Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Lúpusi
Sagan af Lúpusi
Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér þrjá syni. Þeir hétu Sigurður, Sigmundur og Lúpus og var minnst haldið upp á Lúpus. Eldri bræðurnir vóru alltaf að ganga út á skóg að skemmta sér þegar gott var veðrið, en Lúpus fékk aldrei að fara með þeim. Einn fagran dag fara bræðurnir eins og vant var og þá biður Lúpus að lofa sér með þeim. Þeir láta það ettir hönum. So fara þeir allir út á skóg.
Þegar þeir ætla heim aftur þá slær yfir myrkvaþoku so þeir villast. Þá fer Lúpus að hlæja og velta sér á undan þeim. Þeir segja hann skuli ekki fá að fara með þeim næsta daginn þegar hann láti svona fíflalega; hvað beri hláturslegt fyrir hann? Hann segist vera að hlæja að því hvar þeir eigi að gista í nótt. Þeir spurja hann hvar það verði. Hann segir: „Í einum hellir hjá fjórum tröllskessum.“ Þeir segja þeir munu koma heim til sín eins og vant sé. Í því sjá þeir ljósbirtu langt frá sér; þeir fara eftir ljósbirtunni og komu so að hellir, sjá þar fjórar skessur. Þeir biðja að lofa sér að vera; hún lofar þeim það. Hún segist ekki hleypa þessu skrímsli inn sem með þeim sé. Þeir biðja hana að lofa hönum inn, það sé bróður sinn. Hún hleypir hönum inn og segir hann njóti bræðra sinna. Og sáu [þeir] þar þrjú flet og stóra hefilspónahrúgu á gólfinu. Þeim er gefið að borða, en fleygt í Lúpus á gólfið eins og hundi. So fara þeir að sofa. Skessan segir þeir eigi að sofa hjá dóttur sinni, sitt hjá hvorri, en hún ætli að sofa hjá þeirri þriðju, en Lúpus á spónahrúgunni á gólfinu. So fer allt að sofa. Þegar allt er farið að sofa þá fer hann að ólátast í spónahrúgunni, so skessan segir: „Lúpus skömm, ætlarðu ekki að þegja, þú nýtur bræðra þinna ef ég kem ekki ofan og drep þig.“ So þagnar hann. Þegar dálítil stund er liðin tekur hann til sömu láta; so kerling talar til hans sömu orðum og áður og þá þagnaði hann. So tekur hann til að ólátast og gerir þvílíkt hark. Þá heyrir hann ekkert til þeirra, virðist sem þær séu sofnaðar. So vekur hann bræður sína og segir hvað þeir séu að hugsa, sofa eins og svín hjá tröllskessum og eigi að drepa þá í nótt. Lúpus drepur skessurnar sem þeir sofa hjá, en stingur hinum svefnþorn. So fara þeir í burtu og Lúpus er fyrstur og er að skipa þeim að halda áfram; þeir flýta sín eins og þeir geta þangað til þeir koma að kóngsríki. Þeir biðja kóng um veturvist. Þeir fá það með því móti að Sigurður og Sigmundur passi akrana, en Lúpus að passa aldingarðinn með skrímsli sem þar var. Þeir gengu að því.
