Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Lydíu konungsdóttur

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af Lydíu konungsdóttur

Einhverju sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu dóttir eina barna er Lydía hét; hún var allra kvenna efnilegust bæði á vöxt og viturleik og menn þóktust ekki hafa séð nokkra konu jafnfríða henni. Óx hún upp hjá foreldrum sínum sem létu kenna henni allar kvenlegar listir sem menn gátu á þeim tíma upphugsað.

Svo bar við að drottning leggst veik; kallar hún þá til sín dóttur sína og gefur henni ýmisleg heilræði sem þó eru ekki greind í sögu þessari. Andast drottning síðan og olli það flestum mikillar hryggðar. Lætur kóngur gjöra virðuglega útför og verpa haug mikinn yfir hana og berst mjög illa af og situr löngum á haug hennar. Einn dag er kóngur að ráfa út á skógi sér til dægrastyttingar. Heyrir hann þá hörpuslátt mjög fagran og verður gagntekinn af honum og getur eigi af sér staðið að heyra hann einungis álengdar, en vita eigi hvaðan hann kom. Gengur hann þá á hljóðið og hittir eftir nokkra stund dálítið hús; fer hann inn og kemur brátt að stofu mjög skrautlegri. Situr þar kona forkunnar fögur og heldur á gulllegri hörpu sem hún slær með snilld mikilli; situr hún á gullstól og hjá henni unglingsstúlka. Verður konan fyrri til máls og segir við kóng að sig undri það mjög að hann sé þangað kominn svo langt frá öllum mannabyggðum, en hann kvaðst hafa ráfað þetta sér til skemmtunar og lætur í ljósi sorg sína út af missir drottningar sinnar. „Það stendur þá líkt á högum okkar,“ segir konan, „því ég er fyrir stuttu búin að missa kóng minn og var hann drepinn af óvinum sínum og flúði ég þá hingað með dóttur minni og hef ofan af fyrir mér með því að slá hörpu mína.“ Og með því að kóngi leizt vel á konuna býður hann henni ásamt dóttur hennar heim með sér og þiggur hún fegins hugar það boð hans.

Síðan fer hún með kóngi heim til hallar og líður eigi á löngu áður en hann hefur upp bónorð sitt til hennar og var það mál auðsótt. Efnir hann síðan til dýrðlegrar veizlu og leysir að henni liðinni alla út með ríkmannlegum gjöfum og unir nú allvel hag sínum. Fátt var með hinni nýkomnu drottningu og Lydíu og gaf hún sig lítið að stjúpu sinni og situr oftast með meyjum sínum í kastala er konungur hafði látið smíða handa henni, en hefur sem minnst mök við drottningu. Liðu svo fram stundir að ekkert ber til tíðinda. Var nú konungur löngu búinn að gleyma fyrri drottningu sinni og óskaði sér einskis annars en lifa sem lengst hjá hinni seinni; en allt fyrir það hlaut konungur að skilja við hana, því hans lífsstundir voru á enda, og þegar hann finnur dauðann nálægjast heimtar hann á tal drottningu sína og dóttir og felur drottningu sinni hana á hendur og lofar hún að annast hana eins og dóttur sína. Síðan deyr konungur og varð hann öllum harmdauði. Lætur drottning jarða hann eins og honum sómdi og þykist harma hann mjög. Ekki efndi hún vel loforð sín, því hún varð því verri við Lydíu og lét hana ganga undir sér og dóttir sinni og gjöra allt sem verst var og að lyktum rekur hún hana í burtu með höggum og svívirðingu svo Lydía hafði naumast tíma til að taka það sem hún átti fémætast. En Lydía hafði strax er faðir hennar dó tekið allar skýrslur hans og áríðandi skjöl svo þegar drottning ætlaði að grípa til þeirra komst hún í mestu vandræði, því hún gat ekki staðið skil á neinu og komst af því á hana óorð mikið. En það er af Lydíu að segja að hún ráfar eitthvað í sinnuleysi unz hún kemur síðla dags að bóndabæ einum; ber hún þar á dyr og kemur konan út. Lydía biður hana lofa sér að vera um nóttina, því hún var orðin bæði þreytt og svöng. Ílengist hún hjá konunni og fellur öllum vel við hana.

