Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Hans karlssyni

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Sagan af Hans karlssyni

Það var einu sinni karl og kerling í koti sínu; þau áttu þrjá sonu. Saga þessi getur ekki um nöfn tveggja hinna eldri, en sá yngsti nefndist Hans. Faðir þeirra unni mjög þeim hinum eldri bræðrunum, veitti þeim allan þann fögnuð og fullkomnun sem hann gat; en Hans var í öllu tilliti út undan hjá karlinum föður sínum. Hans fekk aldrei neitt til að leika sér að og mátti ekki hafa félag með föður eða bræðrum sínum; byggði því oft eldaskála og var hjá móður sinni enda var hún sú eina sem hélt nokkuð í hönd með honum. Af því Hans hlaut oft að vera einn leiddist honum þetta einlífi og tók því að hæna að sér köttinn í kotinu. Þetta tókst honum svo að kisa fór að elta hann og fylgdi honum hvert sem hann fór.

Þeir bræður vaxa nú í kotinu og verða fullvaxnir menn; þykjast báðir eldri bræðurnir vera miklir menn og voru mestu oflátungar; hrósar faðir þeirra þeim líka fyrir allt, en áleit Hans hartnær einkis virði. Bræður hans gjörðu líka æði lítið úr honum og allir höfðu horn í síðu hans nema móðir hans, hún gat litið hann réttu auga því hún gleymdi því ekki að hún var móðir hans og af því Hans gjörði sig ekki heldur óverðugan elsku hennar.

Þess er getið að langt í burtu frá koti karls var kóngsríki eitt og var sjóleið nokkuð löng í milli. Eldri bræðurnir komu einu sinni að máli við föður sinn og beiddu hann að lofa sér að fara til kóngsríkis til að leita sér fjár og frægðar. Karl tók því blíðlega og kveður mikla von til þess að þeir mundu verða lukkudrjúgir. Einhverju sinni þegar karl vissi að kaupskip eitt var þar við land segir hann konu sinni að nú verði hún að sjá um það að eldri bræðurnir hafi nesti og nýja skó því hann ætli að láta þá fara í kóngsríki til að leita sér fjár og frama. Kerling þorir ekki annað en hlýða boði bónda síns og býr þessa synina úr garði. En þegar Hans verður þessa var hefur hann ekki frið í sínum beinum af löngun að fara líka; kemur hann að máli við föður sinn og biður hann að lofa sér að fara. Karl kveðst ekki geta látið hann fara, en af því sér leiðist að horfa á hann hjá sér þegar hinir séu farnir þá verði hann að láta það eftir með því skilyrði að hann verði ekki samferða bræðrunum svo að þeir hafi ekki neina smán af honum. Hans þykja þetta góð málalok, fer til móður sinnar og biður hana að láta sig fá eitthvað til ferðarinnar. Bræðurnir flýta sér nú á stað til þess að Hans skuli ekki geta komizt í för með þeim, en Hans flýtir sér líka; fær hann hjá móður sinni einungis roð í nestið. En þegar hann kveður hana fær hún honum skörunginn sinn, segir að hann skuli brúka hann fyrir göngustaf og muni hann ekki villast á meðan hann gangi við hann. Líka segir hún að hann verði að brúka hann fyrir vopn meðan hann hafi ekki annað. Síðan kveður Hans móður sína með mestu virktum og föður sinn líka, fer svo sem fætur toga á leið þangað sem hann hugði að skip mundi vera við sjávarströndina. Vildi hann nú feginn geta séð á eftir bræðrum sínum; en þeir höfðu flýtt sér svo að hann getur ekki komið auga á þá. Hans heldur ei að síður áfram; en þegar farið er að rökkva er hann kominn á hæð nokkra, sér hann þá hvar kemur fljúgandi ógurlega stór fugl sem hann hyggur að muni vera það er hann hafði heyrt nefndan flugdreka, sendir skörunginn á eftir honum og hæfir hann svo hann dettur niður, grípur Hans þá skörunginn og vinnur á drekanum. Nú fer Hans að gefa gaum því sem drekinn hafði haldið í klóm sínum; var það barn háhljóðandi. Leitast Hans við að hugga það, en getur ekki og er nú öldungis ráðalaus. Í þessum svifunum sér hann hvar kemur lítill maður hlaupandi og lafmóður; heilsar hann Hans blíðlega, segist sjá að hann hafi gjört sér mikið góðverk því hann hafi bjargað barni sínu. Tekur hann nú við barninu og huggar það. Þessi litli maður sem var dvergur spyr Hans hvert hann vilji ekki koma heim með sér og vera hjá sér í nótt. Hans sem áður var farinn að verða hræddur um það að hann mundi hljóta að liggja úti tekur boði þessu fegins hendi og fer með dvergnum. Þeir ganga nú langa leið til baka og loksins sér Hans stóran stein sem hann man eftir að hann gekk hjá um daginn. Að þessum steini fara þeir; dvergurinn lýkur honum upp og ganga þeir svo inn. Hans fær þarna beztu viðtektir, en ekki er getið hvert hann hafi séð þar margt manna. Um kvöldið háttar Hans og sefur vel; samt verður hann var við það um nóttina að dvergurinn er eitthvað að smíða. Að morgni fer Hans á fætur og þegar hann er ferðbúinn segist dvergur vera að hugsa til að gefa honum þrjá gripi þó þeir séu lítils virði móti lífgjöf barnsins síns. Fyrst fær hann Hans lítinn stein sem hann segir að fylgi sú náttúra að þegar hann beri hann í lófa sínum þá sjái hann enginn. Svo gefur hann Hans sverð sem hann segir að muni bíta [og] geti orðið svo lítið að hann fái stungið því í vasa sinn og svo aftur látið verða fullkomið að stærð. Seinast gefur dvergur honum skip sem hann segir hann geti borið í vasa sínum, en þegar hann vilji geti hann látið það verða svo stórt sem haga þyki og jafnvel eins stórt og haffært kaupskip; sé það líka kostur við það að það fari sína leið eins í mótvindi sem meðbyr. Hans tekur móti gripum þessum og þakkar dverg innilega fyrir þessar hans dýrmætu gjafir. Að því búnu kveður hann dverginn, tekur skörung sinn og leggur á stað.

