Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Kolrössu krókríðandi

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Sagan af Kolrössu krókríðandi

Einu sinni var karl og kerling í koti sínu. Þau áttu sér þrjár dætur; hét hin elzta Signý, önnur Ása og hin þriðja Helga. Eldri systurnar, Signý og Ása, áttu sældardaga hjá því sem Helga átti; því karl og kerling unnu þeim mjög og mæltu allt eftir þeim hvort við annað. En Helga átti litlu ástfóstri að fagna hjá foreldrum sínum og varð að gjöra allt sem verst var og kerling kenndi sig vanfæra fyrir, ganga að slitverkum, vera í eldhúsi, annast matseld með móður sinni, þrífa til og hreinsa allt sem hreinsa þurfti í kotinu; eldri systurnar komu þar hvergi nærri, sátu eins og hofróður inni á palli á vetrum, en sleiktu sólskinið á sumrin, og gengu skrúðbúnar og gjörðu ekki annað en tensa sig til. Þær höfðu öfund á Helgu því þó hún væri klædd í larfa, yrði að ganga í því versta og hefði ekkert flet nema öskustóna að liggja í þótti öllum hún fríðust þeirra systra, en það sveið þeim sárast.

Einu sinni kom maður vel búinn, fríður sýnum og bað Signýjar. Karli og kerlingu leizt vel á manninn og Signýju ekki síður; og með því þeim þótti þessi ráðahagur álitlegur gáfu öll sitt jáyrði til gjaforðsins. Síðan fór maðurinn með Signýju með sér þegar í stað; en skammt voru þau komin frá karlskoti fyrr en maðurinn breytti ham sínum og varð að þríhöfðuðum risa. Segir hann þá við Signýju: „Hvort viltu heldur að ég beri þig eða dragi.“ Signý kaus það sem vildara var, að hann bæri sig. Lét hann hana þá setjast á einn hausinn og bar hana svo heim í helli sinn. Lét hann hana þar í jarðhús eitt, batt hendurnar fyrir aftan bakið, en hár hennar við stólbrúðir, gekk svo frá henni og lokaði jarðhúsinu.

Litlu síðar kemur maður til karls og kerlingar og biður Ásu; hann var álitlega búinn og vel á sig kominn að þeim hjónum þótti og féll einnig Ásu vel í geð. Varð það því að ráði að maðurinn fékk hennar og fór með hana þegar úr föðurgarði. Þegar þau voru skammt komin frá kotinu skipti maður þessi hömum og varð að ógurlegum risa þríhöfðuðum og gjörði Ásu sömu kosti sem hann hafði áður gjört Signýju systur hennar og fóru öll þeirra viðskipti á sömu leið sem áður er sagt.

Í þriðja sinn kom maður í karlskot og bað dóttur þeirra. Hann var efnilegur og mannsmót að honum mikið. Karl og kerling báðu hann ei fara fram á slíkt við sig, „því nú eigum vér enga dóttir ógefna framar. Við höfum áður gift þær burtu er við áttum.“ Maðurinn leitaði því fastar á um ráðahaginn og kvaðst ætla að þau mundu enn eiga eina dóttur ógefna. Karl og kerling kváðust að vísu eiga eina dóttur, en sér komi ekki til hugar að nokkur maður felldi ástarþokka til hennar því hún væri mesta herfa að ásýndum og argasti veraldar ódámur. Maðurinn sótti því meir á um ráðahaginn og bað að hann mætti þó sjá hana. Var þá Helga kölluð fram úr eldhúsinu og sýnd komumanni; hann bað þau nú ekki synja sér lengur ráðahags við dóttur þeirra. Karl og kerling kváðu honum heimilt að eiga dóttur þeirra fyrir sér ef hann vildi; en ekki var leitað um það neinna svara hjá Helgu. Fór hann svo burtu með Helgu; þegar hann var kominn skammt á leið með hana brást hann í risalíki sem fyrri og gjörði henni sömu kosti og systrum hennar og kaus hún að hann drægi sig og segir ekki af ferðum þeirra fyrr en hann kemur heim í hellinn með hana. Þá segir risinn við Helgu: „Nú skaltu taka við búsýslu hér innanstokks, hirða um hellinn, sópa hann og hreinsa, matreiða fyrir mig og standa mér fyrir öllum beina og búa um rúm mitt.“ Fór þessu svo fram um hríð, að hún annaðist um öll heimastörf í hellinum á daginn, en stóð risanum fyrir beina kvöld og morgna; því á daginn var hann ávallt úti á veiðum og bar heim afla sinn á kvöldin, fisk og annað fang, og tók hann þá ósleikjulega til matar síns. Áður en hann fór heiman á morgnana tók hann allt til handa henni það er hafa þurfti. Sá hún að risinn gekk um hirzlur sínar og híbýli og lét hana aldrei sjá í neitt af því og bar jafnan á sér lyklana er hann fór burtu úr hellinum. Sú eina lifandi skepna sem var í hellinum svo Helga af vissi var lítill hundur sem hún átti, og var hann henni til afþreyingar. Hún tók samt eftir því þegar hún var eitthvað að vinna og skipti sér ekki af honum að hann hvarf frá henni, en kom þegar hún kallaði á hann og þó ekki undireins; af því réð hún að hann færi langt til í hellinum. Einhverju sinni fer hún og kannar hellinn og finnur hún þá fyrir sér hurð læsta, og þar liggur rakkinn fyrir framan; gægist hún inn með hurðinni og um skráargatið; virtist henni þá að hún sæi þar tvær stúlkur inni sína á hvorum stól. Kemur henni þá í hug að þetta muni vera systur sínar og þykir henni allillt að þær séu svo sárt leiknar þó þær hefðu ekki látið hana betur en fyrr var frá sagt.