Þar er til máls að taka að í næsta héraði frá bóndabæ þeim er Lydía átti heima sat greifainna nokkur á eignum sínum; hún var búin að missa mann sinn, en átti son einn er Valdimar hét; hann gekk í skóla og kom því skjaldan heim. Greifainna þessi var kunnug konu þeirri er Lydía var hjá, og heimsókti hana á hverju ári. Kom nú að þeim tíma er hún var vön að koma og lét konan Lydíu búa allt undir sem bezt hún gat. Síðan kemur greifainnan og tekur bóndakona á móti henni eftir beztu föngum; stendur Lydía fyrir beina og ferst það mjög hönduglega. Aldrei hafði Lydía viljað segja hvorki nafn sitt eða ætt og hafði ávallt blæju fyrir andlitinu, en meðan hún var að matbúa fyrir greifakonuna tók hún frá andlitinu og sá þá greifainnan hana og undraðist mjög fegurð hennar og kom að máli við bóndakonuna og spyr hvernin standi á Lydíu og sagði bóndakonan slíkt sem hún vissi. Greifainnan sagði sig grunaði hún mundi vera af háum stigum og beiddi hana að láta Lydíu sofa hjá sér um nóttina og svo gjörði hún. Þegar þær voru háttaðar spyr greifainnan Lydíu hverra manna hún sé; en Lydía var treg til, en segir henni þó á endanum eins og var. Spyr greifainnan hana þá hvort þess væri eigi kostur að hún kæmi heim með sér og yrði þjónustustúlka hjá sér. Lydía sagði að það færi vel um sig þar sem hún væri, en kvaðst þó myndi gefa það eftir ef konan leyfði. Ber greifainnan þetta mál síðan undir bóndakonu og þau hjón og gefa þau Lydíu eftir sökum velvildar við greifakonuna og fer Lydía heim með henni. Fellur vel á með þeim og greifainnan er eins góð við Lydíu og það væri dóttir hennar. Ekki kom Valdimar heim úr skólanum og hafði því enn ekki séð Lydíu.

Líður svo nokkur tími þar til greifainnan tekur sótt mikla er hún hyggur sig muni leiða til bana. Kallar hún þá Lydíu til sín og þakkar henni fyrir alla tryggð og hollustu er hún hafi sýnt sér. Síðan fær hún henni bréf er hún segir hún skuli fá Valdimar er hann komi heim úr skóla. Andast hún síðan og lætur Lydía gjöra virðuglega útför hennar og annast um það allt með forsjá og fyrirhyggju. Líður nú að þeim tíma er Valdimar kemur úr skóla og fréttir hann þá harmafregn að móðir hans sé dáin og gjörðist hann af því mjög angurvær. Fær Lydía honum síðan bréfið og var innihald þess að greifainnan fól Valdimar Lydíu á hendur og enda hvatti hann til að leita ráðahags við hana væri hún því ekki mótfallin. Síðan sýnir Valdimar Lydíu bréfið og tekur hún máli því vel og bindast þau fastmælum; og líður svo nokkur tími.

Þess er að geta að Valdimar átti vin er Eðvarð hét og höfðu þeir alizt upp hver með öðrum og voru mestu mátar. Oft gengu þeir tveir saman og töluðu um ýmsa hluti. en aldrei hafði Valdimar sagt honum frá Lydíu; en eitt kveld er þeir voru á gangi nálægt húsi því er Lydía var í varð Eðvarð litið upp í glugga er á því var, og sá að Lydía hafði tekið blæjuna frá andlitinu (því hún hafði hana ávallt) og var að greiða hár sitt. Verður hann þegar gagntekinn af elsku til hennar og segir Valdimar frá því, en hann segir: „Ertu vitlaus! Það er stúlkan mín og hana færðu ekki.“ Við þessar fréttir bregður Eðvarði mjög og segist skilja við hann nema hann gefi sér hana, því hann geti ei án hennar lifað, en því þverneitaði Valdimar. Kvaddi Eðvarð hann síðan og gekk á stað, en þegar hann var farinn iðrast Valdimar eftir hvað hann hafi verið harður við hann og leggur á stað að leita hans og finnur hann eftir nokkurn tíma langt í burtu og fer þegar að friðmælast við hann og heitir að gefa honum Lydíu ef hann verði aftur vinur sinn, og það semst með þeim. Fara þeir síðan heim og er það fastráðið að Eðvarð skuli giftast Lydíu þó henni væri það þvernauðugt. Samt vildi Valdimar vinna það til ef hann fengi með því aftur vinfengi Eðvarðs. Er síðan stofnuð veizla mikil og ætla þeir fóstbræður að slá saman, því þá var Valdimar búinn að fá sér aðra heitmey er Ólafía hét. Var síðan boðið fjölda fólks til brúðkaupsins. Þegar sá tiltekni dagur kom komu boðsmenn og var þar fólksfjöldi mikill samankominn. Leiðir Valdimar síðan brúðarefni sitt til sætis og á öngvum stendur nema Lydíu; er hún síðan leidd inn í brúðarsalinn, en þá fellur hún í öngvit, því þar sér hún stjúpu sína og stjúpdóttir sem orðin var brúðarefni Valdimars; en sökum fólksmergðarinnar urðu boðsmenn eigi varir við þegar ungmenni nokkurt er hafði haft ást á Lydíu tók hana í fang sér þar sem hún lá í óvitinu og bar hana heim í hús sitt, en boðsfólkið kepptust við hver sem betur gat að leita að henni; en það kom fyrir ekkert og fóru boðsmenn heim við það hryggvir í huga.

