Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Mærþallar saga
Mærþallar saga
Einn hertugi var sá sem átti eina unga frú. Þau unntust vel, áttu þó lengi engin börn. Það var þeim að angri. Eitt sinn gekk frúin að skemmta sér með sínum þernum í einn fagran lund. Hana sigraði þar svo mikill svefn að hún gat ei hrært sig úr stað þaðan, og sem hún var sofnuð dreymdi hana að þrjár konur í bláum klæðum kæmi til sín og segðu: „Við vitum að það eykur þér ógleði að þú átt engin börn; nú erum við hér komnar að ráðleggja þér hvað þú skalt gjöra þá þú vaknar, gakk hér að einum læk sem rennur skammt héðan; í honum muntu sjá einn silung. Þú skalt leggja þig niður að læknum þar sem silungurinn er og drekka úr honum og sjá so til að hann renni um leið þér í munn og muntu strax þar eftir getnað fá með þínum manni; við munum þig heimsækja um þann tíma sem þú barnið fæðir því við viljum ráða fyrir hvað það skal heita,“ og svo hvörfu þær í burt. Hún vaknaði og íhugaði þennan draum, gekk að læknum og sá silunginn; hún breytti sem henni var fyrir lagt og fór svo heim.
Sem stundir liðu fram fann hún að hún var með barni hvað þau stórum gladdi. Þar skammt eitt frá var einn lítill húsabær; þar bjó karl og kerling; þau áttu eina unga dóttir sem Helga hét; hún var snemma efnileg. Sem hertugans frú fann að leið að þeim tíma að hún skyldi léttari verða gjörði hún boð til kerlingar að hún skyldi til sín koma hvað hún strax gjörði. Hún sagði þá til hennar: „Þú munt mér þjóna og yfir mér sitja um minn veikindatíma; ég á von á að hér komi þrjár konur; þú skalt taka á móti þeim sem bezt þú kannt; hef ég til ætlað matföng og annað handa þeim.“
Skömmu þar eftir fæddi hún yfrið fagurt meybarn, og þann sama dag sem hún það fæddi komu þar að húsum þrjár konur og nefndu sig allar Blákápur. Kerling gekk fyrir þeim og bauð þeim til borðs og lét fram fyrir tvær svo sem frúin hafði henni til sagt, en það einni, þeirri yngstu, var ætlað dró hún undir sig, og sem hún sá það hún var óvirt hjá hinum fylltist hún móð. Þær beiddu að þær mættu sjá barnið hvað þeim var strax eftirlátið. Sú elzta tók fyrst við barninu og mælti: „Þú skalt heita Mærþöll eftir móður minni; mæli ég það um að þú verðir afbragð allra kvenna að áliti og vitsmunum; legg ég það á þig hér að auki að hvört það sinn þú grætur verði þín tár öll að gulli; skaltu hafa það yfir allar konur sem verið hafa.“ Hún afhenti so barnið systir sinni sem henni sat næst; hún mælti: „Ég er því samþykk að þú heitir Mærþöll eftir móður minni; óska ég að þú hreppir allt það gott er systir mín hefur fyrir þér mælt og þú prýdd sért öllum kvendyggðum; mæli ég það um að þú eignist einn ágætan kóngsson og unnið hvort öðru vel svo þér verði allt til sóma og virðingar um þína daga; kann ég ekki framar fyrir þér að mæla.“ Síðan fær hún meyjuna systur sinni þeirri yngstu; hún tók við henni og sagði: „Þú skalt þess hjá mér njóta að þú heitir Mærþöll eftir móðir minni að ég vil ei rjúfa þau góðu ummæli er systur mínar hafa fyrir þér mælt en þó móðir þín hafi mér saklausri leitað óvirðingar. Skaltu nú þó hennar gjalda að nokkru að ég legg það á þig þá fyrstu nótt sem þú skalt sofa hjá þeim kóngssyni sem þú átt að eignast verðir þú að tittlingi og fljúgir út um gluggann. Skaltu aldrei úr þeim álögum komast ef þér leggst ei til að nokkur geti brennt tittlingshaminn þá þriðju nótt. Skaltu þær þrjár fyrstu nætur geta úr hamnum farið litla stund, en aldrei síðan.“ Þá systur hennar hinar heyrðu þetta urðu þær ofurreiðar við hana að hún mælti so illa fyrir barninu og stukku á fætur í burt og sáust aldrei síðan.