Um kvöldið er risinn kom heim var Helga málhreif við hann og tasvíg meðan hann situr að snæðingi. Meðal annars spyr hún hann hvernig honum geðjist umsýslun sín og hirðing á hellinum og lét hann vel yfir því, og þar kemur að hún spyr hann að hvernig honum hugnist að sér. Risinn lét og vel yfir því, enda kvaðst hann hafa sótt hana af því hann hefði vitað hver kvenkostur hún væri. Helga mælti: „Ef þér hefði verið nokkuð meira í hug með mig en að ég væri ambátt þín þá mundir þú ekki hafa tortryggt mig um að ganga frjálslega um allan helli þinn, híbýli og hirzlur, svo að ég mætti njóta yndis af auðlegð þinni með þér; en þú hefur lokað öllu fyrir mér og skammtað mér í hendurnar og ekki leyft mér umgöngu um eigur þínar.“ Risinn kvað það satt vera að hann hefði ekki fengið henni lykla sína; „en það gjörði ég af því að ég vildi reyna þig. Nú skal ég ekki draga lengur dul á það að ég ætla bráðum að halda brúðkaup okkar og því skaltu nú taka við lyklum að öllum hirzlum mínum og híbýlum og geyma alls þess er ég á. Þó er það ein hirzla er þú mátt ekki upp ljúka þótt einn lykillinn í kippunni gangi að henni, og býð ég þér þar sterkan varnað á.“ Helga tók við lyklakippunni og mælti: „Vel hefur þú nú gjört að þú vilt ekki gjöra neina svívirðingu til mín og það annað að þú trúir mér fyrir að ganga frjálslega um allt þitt; enda nálgast sá tími að betra mun að ég kynnist híbýlaháttum þínum fremur en orðið er. En með því þú segist bráðum munir gjöra brúðkaup til mín held ég mér veiti ekki af að þrífa til og koma betur fyrir í hellinum en nú er, og skal ég byrja það starf þegar á morgun.“ Síðan leggjast þau til svefns og sofa af um nóttina.

Daginn eftir fer risinn burt sem hann var vanur, en Helga að skoða í hirzlur hans. Þegar hún hefur lokið því fer hún að dyrum þeim sem fyrr er frá sagt að hundurinn lá oft við, og ber að þeim lykil þann sem einn var eftir á lyklakippu karls og sem hann hafði bannað henni að beita, og lýkur þeim þegar upp með honum. Þegar hún kemur inn finnur hún þar báðar systur sínar hungraðar, horaðar og mjög að þrotum komnar. Hún leysir þær og hressir við sem hún hefur bezt föng á. Síðan segja þær henni af sinni ævi hjá risanum og það með að hann hafi viljað þröngva þeim til að eiga sig, og af því þær hafi ei viljað það hafi hann sett þær í afhelli þenna og pírt í sig mat einungis til að treina í sér lífið. Eftir það mælti Helga: „Nú verður skjótt ráða að leita og er það mitt ráð að ég ætla að koma ykkur héðan hvað sem um mig verður á eftir, og ætla ég að láta risann bera ykkur í belg einum heim til karls og kerlingar, en láta þar utan með og ofan á roðarusl og matleifar risans.“ Síðan tekur hún belg einn mikinn og lætur þær fara þar ofan í, en treður í kringum þær matarúrgangi risans, reisir svo belginn upp við hellisvegginn.

