Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Saga Sigurðar og Margvíss

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Saga Sigurðar og Margvíss

Forðum daga réði konungur nokkur ríki sínu, sem átti við drottningu sinni son þann er Sigurður hét. Hann var fríður sýnum og snemma efnilegur um alla hluti þá er ungan mann prýða, lærði og alls kyns íþróttir umfram sína jafnaldra og leiksbræður. Gamall karl bjó þar í koti nokkru með kerlingu sinni. Margvís hét son þeirra; hann var jafnaldra við Sigurð konungsson. Áttust þeir við leiki jafnan og unntust mikið. Margvís var snemma fjölvitur. Ekki var hann allfríður ásýndum og þó eigi óþokkalegur. Þeir konungsson sórust í fóstbræðralag þegar á unga aldri.

Vaxa þeir nú upp þar til þeir eru herfærir og helzt sama vinátta með þeim. Það þótti konungi illa að son hans lagði lag sitt við kotkarlssoninn og vandaði oft um það við hann; Sigurður lét sem hann heyrði það ekki. Það var einn dag að Sigurður gengur fyrir föður sinn og kveður hann vel. Konungur tók því sæmilega. Sigurður mælti: „Svo er háttað, faðir, að mér leiðist að sitja heima lengur. Vildi ég fá af yður skip og lið og fara í víking og afla mér fjár og frægðar svo sem þér gjörðu á hinum fyrri árum.“ Konungur svarar: „Það skal allt til reiðu er þú vilt hafa, en það áskil ég þó að þú hafir ekki kotkarlssoninn Margvís í för þinni þér til óvirðingar.“ Sigurður svarar: „Víst skal hann með mér fara hvurt sem ég fer, og er mér engi óvirðing í þó hann sé með mér.“ Konungur mælti þá reiðuglega: „Þá skal ég engan hlut leggja til farar þinnar; verði Margvís þér að þeim notum sem auðið er.“ Sigurður gekk þá út og finnur Margvís og segir honum hvar komið er, en lézt þó víst fara vilja. Margvís kvað þá báða fara skyldu eina saman. Sigurður játti því og búa þeir nú ferð sína og fara síðan tveir einir út á skóg og höfðu vopn sín og vistir nokkrar og ekki miklar.

Nú kemur á þoka og villast þeir lengi. Þrjóta þá og vistir þeirra og þykir Sigurði nú í óefni komið vera, en Margvís bað hann ekki óttast, kvað skammt til mannbyggða, „eða mun þér þykja það betra að koma til þeirra?“ segir hann. Sigurður kvaðst víst vilja til mannbyggða komast ef kostur væri. Litlu eftir þetta sjá þeir borg stóra og fara þeir þangað. Þar réði fyrir konungur nokkur illur og óvinsæll. Þeir gengu fyrir konung og kvöddu hann. Konungur tók því fálega. Þeir báðu hann næturgistingar. Hann lét leiða þá í hús nokkurt. Þar var öðrum megin stallur og stóðu þar við hestar tólf. Hinum megin var pallur og er þeim fóstbræðrum vísað þar til sætis. Þótti Sigurði ekki konunglega boðið, en Margvís lét vel yfir; og er þeir höfðu setið um hríð kom þar þénustukona drottningar og færir þeim graut heitan í skál mikilli. Margvís tók við skálinni og setur hjá sér. Hún bað þá eta sem fljótast, kvaðst vilja bera skálina til baka aftur. Margvís kvaðst eta mundi þá er honum þætti tími til, „og þarftu ekki þess að bíða,“ segir hann. Fer hún þá burt. Þá tekur Margvís skálina og hellir úr henni grautnum í stallinn fyrir hestana. Sigurður mælti þá: „Nú gjörðir þú illa er þú spilltir matnum, og muntu víst ekki jafnhungraður sem ég.“ Margvís mælti: „Bíddu um stund, og muntu sjá hvursu hollur var grauturinn.“ Og eftir litla stund falla allir hestarnir dauðir niður. Margvís tekur þá kníf sinn og sker stykki úr hvurjum hesti, dregur upp á band og bindur um mitti sér. Sigurður undraðist þetta mjög. Margvís bað þá burt fara sem skjótast, og svo gjöra þeir og héldu út til skógar, og er þeir höfðu lengi gengið komu þeir í rjóður eitt og hvíldu sig þar um hríð. Og er minnst varði koma að þeim sporhundar tólf. Margvís tekur þá til bandsins og kastar bita í hvurn hundanna. Þeir eta þá og falla þegar dauðir niður. Sker Margvís enn bita úr hvurjum þeirra og dregur á bandið og hefir með sér.

