Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Mjaðveig og Króka
Mjaðveig og Króka
Einhverju sinni var konungur og drottning í ríki sínu. Þau áttu eina dóttir er nefndist Mjaðveig. Var hún strax á æskuárum mjög gjörvugleg. Ólst hún upp hjá foreldrum sínum þar til hún var orðin fulltíða. Þá tók drottning sótt og andaðist. Konungur syrgði hana mjög og vildi ekki huggast láta og sama var að segja um dóttur hans. Gengu þau oft og tíðum til leiðis drottningar og sátu þar. En er þetta hafði nokkra stund þannig fram farið sáu menn að ekki mátti svo búið standa því ríkisstjórn varð svo gott sem engin. Honum var því ráðið til að fara og leita sér konfangs og fekkst það loksins af honum. Fór hann þá að ferðast um ríki sitt og ætlaði þá að taka þá er honum litist bezt á án tillits til ættgöfgis eður auðæfa. Loksins eftir að hann hafði víða farið kom hann á fjölmennan fund og leit þar konu nokkra mjög harmandi og dóttur hennar hjá henni. Konungur frétti hver væri orsök ógleði hennar, en hún bað hann ekki að auka á harma sína með því að spyrja um það, en sagði þó að fyrst honum væri hugarhaldið að vita það þá kæmi harmur sinn af því hún væri ekki alls fyrir löngu búin að missa mann sinn. Hann kvað standa líkt á fyrir þeim og þar honum leizt vel á hana spurði hann hvort hún vildi ekki taka sér ef henni byðist sá kostur, og var það afráðið að hún fór með konungi heim til borgar hans og gjörðist drottning. Dóttir drottningar er nefndist Króka var látin fara í skemmu til Mjaðveigar.
Þegar þær höfðu nokkra stund þarna verið fóru menn að taka eftir því að þegar fáir eða enginn var við sem þær af vissu breyttust þær í tröllslíki og olli það konungi mikillar ógleði þó hann ekki gæti við gjört. En Mjaðveig var þó miklu verr farin því dóttir drottningar hreif frá henni hvað eina er hún vildi og þar að auki var hún mikið hrædd um sig. Fekk hún þá einu sinni vitran (líkl. í draumi) að móðir hennar segði henni hún skyldi taka það er lægi hjá leiði sínu, en sem hún hafði ekki tekið eftir þó hún þrálega væri þar, og hafa það millum brjósta sér, mundi hana þá ekki saka. Hún fer síðan að skyggnast um og fann þar brjóstadúk; gjörði hún við hann sem fyrir hana var lagt, en Króka komst að þessu og svipti Mjaðveigu honum.
En skömmu þar eftir fékk hún aðra vitran. Bauð þá móðir hennar henni að taka í það er lægi nálægt leiði sínu, og þegar hún hafði litazt um fann hún hnoða og tók í enda þann er út úr því var, og rann það þá með henni þangað til hún kom að skemmu einni. Vissi hún að sér mundi þar vera bústaður ætlaður, þar allt var þar vel um vandað og nægur kostur fyrir hana. Hún sá allt hvað gjörðist í konungsborginni, en þó vissi enginn af skemmunni. Á leiðinni til skemmunnar hafði Mjaðveig misst annan skóinn sinn og hét hún, ef karlmaður fyndi hann, skyldi hún þann mann eiga.
Þegar hún hafði skamma stund í skemmunni búið kom skip mjög fagurt að landi. Var þar á konungsson nokkur og gekk á land og upp til borgar. Konungur var svo utan við sig af öllu því sem honum mætt hafði að hann sinnti mönnum naumlega, auk heldur gengi til móts við þá, og því bauð hann ekki konungssyni til sín, fann hann því skóinn Mjaðveigar. Drottningin tók við honum báðum höndum og töluðust þau margt við. Spurði hann þá drottningu hvert hún vissi til að nokkur gripur hefði týnzt ekki alls fyrir löngu og kvað hún svo vera. Sagði hún að hún dóttir sín hefði kvartað yfir að hún hefði týnt nokkru, en hefði ekki viljað segja sér hvað það verið hefði. Bað hún að hann segði sér hver gripurinn væri og lét hann það eftir henni og sýndi henni skóinn. Þóttist hún þá þekkja hann og kvaðst ætla með hann til dóttur sinnar. Gaf hann henni leyfi til þess, en kvaðst vilja sjá bæði dóttir hennar og skóinn á fætinum. Drottning fór nú og kom aftur með dóttur sína, bar hún þá skóinn á fæti sér. Bað hann þá dóttir drottningar og var hún honum heitin. Skyldi hann fara með hana heim til sín og giftast henni þar. Bað móðir hennar hana að láta sig vita hvenær brúðkaupið skyldi haldast því hún vildi vera við. Þegar þessu var lokið lagði konungsson á stað og sigldi undan landi, en þegar hann var lítið eitt kominn á ferðina þá komu tveir fuglar fljúgandi og heyrðu skipverjar að fuglarnir mæltu þessi orð:
- „Í stafni situr Högginhæla,
- fullur skór með blóð.
- Heima situr Mjaðveig
- í gullskemmu sinni.
- Snú þú aftur kóngssonur.“[1]
Þegar konungssonur hafði heyrt þetta lét hann skoða fótinn á festarmeyju sinni og varð þá ljóst að af henni voru höggnar bæði tærnar og hællinn, og líka það að hún hafði ekki samkynja skó á hinum fætinum. Hann bauð nú mönnum sínum að halda aftur til lands og svo var gjört. Gekk hann nú á land við fáa menn og hitti skemmu Mjaðveigar og fekk hana í tal. Leizt honum öllu betur á þessa mær en hina fyrri og svo þekkti hann að hún bar skó þann á fæti sínum er saman átti við þann sem hann hafði fundið. Kom hann þá með þann er hann hafði fundið og var hann mátulegur.
Kom þeim síðan saman um að hún færi með honum, og þegar þau voru komin á skip lagði hann á stað og hélt heim í ríki sitt og lét ekki á öðru bera en hann ætlaði að eiga Króku. Þegar hann hafði skamma stund heima dvalið lét hann skip fara til að sækja drottningu, stjúpu Mjaðveigar. En þegar það var lagt á stað lét hann stytta Króku stundir og brenna síðan. Öskunni var safnað saman og hún höfð í graut er gefa skyldi drottningu þegar hún kæmi. Drottning kom og var fram borinn fyrir hana þessi réttur. En er hún smakkaði sagði hún: „Góður er grauturinn hjá Króku dóttir, en þyrstir mig af honum.“ Þegar hún hafði þetta [sagt] kom rödd úr kverkum hennar sem sagði: „Éttu mig ekki, móðir mín.“ Þá ætlaði drottning [að] breytast í tröllslíki, en í því var henni atlaga veitt og drepin. Var hún einnig brennd. Að því búnu settist konungsson og Mjaðveig á brúðarbekkinn. Unntust þau síðan bæði vel og lengi etc.
- ↑ Það sem fuglarnir sögðu hafa aðrir þannig:
- „Situr í stafni
- Höggvinhæla,
- fullur skór með dreyra [aðrir: blóð].
- Heima situr Mjaðveig
- Mánadóttir,
- hálfu [aðrir: miklu] betra brúðarefni [aðrir: fljóð].