Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Hildi góðu stjúpu
Sagan af Hildi góðu stjúpu
Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þeim var það eitt til angurs að þeim varð ekki barna auðið. Kóngur átti ráðgjafa þann sem Rauður hét; hvumleiður var hann flestum öðrum en kóngi og drottningu sem hann var mjög fylgisamur og var jafnan með henni hvert sem hún fór. Einn góðan veðurdag sem snjór var á jörð ók drottning sleða og Rauður með henni. Drottningu var heitt í sleðanum svo hún fékk blóðnasir og lét blæða í snjóinn. Segir hún þá við Rauð að hún vildi hún ætti dóttur sem skipti eins fallega litum eins og blóðið og snjórinn. Rauður sagði að hún skyldi fá þá ósk sína uppfyllta en þó skyldi hún ekki geta séð svo þessa dóttur sína í fyrsta sinni að hún legði ekki á hana að hún skyldi brenna borgina hans föður síns, eiga barn í föðurgarði og drepa mann. Drottning vildi allt til vinna að eignast dóttur og þegar stundir liðu fór að bera á því að drottning var barnshafandi. Líður svo að þeim tíma að hún leggst á gólf og gengur það allt vel, en þegar hún heyrir á yfirsetukonunum að hún hefur fætt undur frítt meybarn, biður hún þær í öllum bænum að bera það frá sér sem fljótast því hún vilji ekki sjá það. Yfirsetukonunum þykir þetta undarlegt, en fara þó með barnið til kóngs og segja honum orð drottningar. Kóngi þykir undur vænt um dóttur sína, lætur skíra hana og kalla Ingibjörgu; síðan fær hann henni fóstru á öðrum stað í ríkinu, langt frá borginni. Nú frískast drottning aftur eðlilega og ber ekki neitt á neinu. Kóngur býður henni oft að koma með sér að sjá dóttur þeirra eða láta hana koma heim til þeirra. En drottning vill hvorugt og segist ekki mega sjá dóttur sína, en gat ekki um hvernig því væri varið að öðru leyti.
Leið nú og beið þangað til Ingibjörg var tíu vetra og var mjög orð á gert hversu fríð hún væri og efnileg. Um það leyti tekur drottning þunga sótt sem hún heldur að muni leiða sig til dauða; lætur hún þá sækja Ingibjörgu því hún segist þó verða að sjá hana áður en hún deyi. Þegar Ingibjörg kemur lætur drottning alla fara úr herbergi því sem hún lá í svo hún gæti talað við dóttur sína í einrúmi. Þegar Ingibjörg kemur þar inn og lýtur niður að móður sinni og ætlar að faðma hana að sér hrindir drottning henni frá sér og leggur það á hana sem henni var áskapað og áður er sagt. Eftir það dó drottning en Ingibjörg leið í öngvit og lá í því þegar komið var í herbergið og hnykkti öllum við þá aðkomu. Raknaði Ingibjörg þó bráðum við aftur með góðri aðhjúkrun, en var ósköp harmþrungin og áhyggjufull um sinn hag, og hugsuðu allir að það væri af missi móður hennar. Kóngur var og lengi harmsfullur og syrgði mjög drottningu, en sinnti lítið ríkisstjórn. Vin átti hann einn í ríki sínu sem hann trúði bezt allra manna, enda hafði hann löngum reynzt kóngi hollráður og góðráður. Þegar hann heyrir afskiptaleysi kóngs af ríkismálum tekst hann ferð á hendur og heimsækir hann. Kóngur tekur vel við honum og verður feginn komu hans. Vinur hans leggur þá niður fyrir honum að honum tjái ekki sífelld sorg og afskiptaleysi af ríkisháttum og sé honum miklu nær að leita sér kvonfangs aftur og megi hann svo helzt hyggja af hörmum sínum ef hann fái sér aðra drottningu í staðinn þó hann hafi mikils misst. Kóngur var tregur til þess fyrst, vildi eyða þeim málum og sagði að seinni konan gæfist sjaldan vel. Vinur hans var því fastari á sínu máli og bauðst til að fara sjálfur að leita honum þeirrar konu sem mætti verða honum til unaðsbóta og sagðist ekki síður vilja vanda honum konu en sjálfum sér. Af því kóngur trúði vin sínum bezt allra manna lét hann til leiðast fyrir fortölur hans.