Herrauður hét ráðherrann þar. Hann gengur einu sinni fyrir kóng og segir að illa hafi verið passaður aldingarður meðan skrímslið var eitt, en nú sé það helmingi verra síðan þessi strákur kom, og segir það sé rétt að senda hann forsendingu ettir ljósasteininum góða sem sé týndur fyrir þremur árum. Kóngur spyr hvurt hann eigi að sækja hann. Hann segir það sé ekki forsending ef hann segi sér það ekki sjálfur. Hann skipar Rauði að kalla á hann. So Rauður fer út í aldingarð og segir Lúpusi að kóngur vilji strax finna hann. Lúpus gengur fyrir kóng; kóngur segist ætla að senda hann forsendingu ettir ljósasteininum góða sem sé týndur fyrir þremur árum. Lúpus spyr hvert hann eigi að sækja hann. Hann segir það sé ekki forsending ef hann segi sér það ekki sjálfur. Hann fer út í aldingarð og segir skrímslinu. Það segir að það sé hjá tveimur tröllskessum sem hann hafi forðum komið til. Það segir honum sé bezt að koma seint um kvöld að hellirnum og muni kerlingin vera að elda og skuli hann koma upp á eldhúsgluggann og muni kerlingin vera að biðja stelpuna að sækja vatn, hún sé þyrst, en stelpan muni ekki vilja gera það nema hún fái ljósasteininn góða að lýsa sér með. So fer strákur á stað og kemur um kvöldið að hellirnum og fer upp á eldhúsgluggann; so allt fór á sömu leið og skrímslið hafði sagt, að stelpan vildi ekki fara nema hún fengi ljósasteininn góða að lýsa sér með. Kerling segir: „Hvað heldurðu að hann Rauður bróðir segi ef ég ljæði þér hann og þú týndir hönum so.“ Stelpan hættir ekki fyr en hún fær hann, fer so að sækja vatnið. En Lúpus eltir hana; hún leggur ljósasteininn hjá sér á meðan hún er að sökka í skjóluna; so þá grípur Lúpus ljósasteininn og setur stelpuna á hausinn ofan í lækinn og stekkur so heim í ríki og gengur fyrir kóng og fær hönum ljósasteininn. Kóngur segir: „Þú hefir ekki verið einn í leik, Lúpus.“ „Einn hef ég verið og enginn annar.“ So fer hann út í aldingarð.
Líða so fram stundir þangað til að Rauður gengur fyrir kóng og segir það sé rétt að senda hann forsendingu ettir gullhringnum góða sem sé týndur fyrir fjórum árum. Kóngur segir hvurt hann eigi að sækja hann. Rauður segir það sé ekki forsending ef hann segi sér það ekki sjálfur. Kóngur skipar hönum að sækja hann. Rauður fer út í aldingarð og segir Lúpusi að kóngur vilji finna hann. Lúpus fer til kóngs. Kóngur segir hann eigi að sækja gullhringinn góða sem sé týndur fyrir fjórum árum. Lúpus spyr hvurt hann eigi að sækja hann. Kóngur segir það sé ekki forsending ef hann segi sér það ekki sjálfur. So fer Lúpus út í aldingarð og segir skrímslinu. Það segir það sé hjá þeim sömu sem ljósasteinninn hafi verið hjá, og sé hönum bezt að gera sig að barni og koma á gluggann hjá þeim og vera að gráta og muni stelpan sækja það út, en kellingin muni vilja drepa það en stelpan ekki; hún muni vilja ala sér það upp fyrir mann og muni hún verða yfirsterkari og skuli hann alltaf vera að orga þangað til að hann fái gullhringinn góða, og skuli hann þá hossa sér og hlæja og þá muni stelpunni þykja vænt um. Síðan fer strákur og kemur á gluggann hjá þeim og fer að orga. Stelpan segir það sé barn á glugganum og fer út og sækir það. Kerling segist vilja drepa það. Stelpan segir það sé frá, hvað barnið muni gera illt af sér, og so sé enginn matur í því, hún ali sér það upp fyrir mann. Það er alltaf að orga og fleygir öllu sem því er léð. Kerlingin vill drepa það, en stelpan segir það sé frá. Stelpan segir hann muni þagna ef hann fái gullhringinn góða. Kerling segir: „Hvað atlað hann Rauður bróðir segði ef þú týndir hönum eins og ljósasteininum góða?