Nú fer Hans þar sem hann heldur að skemmst sé til sjávar og þegar hann kemur að honum tekur hann skip sitt, setur á sjó og fer upp í það. Tekur það þá strax til rásar, en hann stýrir því á leið til kóngsríkis. Þegar hann er kominn út á rúmsjó brestur á veður; sér hann þá hvar skipin eru að hrökklast til og frá, en skip hans fer sína leið og nemur ekki staðar fyrri en það lendir við strönd konungsveldisins. Hans tekur skip sitt, stingur því í vasa sinn og heldur nú leiðar sinnar upp í landið, en fer samt huldu höfði. Álítur hann það bezt fyrir sig meðan hann sé að sjá háttsemi og nema siðu manna.

Það er að segja af bræðrum hans að þeir komast til kóngsríkis, fara strax á konungsfund og beiðast vetrarvistar og fá hana; eru þeir með hirð konungs, láta mikið yfir sér og eru hinir kátustu. Nú kemur Hans líka til konungsborgar, gengur hann nokkra stund um meðal hirðmanna og annarstaðar svo að enginn sér hann; tekur hann eftir öllu án þess nokkur verði var við. Þegar þetta hefur gengið þannig nokkra stund gengur hann fyrir konung og kveður hann kurteislega, biður hann vetrarvistar og fær hana, en bræður hans láta sem þeir sjái hann aldrei.

Konungur átti eina dóttir barna og var hún þá þegar orðin gjafvaxta, en konungur var farinn að gjörast gamall. Einhverju sinni þegar skammt var liðið frá veturnóttum og allir hirðmenn voru í höllinni kveður konungur sér hljóðs og segist gjöra það kunnugt að hann gefi þeim manni dóttur sína, hálft ríkið meðan hann lifi og allt eftir sinn dag, sem geti náð og fært sér á jóladagskvöldið þá þrjá hluti sem kostulegastir séu í heimi, það sé tafl úr skæru gulli, sverð mjög fagurt og gulli búið og fugl gylltur og með gullvængjum í glerhulstri; kveði hann svo hátt þegar við hann sé komið að heyrist öræfa-langan veg. Þessa gripi geymi tröllskessa sem sé í eyju einni ekki alllangt þaðan og hafi hún þá fyrir ofan rúmið sitt. Hirðmenn konungs gefa þessu mjög lítinn gaum, en þeir eldri karlssynir segjast halda að þetta sé reynandi og varla óvinnandi. Annar þeirra biður konunginn strax að láta sig fá menn svo hann komist til eyjarinnar. Konungur segir það skuli til reiðu og er svo ekki getið um förina fyrri en skipið kemur að eyjunni. Gengur karlssonur á land, en það var um bjartan dag og þorir hann því ekki að ganga um eyjuna, leggst hann því í leyni og bíður þar þangað til rökkva tók og hann ímyndaði sér að skessa mundi vera farin að sofa. Þá fer hann á skrið og til hellirs skessunnar, verður hann þá var við að hún var háttuð og sofnuð. Hugsar hann að nú skuli hann fara hægt og varlega. Lízt honum ráðlegast að byrja á því torveldasta og hugsar að taka fuglinn, en að óvörum kemur hann lítið eitt við fuglinn og þá bregður honum heldur í brún því fuglinn rekur upp svo há hljóð að í öllu glumdi. Skessan vaknar nú, rýkur upp og þrífur í karlsson, segir það sé mjög vænt að hann sé kominn þangað því hún skuli hafa hann fyrir jólabita, færir hann í afhellir einn, bindur fætur hans og höndurnar á bak aftur, þuklar síðan um hann og segir að hann þurfi að eiga gott því ekki sé bitastætt í honum. Eftir þetta þýtur skessan út úr hellir og niður að sjó; vissi hún að kóngsmenn höfðu komið til eyjarinnar og hugsaði sér að fá meiri veiði. En þegar þeir sjá flagðið koma ofan til sjávar leystu þeir í skyndi landfestar og lá við sjálft að þeir kæmust ekki svo fljótt frá landi að hún næði þeim ekki, en þó varð hún frá að hverfa. Kóngsmenn koma nú aftur heim og segja hið ljósasta af ferðum sínum. Telja þeir það víst að varla muni þessi karlssonur koma með gripina. Nú verður hinn karlssonurinn óður og uppvægur og biður konung að láta sig fá skip og menn. Konungur gjörir það og leggur karlssonur svo á stað og segir ekki af ferðum hans annað en það að það fór fyrir honum öldungis eins og þeim fyrri.

