leyst hana með einum móti ef hann vilji. „Hvað er það?“ segir kóngur; „allt vil ég til vinna að fá þessa kórónu.“ „Það er það,“ segir kallsson, „að þú skalt kyssa á rassinn á mér þegar ég er nýbúinn að hægja mér, og annað það að minnast aldrei á ráðgjafamorðið.“ Konungur hugsar sig um litla stund því mikið þótti honum fyrir að kyssa á rassinn á stráknum sem nærri má geta. Allt fyrir það hugsar hann að ekki skuli hann vera frá kórónunni fyrir þetta, því það geri ekkert þó hann kyssi á rassinn á honum þar enginn maður viti af því. Síðan segir hann við kallsson að hann skuli fá sér kórónuna og skuli hann síðan gera það er hann hafi upp sett. Síðan fær hann honum kórónuna; fer þá kallsson að hægja sér. Að því búnu segir hann við konung: „Nú skaltu koma og kyssa á rassinn á mér.“ Gengur þá konungur að honum og kyssir á rass hans. Síðan skilja þeir og gengur hvur heim til sín. En er strákur kom heim sagði hann að farin væri kórónan og fyrir lítið hafi hún farið. Þá segir kerling að það sé kominn tími til fyrir hann að fara á fund konungs og fara að reyna að tala fullan málabelginn og skuli hann nú segja allt orðrétt hvurnin til gekk um þessa þrjá dýrgripi.

Eftir það gengur kallsson til hallarinnar og spur konung hvurt hann megi ekki reyna eins og aðrir að tala fullan málabelginn. Konungur sagði það sjálfsagt vera því allir máttu reyna það sem vildu, því hvurnin sem þeir reyndu að kjafta sem mest þeir gátu þá sagði konungur aldrei fullan belginn. Fer þá kallsson í belginn og byrjar þannig og segir: „Einu sinni átti ég mér gullkamb; hann gaf ég kóngsdóttir fyrir það ég, já, fyrir það ég fékk að taka á beru lærinu á henni. Einu sinni átti ég mér skikkju; hana gaf ég drottningu fyrir það ég fékk að, já, fyrir það ég fékk að sofa hjá henni heila nótt. Einu sinni átti ég mér gullkórónu; hana gaf ég kóngi fyrir það að, ja, fyrir það að hann kyssti, já, að hann kyssti á ra…“ En allt í einu áður en kallsson kom út seinasta orðinu greip konungur fram í og sagði: „Nú er fullur orðabelgurinn.“ Varð þá upphlaup í borginni þegar kóngur sagði að fullur væri orðabelgurinn og sögðu [menn] að nú væri kallsson búinn að vinna til dóttur hans; en hann gat ekki borið á móti því. Tók þá konungur kallsson til sín og mannaði hann upp og gaf honum síðan dóttir sína. Síðan varð kallsson konungur í því ríki eftir hans dag.