Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Þorsteini glott

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af Þorsteini glott

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér einn son sem hét Þorsteinn. Þorsteinn ólst upp í ríkinu. Einu sinni leggst móður hans veik og deyr. So fær kóngur sér drottningu sem hét Helga; hún biður kónginn að lofa sér að liggja einni þrjár fyrstu næturnar. Hann lætur það eftir henni; en þegar Þorsteinn sonur hans heyrir það þá biður hann Helgu að lofa sér að sofa hjá henni; hún segir það sé frá. Hann hættir ekki fyr en hann fær það; hún segir hönum ríði á að hlæja ekki þó eitthvað komi fyrir hlægilegt. So lætur hún handa sex mönnum mat á borð og kertaljós hjá; so þegar hún er háttuð lætur hún Þorstein undir tvær sængur. Þegar komin er mið nótt þá heyra þau mikinn undirgang og ryðst inn tröllskessa og segir: „Sæl, Helga systir; það er munur, þú ert að dilla barninu kóngsins, en ég er að éta slorið og gorið úr fjörunni.“ Helga segir: „Gefðu ekki um það nema éttu að tarna.“ Hún fer að éta og tekur hraustlega að sér fæðuna. Þegar hún er búin að éta þá stendur hún upp, og gengur af þvílíku skapi vindurinn upp og niður úr henni; so fer hún. Aðra nóttina lætur hún handa átta mönnum á borð og so fer hún að hátta og lætur Þorstein undir þrjár sængur og segir hann megi passa að hlæja ekki, meira muni ganga nú á en fyrri nóttina. Þegar er farið að líða á nóttina þá heyra þau mikinn undirgang og þá kemur i[nn] tröllskessa og segir: „Sæl Helga systir; það er munur, þú ert að dilla barninu kóngsins, en við erum að éta slorið og gorið á fjörunni.“ Þá segir Helga: „Gefðu ekki um það nema éttu að tarna.“ Hún fer so að éta og tekur hraustlega að sér fæðuna. Þegar hún er búin að éta stendur hún upp og gengur af þvílíku skapi vindurinn upp og niður úr henni; so fer hún í burtu; og þriðju nóttina vill hún ekki lofa hönum að sofa hjá sér og segir að mikið hafi gengið á hinar næturnar, en meira muni þó ganga á í nótt. Hann lofar hann skuli ekki hlæja. Hún setur handa tólf mönnum mat á borð; so fer hún að hátta og setur Þorstein undir fjórar sængur og skipar hönum að passa að hlæja ekki. So líður að miðri nótt; heyra þau miklar dunur og undirgang úti og þá ryðst inn skelfilega stór tröllskessa og brýtur í sundur allan dyraumbúninginn og segir: „Sæl Helga dóttir; það er munur, þú ert að dilla barninu kóngsins, en við erum að éta slorið og gorið á fjörunni.“ Þá segir Helga: „Já, gefðu ekki um það nema éttu að tarna.“ So hákar hún í sig hroðalega. Þegar hún er búin að éta stendur hún upp; þá gengur upp og niður vindurinn úr henni so að dynur og glymur í höllinni. Þá hlær Þorsteinn upp úr. „Þú ert þá hérna, Þorsteinn kóngsson; ég skal auka við nafn þitt og þú skalt verða kallaður Þorsteinn glott fyrst þú hlóst að mér og skaltu ekki hafa viðnám í ríkinu fyr en þú finnur hestinn Gullskó sem hann faðir þinn tapaði úr ríkinu fyrir tveimur árum, sem seint mun verða nema með annara tilstyrk.“ So fer hún út. Þá segir Helga drottning það hafi alténd bitið á sig að hann mundi hlæja.

