Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Olbogabarnið

Í koti nokkru langt frá öðrum mannabyggðum bjuggu einhvern tíma hjón (ᴐ: karl og kerling). Þau áttu þrjár dætur, Ingibjörgu, Sigríði og Helgu. Þær tvær fyrrnefndu systurnar er eldri voru en Helga voru í mikið meiri metum en sú yngsta, jafnvel þó þær ei væri fleiri eða jöfnum kostum búnar og hún. Helgu var ekki trúað fyrir nokkrum hlut þar hún átti ekki að vera fær til nokkurs hlutar.

Þannig var það einu sinni þá eldur slokknaði í kotinu að önnur af hinum eldri systrum var beðin að fara að sækja eld. Lagði hún á stað, en er hún gekk hjá hól nokkrum heyrði hún að inni var sagt: „Viltu eiga mig með þér eða mót?“ ímyndaði hún sér að það væri við sig mælt, og svaraði sér stæði á sama. Hélt hún síðan áfram þangað til hún kom að helli nokkrum. Var þar nógur eldur því ketill stóð yfir hlóðum og var kjöt að sjóða í honum og kökur voru þar í trogi rétt hjá. Stúlkan sá engan mann eða nokkuð kvikt og þar hún var orðin ærið matlystug þá kyndir hún sem mest hún má undir katlinum og bakar kökurnar, eina handa sér og lét hana vera í lagi, en hinar brenndi hún og gjörði óætar. Hún neytti síðan matar, en að því búnu kemur til hennar rakki einn ógurlega stór og flaðrar upp á hana, en hún lemur hann og vill hrekja hann burt frá sér. Verður þá rakkinn reiður og bítur af henni aðra höndina, hvers vegna hún verður svo hrædd að hún hleypur á stað án þess að taka eldinn með sér. Kemst hún heim í kotið og segir ferðir sínar eigi sléttar, og þótti þvílíkt undrum gegna.

Þó nú þvílíkar ferðir þættu æði óttalegar þá er samt hitt óskabarnið beðið að leggja á stað, allir voru nefnilega hræddir um að hin yngsta dóttirin mundi strjúka ef hún færi, þar hún átti ekki við mikinn heim að skilja, en var nytsöm til að stjana undir hitt hyskið. Fór nú fyrir þessari eins og hinni fyrri er fór, að því undanteknu að rakkinn beit af þessari nefið. Kom hún einnig heim með óframkvæmt erindi.

Þá var hinni þriðju skipað að snauta á stað. Hún gjörði sem henni var boðið; kom hún að hólnum sem áður er um getið og var spurð að hinu sama og þær fyrri, en hún svaraði að það væri algengt orðtak að ekkert væri svo vesælt að ekki væri betra að hafa með sér en móti sem hún þó ekki vissi um það er spyrði og vildi hún fegin eiga það að. Hélt hún síðan leiðar sinnar þangað til hún kom í hellirinn er áður var um getið. Þegar hún kom stóð eins á og þegar hinar fyrri komu, en hún fór allt betur að ráði sínu, sauð kjötið og bakaði kökurnar vel og rækilega, en neytti einkis þó langt væri síðan hún hafði matar neytt og væri af sér komin af þreytu. Ekki tók hún eldinn því hún vildi fá leyfi þess er fyrir réði og svo hugði hún þar náttstað að hafa þó henni virtist það ógurlegt. En er hún var að athuga hvar hún skyldi liggja um nóttina heyrir hún dunur miklar og var nærri því sem hellirinn ætlaði að hrynja; kemur þar inn jötunn einn næsta ófrýnilegur og með honum rakki nokkur frábærlega stór; varð hún þá hrædd mjög, en henni jókst nokkuð hugur þegar jötunninn mælti við hana blíðum orðum á þessa leið: „Þú hefur vel og dyggilega starfað það er þörf var á og er því skyldast að þú fáir laun verka þinna og þiggir mat að mér, en síðan máttu velja hvert þú vilt heldur hafa rekkju hjá hundinum eða hjá sjálfum mér.“ Þegar hann hafði þetta mælt tók hún sér dálítið af snæðingi og lagðist síðan í fletið hjá hundinum því þó hann virtist ógurlegur þá þótti henni sá kosturinn betri en hvíla hjá jötninum. Þá hún hafði þarna legið nokkra stund kom mikill dynkur svo hellirinn allur skalf. Varð hún þá rétt frá sér numin af ótta og skelfingu, en henni til huggunar kallaði jötunninn til hennar og sagði: „Ef þú ert hrædd, Helga karlsdóttir, þá máttu skríða upp á skörina við rúmið mitt,“ og það gjörði hún. Þar næst kom annar dynkur miklu stærri; bauð hann henni þá að setjast upp á rúmið og það þáði hún. Við hinn þriðja dynkinn er allra stærstur var fékk hún leyfi að fara til fóta og við þann fjórða þá allt ætlaði ofan að keyra fór hún upp fyrir hann. En í þessu datt af jötninum hamurinn og var þar þá hjá henni fagur konungsson. Henni varð fyrst fyrir að kveikja eld og brenna haminn. Þakkaði hann henni þá mjög fyrir frelsi sitt og sváfu þau svo af um nóttina.

