Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Artus konungi grimma

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af Artus konungi grimmma

Artus hefur konungur heitið, ríkur og ágætur til flestra hluta og íþróttamaður hinn mesti. Hann átti sér fríða drottningu og ágæta, af dýrum ættum; unni konungur henni hugástum.

Fóstri konungs og ráðgjafi þagði er konungur lofaði ágæti hennar, en sagði um leið að ekki væri víst hún reyndist konungi eins trygg eins og hann ynni henni mikið. Konungur tók illa máli hans og sagðist halda drottningu sína konu að verði. Aldrei trúði konungur þessu þó hann heyrði þar um rætt; segist samt skuli gjöra raun til þess. Býr hann sig nú og fjölda liðs og segir drottningu sinni og öðrum borgarmönnum það hann ætli með landi fram með landvarnarmönnum til að friða ríkið og að skattheimtum um lönd sín og eiga þing við landsmenn um ýmislega landshætti og nauðsynjar og muni hann burtu sex mánuði. Konungur ferðast nú sem hann hafði ráðgert, en er miklu skemur í burtu. Kemur hann að óvörum til borgarinnar á næturtíma, gengur einn frá mönnum sínum og að borgarhliði; biður dyraverði leyfis til inngöngu. Heldur hann áfram allt í herbergi drottningar og gengur að sæng hennar. Sér hann þá sjón þá er hann mundi sízt ætlað hafa: að maður liggur í faðmi drottningar. Verður honum þá skapbrátt, bregður sverði, kippir manninum fram á sængurstokkinn og heggur af honum höfuðið.

Drottning vaknaði nú við vondan draum. Rak konungur hana á fætur úr sænginni og út fyrir borgarhlið og bað hana aldrei koma fyrir sín augu framar.[1]

Eftir þetta unir konungur illa hag sínum. Gjörist hann mjög grimmur, tekur ríkra manna dætur til samlags sér, en drepur þessar er frá leið. Unir hann nú ekki heima, siglir með landi fram, kemur víða við úteyjar og annes og víða í annara höfðingja ríki og brúkar alstaðar sama framferði. Varð hann af því óvinsæll og var almennt kallaður Artus grimmi.

Þann tíma var kóngur einn mjög ágætur. Hann átti dóttur eina barna afbragðsstúlku að hverjum hlut. Artus konungur hafði spurn af mey þessari og [gerði] þangað ferð sína.

Nú verður að segja frá því er fyrr gjörðist, að þá er spurn flaug af illskuverkum Artusar konungs urðu allir meiri menn hræddir um dætur sínar. Einn þeirra var faðir þeirrar ágætu meyjar er áður var nefnd. Þegar hún fæddist lét hann búa henni fagurt jarðhús af hinum beztu föngum og fekk henni einn mann til þjónustu allrar og umönnunar. Þangað voru og fluttar bækur og alls kyns fróðleikur; skyldi hann kenna henni allar listir sem einu konungsbarni sómdi. Aldrei mátti hún til manna koma og engi til hennar; var þar dauðasök við lögð ef af væri brugðið. Ólst hún svo þarna upp án þess nokkurjar sögur færi af henni þangað til hún var átján vetra gömul. Oft beiddi hún fóstra sinn að lofa sér út, og gjörði hann það stöku sinnum er veður var sem fegurst. Þessu einlífi undi hún illa og beiddi fóstra sinn að lofa sér heim til borgar, en hann sagði henni hvað við lá. Hún sagðist skyldi taka alla ábyrgð á því svo hann hlyti þar ekki líflát af. Þau halda nú heim til borgar og inn í höll föður hennar. En er konungur faðir hennar sér hana koma bregður hann sverði og ætlar að höggva hann. Hún hleypur fram fyrir fóstra sinn undir höggið, biður föður sinn að höggva ef hann sé þyrstur í blóð, segist ekki vita hvers vegna hún hljóti að vera inni byrgð sem fugl í búri, úti lukt frá öllu samfélagi manna og viðræðum sem illmenni í myrkvastofu, geymdur þar til aftöku og lífláts. „Nú bið ég þig, góði faðir, að byggja mér heldur skemmu sem öðrum kóngadætrum sómir og tign yðar sýnist henta og fáið mér meyjar og sveina til þjónustu.“ Konungur segir henni hvað sér hafi til gengið og hvernig Artus konungur hafi þær útleikið. Hún segir auðnan verði því að ráða. Nú var tekið til skemmusmíðis og sezt kóngsdóttir þar með meyjum sínum.