Sá kvittur kom upp að sú tilvonandi tengdamóðir Valdimars væri eigi með öllum mjalla og var því til reynt og lagt mælispjald á milli herða henni og varð hún þá að stórri tröllskessu og sást þá hversu hún hafði vélað kóng og svo Valdimar með því að ætla að narra hann til að eiga dóttur sína, því með því ætlaði hún að ráða Lydíu af dögum. Voru þær mæðgur síðan stegldar á milli trippa sem slitu þær í sundur, og enduðu þær síðan líf sitt. En þeir Valdimar og Eðvarð leituðu nótt sem dag að Lydíu, en fundu hana þó ekki. Einn dag sem þeir leituðu komu þeir að húsi einu og sáu þar mann vera að hlaða byssu. Spurðu þeir hann hvað hann ætlaði að gjöra við hana. Hann kvaðst ætla að skjóta sig, því hún Lydía vildi ekki eiga sig, en aldrei skyldi hann segja til hennar. Síðan ötluðu þeir að taka af honum byssuna, en hann var óðar búinn að skjóta sig. Héldu þeir síðan áfram leitinni; voru þeir þá búnir að leita samfleytt í fimm vikur og voru orðnir mjög vonardaufir að þeir myndi finna hana.

Eitt kveld komu þeir að prestssetri nokkru. Kemur þá ferðamaður þangað með bréf til Eðvarðs og kvaðst þurfa að tala við hann. Gengur Eðvarð afsíðis með honum, en á meðan verður Valdimar reikað út í kirkjugarð og sér þar svarta flygsu á einu leiðinu; en er hann kom nær sér hann að það er manneskja, og gengur rétt að henni og þekkir að þar er komin Lydía. Grípur hann þá yfir um hana og spyr hvort hún þekki sig, en hún kvað nei við. Segir hann þá til nafns síns og verða þar fagnaðarfundir og segir Lydía að þessi ungi maður hafi viljað neyða sig til að eiga sig, en hún hafi þverneitað og hafi hann þá skotið sjálfan sig, en hafi falið sig presti þeim á hendur svo enginn gæti notið sín, en hún hefði fengið leyfi til að gjöra bæn sína á hverju kveldi og nú hefði tekizt svo happalega til. Síðan tekur Valdimar Lydíu og ber hana í burtu á laun við Eðvarð. Daginn eftir var Eðvarð snemma á fótum og ætlaði að hefja leitina að nýju, en Valdimar kvaðst ekki þurfa að leita lengur, því hann hefði fundið það sem hann leitaði að. Leiðir hann síðan Lydíu fram og varð þar ósegjanlegur gleðifundur. Fara þau síðan öll heim og efna til mikillar veizlu og gengur Valdimar að eiga Lydíu, en Eðvarð giftist annari efnilegri stúlku. Er Valdimar síðan vígður til greifa og Eðvarð komst einnig til hárra valda. Brugðu þeir aldrei trúskap sínum, heldur lifðu sem sannnefndir fóstbræður allt til þeirra æviloka. Sömuleiðis unnust þau Valdimar og Lydía hugástum og eignuðust mörg afkvæmi sem ekki koma við þessa sögu og dóu í góðri elli í höndum ástvina sinna. Og ljúkum vér svo að segja frá Lydíu konungsdóttir.