Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Rauðukusu
Sagan af Rauðukusu
Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu sér einn son sem Sigurður hét; hann átti rauða kú sem var kölluð Rauðakusa. Honum þótti svo vænt um hana að oft var hann á kveldin úti í fjósi hjá henni.
Svo bar til að drottningin fékk mjög þunga sótt; lét hún þá kalla Sigurð fyrir sig og bað hann að vera þægan og eftirlátan föður sínum, því hún mundi skammt eiga eftir ólifað. Litlu síðar andaðist drottningin og var hún heygð að fornum sið. Kóngurinn og Sigurður hörmuðu hana mikið og það var kóngsins einasta ánægja að sitja á haugi hennar með Sigurði syni sínum.
Einhverju sinni bar svo við að kóngurinn var úti á haugi konu sinnar. Sér hann þar koma konu eina út úr skógnum og er hún mjög sorgbitin. Spyr hann hana að heiti; hún segist heita Þóra; hún segir að ekki muni vera ójafnt ákomið fyrir þeim, því hún sé að syrgja mann sem hún hafi nýlega misst. Kóngur spyr hana hvert hún vili ekki koma heim í ríki sitt með sér; hún segir jú og fer heim með honum. Skömmu síðar gerir hann brúðkaup sitt til hennar. Sigurður lét sér mjög fátt um þetta og skipti sér aldrei neitt af stjúpu sinni.
Einhvörju sinni bar svo við að drottningin varð veik; fékk það svo mikið á kónginn að hann neytti hvorki svefns né matar. Hann spurði hana hvort hún vissi nokkurt meðal sem henni gæti batnað af. Hún kvað já við; ef kusa Sigurðar yrði drepin og hún fengi kjötið af henni þá mundi sér fljótt batna. Kóngur kvað já við að það skyldi verða gert. Sigurður var nærstaddur og heyrir þetta. Fer hann þá að gráta og hleypur út í fjós til kusu sinnar og segir henni orð stjúpu sinnar. Hún biður hann að vera óhræddan og segir honum að hann skuli fara út í skóg í laufskála einn og verði hún ekki komin fyrir miðdag þá sé eitthvað brögðum beitt og skuli hann þá ekki lengur bíða sín; og fer hann svo út í skóg.
En þegar á að fara að drepa kusu rífur hún sig lausa og stangar drottninguna sem sat á gullstól einum úti á velli til að horfa á þegar kusa var drepin; en þegar kusa var búin að stanga drottninguna til dauða hleypur hún út í skóg til Sigurðar í laufskálanum og verður þar mikill fagnaðarfundur, og hún segir honum að hann skuli fara lengra inn í skóginn að húsi einu, því þar væri nóg af fötum fyrir hann og nóg fóður fyrir hana; en þegar hann kemur inn í húsið sér hann þrjá stranga á borði einu. Kusa segir við hann að hann skuli fletta ströngunum upp. Hann gerir það og finnur hann þar kóngs- og drottningarskrúða sem hún segir að hann skuli eiga til síns heiðursdags; og víkur nú sögunni frá þeim að sinni.
Nú er að segja frá kóngi og drottningu í ríki sínu. Þau áttu sér þrjár dætur og einn son er Sigurður hét; hann var mikill og sterkur. Einu sinni sem oftar fór kóngur á dýraveiðar. Þá bar svo við að yfir hann kom mikil þoka svo hann villtist frá öllum mönnum sínum; er hann svo lengi einn; en þegar hann hefur riðið góða stund um skóginn mætir hann tvíhöfðuðum þussa. Hann segir við kóng að mikið ótrúa þjóna hafi hann þegar hann sé að svingla innan um skóginn og segir honum ef hann vili gefa sér elztu dóttur sína þá skuli hann vísa honum veginn heim. Kóngur þiggur, og þegar hann er kominn á miðja vegu segir risinn honum að nú geti hann komizt einn heim; en áður en hann skilur við hann segir hann að hann skuli láta flytja dóttur sína í eitt rjóður sem hann til tók. Kóngur lofar því og skilja þeir við svo búið; en þegar kóngurinn er nærri kominn heim kemur aftur yfir hann þoka mikil svo hann villist út í skóg og sér hann þar einhverjar ófreskjur í þokunni, og þegar hann kemur nær því sér hann að það eru tveir þríhöfðaðir þussar. Þeir spyrja konung hvert hann vili heldur að þeir drepi hann eða þá að hann gefi þeim báðar dætur sínar. Hann segir heldur en að missa lífið vili hann gefa þeim báðar dætur sínar; og svo segja þeir honum báðir að hann skuli koma með þær í það sama rjóður sem hin elzta sé í; hann lofar því og léttir þá þokunni og kemst hann heim í höll sína. Stefnir hann þá þing; biður hann alla að koma þar til og spyr hver vili fara með dætur sínar til að verja þær frá þessum óvættum. Þar gefur sig einn fram á þingið sem Rauðrekur hét sem var ráðgjafi konungs og íþróttamaður mikill. Fer hann þá með þær allar þrjár út úr borginni og konungur ljær honum reiðtygi og herklæði sín og hest sinn. Eftir að hann er hertygjaður og ferðbúinn ríður hann burt með hina fyrstu konungsdóttur þar til hann kemur til skógar; þar steig hann af baki og lét konungsdótturina eftir og steig upp í háa eik; þar beið hann og reif sig og klóraði þar til hann var mjög sár orðinn.