Fer svo sendimaðurinn úr landi og leitar víða, kemur í mörg kóngaríki og sér dætur þeirra og kvennalið, en lízt hvergi svo á að hann vilji bera upp bónorðið fyrir kónginn vin sinn. Loksins fréttir hann til kóngsdóttur einnar sem Hildur hét og var honum sagt að hún væri mjög sviplík Ingibjörgu kóngsdóttur og réð faðir hennar fyrir eylandi einu. Sendimaður kóngs siglir nú þangað, gengur á land og fyrir kóng og segir honum hverra erinda hann sé þangað kominn. Kóngur segist ekkert af ráða um þau mál fyrr en hann viti vilja dóttur sinnar; segir hann sendimanni að bíða þess þar í höllinni að dóttir sín komi svo að hann viti að hann hafi engin launmæli við hana á meðan, og skuli hann svo sjálfur bera upp við hana bónorðið þegar hún komi. Sendimaður gerir svo og bíður nú þess að borð eru reist um höllina; sprettur þá upp hurð í hallarveggnum og kemur fram kóngsdóttir með meyjum sínum, gengur fyrir föður sinn og lýtur honum. Sendimaður gefur henni auga og lízt hún bæði fögur og kurteis og mjög áþekk Ingibjörgu. Gengur hann þá fyrir þau kóng og dóttur hans, hefur upp orð sín og biður hennar til handa kóngi sínum. Kóngur segir að sér sé kóngur hans kunnur að góðu einu, en dóttir sín skuli sjálf ráða hvort hún vilji takast þann vanda á hendur að lofast honum. Kóngsdóttir lýsti því yfir að hún mundi fúslega taka þeim kosti sem sér byðist og skyldi hún fara heim með sendimanni til kóngs, en sitja í festum hjá honum í þrjú ár því hún væri enn ung og óráðin í flestu. Því sagðist sendimaður vilja lofa fyrir hönd kóngsins; var það svo að ráði gert að hann fastnaði kóngi sínum kóngsdóttur með fyrrnefndum skilmála. Var svo búin ferð hennar á öðru skipi en sendimannsins og höfðu þau samflot heim. Þegar kóngur sá sigling þeirra gekk hann til strandar með dóttur sinni og hirðinni og tók á móti drottningarefni sínu og leizt honum svo vel á hana að hann varð þegar fanginn af fegurð hennar, en alla furðaði hversu líkar þær voru Ingibjörg kóngsdóttir og Hildur, svo fjærskyldar sem þær voru, enda var það fljótt auðfundið að þær mundu eiga vel lund saman. Var nú gengið til hallarinnar og vildi kóngur þegar halda brúðkaup sitt til Hildar. Vinur hans segir að það megi hann ekki því Hildur sé föstnuð honum með því einu móti að hún sæti í festum hjá honum í þrjú ár. Lét þá kóngur svo vera. Ekki hafði Hildur verið þar lengi áður hún biður kóng að láta búa þeim báðum, Ingibjörgu og sér, kastala út af fyrir sig; segist hún líta svo til að þær muni verða brátt samrýndar og muni það báðum bezt gegna að þær séu sem næst hvor annari. Kóngur gerir svo og setjast þær báðar í kastalann. Þeim stallsystrum kom undur vel saman svo að jafnan vildu það báðar sem önnur vildi.
