Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Hildi og Haraldi
Sagan af Hildi og Haraldi
Kóngur er nefndur Haraldur; hann átti son er Haraldur hét og dóttir er Hildur hét. Sveinn hét annar kóngur og átti dóttir er Ingibjörg hét; og er hún var nítján ára dó móðir hennar. Beiddi nú Sveinn Hildar Haraldsdóttur og gifti sig henni. Hélt hún mikið af Ingibjörgu stjúpdóttur sinni; og er kóngurinn var ekki heima sváfu þær allajafna saman.
Og eitt skipti fór Sveinn að taka skatta af löndum sínum og fyrstu nótt er hann í burtu var sagði Hildur Ingibjörgu hjá sér sofa. Vaknaði Ingibjörg við að Hildur lá á gólfinu óhuggandi af gráti. Þá spur Ingibjörg: „Góða stjúpa mín, því grætur þú so sárt?“ Hún sagði að í dag kæmi Haraldur bróður sinn bara til að smána hana því hann langi mest til þess að svívirða góðar stúlkur; en hún sagðist vita að hann yrði óttalega reiður ef hún ekki tæki honum vel og héldi veizlu fyrir hann og so marga er hann vildi. Ingibjörg bað hana ekki gráta slíkt því þær skyldu allt gera er mögulegt væri til að skemmta honum því um sig sjálfa væri hún óhrædd. Slitu þær nú tali og sagði þeim einhvur að skip kæmi siglandi; og er það kom að landi var það Haraldur og bauð Hildur drottning bróður sínum til veizlu og veitti hún allt er bezt mátti. Kallar Haraldur til hennar og sagði sér þækti allt í bezta máta nema hann fengi ekki að sjá Ingibjörg[u]. Fór Hildur til hennar og sagði henni orð bróður síns. Gekk hún þá í höllina með miklum blóma og heilsar konungsson henni virðuglega og um leið hvíslar að henni hvurt hann ekki megi hitta hana í nótt og játar hún því. Fer nú Ingibjörg til eldabuskunnar og biður hana í nótt sofa í kastala sínum og ekki tala orð hvað sem hún heyri eða sjái og lofar hún því. Fór nú nóttunni fram. Og um morguninn við borð sagði Haraldur og fer ofan í vasa sinn og tekur hárlokk upp úr honum og hristir og sýnir að hér er lokkur af Ingibjörgu kóngsdóttir. Kemur hún í þessu og segir: „Ekki eru líkir háralitir minn og eldabuskunnar.“ Sér Haraldur að ekki er annað en sót fingurgómar sínir. Verður hann so reiður af þessu að hann rýkur frá borðum og menn hans.
Líður nú til í annað skipti að Sveinn kóngur fer sömu ferð og fyrri. Fer þá á sömu leið að Ingibjörg svaf hjá stjúpu sinni [og] fann hana grátandi í lystigarði sínum. Hún bað hana fyrir hvurn mun að gráta ekki þó Haraldur kæmi attur. Fór nú eins og í fyrra skiptið að hann kom og sló hún nú upp veizlu og lætur Ingibjörg grafa djúpa gryfju í svínahúsi föður síns. Og er veizlan var úti sagði Haraldur mönnum sínum að bíða sín og fer hann nú út og sá að kóngsdóttrin gekk fyrir og í hús þetta er gryfjan var grafin í. Kastar hún klæðum sínum á gryfjuna og var fyrir innan. Haraldur vill taka í hönd henni og réttir henni sína, en seilist so langt að hann pompar í gryfjuna. Fer Ingibjörg út og var nú so um búið að ekki gat hann upp komizt með neinu móti. Lengir nú Haralds mönnum ettir honum og fara að spurja hvurt enginn hafi séð hann, en Ingibjörg sagði í svínahúsi föður síns hefði hún heyrt óhljóð niðrí jörðinni. Þeir þangað og finna hann þar og er hann þar nærri kafnaður. Fara þeir allir með þessa smán. Og er nú Sveinn kemur heim veit hann ekki neitt af neinu. Í þriðja skipti fer hann að heimsækja landa sína. Og er nú sem fyrri að Ingibjörg og Hildur eru um kvöldið glaðar og kátar og ganga þær til svefns. Um morguninn finnur Ingibjörg Hildi hvurgi og undir einu tré er hún nærri sprungin af harmi. Sagði nú Ingibjörg því hún nú gréti so, en Hildur mælti: „Aldrei á ég eins bágt og nú.