Um kveldið er risinn kom heim var Helga mjög angráð og armædd. Gekk risinn þá á hana hvað að henni gengi; en hún sagði að til þess bæri það að hún væri þreytt eftir dagserfiðið og annað hitt að hún vissi að foreldrar sínir mundu ekki eiga nokkra matbjörg í húsi sínu, en hún hefði allsnægtir. Karli gekkst hugur við kveinstafi hennar og hélt að úr því mundi mega ráða. Helga sagði: „Ég hef hugsað um það í dag hvernig þú gætir með minnstum skaða þínum bætt úr nauðþurft foreldra minna, og held ég að þér væri minnst eftirsjá í afgangsleifum af mat þínum á málum því þær hafa legið hér og hvar um hellinn eins og hráviði þangað til nú að ég hef tínt þær saman og látið nokkuð af þeim í belg þenna, og væri foreldrum mínum það mikill forði, væri það laglega til þeirra komið. En svo er nú belgurinn orðinn þungur að ég veld honum ekki og þó rúmar hann ekki helminginn af leifum þínum. Nú væntir mig að þú virðir til orð mín og berir belg þenna heim í karlskot á morgun til þess að þú bæði birgir nauðþurft foreldra minna að nokkru og losir mig við það amstur sem ég hef af matarfrágangi þínum. En þar legg ég blátt bann við að þú hreyfir á nokkru í belgnum eða rífir upp úr honum; og ekki skaltu hugsa þér að ég muni ekki verða þess vísari því ég sé í gegnum holt og hæðir og helli minn, enda ertu af ráðahagnum við mig ef þú bregður af boði mínu.“ Risinn kvaðst skyldi gjöra það sem henni væri mest að skapi og í engu af bregða og segir: „Nú skaltu búast við brúðkaupi okkar á morgun,“ og vísar henni á allt sem hafa þurfti til veizlunnar og þótti henni hann heldur stórtækur um tillögurnar. Þar með kom hann fram með bindin nokkurt, leysti það til og tók úr því brúðklæði handa henni og bað hana fara í þau þegar hún væri búin að búa til veizlunnar því ekki mætti á neinu standa er boðsfólkið kæmi, því úr þeirri sömu för og hann færi með belginn ætlaði hann að fara að bjóða til brúðkaupsins. Helga hét honum góðu um að allt skyldi verða tilbúið er boðsmennirnir kæmi og lét sem sér væri mjög annt til brúðkaupsins. Eftir það hætta þau talinu og leggjast til svefns.

Morguninn eftir er risinn snemma á fótum, tekur belginn á bak sér og heldur með hann heim að karlskoti. Þegar hann var kominn æðikipp frá hellinum þykir honum belgurinn furðu þungur, setur hann því af sér og hvílir sig. Þegar hann er búinn að setja af sér baggann segir önnur þeirra systra: „Ég sé í gegnum holt og hæðir og helli minn.“ Þykist nú risinn vita að Helga sjái til ferða sinna og segir:

„Aldrei skal ég í belginn bauka
þó brotni í mér hryggurinn;
[glöggt er auga í Helgu minni,
hún sér í gegnum holt og hæðir og helli sinn.“[1]

Síðan snarar hann belgnum á bak sér aftur; en þó kemur þar að hann lýist í annað sinn og finnst belgurinn kynja þungur, setur hann af sér, og er hann heyrir: „Ég sé í gegnum holt og hæðir og helli minn,“ mælir hann sömu orðum og fyrr og heldur enn áfram. Þannig gekk og hið þriðja sinn er hann hvíldi sig að bæði heyrir hann hin sömu orð og hefur sömu ummæli sjálfur sem hið fyrsta sinn. Síðan kemst hann heim í kot og selur belginn í hendur karli og kerlingu.