Þegar nokkuð leið frá fór Ingibjörg að verða fálátari en áður. Hildur gekk á hana og spurði hvað ógleddi hana. Ingibjörg vildi ekki segja henni það. Hildur sagðist þá ekki heldur þurfa að spyrja hana um það því hún vissi að henni væri áskapað að brenna borgina hans föður síns. Ingibjörg sagði það satt vera og væri hún í standandi vandræðum af því. Hildur bað hana ekki láta hugfallast, þær mundu hafa einhver ráð. Eftir þetta fer kóngur að heiman á áliðnu sumri til að heimta skatta af löndum sínum og um sama leyti fer allt fólk úr borginni í eplaleit víðs vegar. En á meðan eru þær tvær einar heima Hildur og Ingibjörg; þá segir Hildur að nú skuli þær bera allt fémætt burt úr borginni meðan þar sé mannlaust og brenna hana svo upp. Þetta gera þær og kveikja víða í borginni svo að eldurinn læsir sig um hana alla á svipstundu. Þá sjá borgarmenn úr eplaleitinni bál mikið til borgarinnar, snúa heim og ætla að bjarga. En þegar þær Hildur sjá til ferða þeirra taka þær skjólur og bera á meðan tjöru sem mest í logann svo enginn kostur var að slökkva eldinn þó allir borgarmenn kæmu til. Fer þá svo að borgin brann öll upp til kaldra kola svo ekki varð við gert. Hildur segir fyrst að þetta slys hafi viljað til dugi nú ekki aðgerðaleysið og skuli menn taka til borgarsmíðis á öðrum stað, enda hefði ekki skaðinn verið svo mikill þó borgin brynni því hún hefði verið svo óálitleg að aldrei hefði hún unað sér í henni langvistum. Var nú allt á ferð og flugi, tóku menn til borgarsmíðis og vönduðu hana sem mest og var hún albúin þegar kóngur kom heim og miklu skrautlegri en hin forna. Kóngur undrast þessa breytingu og segir Hildur honum frá slysi því sem viljað hafi til gömlu borginni og biður hann að misvirða ekki tiltekjur sínar að hún hafi látið gera þessa borg í staðinn því hún hefði svo aldrei getað átt hann í gömlu borginni. Kóngi þótti borgin svo fögur að hann þakkaði Hildi þá búningsbót sem orðin var á híbýlum hans.
Þegar leið fram á annað árið fákættist Ingibjörg aftur og vildi ekki segja Hildi, því síður öðrum, frá hörmum sínum. Fór þá sem fyrri að Hildur gat í kollinn að nú mundi líða að því að Ingibjörg skyldi eiga barn í föðurgarði. Ingibjörg sagði svo vera og væri hún nú allsendis úrræðalaus. „Ekki skulum við deyja ráðalausar,“ segir Hildur; „skaltu fara út á skóg, þar er hús eitt, og skaltu vera í því þrjár nætur; þar mun koma til þín maður og skaltu taka tilmælum hans. Eftir það skaltu koma heim aftur og mun ég sjá svo um að þér verði engin hneisa að þessu.“ Síðan fer Ingibjörg og er í burtu þann tíma sem tiltekinn var.
Þegar frá líður kemur Rauður að máli við kóng og segist hafa vandamál við hann að tala. Kóngur spyr hvað það sé; Rauður segir að þó honum þvki það ólíklegt þá sé dóttir hans með barni. Kóngur biður hann ekki fara með þá lokleysu því það taki engu tali. Rauður segist hafa búizt við því að hann mundi ekki trúa sér, en hann skuli reyna það með því að leggja höfuðið á sér í keltuna á Ingibjörgu þegar hann komi á laugardaginn í kastala þeirra stallsystra og vita hvort hann finni þá engin missmíði. Föstudaginn næstan áður en kóngs var von í kastalann í þessum erindum segir Hildur Ingibjörgu að nú hafi Rauður sagt föður hennar að hún væri ólétt og ráðið honum til að reyna það sem nú var sagt. Við þetta varð Ingibjörgu svo bilt að það leið yfir hana. Hildur hressir hana við og segir: „Þú skal taka hvolpana undan tíkinni okkar, binda þá í dúk og hafa undir svuntu þinni, og þegar kóngur verður var við spriklið í hvolpunum mun hann hugsa að Rauður segi satt. Skaltu þá standa upp og láta hvolpana falla svo hann sjái undan svuntu þinni.