Um morguninn sagði hann henni að hann væri konungsson er hefði verið í álögum, skyldi hann síðar vitja hennar ef hún vildi þann kost þiggja og var hún ekki ófús að játast honum. Fekk hann henni síðan kyrtil, mesta gersemi, og sagði henni að vera í honum næstum klæða, en láta tötrana vera utan yfir svo ekkert bæri á honum. Kistil fekk hann henni líka; voru þar í hinir kostulegustu gripir. Sagði hann að hann mætti hún sýna og gripina þó hvorutveggja mundi verða frá henni tekið.

Þegar hún var ferðbúin kom hundurinn og rétti henni hægri framlöppina; tók hún í hana og var þar gullhringur mikill sem hún tók á móti, og lagði síðan á stað þó henni þætti mikið fyrir að skilja við konungssoninn. Hún komst heim heil á húfi með eldinn, en þegar hyskið varð vart við kistilinn og gripina varð þar mesti fögnuður og hún strax svipt öllu því er það vissi hún hafði haft meðferðis. Tvennur kvenskrúði hafði einnig í kistlinum verið og tóku eldri systurnar sín hvern svo ekkert var eftir nema kyrtillinn er enginn af vissi nema hún sjálf.

Þannig beið um hríð að allt var við sama í kotinu og ekkert bar til tíðinda þangað til einu sinni sést koma skip af hafi (kotið hefur ekki verið langt frá sjó þó þess sé ekki getið!), fagurt og vel útbúið. Karl gengur til stranda til að njósna hver fyrir réði, en karlinn þekkti hann ekki. Þeir töluðust svo nokkra stund við; spurði aðkomumaður hve margt fólkið væri er byggi í kotinu og hve mörg börn karlinn ætti. Hann kvað þau vera fimm saman og ætti hann tvær dætur. Bað komumaður að hann vildi sýna sér dætur sínar og var það karli ljúft. Fór hann nú og sótti báðar þær eldri. Komu þær í skrúða þeim sem þær höfðu tekið frá systir þeirra. Þegar þær komu kvað hann sér litist ekki svo illa á þær, en spurði hvers vegna önnur hefði hendina í barminum, en önnur klút fyrir nefinu. Máttu þær nú til að sýna hvorutveggja og þá þótti honum þær fara að ófríðka, en fekk ekki að vita af hverju það var komið. Hann spurði hvert það væri öldungis víst að hann ætti ekki fleiri dætur; neitaði karl þverlega í fyrstu, en þegar komumaður tók að ganga á hann sagðist hann eiga ókind eina sem hann vissi varla hvert heldur væri maður eða kvikindi. Hinn varð þá mjög ákafur að vilja sjá hana svo karlinn fór og kom með Helgu; var hún þá í lörfunum sínum, en er komumaður og hún höfðu fundizt þá rífur hann af henni tötrana; var hún þá í ljómandi kyrtli er mikið bar af þeim sem hinar systurnar voru í. Því næst sneri hann við blaðinu og atyrti mjög karlinn og systurnar fyrir meðferð á Helgu, tók af hinum skartið og sagði þeim væri það ekki frjálst, en fleygði í þær lörfum Helgu og lét svo karlinn með dætrum sínum tveimur ganga af skipi, en tók með sér Helgu og sigldi burt þangað hvar hann átti ríkið að erfa, giftist Helgu.

Unntust þau bæði vel og lengi etc. (ᴐ: gömul formúla).