Nú er þar til máls að taka að Helga fer að þrífa til í hellinum og undirbúa allt til brúðkaupsveizlunnar eins og risinn hafði fyrir mælt. Hraðar hún sér nú að öllu sem mest hún má og ber á borð. Þegar hún hefur lokið öllu sem hún átti að gjöra tekur hún staur sem lá í hellinum og færir hann í brúðarskart sitt og setur þar sem hún bjóst við að sér mundi ætlað sæti. Eftir það nýr hún framan í sig alla pottahrími og atar klæði sín í kolum og ösku, tekur eldhússkörunginn, sezt á bak og ríður, og stefnir í gagnstæða átt frá hellinum því sem heim vissi að karlskoti. Skamma stund hafði hún farið áður en hún mætti risanum með miklum flokki boðsmanna; voru þar í fylgd með honum jötnar og bergrisar, en brúðguminn var í fararbroddi. Hann yrti á Helgu og spurði hvað hún héti. Hún kvaðst heita Kolrassa krókríðandi. Hann ávarpar hana enn á þessa leið:

„Komstu að Melshöfða,
kolskörin þín?“

Hún mælti:

„Kom ég þar;
breitt var á bekki,
brúður sat á stól,
full voru öll ker
svo út úr fló.“

Þá mælti risinn: „Hó, hó, ríðum hart, brúðurin bíður,“ og boðsmenn hans tóku undir og sögðu: „Hó, hó, ríðum hart, sveinar.“ Síðan skildist Helga við þá og mætti öðrum flokki boðsmannanna; voru þar í skessur einar og tröllkonur. Þær yrtu á hana sem risinn:

„Komstu að Melshöfða,
kolskörin þín?“

Hún svaraði:

„Kom ég þar;
breitt var á bekki,
brúður sat á stól,
full voru öll ker
svo út úr fló.“

Þá mæltu skessurnar: „Hó, hó, ríðum hart, meyjar.“ Eftir það skildu þær. Héldu skessurnar til hellisins að Melshöfða, en Helga sneri við þegar leiti bar á milli og heim í karlskot og sagði foreldrum sínum og systrum frá hvernig komið væri. Dvaldi hún heima litla stund því hún fór á stað aftur að vita hvers hún yrði vör á Melshöfða.

Nú víkur sögunni til risans og boðsmanna hans. Þegar þeir komu í hellinn sjá þeir borð reist og bekki setta og allt fyrirbúið til fagnaðar; þar með sáu þeir brúðurina komna í sæti; gengu þeir því fyrir hana og heilsuðu henni, en hún leit hvorki við þeim né laut og þótti þeim það kynlegt og ekki sízt brúðgumanum. Fóru þeir þá og gættu betur að og sáu hver umbúningur þar hafði verið veittur. Fann risinn nú að hann hafði verið gabbaður og sumir gestirnir með honum og hörmuðu hrakfall hans. Sumum gestunum þótti aftur risinn hafa gabbað sig er hann hafði boðið þeim til brúðkaups, en ætlað að villa fyrir þeim sjónir með trédrumb einum. Slóst þar þegar í áflog og því næst drápu hvorir aðra, risinn og þeir sem honum fylgdu og hinir er þóttu hann hafa gabbað sig. Er það skjótast frá að segja að þar stóð enginn lífs uppi og sá Helga á allan þeirra ófagra forgang. Þegar tröllin voru fallin hljóp Helga heim í kot hið hraðasta og sótti allt hyski sitt. Drógu þau síðan búkana út úr hellinum, báru þar að viðu og kyntu bál mikið og brenndu upp allan þenna óþjóðalýð til kaldra kola. Að því búnu tóku þau allt sem fémætt var í hellinum og fluttu heim í karlskot. Síðan fær Helga sér smiði marga og smíðaefni og lætur gjöra sér hús mikið og fagurt og settist þar að. Systur hennar urðu ekki að manni því þær voru úrræðalausar, öllu óvanar og kunnu ekkert sem nokkru var nýtt. En Helga giftist síðan vænum manni og unnust þau bæði vel og lengi,

„áttu börn og burur
grófu rætur og murur;
smérið rann,
roðið brann,
sagan upp á hvern mann
sem hlýða kann;
brenni [þeim í kolli baun[2]
sem ekki gjalda mér sögulaun
fyrr í dag en á morgun.
Köttur út í mýri,
setti upp á sér stýri,
úti er ævintýri.“[3]
  1. :„því augað hennar Helgu minnar heima
    sér í gegnum holt og steina,“ segja sumir.
  2. Frá [ hafa aðrir þannig: strá í kolli þeim.
  3. Þetta niðurlag í ljóðum er helzt haft við sögur þær sem enda með giftingu.