Þegar Artus konungur er ferðbúinn heldur hann skipum sínum þangað og lendir skammt frá konungsaðsetri. Þetta frétta landsmenn. Konungsdóttir gengur fyrir föður sinn og biður hann fagna Artusi konungi með ástsemd og heimboði og þykir konungi undarleg bæn hennar; gerir þó eftir því sem hún vildi. Kemur hann nú heim til borgar og drekka þeir saman konungarnir. En er minnstar voru vonir kemur konungsdóttir í höllina með öllum sínum meyjaskara. Kveður hún föður sinn og hina nýkomnu gesti og sezt í sæti sitt. En er á daginn líður hefir konungur Artus upp orð sín og biður um kóngsdóttir í hvílu sína. Hún verður fyrir svörum og tekur því vel, bjóðandi honum í skemmu sína með nokkrum sveinum sínum. Gengur hún svo til skemmu sinnar og býr konungi hina beztu veizlu og drukku þeir þar og voru glaðir. En er kvöld var komið gjörast menn dauðadrukknir. Gengur konungur þá til rekkju, en menn hans til skipa. Konungsdóttir þjónaði honum til sængur og byrlaði honum svefndrykk; hratt hún konungi ofan í sængina. En með þeim vélum var um búið að allteinir járnbroddar settust í hold konungsins; vafði hann svo innan í húðfat eitt mikið, rakaði honum koll og bjó hann sem smánarlegast að hvívetna. Árla um morguninn sendi hún menn sína með húðfat þetta til skipa og bað segja mönnum Artusar konungs, þeim er í borginni gistu og eins þeim er í tjöldum lágu, að konungur væri til skipa kominn og biði þar manna sinna; vildi hann ekki ónýta byrleiði það er komið væri. En er menn hans heyrðu þetta skunda þeir til skipa. Sáu þeir hvergi konung, en húðfat eitt mikið sáu þeir í þiljum uppi. Biðu þeir lengi dags. En er þeim fór að lengja kom þeim ásamt um að vita hvað í húðfati þessu hinu mikla væri. Brá þeim heldur en ekki í brún er þeir sáu konunginn svona útleikinn. Raknar hann nú við og er ekki gott í skapi til konungsdóttur, en vegna sjúkleika síns treystist hann ekki til atgjörða. Siglir hann svo heim til ríkja sinna og liggur í rekkju. Sendu menn nú um næstu lönd og ríki eftir læknum. Kom sá engi er meinlætum hans linaði, en konungur var svo grimmur í skapi að hvern þann lét hann drepa og festa höfuð þeirra á stangir kring á borgarmúrana. Svo fór að enginn læknir fekkst til að vitja um konung.

Ekki var konungsdóttir ókunnigt um krankleika konungs, enda spurðist þetta í þetta land. Fær hún sér þá skútu eina og býr sig karlmannsgjörvi, siglir svo til konungsaðseturs, gengur þar á land og heim til borgar. Borgarmenn spurðu mann þenna að ætt og óðalsjörð eður hvers slags maður hann væri. Sagði hann þeim fátt eitt um sína hagi, en lézt skoðað hafa sjúka menn. Hann leit þá á múra borgarinnar og sá mannahöfuðin, spurði hvað þetta ætti að þýða. Sögðu menn honum það, en hver sá sem ráð kynni til að lækna konung mætti mikilla launa að vænta. Það sagði hún vera ljótan sið. Þeir báðu hana ganga til konungs; hún tók því lítt, en lézt þó mega sjá konung þótt ekkert mætti hún við gjöra. Sögðu menn konungi að kominn væri maður sá er líta vildi á konung.

