Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Búa bóndasyni og Víðförli

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af Búa bóndasyni og Víðförli

Einu sinni var kóngur og drottning og réðu fyrir ríki og áttu eina dóttur; ekki er getið um nafn hennar, en afbragð var hún annarra meyja í þann tíma. Þegar hún var orðin gjafvaxta lét faðir hennar það boð út ganga að hann gæfi engum dóttur sína nema þeim sem geti smíðað það skip er fara megi á lög og loft með og mót vindi og í logni. Þessa freistuðu margir og gat þó enginn.

Þar í ríki konungs var bóndi einn auðugur; hann átti þrjá sonu og eru þeir eldri tveir ekki nefndir, en sá yngsti er Búi nefndur; hafði hann lítið eftirlæti hjá föður sínum, en hinir vóru í mesta yfirlæti. Eitt sinn kemur sá elzti á tal við föður sinn og segir: „Nú ætla ég að fá hjá þér styrk til að smíða skip og fá kóngsdóttur í staðinn.“ Bóndi segir hann skuli svo gjöra og leyfir honum að fara í skóg sinn þar sem honum líki og höggva skipsviðinn, og menn sína megi hann taka til þessa verks. Fer hann nú og kallar með sér verkamenn föður síns og fer í skóginn þar sem bezt er til að fá viðinn. Gekk nú verkið vel; og er nokkuð var búið af smíðinni var það einn dag að þar kom að kall ókunnugur; þeir spyrja hann að heiti. Hann kvaðst heita Víðförull; hann spyr hvur sé formaður þessa verks og segja þeir honum það. Hann biður að segja honum að hann hefði gaman af að sjá bóndason; og þegar þeir finnast heilsar kall honum með mestu viðhöfn og segir síðan að hann ætli nú að biðja hann að gjöra sér eitthvað gott. Bóndason segist hafa nóg útgjöld þó hann sé ekki að ausa fé sínu í flökkumenn og betlara, – „og drag þig burt sem skjótast.“ Sá nú Víðförull ekki til góðs að gjöra og hafði sig burt þaðan; en frá skipsmíðinni er það að segja að þegar þeir vóru búnir gátu þeir hvurgi hrært skrokkinn og varð svo allt að ónytju og fór bóndason svo heim til föður síns og sagði allt sem var af ferðum sínum.

Nú kom miðaldra bróðirinn til föður síns og segist ætla [að] reyna hvurt sér takist ekki betur en bróður hans. Bóndi segir hann skuli ráða því; fer hann nú með verklýð föður síns og lætur taka til smíða. Er nú ekki að orðlengja það að allt fór á sömu leið og fyrir bróður hans. Víðförull kom til þeirra og bóndason fórst ódrengilega við hann eins og hinum, og allt smíðið varð að engu á endanum og fór hann með það heim til föður síns.

Nú segir Búi við föður sinn að hann ætli að reyna að smíða skip og vita hvurt sér takist ekki betur en bræðrum sínum. Bóndi segir: „Ekki banna ég þér að höggva skóg til skips, en ekki færðu annan styrk frá mér, því ég veit þér muni ekki takast betur en bræðrum þínum, einkum þar þú ert að öllu minni maður en þeir.“ Skildu þeir svo talið; en svo var Búi vinsæll af alþýðu (því hann var ör við alla og góðlyndur) að verkmenn þyrptust að honum hvaðanæva og buðu honum vinnu sína kauplaust og tók hann boði þeirra fegins hendi. Fer hann nú með þá menn er hann fékk og lét taka til verka. Var hann í öðrum stað en bræður hans höfðu verið. Þegar verkið var hér um hálfgjört kemur Víðförull þar einn dag og spyr að fyrirmanni þessa verks og er honum sagt það; kveðst hann hafa gaman af að sjá Búa; og þegar hann heyrði þess getið að förumaður vildi finna sig brá hann við og fór á fund hans og heilsar honum vingjarnlega. Biður þá Víðförull hann að gefa sér eitthvað. Búi segist ekki vera fjölskrúðugur, „en þó skal ég sýna lit á því“. Lætur hann nú setja mat fyrir Víðförul og veitti honum hið kostulegasta. Þegar Víðförull hafði étið og drukkið eftir vild sinni þakkaði hann Búa fyrir sig og sagði: „Það var mikið þú skyldir heldur geta gjört mér gott en bræður þínir sem illa töluðu mér til og létu mig tómhentan frá sér fara; en það vildi ég að þér yrði heldur lán en ólán að því sem þú veikst góðu að mér.“ Dregur hann þá upp hjá sér fésjóð allmikinn og segir: „Þetta ætla ég að gefa þér; skaltu hafa það til að launa með verkamönnum þínum og til að gjöra þeim veizlu þegar skipið er búið, en þá mun ég koma með seglflíkur á það. Mundu eftir að láta vanda það sem mest að allri smíð.“ Þakkar nú Búi honum fyrir sig og kveðjast þeir síðan með mestu virktum.