“ Nú kemur laugardagur og gengur kóngur í kastalann til stallsystranna eins og hann var vanur á hverjum laugardegi. Ingibjörg fór að öllu sem Hildur hafði kennt henni ráð til; leggur kóngur svo höfuð sitt í keltu dóttur sinnar, en sprettur skjótt upp aftur heldur snúðugur þegar hann finnur kvikið við kollinn á sér, og spyr hvort hún sé vanfær. Ingibjörg svarar honum engu, en stendur upp og lætur hvolpana falla undan svuntu sinni. Þykist kóngur þá skilja hvers kyns er; fer hann svo til Rauðs og átelur hann harðlega fyrir illgirni og álygar við dóttur sína og segir að hann sé þess maklegastur að hann væri drepinn ef hann hlífðist ekki við hann af því drottningu sinni hefði þótt svo vænt um hann. Rauður sagðist hafa satt að mæla allt að einu, en hér væru brögð í tafli sem kóngur væri dulinn að. Datt nú það tal niður um sinn, en þó vakti Rauður máls á því seinna við kóng að hann skyldi láta lækni skoða blóðið úr Ingibjörgu til að vita hvort hún væri heilbrigð; skyldi kóngur blóðga hana lítið á hendi og láta sem sér yrði það óvart, ná svo blóðinu og bera það undir læknisúrskurð. Kóngur sagðist ekki þurfa að reyna þetta því hann tryði svo vel dóttur sinni, en þó gæti hann gert það. Nú fór eins og áður að Hildur vissi erindi kóngs í kastalann næsta laugardag og segir Ingibjörgu. Henni varð eins illt við það og áður, en Hildur segir: „Við skulum ekki deyja ráðalausar; við skulum nú sitja hvor hjá annari og haldast höndum saman þegar kóngur kemur; en þegar kóngur blóðgar þig mun ég bregða hönd minni fyrir hnífseggina og láta drjúpa í keltu þér nokkra dropa og bregða svo dúki um höndina. Skaltu svo fá föður þínum svuntuna með mínu blóði í, en varast að láta drjúpa í hana nokkurn dropa af þínu blóði.“ Nú fer allt fram eftir þessari ráðagerð þegar kóngur kemur, að Hildur bregður hönd sinni fyrir hnífseggina um leið og kóngur særir Ingibjörgu, lætur blóðið drjúpa í keltu hennar og sveipar svo dúki um höndina á sér. Kóngur biður svo Ingibjörgu að taka af sér svuntuna með blóðinu og fá sér; hún gerir svo, og fer hann með hana til læknis og lætur hann rannsaka blóðið; sannaðist þá að það var úr hreinni mey. Kóngur varð nú enn reiðari en áður við Rauð og lætur þó kyrrt að sinni.
Nú líður að afmælisdegi kóngs, þá segir Rauður við hann að nú muni það sannast sem hann hafi sagt því Ingibjörg sé þá ætíð vön að dansa alla liðlanga nóttina, en það muni hún ekki gera í þetta sinn – og skuli hann hafa það að marki. Nú veit Hildur þessa ráðagjörð Rauðs og segir við Ingibjörgu að það hafi löngum verið sagt að þær væri líkar og nú skyldi þær skipta um hlutverk og klæðum; skuli Ingibjörg sitja hjá kóngi um nóttina og látast vera Hildur, en hún segist muni dansa í stað Ingibjargar. Þetta fer svo eins og í sögu segir að þær taka hvor sitt hlutverk, og dansar Ingibjörg sem raunar var Hildur alla nóttina og undir morguninn er hún búin að dansa alla af sér og orðin ein eftir á gólfinu; segir hún þá að hún vildi að nú ætti dansinn fyrst að byrja. En kóngur sat hjá Ingibjörgu sem hann ætlaði að væri unnusta sín og þótti vænt um að enn hefði Rauður orðið lygari. Eftir þetta atyrti kóngur Rauð og segir að hann nyti einskis hjá sér nema fyrri drottningar sinnar að hann væri ekki drepinn fyrir róg og lygar. Rauður sagði að sín orð mundu sannast þó seinna væri.
Nú leið að þeim tíma sem Ingibjörg skyldi verða léttari; bjó þá Hildur þeim báðum herbergi uppi á hæsta lofti í kastala þeirra, sat sjálf yfir Ingibjörgu og hleypti þar engum inn öðrum, reifaði svo barnið og lét um hálsinn á því þríbrotna gullfesti sem hún átti og lagði barnið út á kastalavegginn. Eftir það var Hildur alltaf hjá Ingibjörgu og leyfði engum að koma inn til þeirra – og ekki föður hennar, því Ingibjörgu væri illt svo hún þyldi engan umgang eða skvaldur. Eftir hálfan mánuð fór Ingibjörg á fætur aftur og var þá nokkuð fölari en áður; kenndi Hildur það legunni og var því trúað.