Fara þeir nú aftur nokkra hríð þar til að þeim fljúga hrafnar tólf. Þeir vóru tamdir og sendir að leita þeirra fóstbræðra. Margvís kastar bitunum fyrir þá. Tekur hvur þeirra sinn bita og gleypa og falla þeir dauðir. Margvís tekur hrafnana alla og dregur þá á bandið. Ganga þeir nú enn um hríð þar til þeim mæta tólf blámenn. Kastar Margvís sínum hrafni í hvurn þeirra. Þeir tóku þá og rifu í sig grimmlega, en féllu þegar dauðir á eftir. Nú fara þeir fóstbræður leiðar sinnar og tekur Margvís ekkert af blámönnunum. Og er þeir höfðu lengi gengið, mælti Sigurður: „Hversu lengi skulum við ganga og vita ekki til mannbyggða? Er ég nú orðinn hungraður mjög og má varla ganga lengra.“ Margvís kvað skammt til mannbyggða. „Munum við þá koma að öðru konungsríki og munum fá þar mat. Þá munum við biðja konung veturvistar, en hann mun gjöra oss slíkan kost sem hann gjörir öðrum mönnum, að bera upp gátu þá er hann geti ekki ráðið. Þeim sem það getur hefir hann heitið gjaforði dóttur sinnar, en geti hann ráðið gátuna lætur hann drepa þann er bar hana upp.“ Sigurður lézt enga þá gátu kunna sem víst er að konungur fái ekki ráðið. Margvís kvað það undarlegt, „og er ég í engum vafa um hvurja gátu ég mundi bera upp fyrir konungi ef ég væri formaður okkar.“ Sigurður spyr hvur sá gáta væri. Margvís mælti: „Ég mundi bera gátuna upp á þessa leið: ,Með hvurju dráp ég tólf hesta, tólf hunda, tólf hrafna og tólf blámenn?'“ Sigurður kvaðst ætla að það mundi gott ráð, og er þeir töluðu um þetta sjá þeir fyrir sér borg mikla og þangað fara þeir. Sjá þeir konungshöll í borginni og ganga þeir þar inn og kveðja konung. Hann tók því vel. Þeir biðja gistingar og er þeim vísað í gestaherbergi og veittur góður beini. Annan dag eftir gengur Sigurður fyrir konung og biður hann veturvistar. Konungur mælti: „Gera mun ég ykkur kost á því sem öðrum mönnum. Þú skalt bera upp gátu þá er ég fái ekki ráðið. Ef þú getur það mun ég gifta þér dóttur mína, en ef ég get ráðið gátuna mun ég láta drepa þig og báða ykkur. Skaltu á þriðja degi koma fyrir mig og bera upp gátu þína. Mun ég þá geta hennar ef ég má, en þangað til skulu þér vera í því herbergi sem ég mun láta vísa yður til.“ Síðan var þeim vísað í herbergi nokkurt. Þar voru rekkjur tvær, og er Sigurði vísað í hina innri, en Margvísi í hina.

Um kvöldið er þeim borinn matur og eftir það fara þeir í rekkjur og sofnar Sigurður þegar, en Margvís vakir. Og er nokkuð var af nótt kemur kona inn; það var þjónustumey konungsdóttur. Hún gengur að rekkjunni sem Margvís hvílir í, og spyr ef hann vakir. Hann kvaðst vaka. Hún spyr ef hann viti gátu þá er Sigurður muni upp bera. Hann kvaðst víst vita hana, „en kom þú nær og haf lágt,“ segir hann, „því Sigurður vakir.“ Hún fór til hans og laut að honum, en hann þreif til hennar og kastar henni upp fyrir sig í rekkjuna. Þar verður hún að vera um nóttina hvurt henni líkar vel eða illa, og hefir Margvís af henni þá skemmtun er honum sýnist, og er kom að degi lætur hann hana fara og er hún ekki að fróðari um gátuna. Hina næstu nótt kom sú þjónustumey konugsdóttur sem hún unni mest, á fund Margvíss, og var það bæði að sama var erindi hennar sem hinnar enda fékk hún hina sömu för. Og um kvöldið eftir mælti Margvís við Sigurð: „Nú skulum við hafa rekkjuskipti, því í nótt mun konungsdóttir koma sjálf og ann ég þér að ná henni í fang þér, en hún mun ætla að ég sé.“ Segir Margvís honum nú hvursu hann skal að fara, og fór sem hann gat að um nóttina kom konungsdóttir inn og gengur að hvílu þeirri er hún ætlar að Margvís muni í vera, og spyr hvort hann vakir. Hann lézt sofa. Tekur hún þá á honum, en hann þrífur hana upp í rekkjuna og fór nú allt á sömu leið og fyrr; en er hún fór hélt Sigurður eftir skikkju hennar. Og um daginn eftir gengur Sigurður fyrir konung og ber upp gátu sína. Fær konungur ekki ráðið hana, og nú bregður Sigurður upp skikkjunni og spyr ef nokkur þekkti. Konungur kvað það skikkju dóttur sinnar, „og munu þeir hafa orðið fundir ykkar að þú munt maklegastur að njóta hennar.“ Segir Sigurður konungi nú alla sögu sína. Þykir konungi mikilsvert um Margvís. Er nú brúðkaup gjört og fær Sigurður konungsdóttur, en Margvís hina fremstu af meyjum hennar, og tekur Sigurður þar ríki eftir konung, og var Margvís ráðgjafi hans til dauðadags. Var þeirra stjórn löng og farsæl. Og lýkur þar þeirri sögu.