“ Stelpan segir að það megi seta festi um hálsinn á sér og henni og hann sé á milli þeirra, og seta hringinn þar á. Hún lætur til leiðast. Þá verður hann ógnir kátur og fer að hossa sér; þá þykir stelpu vænt um. So fara þær að sofa og láta loga ljós. Þegar þær eru sofnaðar þá hossar hann sér eins og hann getur oná þeim og þær vakna ekki. Þá brýtur hann festina og tekur hringinn og brýtur gluggann og fer so og gengur fyrir kóng og fær hönum hringinn. Kóngur segir: „Þú hefur ekki verið einn í leik, Lúpus.“ „Einn hef ég verið og enginn annar.“ So fer Lúpus út í aldingarð og líða fram stundir þangað til að Herrauður gengur fyrir kóng og segir það sé rétt að senda hann forsendingu ettir silkiskikkjunni góðu. Kóngur spyr hvurt hann eigi að sækja hana. Rauður segir það sé ekki forsending ef hann segi sér það ekki sjálfur. Hann skipar hönum að sækja hann. Rauður fer út í aldingarð og segir Lúpusi að kóngur vilji finna [hann]. Lúpus gengur fyrir kóng. Kóngur skipar honum að sækja silkiskikkjuna góðu sem sé týnd fyrir fimm árum. Lúpus spyr hvurt hann eigi að sækja hana. Kóngur segir það sé ekki forsending ef hann segi sér það ekki sjálfur. So fer Lúpus út í aldingarð og segir skrímslinu. Skrímslið segir það sé hjá þeim sömu tröllskessum sem ljósasteinninn og gullhringurinn hafi verið hjá og sé honum bezt að gera sig magran og ganga við tvo stafi. Þær mundu þekkja hann og þær mundu ala hann og ætla að éta hann, en það geti ekki sagt hönum hvor þeirra drepi hann, hann eigi það undir heppni. Ef kerlingin ætti að drepa hann þá komist hann frá[leitt] undan, en það gæti skeð ef stelpan ætti að drepa hann. So gerir Lúpus sig mikið magran og fer so og gengur við tvo stafi og kemur so að hellirnum. Þá segir skessan hann skuli fá makleg málagjöld fyrst hann sé kominn hingað, hann hafi drepið dætur sínar og stolið gripunum hans Herrauðs bróður síns. Stelpan segir það sé bezt að ala hann fyrst, það sé engin matur í hönum, hann sé so horaður; so þær taka það fyrir, ala hann og seta hann í hellir sem kolniðamyrkur var í og læst so attur. Stelpan færir honum alltaf matinn.
Þegar mánuður er kominn á hann að rétta fingurinn út um skráargatið og stelpan að bíta í að vita hvað hann sé orðinn feitur. Hann réttir út legg. Þá fer stelpan til móður sinnar og segir hann sé skinhoraður, það þurfi að ala hann betur. So ala þær hann annan mánuðinn. Nú er Lúpusi farið að leiðast í þessum myrkvahellir. So þegar annar mánuðurinn er liðinn skipar kerlingin stelpunni að fara að vita hvort hann sé ekki orðinn feitur, hún vilji fara að drepa hann. Stelpan fer og skipar Lúpusi að rétta fingurinn út um gatið, hún eigi að bíta í hann að vita hvort hann sé orðinn feitur. Hann réttir út fúaspýtu. Þá stekkur stelpan og til móður [sinnar] og segir hann sé orðinn spikfeitur. Þá segir kerling hvort hún vilji heldur drepa Lúpus eða fara út á skóg að drepa fugla og skafa skítinn úr haldinu sínu. Stelpan vill heldur drepa Lúpus. Kerling segir hún eigi að vera búin að sjóða þegar hún komi heim; so fer kerling.