Líður nú svo tíminn þangað til að skipið er búið; heldur þá Búi öllum smiðunum veizlu og galt þeim laun fyrir vinnu sína. Entist vel sjóðurinn Víðförulsnautur og var þó enn eftir af honum. Þann dag er verkinu var lokið og smiðirnir fóru kom Víðförull með seglabagga mikinn; heilsast þeir vingjarnlega Búi og hann. Segir Búi honum að nú sé skipsmíðinni lokið og leiðir hann þangað og spyr hvurn veg honum lítist á skipið. Víðförull segir að það sé vandað að hvívetna, – „en þó má mikið enn að gjöra.“ Síðan grefur hann gröft þar sem honum þótti prýða og renndi gulli í skurðina og lét hann Búa hjálpa sér til þessa; en þegar hann þóttist vera búinn að prýða skipið sem mest gat verið leysti hann seglabaggann og kom þar fyrst með hvít segl og sagði að með þeim ætti að sigla í byr; svo komu dökk segl og sagði Víðförull að þau ætti að brúka þegar siglt væri í mótvindi. Að síðustu kom hann með heiðblátt klæði með gylltum línum; segir þá Víðförull að þetta eigi að brúka þegar siglt sé í loftinu. Eftir það fara þeir báðir upp á skipið Víðförull og Búi og les Víðförull letrið á klæðinu; leið svo skipið í loft upp. Sýnir nú kall Búa alla aðferð við loftsiglinguna bæði að lesa skipið upp og niður þegar það ætti að vera, og eins að stýra því meðan á ferðinni stæði. Var Búi hinn auðnæmasti; og þegar hann var orðinn fullnuma las Víðförull skipið niður og segir við Búa: „Nú munum við skilja og sé ég þig líklegast ekki aftur; en þú siglir heim til borgar. Muntu þá fyrst sjá fjóra menn sem eru að fella tré; það eru piltar mínir og heita Harðleggir. Skilaðu til þeirra frá Víðförli að þeir eigi að fylgja þér. Þar eftir sérðu mann; hann er einfættur og stekkur við tvítuga járnstöng; hann heitir Stökkvandi. Skilaðu til hans frá mér að hann veiti þér lið. Þar næst sérðu mann; hann liggur á hól og leggur eyrað við holu sem er í hólinn; hann heitir Jarðgægir, því hann sér í jörð og á. Hafðu við hann sömu orð og hina. Síðast sérðu mann; hann liggur á grjótmel og er að aka sér á grjótinu; hann heitir Harðrass. Skilaðu til hans eins og hinna. Ekki skaltu skipta þér um þó þeir komi ekki með þér; og máttú hafa að marki að ef þeir bregðast við þegar þú skilar til þeirra, að þeir munu koma til liðs við þig þegar þú þarft þess með.“ Að svo mæltu kvöddust þeir og þakkaði Búi Víðförli fyrir sig, og skildu með hinni mestu blíðu.