Nokkru eftir þetta þegar Ingibjörg hafði náð sér aftur kom enn að henni óhugur svo mikill að hún varð varla mönnum sinnandi. Fór þá sem vant var að Hildur gat í kollinn hvað hana hryggði, að nú mundi hún eiga að drepa mann. Ingibjörg sagði að það olli og var nú óhuggandi og úrræðalaus af þessari tilhugsun. Hildur bað hana harka af sér því enn mundi þeim eitthvð verða til úrræða. Leið nú bráðum að þeim tíma sem fara átti í eplaleit. Á einum stað háttaði svo til að stórt og mikið eplatré stóð framan í sjávarhömrum; á því voru eplin bæði fegurst og mest og varð að síga þangað í festi. Það þorði enginn að gera nema Rauður. Nú leggur Hildur það til að þær skuli fara með kóngi þegar Rauður sígi í bjargið og skyldi Ingibjörg biðja kóng að lofa sér að halda festinni, en hún skyldi svo látast missa handastjórn á henni svo Rauður hrapaði til dauðs og væri það maklegast að honum kæmi illska sín í koll. Ingibjörg sagðist þó ekki geta fengið það af sér; en Hildur segist skuli taka fyrst við festinni með henni. Þetta ræðst nú með þeim og biður Ingibjörg föður sinn að lofa sér að halda festinni þegar Rauður var siginn í bjargið og vita hversu sterk hún væri. Kóngur lét það eftir henni og tóku þær báðar, Hildur og Ingibjörg, við festinni; en Hildur sleppti skjótt og Ingibjörg litlu síðar og var það bráður bani Rauðs. Þær stallsystur létu sem sér félli þetta slys óvenju illa svo kóngur vítti þær ekki fyrir það, en flestir undu vel óförum Rauðs því allir höfðu horn í síðu hans.
Leið nú veturinn næsti af höndum; bjóst kóngur þá við brúðkaupi sínu og gekk að eiga Hildi. Sat hún honum til hægri handar, en Ingibjörg til vinstri. Þegar kvöld var komið var barið að dyrum og segir Hildur að hún skuli mæta gestum og gengur til dyra, en gesturinn í höllina á móti henni, og hleypur hún þegar um hálsinn á honum og kyssir hann. Fór þá heldur að fara um kóng. En Hildur leiðir komumann fyrir kóng og segir að þessi maður sé bróðir sinn; síðan leiðir hún hann fyrir Ingibjörgu og segir henni að þetta sé maðurinn sem hún hafi sofið hjá í skálanum á skóginum og sé hann faðir að barni hennar. Kóngi hnykkir illa við þessi tíðindi, en Hildur gengur úr höllinni og kemur aftur að lítilli stundu liðinni með árs gamalt barn á að geta á handleggnum, færir Ingibjörgu það og segir að það sé barnið hennar. Ingibjörg þekkir á því gullfestina og getur ekki rekið sjálfa sig úr vitni að þetta muni satt vera sem Hildur segir.
Síðan segir Hildur kóngi upp alla sögu um ósköp þau sem á Ingibjörgu höfðu legið og hvernig hún hefði komizt úr þeim og þar næst að það hefði verið lagt á bróður sinn að hann skyldi verða skrímsli á daginn, en maður á nóttu og geta aldrei úr þeim ánauðum komizt fyrr en einhver kóngsdóttir vildi vinna það til að sofa hjá honum þrjár nætur í beit. Nú hefði Ingibjörg leyst hann undan þeim álögum og átt við honum barn þetta, en hún hefði aftur hjálpað Ingibjörgu. Eftir það biður bróðir Hildar drottningar Ingibjargar og var það mál auðsótt bæði við kóng og hana; var þá aukin veizlan og bæði brúðkaupin drukkin í einu. Lýkur svo sögunni af Hildi góðu stjúpu.[1]
- ↑ Þó sögu þessari sé gagnstætt farið öllum hinum undangengnu set ég hana hér og er hún nálega hið eina dæmi sem ég þekki í munnmælasögum að stjúpur hafi reynzt vel stjúpbörnum sínum.