Konungur fagnar honum vel, en hann sagðist ekkert við hann gjöra nema konungur leyfði honum að hafa þá viðhöndlan er honum litist. Því játaði hann. Þá bauð læknirinn að drepa stóðhross eitt það feitasta og flá alla fituna með húðinni og brimsalta. En er saltið var runnið vafði hann konung innan í húðinni og [lét] liggja þar nokkurn tíma. Barst konungur lítt af vegna sviðaverkja og sárinda. En er lækninum þókti tími til hóf hann konung í mjúka sæng og makaði hann í smyrslum; dró þá úr verk allan og þóktist konungur þá sem albata. Innan í húðinni lá vogur mikill og naglar allir því fitan og saltið mýktu bólgu alla og drógu voginn út.

Eftir tíma liðinn varð konungur albata. Festi hann þá ást mikla á lækninum og bauð honum til launa það er hann kjósa vildi. En hann þá engin laun af konungi önnur en þau að hann falaði grið af honum hvar sem þeir fyndust eður hvernig sem á honum stæði og festi konungur þau heit með hinum styrkasta eiði.

Læknirinn fer nú úr borginni og til manna sinna, siglir svo í burtu og til eyjar einnar er lá í þjóðleið frá ríki Artusar konungs, kastaði þar dulgjörvi og gekk á land og reisti þar upp tjald eitt. En skútu hennar festu þeir í leynivog einn.

Artus konungur hugsar nú á hefndir við kóngsdóttur er hann var orðinn heill heilsu. Safnar hann nú liði miklu og atlar að hertaka hana með herskildi, en inntaka ríkið. Kemur floti hans við eyju þessa og þar leggur hann að landi. Sáu konungsmenn tjald eitt á landi. Fýsti konung nú að vita hver í tjaldinu byggi og gengur þangað með nokkurja menn. Engra manna urðu þeir varir. Konungur gekk í tjaldið, en menn hans biðu úti fyrir. Þetta var silkitjald eitt mjög vandað.

En er konungur kemur inn í tjaldið bregður honum í brúnir, því þar sat kona ein í fögrum búnaði í innanverðu tjaldinu. Þekkir hann þar konungsdóttir. Fyllist hann nú af reiði mikilli, bregður sverði og ætlar að leggja hana í gegn með sama. Konungsdóttir hefir þá orð fyrir sér og bað hann ekki vera svo bráðan að hann lofaði sér ekki fyrst inn fyrir fortjaldið. Þangað gekk hún. Að vörmu spori kemur maður fram undan fortjaldinu og heilsar konungi; þekkir konungur þar læknir sinn og fagnar honum með hinni mestu blíðu.

Hún kastar þá klæðum sínum og segist nú vera sú sama hann hafi bæði sært og grætt og megi hann nú gjöra hvort sem hann vilji meta meira særi sín og heilsugjöf eður það er hún særði hann til gjalda fyrir það er hann hefði gjört öðrum kvenmönnum og sömu smán og dauða hefði hann sér ætlað. En vilji hann nú leggja niður hatrið og fá sig fyrir drottningu þá skuli hann sigla með sig til föður síns og fá sín með sæmd.

Konungur varð nú forviða við þetta, samþykkir þessum hennar orðum og siglir öllum flotanum að ríkjum föður hennar, leggur til hafna, sendir menn til konungs að segja honum tíðindi þau er orðin voru. Konungur gengur til strandar með hinum mesta fagnaði, leiðir Artus konung til hallar og dóttur sína. Rís þar upp hin fegursta veizla. Að þeirri veizlu hefir Artus konungur upp orð sín og biður konungsdóttur. Var því máli vel svarað. Veizlan var að nýju aukin og snúið í brullup. Fór veizlan vel fram og voru höfðingjar með gjöfum burt leystir. Að veizlunni endaðri skildu þeir mágarnir með vinsemd. Siglir Artus konungur með drottningu sína heim til ríkja sinna. – Unnust þau vel til elli og þókti drottning miklu hafa til leiðar komið með skörungskap sínum og viturleik.

  1. Aðrir segja hann hyggi hana líka við sængurstokkinn og fer það að líkindum eftir því sem fram kemur seinna í sögunni. [Hdr.]