Les nú Búi skipið í loft upp og siglir svo heim til borgar. Sá hann á leiðinni alla þá menn er Víðförull hafði sagt honum frá og skilaði til þeirra; brugðu þeir við er þeir heyrðu orðsendingu Víðföruls; en ekki vissi Búi hvað um þá varð. Þegar hann kom heim að borgarhliði las hann skipið þar niður, en sjálfur gekk hann á fund konungs og kvaddi hann sæmilega. Kóngur tók vel kveðju hans og spyr hvurra manna hann sé eða hvurt erindi hann hafi. Búi kveðst vera bóndason og sé faðir sinn ekki langt þar frá, – „en erindi mitt hingað var að sýna yður skip er ég hef smíðað og ætlaði ég að reyna hvurt ég gæti ekki unnið til dóttur yðar eftir því sem mér er sagt að þér hafi þar um mælt.“ Kóngur sagði: „Sjá má ég skip þitt, en fyrst muntu sitja hér til borðs með oss.“ Var nú Búa fengið sæti sæmilegt; en þegar borð voru upp tekin gekk kóngur með hirð sinni og Búa að sjá skipið; og er þeir höfðu aðgætt það um hríð segir kóngur: „Það segi ég um skip þetta að þó það hafi ekkert til síns ágætis annað en það sem sjá má, þá er það hið mesta snilldarverk“ – og urðu því allir samdóma að enginn þóttist jafnprýðilegt skip séð hafa. Síðan fór Búi upp á skipið og kóngur með honum og nokkrir hans vildustu hirðmenn. Les nú Búi upp skipið og lét hann það svífa til og frá um loftið þar til kóngur sagði að það væri fullreynt. Eftir það reyndu þeir að sigla bæði í byr og mótvindi og logni og þótti kóngi hið mesta gaman að öllu þessu. Loksins gekk kóngur af skipi með fylgd sinni og Búi með honum. Sagði kóngur þá við hann: „Vel hefur þú unnið til dóttur minnar, því að skip þetta hefur ekki einasta alla þá kosti til að bera sem ég ásetti, heldur er það framar en ég gat gjört mér hugmynd um.“ Síðan fór kóngur inn í borg og lét hann leiða Búa inn og setti hann hið næsta sér.

Kóngur átti móður á lífi og réði hún með honum allmiklu, en löngum þótti hún kaldráð vera. Um kvöldið þegar kóngur hafði verið á skipinu með Búa um daginn þá fer hann til móður sinnar og segir að nú sé komið mannsefni dóttur sinnar. „Er það svo?“ segir hún. „Já,“ segir kóngur; síðan sagði hann henni allt um Búa og skip hans sem áður er ritað og lofaði hann í hvurju orði. Kelling segir: „Mikið lætur þú af manni þessum og væri reynandi hvurt hann er eins listfengur með margt og hann hefur verið að gjöra skip þetta. Hér á bak við borgina er skógarstykki; eru þar stór tré og þétt og hefur ei þótt vinnandi verk að ryðja, en er þó til að hindra útsjón frá borginni. Nú skalt þú setja á við Búa að ryðja markarstykki þetta á einum degi og bera viðinn í köst.“ Kóngur sagði: „Það er hvurtveggja að það er rangt af mér að setja fyrir hann nokkra þraut, enda er þetta einkis manns að vinna.“ Skildu þau svo talið og gekk kóngur í höllina og var heldur óglaður. Búi sá það og spyr hvað að honum gangi. Hann segir það ekkert vera, en segir Búa þó viðræðu þeirra sín og kellingar. Búi segir: „Fáið mér öxi stóra og bitra vel.“ Kóngur lét gjöra það og sýna honum hvar hann átti að höggva; síðan ganga menn til svefns.

Um morguninn fer Búi á fætur með sólaruppkomu, tekur öxina í hönd og gengur í skóginn; fer hann svo að höggva og um dagmál er hann búinn að fella eitt tré og er þá orðinn mjög þreyttur og sezt niður. Sér hann þá hvar Harðleggir koma og heilsa þeir upp á hann er fundum bar saman; þá segja þeir að hann skuli hvíla sig; en þeir tóku til starfa. Tveir felldu með þeim hætti að þeir slógu fætinum á hvurja eik neðan til og brutu hana í einu höggi, en tveir báru saman. Hafði Búi hina mestu skemmtan af að horfa á; en um miðaftan var verkinu lokið. Segja þá Harðleggir við Búa: „Nú förum við og er nú búið okkar ætlunarverk.“ Hann þakkaði þeim mikillega fyrir vinnuna og bað þá heilsa Víðförli sínum með þakklæti fyrir mannalánið, og eftir það skildu þeir.