So fer Helga að búa hann út, gefur hönum nesti og nýja skó, þrjú ketstykki, þrjá gullhringi, rauðan hnykil og hvítan hund. Helga segir hann eigi að halda í endann á hnyklinum; hann eigi hvurgi að fara inn þar sem hundurinn fari ekki inn og hnykillinn. So gengur hann á stað og fer yfir fjöll og dali þangað til að hann kemur að einum hellir; hundurinn fer þar inn og hnykillinn og hann líka. Hann sér þar stórt bæli; hann fer undir það. Þegar dimmt er orðið heyrir hann undirgang og kemur inn skessa með fuglakippu á bakinu; hún fleygir henni á gólfið og segir: „Það er gott þú ert kominn hérna, Þorsteinn glott; þú skalt fá makleg málagjöld fyrst þú hlóst að henni móður minni.“ Hann fleygir í hana minnsta ketstykkinu; þá segir hún: „Vel er það gert þó það sé ekki nema undir einn jaxlinn á mér.“ So er hann þar um nóttina. Um morguninn vekur hún hann snemma og segir að ekki dugi hönum að liggja fram eftir öllum morgni ef hann hugsi til að ná hestinum Gullskó. Hún fær hönum mat að borða og so munnlaug að þvo sér úr; hann fleygir minnsta hringnum í munnlaugina. Þá segir hún: „Vel er Helgu systir til þín. það sé ég; þú mátt nefna mig ef þér liggur lítið á; [ég heiti Skinnskálm].“ So fer hann þaðan og gengur yfir fjöll og dali þangað til að hann kemur að hellir; þar fer hundurinn og hnykillinn inn og Þorsteinn á eftir. Hann sér þar mjög stórt flet; hann fer undir það. Þegar kvöldar heyrir hann undirgang og kemur inn skessa með fuglakippu á bakinu; hún fleygir henni á gólfið og segir: „Það er gott þú ert kominn hingað Þorsteinn glott; þú skalt fá makleg málagjöld fyrst þú hlóst að henni móður minni.“ Hann hendir í hana öðru ketstykkinu; þá segir hún: „Vel var það gert þó það sé ekki nema undir einn jaxlinn á mér.“ So er hann þar um nóttina; og um morguninn vekur hún hann og segir honum dugi ekki að liggja sona ef hann ætli að finna hestinn Gullskó; hún fær hönum mat að borða og so munnlaug. Þegar hann er búinn að þvo sér fleygir hann öðrum hringnum í munnlaugina. Þá segir hún: „Vel er henni Helgu systir til þín; þú mátt nefna mig ef þér liggur lítið á; ég heiti Skinnbrók.“ So fer hann og gengur yfir fjöll og dali og kemur so að þriðja hellirnum og hundurinn er alltaf að fara inn í dyrnar og út úr þeim attur, so loksins fer hann inn og hnykillinn og Þorsteinn á ettir. Hann sér þar skelfilega stórt flet; hann fer undir það. Þegar komið er kvöld þá heyrir hann dunur og dynki og þá kemur inn mjög stór skessa með dýr á bakinu og segir: „Það er gott þú ert kominn, Þorsteinn glott; þú skalt fá makleg málagjöld fyrst þú hlóst að mér.“ Hann fleygir í hana ketstykkinu. Þá segir hún: „Vel var það gert þó það sé ekki nema undir einn jaxlinn á mér.“ So er hann þar um nóttina; og um morguninn vekur hún hann snemma og segir hönum dugi ekki að liggja eins og slytti ef hann hugsi til að ná hestinum Gullskó. So fær hún honum mat að borða og munnlaug; hann lætur hring í munnlaugina. Þá segir hún: „Vel er henni Helgu dóttir til þín.“ Hún gefur hönum öxi og segir hann muni koma að stóru vatni og þar standi tré og skuli hann högga það í sundur niður við jörð og þá muni það falla yfir vatnið og skyldi hann ganga það og þá mundi hann koma að hellir og þar væru tólf tröllkallar og ein stelpa sem væri að passa hestinn Gullskó; og það gæti skeð að hann næði hönum ef að tröllkallarnir væru út á skóg. Hún segir: „Þú mátt nefna mig ef þér liggur lítið á; ég heiti Skinnhetta.“

So fer hann og kemur að vatninu og sér þar mikið stórt tré. Hann heggur það í sundur niður við jörð og þá fellur það yfir. Hann gengur yfir vatnið og gengur so vel og lengi þangað til að hann kemur að hellir; þar stendur stelpa úti; hann heilsar henni og spyr hvað margt manna sé heima. Hún segir það sé ekki fleira heima en hún; það séu tólf tröllkallar út á skóg og komi ekki heim fyr en í kvöld, en hún sé að passa hestinn Gullskó. Hann segir hvað það sé, hann hafi aldrei heyrt það nefnt, sig langi að sjá það. Hún segir honum sé riðið. So sækir hún hann. Hann spyr hvort nokkuð sé látið á hann. Hún segir það sé látið á hann gullhnakkur [og] gullbeizli. Hann biður hana að láta sig á bak; hún gerir það; so er hann alltaf að detta af baki. Hann spyr hvort nokkuð sé haft í hendinni; hún segir það sé gullsproti. Hann biður hana að sækja hann; hún gerir það og fær hönum. Hann biður hana að lofa sér að ríða um hlaðið einum; hún fær hönum tauminn. Þá skellir hann undir nára og ríður eins og hann getur og þegar hann kemur að vatninu þá sér hann tröllana koma þeytandi af skógnum. Þá segir Þorsteinn: „Hvunar atl' að mér liggi meir á Skinnskálm, Skinnbrók og Skinnhettu en nú?“ Þá koma þær hlaupandi og hjálpa hönum yfir vatnið, en þegar tröllarnir sjá það seta þeir sig af baki og út á tréð, en þær veltu þá um trénu og þeir fóru í vatnið. Þá segir Skinnhetta við Þorstein að hann verði að flýta sín heim í ríkið; það væri farið að kynda bál og ætti að brenna hana Helgu dóttir þar á. „Kóngurinn hugsaði að hún mundi hafa drepið þig og étið.“ So fer hann og kemst heim í ríkið og þá er verið að kynda bál og á að brenna Helgu drottningu þar; og þegar Þorsteinn kemur þá verður ekki af því. Kóngi þykir vænt að sjá son sinn og hestinn Gullskó og Helga kemst í sína tign aftur, og unnust mikið. Og endar so sagan af Þorsteini glott.