Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Presturinn og sýslumaðurinn
Presturinn og sýslumaðurinn
Það var einu sinni tveir bræður og buggu sitt hvorumegin við fjall; var annar prestur, en annar sýslumaður. Það var ferðavegur yfir fjallið fyrir gangandi menn, en ekki fyrir hesta því það var gil og gljúfur. Það voru tvö sæluhús á því. Urðu menn oft á vetrum úti á fjallinu. Sýslumaður átti þrjár dætur mektugar og miklar, en prestur eina; hún lærði upp á að vera læknir.
Einu sinni var sendur póstur með pósttöskuna og kom til sýslumannsins í öskursbyl. Hann er lengi í dyrunum. Hann sér þar sýslumannsdætur og þær eru að hlæja að hönum. Af því bylurinn minnkar ekki biður hann að lofa sér að vera; hann fær það með tregðu. So um morguninn er öskursbylur. Sýslumaður vill ekki lofa hönum að vera so konan hans lofar hönum að vera á laun í þrjár nætur. Það linar lítið bylnum. Þá segir hún hann verði nú að fara, hún megi ekki lofa hönum það lengur, og ljær hönum mann að fylgja hönum dálítið. So fara þeir á stað upp á fjallið. Hann segir hönum so greinilega hvar sæluhúsið er, og skilur so við hann. Hann segir hann megi flýta sín að sæluhúsinu því hann komist það ekki fyr en í kvöld, so hann flýtir sín og kemst að húsinu þegar komið er kvöld. Hann er þar um nóttina og þegar hann er kominn á fætur er meira óveður so hann er þar tvær nætur, og þá leggur hann á stað og fær gott veður og kemst að hinu sæluhúsinu og þá er kvöld komið. Hann er þar um nóttina. So um morguninn er gott veður, og heldur þá strax á stað og þegar farið er að líða á daginn og hann hugsar hálfnaður sé vegurinn þykknar hann upp og dettur á með grenjandi gaddbyl so hann heldur áfram og veit ekki hvað hann fer. Þegar komin er nótt leggst hann undir garð af því hann var orðinn uppgefinn so hann sofnar. Hann veit þá ekki fyr til en hann er kominn í eitt hús og þar er verið að styrma yfir hönum. Hann var orðinn kalinn á höndum og fótum. Þegar hann raknar við spyr hann hvar hann sé. Hönum er sagt hann sé kominn til prestsins, vinnumenn hans hefðu fundið hann þegar þeir fóru í fjárhúsið og borið hann heim. Hann er þar allan veturinn og prestsdóttirin var að lækna hann. So um vorið fer hann og atlar að borga henni peninga. Hún segir hún hafi aldrei tekið peninga fyrir það hún hafi læknað og geri hún það ekki núna. So fer hann þangað sem hann á heima og fer til kennara síns; hann var að læra í skóla. So er hann vígður til prests.
Það var einu sinni að koma þar fjórir menn og var prestur eitt af því og þeim er öllum boðið inn. Þeir eru með varning og eru að sýna hann. Sýslumannsdætur koma mjög praktugar og kaupa af þeim. Þeir segja að hvort enginn sé í kring sem vilji skoða varning. Þær segja að dóttir prestsins sé læknir og hafi hún verið að lækna flökkustrák heilan vetur og hann hafi verið kalinn á höndum og fótum og væri hún að hugsa upp á hann og tæki öngum sem til hennar færi. Hann segir það megi sækja hana. So hún er sótt og er farið að sýna henni varninginn. Hún kaupir eitthvað so sýslumannsdætur fara að brýna fyrir henni með þennan flökkustrák sem hún hafi læknað so hún atlar að fara. Þá segir prestur hann atli að verða henni samferða, hann þurfi að finna föður hennar. Hann gefur henni gullhring so sýslumannsdætrum verður heldur kynlegt við. Prestur segir að þetta sé flökkustrákurinn sem hún hafi verið að lækna og sé hann kominn að sækja hana. So fer hann til föður hennar so þau giftast, og slegið upp veizlu og boðið sýslumanni og konu hans og dætrum. So þau giftast, en sýslumanns[dætur] giftust illri giftingu allar so prestsdóttirin beiddi að taka þær so hann gerði það, og varð ein matselja, önnur barnfóstra, þriðja þjónustustúlka. Og lifðu vel og lengi. Prestsdóttir og prestur áttu mörg börn – og endar so þessi saga.