Fór Búi heim til borgar og gekk fyrir kóng og sagði: „Nú er þetta búið.“ Kóngur sagði það skyldi brátt prófast hvursu vel það væri gjört. Eftir máltíð gekk kóngur með hirð sinni að sjá á verk Búa og þótti honum það vel af hendi leyst og þakkaði honum með mestu virktum. Um kvöldið gekk hann enn að hitta móður sína og sagði að vel hefði Búi leyst þetta af hendi sem við hefði mátt búast af honum. Hún segir: „Mikið megnar hann ef hann nýtur ekki annarra að.“ Kóngur sagði hann ekki nema einn vera. Kelling sagði: „Að vísu hefur hann unnið til ráðahags við dóttur þína; en þó vil ég láta reyna hvað hann orkar og leggja fyrir hann að sækja gullklukkurnar sem hann faðir minn sæli átti; þær eru svo mikið gersemi að allt þitt ríki er sem ekkert á móti þeim að reikna.“ Kóngur spyr hvar þeirra væri að leita. Hún kvaðst hvurki vita það eða vilja segja þar um þó vissi. Kóngur kvaðst ekki hirða um illar tillögur hennar og gekk snúðugt burtu. Þegar hann kom í höllina tók Búi eftir því að honum var mjög þungt um og spyr hvað því valdi. Hann segir það sé ekki nema af rausi móður sinnar sem ekki sé gaumur gefandi. „Um hvað var það?“ segir Búi. Kóngur segir: „Hún var nú að tala um að ég skyldi setja fyrir þig að sækja gullklukkurnar sem hann faðir sinn hefði átt; kvað hún þær vera hinar mestu gersemar; en ekki kvaðst hún hirða um að segja hvar þær væri að finna.“ Búi segir: „Ég skal leitast við að finna þær.“ Kóngur kvað hann skyldi vera sjálfráðan. Var eftir það gengið til náða; en um morguninn snemma fór Búi af stað og hljóp hann allt hvað af tók, en ekki vissi hann hvurt stefna skyldi, þar til hann var orðinn móður; þá settist hann niður og fór að hugsa um áform sitt. Sér hann hvar Stökkvandi kemur, og er þeir finnast segir Stökkvandi: „Hér skaltu bíða meðan ég fer að leita að klukkunum.“ Eftir það stökk hann af stað og var þegar horfinn úr augsýn. Líður nú fram til nóns; þá kemur Jarðgægir og segir: „Heldur þykir mér Stökkvanda seinka, hvað sem því veldur; skal ég nú brátt vita hvað það er.“ Sezt hann þá niður og gjörði holu með fingrinum og lagði síðan eyrað við og segir að lítilli stund liðinni: „Ekki skal mig undra þó hann komi ekki, því það er búið að svæfa hann í undirheimum með gjörningum.“ Tók hann þá upp bjöllu og hringdi í holunni og sagði: „Nú vona ég að hann komi bráðum,“ en að litlum tíma liðnum heyrir Búi hringlanda og glamranda og þar næst sér hann hvar Stökkvandi kemur, og er þeir finnast segir hann: „Hér eru nú klukkurnar, en það vildi ég að sú djöfuls kelling sem þessu kom til leiðar yrði einhvurn tíma ekki betur stödd en ég var nú, því það var búið að svæfa mig með göldrum og var mér bani ráðinn hefðir þú ekki, Jarðgægir, vakið mig; og er nú svo lokið okkar verki.“ Búi sagði: „Ég þakka ykkur fyrir þetta og bið að heilsa Víðförli mínum með þakklæti fyrir öll mannalánin.“ Að svo mæltu skildu þeir; en Búi hélt heim til borgar hróðugur í huga með klukkurnar og í höllina og afhenti kóngi þær svo mælandi: „Hér eru nú klukkurnar og veit ég kelling móðir þín verður nú ánægð.“ Kóngur segir: „Ekki verður ofsögum af því sagt bæði hvaða afbragðsmaður þú ert og líka hinu hvílík gersemi þessar klukkur eru, og verð ég nú að finna móður mína og segja henni hvar nú sé komið.“ Eftir það fer hann og hittir móður sína og sagði að nú væri Búi kominn með klukkurnar. Hún svaraði: „Satt er það að fáa sína líka hygg ég þenna mann eiga, og vel er hann nú kominn að ráðahag við dóttur þína og er nú bezt að fara að stofna til veizlunnar það hraðasta; en ég ætla að biðja þig að lofa mér að búa til veizlunnar og vera fyrir.“ Kóngur kvað henni það velkomið. Fer nú kóngur og segir Búa andsvör kellingar og var þá hinn glaðasti.