“ Ingibjörg sagði: „Ég á búning mestallan úr gulli, og gullskó á ég og stól. Ég ætla á skóg þar Haraldur gengur.“ Og Hildur mælti: „Hvað skal ég er faðir þinn spur að þér? Þá brennir hann mig ef þú ert ekki til staðins. Gef ég þér nú hring þennan og er þú sérð að hann er blóði drifinn er ég í lífsháska.“ Skildu þær og fer Ingibjörg á götu þá er Haraldur keyrði heim að borginni. Og er Haraldur kemur þar er Ingibjörg situr á stól tekur hann stólinn með henni orðalaust og fer attur til skips síns, skilur stólinn ettir á dekkinu og siglir nú heim; og er hann kemur að landi gengur [hann] spottakorn frá mönnum sínum og finnur einn svínahirðir föður síns. Hann kallar til hans og lætur hann koma þar þeir köstuðu atkerum, fær honum stólinn með Ingibjörgu og biður hann burtu fara og eiga. Hann verður hissa, en Ingibjörg sagði: „Vertu glaður við mig; ég er ein kóngborin mær.“ Af lotningu féll hann henni til fóta og sagði[st] hennar þræll vera. „Þú ert minn mann. Hefur konungsson ekki gefið mér þig? Seg þú mér þau tíðindi er þú veizt, þau er Harald snertir.“ Hann sagði: „Á morgun giftir hann sig jarlsdóttir hér í ríkinu. Hún er so ágjörn og heimsk að hennar er ekki maki.“ Ingibjörg mælti: „Hvurt fara þau á morgun er þau til brúðkaups halda?“ „Vegur þeirra er hér skammt frá.“ Og segir þá Ingibjörg: „Kom þú þangað með vagn þinn og ber þú þangað stól minn á götu þá er þau keyra.“ Gerir nú kallinn ettir beiðni hennar. Og er Þóra þar kemur fer hún af hesti sínum og gengur til Ingibjargar og spur hana hvurs stands hún sé. En hún segist vera svínahirðirskona. „Og brúkar af tómu gulli gerðu föt og stóla,“ [segir Þóra], „mér hæfði það vissulega betur sem á að fara að eiga konungssoninn en þér. Gjör nú þessa bón mína: Ljáðu mér nú föt þín í dag.“ Og sagðist hún það gera skyldi ef hún í nótt lofaði sér að sofa hjá mannsefni hennar; og af ágirndinni játti Þóra því. Um kvöldið höfðu þær fataskipti, en Þóra átti að sofa hjá svínahirðirnum. Um nóttina vaknar Ingibjörg og lítur hring sinn þá eldrauðan. Fer hún með ótta ofan. Gengur so lengi er hún má og að sjónum og lítur þar bát einn. Hún fer í hann og rær hann so fljótt að um morgun[inn] er hún að sínu landi komin og gengur sem mest hún má. Kemur hún þar er stórt bál logar. Þar sér hún stjúpu sína á stóli sita og er bundin. Skar hún böndin, umfaðmaði hana og gekk til föður síns. Varð kóngur glaður og bað Hildi fyrirgefningar.
Er nú að segja þegar Haraldur vaknar er kona hans í burtu og leitar hann víða og finnur hana ekki. Reikar hann að kofa svínahirðirsins og sofa þau þar bæði. Verður hann ljótur og segir hann henni aldrei fyrir sín augu oftar koma. Segir Haraldur móður sinni frá Þóru og Ingibjörgu og þeirra sameign. Verður hún hissa og rekur hann á stað að biðja Ingibjargar. Er hann heyrir orð móður sinnar segist hann óttast hann fari smánarför til hennar. Býr hann sig nú til ferðar. Og þegar hann kemur til föður Ingibjargar tekur hann honum vel og býður honum til veizlu. Ber hann nú erindi sitt fram og fær hann konungsdóttur, en af því henni varð hann kær lét hún það so vera því hún var viss um að hún launaði honum allar sneypur er hann henni sýndi. Varð nú veizla mikil og áttu þau börn og burur, gréru rætur og murur.