So fer stelpan til stráksins og segir hún eigi að fara [að] drepa hann. Hann segir það standi nú ekki lengi á því, hann ætli fyrst að biðja hana einnar bónar, að lofa sér að sjá eitthvað innan um hellinn; hann segir hann segi það öngum þegar hann sé dauður. Stelpan segir hún megi ekki vera að því, hún eigi að vera búin að sjóða hann þegar hún móður sín komi heim; so hún sýnir honum í eitt hús sem járnhurð er fyrir; þar sér hann ekkert nema eina stóra járnkistu. Hún lýkur henni upp; þar sér hann stóran fataströngul, hún flettir hönum í sundur. Þegar hún er búin að fletta honum hálfum í sundur þá ætlar hún að hætta. Lúpus biður hana að sýna sér hann allan. Hún segist ekki mega vera að því. Hann hættir ekki fyr en hún flettir honum öllum í sundur. Þar sér hann silkiskikkjuna góðu og innan í henni lítinn bréfböggul; hún flettir honum í sundur. Þar í eru tvö egg. Hann spyr hana hvað gert sé við eggin. Hún segir það sé það gert við þau hún móður sín verði ekki drepin með öðru en seta stærra eggið á nasirnar á henni, en það minna á nasirnar á sér. Hann biður hana að lofa sér að sjá hennar egg, það sé langtum fallegra. Hún fær hönum það. Hann setur það á nasirnar á henni og hún dettur niður dauð. Hann fer so í hennar föt, brytjar hana í sundur og fer so að kokka og flytur allt í burtu úr hellirnum. Þar sá hann sverð upp í hellirnum; hann hafði það hjá sér. Þegar hann er búinn nærri því að elda þá sér hann til kerlingar. Þá fer hann upp á eldhús og snýr öfugu skjólinu. Þegar kerling kemur þá spyr hún stelpuna að hvert hún sé búin að elda; hún sagði það væri búið, hún hefði smakkað á því. Þegar kerling kemur í eldhúsið skipar hún stelpunni að snúa skjólinu, hún sjái ekki ofan í pottinn fyrir kafi. So fer stelpan út og lætur sverð í miðjar dyr. Þegar hún er komin upp á stromp þá heyrir hún að kerlingin er að segja: „Heitt feitt magastykki af strák.“ Þá segir hann: „Heitt feitt magastykki af stelpu“; þá segir kerling: „Illa sveikstu mig“ – og stekkur [út]. Þegar hún kemur að dyrunum þá dettur hún á sverðið; þá ætlar hún að leggja á hann, en þá setur hann eggið á nasirnar á henni og hún dettur niður dauð. So býr hann bál og setur þar kerlinguna á og brennir upp til kaldra kola.
So fer hann frá hellirnum og ber allt í burtu sem hann hafði verið að fara með áður um daginn og fer so heim í kóngsríki og fær kóngi silkiskikkjuna góðu, og segir hann biðji hann að gera eina bón sína af því hann sé búinn að gera þrjár þrautir fyrir hann, að láta hann Herrauð segja ævisögu sína, hann skuli líka segja sína. Kóngur segir hann Herrauður skuli segja sína fyrst. Það er so kallað á Herrauð og er settur á gullstól í miðri höll. Herrauður segir hann hafi átt föður [og] móður og þau hafi bæði dáið, og so systkini sín hefðu sum dáið, en sum hafi gifzt og so viti nú kóngurinn sinn hvað um sig hefði liðið síðan hann kom í ríkið. So ætlaði hann að rjúka upp úr sætinu. Kóngur skipar hönum að draga ekkert undan so að hann má til nauðugur viljugur að segja frá öllu þó að ljótt sé, og sé það fyrst að hann hafi brennt foreldra sína inni og hafi þau verið tröll og hafi átt fjórar systur og hafi drepið þrjár, en fjórða hafi verið ettir í hellir og hefði hann stolið öllu þessu frá kónginum og fengið henni, ljósasteininn, gullhringinn og silkiskikkjuna góðu, til að geyma, og þegar kóngur hafi verið í hernaði þá hafi hann viljað eiga Ingibjörgu kóngsdóttir, hún hafi ekki viljað og hafi hann þá lagt á hana að hún skyldi verða að skrímsli sem sé í aldingarðinum, og so hafi hann ætlað að drepa kónginn og taka ríkið til valda og taka Ingibjörgu þá úr ánauðunum og eiga hana hvort hún vildi eða ekki. Hönum er skipað með harðri hendi að taka Ingibjörgu úr ánauðunum so hann gerir það. So er kyndað mikið bál og Herrauður settur þar á og brenndur, og so fær Lúpus Ingibjörgu og verður so kóngur ettir kónginn. – Sagan enduð.