Líður nú að brúðkaupsdeginum og var boðið múg og margmenni. Var nú allt til reiðu; og er búið var að gefa brúðhjónin saman vóru þau leidd með hinni mestu viðhöfn til húss þess er veizlan átti að vera í og var þar búið að bera á borð og tilreiða dýrðlega stóla handa brúðhjónunum; en í því að átti að leiða þau inn í húsið kom þar ókenndur maður, og þekkti Búi að það var Harðrass; hann tróð sér í gegnum mannþröngina og inn í brúðarhúsið og að borðinu og sópaði öllu og spillti bæði mat og drykk sem á því var; síðan settist hann í stólinn sem ætlaður var brúðgumanum og hossaði sér nokkrum sinnum ofan í hann. Kóngur varð reiður við þetta og spyr því hann láti svo. Hann segir að móðir hans hafi eitrað allt það sem á borðinu hafi verið, bæði mat og drykk, og hafi ætlað sér að drepa þar með hann og alla þá sem með honum hefðu verið; „þar að auki lét hún setja eitraða járngadda í stólinn sem Búi átti að sitja á, og ætlaðist til að þeir skyldu hann til skaða skemma þegar hann settist niður; en því gjörir hún þetta að hún heldur við einn riddara og ætlar að eiga hann og gjöra að kóngi yfir þessu ríki þegar hún væri búin að drepa þig og Búa og alla þá er hún vildi ráða af dögum; en riddarann hefur hún nú fólgið í sæng sinni.“Þegar kóngur heyrði þetta varð hann agndofa, en sagði þó: „Það ríður á lífi þínu ef þetta reynist öðruvísi en þú segir.“ Tekur nú kóngur ögn af brauði og gaf hundi sínum og datt hann þegar dauður niður. Síðan fór menn að skoða stólinn og sáu þeir gaddana, en Harðrass hafði hnykkt þá alla er hann settist niður. Nú sendi kóngur nokkra menn að leita að riddaranum í sæng móður sinnar, en lét handtaka hana sjálfa; en þeir komu aftur og sögðust ekki finna hann. Harðrass sagði að vanleitað væri, því tvær væru sængur í rúminu og væri hann á milli þeirra. Fóru svo mennirnir aftur og fundu hann þegar eins og Harðrass hafði sagt. Lætur nú kóngur binda hann og kasta þeim báðum í fangelsi, en veizlunni var fram haldið engu að síður og var Harðrass hafður í hinum mestu metum; og er veizlan hafði staðið marga daga með prís og sóma var henni lokið og boðsmenn með gjöfum út leystir.

Nú lætur kóngur sækja móður sína og riddarann og krefja til sagna; meðgengu þau allt satt að vera það er Harðrass hafði sagt. Lét kóngur þá hengja riddarann, en móður sína dæmdi hann í ævilangt fangelsi. Sagði þá Harðrass að nú væri búið sitt ætlunarverk; þökkuðu honum allir þarkomuna, þó einkum kóngur og Búi, og bað hann Harðrass að bera Víðförli kveðju sína eins og hann hafði beðið hina; fór hann svo burt þaðan. En kóngur gjörði Búa að stjórnara hálfs ríkisins um sína tíð, en alls eftir sinn dag. Unntist það allt bæði vel og lengi. Og endum vér svo þessa sögu. – Endir.