Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Saga af Helgu og systrum hennar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Saga af Helgu og systrum hennar

Einu sinni var kall og kelling í koti sínu; þau áttu sér þrjár dætur. Sú fyrsta hét Signý, önnur Vigný og þriðja hét Helga; hún var alltaf í öskustónni og mátti ekki vera þar sem systur hennar vóru. Það bar við einhverju sinni að eldurinn dó hjá móður þeirra og biður hún Signýju dóttur sína að fara og útvega sér eld. Hún fer á stað, og segir ekki frá henni fyrri en hún kemur þar sem kona er að baka brauð. Þá segir hún:

„Baki brauð kona,
baki hún illa;
þá gangi henni hvurt verkið öðru ver,
og eld vil ég fá.“

[Konan svaraði:]

„Ekki skaltu eldinn fá,
en verði annað auga þitt
eins og stærsta brauðið mitt,
og gakktu lengra.“

Og svo fer hún á stað og kemur þar sem kona er að vefa vef; þá segir hún:

„Vefi vef kona,
vefi hún illa;
þá gangi henni hvurt verkið öðru ver,
og eld vil ég fá.“

[Konan svaraði:]

„Aldrei skaltu eldinn fá,
en verði nefið á þér
eins og skyttuskaftið mitt,
og gakktu lengra.“

Svo fer hún á stað og gengur þar til er hún kemur þar sem kona er að sauma saum; þá segir hún:

„Saumi saum kona,
saumi hún illa;
þá gangi henni hvert verkið öðru ver,
og eld vil ég fá.“

[Konan svaraði:]

„Aldrei skaltu eldinn fá
og verði annað augað þitt
eins og smæsta saumnálaraugað mitt,
og farðu heim.“

Svo fer hún á stað og er ekki sagt frá fyrri en hún kemur heim, og verður faðir hennar og móðir hrædd er þau sjá dóttir sína svo umbreytta.

Nú fer Helga til foreldra sinna og biður þau fararleyfis til að sækja eld. [Vignýju hafði líka farið eins og systur sinni er hún ætlaði að sækja eldinn.] Móður hennar segir að hún hafi öngva ánægju af henni þegar systur hennar væru svona orðnar. Nú fer hún á stað og léttir ekki fyr en hún kemur þar sem kona er [að] baka brauð, og segir hún þá:

„Baki brauð kona,
baki hún vel;
þá gangi henni hvert verkið öðru betur,
og eld vil ég fá.“

[Konan svaraði:]

„Gjarnan skaltu eldinn fá,
en gakktu lengra.“

Svo fer hún á stað og kemur þar sem kona er að vefa vef. Þá segir hún:

„Vefi vef kona,
vefi hún vel;
þá gangi henni hvert verkið öðru betur,
og eld vil ég fá.“

[Konan svaraði:]

„Gjarnan skaltu eldinn fá,
og gákktu lengra.“

Þá fer hún á stað og kemur þar sem kona er að sauma saum. Þá segir hún:

„Saumi saum kona,
saum[i] hún vel;
þá gangi henni hvert verkið öðru betur,
og eld vil ég fá.“

[Konan svaraði:] „Gjarnan skaltu eldinn fá, og skal ég gefa þér þennan kassa, og skaltu ekki ljúka honum upp fyr en á þínum heiðursdegi, því ég skal segja þér að við erum þrjár og áttum við alltaf að vinna þar til einhver frelsaði okkur frá þessum nauðum, og skaltu fá bróður okkar sem nú er nýlega orðinn kóngur. Farðu nú heim með eldinn og láttu ekki systur þínar vita af þessu.“ Helga þakkar henni fyrir sig og fer heim. Nú færir hún móður sinni eldinn og tekur hún við því með ólund, og fylltust nú systur hennar af bræði og vonzku yfir að hún var jafngóð.

En þegar að árið var liðið kemur fríður og fallegur kóngsson að landi og kemur hann í kallskot og spyr bónda hvert hann ekki eigi neina dóttir. Hann segir: „Já, ég á tvær.“ Nú fer hann og kallar þær fyrir kóngsson, en hann verður hræddur þegar hann sér þessar ófreskjur, og biður fara með þær sem fyrst frá sér, og spur hann þá kall hvar sú þriðja sé. Fer hann þá og kallar á Helgu og segir hún skuli koma úr öskustónni. Síðan kemur hún inn og er þá klædd drottningarskrúða. Þegar kóngsson sér hana stendur hann upp móti henni og setur hana á kné sér og segir hún skuli vera drottning sín. Síðan siglir hann með hana og gerir brúðkaup sitt til hennar og unntust þau hugástum.

En af systrum hennar er það að segja að þær dóu af hungri og bágindum.

Og lýk ég svo sögu af Helgu kallsdóttir og systrum hennar.