Nú er að segja frá Sigurði kóngssyni og Rauðukusu þar sem hann bjó í skóginum, þá dreymdi hann að eina nótt kom maður til hans og sagði honum að forða konungsdætrunum frá þessum háska, en til þess yrði hann að drepa risa þrjá, en hver þeirra vildi eiga eina konungsdóttur: sá fyrsti hina elztu, hinn annar hina yngri og hinn þriðji hina yngstu; en þá tvo fyrstu risa gæti hann víst drepið, en hann sagði honum að seinasti risinn mundi honum vera örðugastur, því hjarta hans væri svo vandlega geymt að hann hefði það í nauti einu og í því nauti væri önd og í öndinni væri egg og í því eggi væri hjartað hans. Ef hann svo tæki eggið og sprengdi það í augun á risanum þá dræpist hann fljótt; en maðurinn sagði að nautið væri ekki auðunnið, en þegar það væri dautt væri hægt að gera hitt, því þá ætti að drepa öndina og taka síðan eggið, sprengja það og drepa hann með því. Sigurður þakkar honum fyrir og fer næsta morgun af stað með hundinn og Rauðukusu og kemur hann að rjóðrinu þar sem hin elzta kóngsdóttur var; en kóngsdótturin verður glöð þegar hún sér að hann vill frelsa sig; og þegar hinn fyrsti risi kemur berst Sigurður, Rauðakusa og hundurinn hans á móti risanum og fellur þá risinn um síðir. Kóngsdóttur verður ákaflega glöð og gefur honum gullhring og þakkar honum fyrir. Síðan kveður hún Sigurð og fer Sigurður þá burtu; en þegar að kvöldar fer Rauðrekur heim til konungs og segir að hann hafi drepið risann, en hann hafi klórað og rifið sig í framan.
Næsta dag fer á sömu leið: Sigurður drepur annan risann og segir Rauðrekur að hann hafi drepið risann. Þriðja daginn fer hann af stað til að drepa þann þriðja risa sem líka var sá versti og það var líka hann sem hafði stóra nautið. Sigurður býr sig þá vel út; hann tekur stóran og þykkvan dúk og bindur fyrir eyrun á sér til þess að hann ekki skyldi ærast af öskrinu úr nautinu og hefur hann kusu sína og hundinn sinn með sér, og fer hann þá upp á ofurhátt fjall (sem maðurinn hafði sagt honum í draumi) og mætir hann þar nautinu sem kemur öskrandi á móti honum; og berst Sigurður við nautið og fellir það um síðir og slátrar hann því þá og finnur þar öndina og drepur hann þá öndina og tekur eggið; og fer hann þá niður í undirheima og sér hann risann halda brúðkaup sitt með yngstu kóngsdótturinni. Sigurður gerir sér þá lítið fyrir, gengur að risanum og sprengir eggið í andlitið á risanum og dettur hann dauður niður í sama augnabliki. Sigurður tekur þá kóngsdóttur með sér upp á jörðina og fer hann með hana í rjóðrið; hún þakkar honum þá fyrir og gefur honum gullhring og skiljast þau við svo búið. Þegar Rauðrekur sér það fer hann heim til konungs þegar Sigurður er farinn burtu, en Rauðrekur herðir sig með konungsdæturnar svo Sigurður ekki skuli sjá til sín; en þegar Rauðrekur kemur heim til kóngs segir hann að hann hafi drepið alla risana og vill hafa [yngstu kóngsdótturina]; en þegar hann heldur brúðkaup sitt til yngstu dótturinnar þá er hrundið upp dyrunum og gengur Sigurður inn og er mjög fagur og vel búinn. Segir þá Sigurður að hann hafi drepið alla risana og sýnir hann þá þrjá gullhringa sem kóngsdæturnar höfðu gefið honum. Eru þá hringirnir sýndir konungi og dætrum hans og kannast þau við þá; en í staðinn fyrir að Sigurður ætti að hafa yngstu dóttur konungs vildi hann hafa Rauðukusu og yngsta dótturin fékk hundinn hans Sigurðar. Bróðir kóngsdætranna sem hét Sigurður fékk næstelztu dóttur konungs, en er það ekki getið um hvern sú elzta fékk. En kusa og hundurinn vóru í álögum, því næsta morgun var kusa sú fagrasta kóngsdóttir, en hundurinn var kóngsson í álögum; en það er að segja um Rauðrek að hann var annaðhvort hálshöggvinn eða hengdur; en varð Sigurður kóngur eftir dauða kóngs, en kóngssonurinn sem fyr var í hundslíki varð kóngur yfir öðru landi ásamt Sigurði sem var bróður kóngsdætranna og átti systur sína.
Hér endar sagan af Sigurði kóngssyni og Rauðukusu.