Skömmu eftir að þessir kóngsmenn komu aftur hverfur Hans og veit enginn hvað af honum er orðið, en hann fór ofan til sjávar og hugsar sér að finna skessu líka. Hann fer nú á skipi sínu yfir um sundið, stingur því í vasa sinn og gengur upp á eyjuna. Gætir hann þess að hafa steininn í lófa sínum svo hann sjáist ekki. Heldur hann áfram þangað til hann kemur í hellirinn. Var þá skessan ekki komin heim svo hann felur sig þar í krók einum. Á sínum tíma kemur skessan og þegar hún kemur inn þykir henni þar vera einhver óviðfelldin lykt, þefar því í allar áttir og segir: „Mannalykt, mannalykt.“ Ei að síður leggst hún fyrir í rúm sitt, en getur ekki farið að sofa, stagast á þessu: „Mannalykt, mannalykt,“ rýkur upp og fer að fálma innan um hellirinn. Hans sér nú að hún muni finna sig, tekur upp sverðið er dvergurinn gaf honum, lætur það verða fullstórt, og þegar skessan er nærri því komin að honum bregður hann því á háls henni og fýkur þá af höfuðið. Flagðið dettur niður, en Hans kveikir eld og brennir kroppinn. Síðan fer Hans að kanna hellirinn og finnur þar auk hinna dýrmætustu gripanna fjöldamargar aðrar gersemar. Líka verður hann í leit sinni var við dyr á afhellir, fer þar inn og finnur bræður sína báða. Þegar þeir sjá hann verða þeir bæði furðu fullir og auðmjúkir, biðja hann, bróður sinn góðan, að minnast ekki hvernig þeir hafi áður verið honum og losa af sér böndin. Hans kveðst muni gefa þeim frelsi ef þeir verði sér góðir upp frá þessu og því lofa þeir. Síðan leysir Hans þá.

Taka þeir nú byrðar sínar af gripum og gersemum og flytja til sjávar og þegar þeir hafa flutt allt fémætt ferma þeir skipið og fara til kóngsríkis; samt gjöra þeir ekki vart við sig í borg konungsins fyrri en á jóladagskvöldið, þá gengur Hans og svo hinir bræðurnir fyrir konung og heilsa honum hæversklega. Konunginn og alla hirðina rekur í rammastanz og því meir undrast allir þegar Hans færir kóngi þá tilteknu gripi. Segir konungur það sé sjálfsagt að hann sé rétt kominn að því og vel samkvæmt heitorði sínu að fá dóttur sína. Hans er látinn fara í tignarleg klæði, kóngsdóttir er sótt, síðan borið inn sterkt og ágætt vín og drukkið brúðkaupið til að glæða fögnuð hátíðarinnar. Það er nú ekki að orðlengja það að Hans tekur fyrst þátt í ríkisstjórninni, sækir foreldra sína svo þau lifi í sælli elli hjá honum. Síðan verður hann konungur, gjörir bræður sína að ráðgjöfum, ríkir bæði vel og lengi, og svo kann ég ekki þessa sögu lengri.