Barnið óx upp hjá föður og móður; varð það að sönnu að altíð þá það grét urðu þess tár að gulli svo hertoginn varð svo ríkur af því að hans borg var öll þakin af gulli. Honum þótti ærið vænt um dóttir sína. Hann lét gjöra henni skemmu og lét Helgu karlsdóttur vera þar hjá henni. Þeim féll hvorri við aðra í bezta máta. Þetta spurðist um öll lönd að ein hertugadóttir væri sú sem altíð gréti gulli. Þetta spurði einn voldugur kóngsson sem aðrir. Hann strengdi það heit að hann skyldi hana eignast eða öngva konu. Hann bjó ferð sína sem snarast og sigldi land af landi þar til hann kom til borgar hertogans. Hann sá þar var allt gulli þakið. Hann sendi frá skipinu til hans og lét segja honum hvað sitt erindi væri þangað. Hann tók því vel og bauð honum heim með sínum mönnum, en var þó annars hugsjúkur að hann skyldi missa dóttur sína. Hann lét kalla hana og Helgu fyrir sig og sagði: „Þið skuluð hafa klæðaskipti. Skaltu Helga ganga fyrr en Mærþöll þá kóngsson hér kemur.“ Þær lofuðu so að gjöra sem hann fyrir sagði, og sem kóngsson var kominn heim til borgarinnar beiddi hann að hann mætti sjá Mærþöll. Hertoginn sagði so skyldi vera. Helga gekk fyrr. Kóngsson horfði á þær báðar lengi og þótti sú vænni er síðar gekk. Hann mælti: „Ég vil reyna hvort satt er það ég heyrt hef af dóttur þinni,“ og sló þær báðar kinnhest. Þá grét sú sem fyrr gekk sem aðrar konur, en ofan um hina hrundi gullið. Kóngsson mælti þá: „Nú sé ég að hertuginn hefur ætlað að pretta mig og er það Mærþöll er síðar gengur.“ Hann sagði henni hún þyrfti nú ei lengur að dyljast, og skiptu um klæði aftur. Hann setti hana sér í kné og sigldi í burt með hana. Hún hafði í heimanmund það gull mestallt er þar var. Helga karlsdóttir fór með henni. Þau fengu góðan byr heim til ríkis föðurs hans. Hann tók við þeim báðum höndum og lét strax búa til brúðkaups hið veglegasta. Veizlan gekk vel fram og sem brúðurin var leidd til sængur beiddi hún orðlofs að hún mætti einslega útganga og Helga karlsdóttir með sér. Það var henni eftirlátið. Hún mælti þá við Helgu: „Þú hefur mér lengi trú verið. Nú bið ég þig að reynast mér holl og sofa þrjár nætur mey á armi kóngssonar því það mun verða fram að koma sem á mig er lagt. Skulum við nú skipta um liti og klæði.“ Helga sagði: „Ég vil allt það gjöra sem ég kann þér til vilja, en eitt óttast ég mest; þú veizt að kóngsson fær þér klút hvört kvöld, sem þú fyllir af gulli með þínum tárum og fær honum á hvörjum morgni. Nú veit ég það gildir mitt líf þá ég get ei skilað honum gullinu.“ Hún sagði: „Þú skalt stinga honum svefnþorn þá þið eruð háttuð svo hann sofni snart. Far síðan heimuglega út frá honum og gakk á þann hól sem héðan skammt er og kalla til mín so ég kunni að heyra. Er mér leyft að fara úr hamnum þrjár nætur og kann ég að gráta fyrir þig meðan við tölum saman.“ Hún sagðist gjarnan vilja gjöra það bezta hún kynni henni til hjálpar. Þær skiptu so klæðum og voru mjög harmþrungnar báðar. Helga háttaði hjá kóngssyni, en Mærþöll breiddi á þau klæði og varð strax þar eftir að tittlingi og flaug í burt. Kóngsson hugði Mærþöllu hjá sér sofa og fékk henni klút sinn að gráta í. Helga stakk honum svefnþorn og fór so á fætur leynilega. Hún gekk upp á þann hól er þær höfðu um talað og kallaði:
- „Komi, komi Mærþöll,
- komi mín vina,
- komi ljósa mær
- á lynggötu;
- ég á gull að gjalda,
- en gráta ekki má.“
Þar kom strax tittlingur og settist hjá henni. Gekk þar Mærþöll úr hamnum og grét klútinn fullan. Hún hvarf síðan strax í haminn aftur, en Helga lagðist niður hjá kóngssyni og fékk honum gullið að morgni. Þetta fór á sömu leið þá aðra nóttina. Þriðju nóttina stakk Helga kóngssyni svefnþorn nokkuð lausara en fyrr með vilja og fór síðan á fætur og gekk upp á hólinn, kallaði sem fyrr; þar kom tittlingurinn. Mærþöll sagði þá til Helgu: „Nú munum við aldrei sjást meir því ég á nú ei von til framar að komast úr þessum álögum. Þakka ég þér nú alla tryggð er þú hefur mér sýnt og far altíð vel; vildi ég þú helzt nytir kóngssonar ef ég mætti ráða.“ Lágu þær nú í faðmlögum lengi því þeim þótti ærið mikið fyrir að skiljast.
Nú er þess að geta að kóngsson vaknaði því svefnþorninn datt úr höfði hans. Honum varð þá bilt við að brúðurin var í burt, og stökk á fætur út. Hann litaðist um og sá tvær konur á einum hól. Hann vék þar að leynilega og heyrði hvað þær sögðu. Hann sá þar tittlingshaminn og greip hann. Þær urðu þá so hræddar báðar að þær duttu í öngvit. Hann hljóp með haminn og brenndi hann sem snarast, kom síðan til þeirra aftur og dreypti á þær víni og leiddi heim með sér. Mærþöll sagði þá sína ævisögu. Þótti öllum hún heppin verið hafa að kóngsson náði hamnum. Var nú á ný drukkið brúðkaup og varð ekkert um sök þar eftir. Kóngsson unni mikið Mærþöll og áttu börn saman og lifðu með góðu yndi. Helga var gift þeim ypparsta í ríkinu og var hún jafnan ágæt haldin sökum sinnar tryggðar við Mærþöll – og endar hér Mærþallar sögu.